Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum, það er helst í fréttum eftir þessa helgi. Á föstudaginn var nokkuð ljóst að veðurspá helginnar mundi ganga eftir, sól og blíða á suðvestan- og vestanverðu landinu, þannig að við hjónin ákváðum í skyndi að smella okkur í Langavatn á Mýrum.

Eitthvað hefur vatnaborðið lagast frá því það var lægst fyrir einhverjum vikum síðan, nánast í venjulegri stöðu núna og mér liggur við að segja því miður. Við höfðum hug á að reyna fyrir okkur á ákveðnum veiðistaði sem ekki er aðgengilegur við venjulegt vatnsborð, þannig að við könnuðum aðra veiðistaðir á laugardaginn. Þó við séum á óbreyttum borgarjeppa, þá var okkur vel fært alveg inn að síðustu brekkunni inni við botn. Eflaust hefðum við með lagni getað komist þar upp en þar sem við getum enn notast við tvo jafnfljóta, þá sáum við enga ástæðu til þess. Þess í stað þræddum við helstu veiðistaði sem ekki voru fráteknir, allt frá innsta kletti og inn undir Beilárvelli.

Það verður að segjast að ekki var mikið líf á vatninu, lítið um flugu og uppitökur því fáar sjáanlegar. Veðrið var með eindæmum fallegt; hlýtt, sólríkt og stillt. Þó við hefðum ekki fengið eitt einasta nart þann tíma sem við böðuðum flugur á laugardaginn, þá var þetta kærkomin hvíld og góð slökun yfir helgina.
Veiðistangir fengu einnig hvíld í þessari ferð því berjaspretta er með besta móti á svæðinu og erfitt að standast gnótt af þroskuðum aðalbláberjum. Afraksturinn var vel yfir meðallagi og í bónus fékk ég nokkra berjablettir á vöðlurnar sem væntanlega eru komnir til að vera.
0 / 0
3 / 33
0 / 0
81 / 45
21 / 22
Senda ábendingu