Það fer færri sögum af fiskum heldur en vatni og vindum í þessari frásögn. Frá því í febrúar hefur það staðið til að heimsækja Bjarnarfjörð á Ströndum og renna fyrir sjóbleikju. Þegar ég keypti veiðileyfið hafið ég vitaskuld ekki hugmynd um það hvernig veður og vindar yrðu þann 15. ágúst þannig að það var ekki um neitt annað að ræða fyrir okkur veiðifélagana heldur en láta okkur hafa þessa kuldalegu vindaspá og halda norður á Strandir á miðvikudag.

Veðrið lék ekki alveg við okkur þegar við mættum á staðinn, töluverður strekkingur og hitastigið hefði mátt vera örlítið hærra. Auk þessa hafði rignt töluvert norður á Ströndum síðustu daga og vatnsstaða ókunn. Hvað um það, við hreiðruðum um okkur í grennd við Kotbýli kuklarans við Klúku, betur þekkt sem tjaldstæðið við Hótel Laugarhól og renndum síðan meðfram Bjarnarfjarðará frá ósi og upp að ármótum við Goðdalsár. Við skönnuðum sem sagt allt svæðið og komum til baka alveg jafn blönk á bestu staðina eins og fyrir, vissum hreint og beint ekkert hvað við ættum að byrja næsta morgun.

Í því sem ég hafði lesið mér til um Bjarnarfjarðará komu orð eins og snotur á, lítil og nett, fjöldi veiðistaða og góð byrjendaá fyrir í nokkur skipti. Tja, áin var nú ekki beint lítil og nett, vatn var töluvert í henni og þegar ég gluggaði í nokkrar ljósmyndir þegar heim var komið, þá var ljóst að hún var eitthvað í áttina að því að vera á sterum eftir rigningar síðustu daga. Goðdalsá byrjaði á því að þrefalda vatnsmagnið, Þverá var nokkuð hress líka og fyrir neðan brú létu Hallardalsá og Geitará ekki sitt eftir liggja.

Jæja, þetta yrði bara að ráðast, hingað vorum við komin og vissum hvorki í þennan heim né annan hvar við ættum að bera niður.

Fimmtudagurinn heilsaði okkur með því veðri sem spáð var, vindur af óræðum metrum af norðri og hitastig sem gældi vð tveggja stafa tölu, en náði því ekki. Í morgunsárið vöknuðu óhjákvæmilega einhverjar vonir um að bleikjan væri við enda regnbogans, þ.e. í Gildruhyl við gömlu brúnna. Það reyndist nú ekki vera og sama má segja um Hallardalsfljót, Framnes, Berg og alla hina staðina sem við þræddum frá morgni til kvölds. Við urðu hreint og beint ekki vör við einn einasta fisk í ánni, en nutum þess í stað fegurðarinnar við ána, sérstaklega við efstu staðina, Ármótahyl og þar fyrir neðan. Það verður ekki af þessu svæði tekið að þarna er einstaklega fallegt.

Daginn enduðum við niðri undir Bergi þar sem ég þræddi Skolakelduna eins og mér var unnt, þjakaður af víðtækri vanþekkingu á staðháttum og almennu kunnáttuleysi í rennandi vatni. Heilt yfir var ég samt mjög sáttur við þetta langa ferðalag og engan afla. Það hefur lengi verið á listanum mínum að leita að sjóbleikju norður á Ströndum, nú er ég búinn að fara einu sinni og fann enga. Það er því næsta víst að ég þurfi að fara aftur norður á Strandir, þótt síðar verði.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 55 / 71 | 0 / 0 | 15 / 36 | 19 / 20 |
Senda ábendingu