Flýtileiðir

Hópið 8. & 9. september

Fyrsti í sumarauka 2018 var að þessu sinni norðan heiða. Eftir heldur ótuktarlegt sumar hér sunnan heiða höfðum við veiðifélagarnir ekki alveg fengið nægju okkar af veiði og því var fylgst vel með veðurspá helgarinnar. Spá fyrir hálendið var ekki upp á marga fiska, Vesturlandið virtist ætla að bjóða upp á rigningu og rok, Suðurlandið var svona í og úr eins og maður segir, en Norðurlandið kom sterkt inn með hitatölum vel á annan tuginn. Úr varð að pakka í snarhasti í veiðihúsið á föstudag eftir vinnu og renna norður í Húnaþing, nánar tiltekið að Hópi á mörkum vestra og eystra.

Hópið á laugardagsmorgninum

Það var nú ekki sprengurinn á okkur norður, þannig að við rétt mörðum það að kaupa veiðileyfi í Víðigerði og svo skröltum við framhjá Borgarvirki í átt að Ásbjarnarnesi og inn í Nesvík. Þangað höfðum við áður komið á miðju sumri  fyrir einhverjum árum en orðið frá að hverfa vegna mývargs sem blessunarlega var víðsfjarri á föstudagskvöldið. Það verður nú að segjast eins og er að við vorum hreint ekki alveg viss hvar við nákvæmlega settum vagninn niður undir stjörnubjörtum himninum því það var komið svarta myrkur þegar við loksins komum á staðinn. Ég taldi okkur vera töluvert frá bakkanum þannig að það var e.t.v. eins gott að frúin gekk hægum skrefum út í móa því það hafa tæplega verið fleiri skref en 20 – 30 í vatnið frá þeim stað sem vagninn stóð.

Ætli það sér fiskur hér, gæti höfundur verið að velta fyrir sér við Vaðhvamm

Laugardagsmorguninn vakti okkur með stilltu og dásamlegu veðri og eftir morgunverð héldum við troðninginn frá Nesvík og upp á Bjargás með stefnuna á Myrkurbjörg. Við sem sagt skröltum þennan troðning eins langt og okkur þótti hæfilegt og fikruðum okkur niður að vatninu þar sem heitir Vaðhvammur. Strax í fyrsta kasti varð ég heldur betur var við fisk þar sem tekið var harkalega í hjá mér og í loftköstum kom þessi líka drjóli upp úr vatninu og hristi fluguna úr sér. Einmitt, það var þá fiskur á þessum slóðum og nú hófst leitin að réttu flugunni sem hann tæki án þess að hrækja henni umsvifalaust út úr sér. Veiðifélagi minn varð fyrri til og setti í alveg einstaklega fallegan sjóbirting sem losaði rúm 3 pund og bætti síðan tveimur þokkalegum sjóbleikjum við. Ef mig misminnir ekki þá tóku þessir fiskar ólívu litaðan Nobbler og það var ekki fyrr en ég hafði þrætt mig í gegnum nokkrar flugur að ég setti loksins í fisk sem ég var sáttur við að hirða. Sá var nú samt ekki nema tittur í samanburði við birting konunnar, en ég er nú ekkert óvanur því að veiða færri og smærri fiska en hún, þannig að ég var ágætlega sáttur.

Fallegur birtingur úr Hópinu

Upp úr hádeginu fórum við á vísindaveiðar út frá Ásbjarnarnesi til austurs, norðurs og vesturs, en allar áttir reyndust jafn rólegar þannig að við brugðum okkur í smá gönguferð í vatninu norður frá Nesvík og út með björgunum, ríflega 1 km. en áttum þá enn eftir töluverðan spotta að dýpi sem stærri fiskum væri þóknanlegt. Þar sem lítið annað en smáfisk var að finna á þessum kílómetra spotta sem við óðum, héldum við til baka í kvöldhúminu, fengum okkur bita og skriðum undir sæng, bara þokkalega sæl með daginn.

Árla á sunnudagsmorgun

Ekki var nú sunnudagurinn síðri og hreint ekki sem verst að eyða brúðkaupsafmælinu við Hópið. Dagurinn byrjaði stilltur og fagur og svo hlýnaði upp í 12 – 16 °C og aldrei var langt í sólina. Yfir árbítnum ákváðum við að reyna aftur við Myrkurbjörg og því pakkaði ég öllu nauðsynlegasta dóti í bílinn og gerði klárt fyrir daginn, eða það hélt ég að minnsta kosti. Það var ekki fyrr en við vorum næstum komin þessa þrjá kílómetra inn að Myrkurbjörgum að mig rámaði í veiðivestið mitt hangandi inni í vagni. Já, einmitt, ég skildi konuna eftir á veiðistaðnum, skrölti þetta til baka og sótti vestið mitt. Þegar ég hafði loksins klætt mig og var kominn niður að vatni, var þar fyrir nokkuð grobbinn veiðifélagi sem þegar hafði tekið rígvæna fiska og ég sá ekki betur en hún væri bara í flottum málum. Ekki óraði mig, né hana fyrir því sem tók við þar til við urðum að hætta upp úr hádeginu. Í hvert skipti sem sólin náði yfirhöndinni og hellti sér yfir okkur, þá tóku bæði birtingar og sjóbleikjur orange Nobbler eins og enginn væri morgundagurinn. Það var ekki nema rétt á meðan sólin hvíldi sig á bak við ský að tökurnar duttu niður, sem var í sjálfu sér ágæt hvíld því á þessum slóðum er sterkur straumur í vatninu sem tekur í til lengdar.

Afli helgarinnar, hnossgæti næstu vikna

Það er ekki oft sem ég birti hér myndir af afla veiðiferða því það hefur brugðið við að dauðir fiskar fari eitthvað illa í suma. Í þetta skiptið geri ég undantekningu því við tókum með okkur 24 gómsæta fiska á bilinu pund og upp í fjögur úr þessari ferð og það er næsta víst að við eigum eftir að endurnýja kynni okkar af Hópinu næsta sumar. Já, við veiddum okkur til matar og vonum að þeir stuttu sem við slepptum eigi náðuga daga þangað til næst og hafi ekki orðið meint af veiðum og sleppingum okkar yfir helgina.

Þeim sem lítið þekkja til við Hópið skal bent á að fylgjast með síðunni á næstunni því ég hef ákveðið að taka saman gagnlegar upplýsingar um Hópið, þekkta veiðistaði og koma á kort og setja hér inn á síðuna.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 6 66 / 84 / 4 48 / 38 17 / 20

Eitt svar við “Hópið 8. & 9. september”

  1. Hóp – 23. og 24. ágúst 2019 – FOS Avatar

    […] snemma á ferðinni, í það minnsta miðað við ferð okkar þangað á síðasta ári, sjá hér. Við vorum búin að kaupa veiðileyfi og setja vagninn niður fyrir kl. 22:00 þannig að við […]

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com