Hann getur verið dyntóttur, Hraunsfjörðurinn, en það er alltaf eitthvað við það að setja vagninn niður í Berserkjahrauni, draga á sig vöðlur, græja stangirnar og renna jakkanum upp í háls.
Þess síðast nefnda reyndist þörf s.l. helgi þegar við eyddum laugardagseftirmiðdeginu og sunnudeginum við Hraunsfjörðinn. Það var raunar afskaplega milt og fallegt veður, sól á Stökustað, rigning eða léttur úði í Grennd og víðar, en heilt yfir hlýtt og stillt veður. Frábært til þess að eyða í kyrrðinni og fegurðinni á Snæfellsnesi.
Það var enginn sprengur á okkur á laugardaginn, þannig að við vorum frekar seint á ferðinni, ekki mætt niður við vatn fyrr en rétt um kl.14 en vorum þá búinn að tjalda vagninum í fyrsta skiptið í sumar, þ.e.a.s. í útilegu. Á leið okkar út á Búðanes mættum við þremur fræknum veiðimönnum af Skaganum sem létu lítið af veiðinni en höfðu hitt frækinn veiðimann sem hafði krækt í 6 bleikjur, skömmu síðar mætti ég nokkrum til viðbótar sem höfðu sömu sögu að segja. Hraunfjörðurinn var því greinilega í sínu dyntótta skapi þennan daginn, afar misjafnt hvort menn höfðu orðið varir og þá hvar.
Við skönnuðum vatnið frá tánni á Búðanesi og inn að eyjunni / skerinu undan hrauninu. Það sást lítið til fiskjar en það er svo sem ekkert nýtt, hún gefur sig líka þótt hún sýni sig ekkert. Eftir töluverðar tilraunir og nokkrar pásur kom að því að veiðifélagi minn tók eina væna og skömmu síðar tók ég aðra rétt við eyjuna. Hængur og hrygna sem bæði létu glepjast af Pheasant Tail.
Það leið töluvert langur tími þar til ég varð var aftur og þá var ég kominn í gamalkunnugan gír sem grípur yfirleitt um sig þegar lítið er að gerast. Eftir að hafa prófað stærri flugur, minni flugur og bleikan Nobbler ákvað ég að setja Buzzer með raunar kinnar undir, þrykkja honum vel út og ekkert leyfa honum að sökkva, heldur draga hann inn með tiltölulega hröðum rykkjum. Þetta bar þann árangur að það var nartað í fluguna. Þá var úr vöndu að ráða; átti ég að hægja á eða átti ég að auka hraðann? Úr varð að ég kastaði styttra en áður og dró hraðar og það var tekið með látum, en …… eftir stutta en snarpa viðureign með skvampi og sporðaköstum stakk bleikjan af með fluguna mína. Eins og flestir fiskar sem ekki nást á land, þá var þessi ótrúlega stór, trúlega 80 til 90 sm, tennt eins og hákarl og með sporð á við tennisspaða. Þetta er í annað skiptið í sumar sem bleikja stingur af með varaskraut úr mínum fórum. (Þegar ég verð búinn að skrifa þessa grein, þá ætla ég að ná mér í girni og æfa nokkra nýja hnúta eða vanda mig betur). Skömmu síðar létum við gott heita, fórum ásamt kunningjum okkar í náttstað, átum á okkur gat og kjöftuðum í kyrrðinni fram í nóttina.
Það var ekki sprengurinn á okkur á sunnudagsmorgun, sváfum næstum af okkur Sjómannadagsmessuna, stungum úr nokkrum kaffibollum og spáðum í veður og veiðistaði. Enn áttum við veiðifélagarnir eftir að tölta brölta smá kafla í hrauninu neðan Arnarsteins til að loka hring okkar um Hraunsfjörðinn, þannig að úr varð að klára hringinn, það hafði hvort hið er ekkert verið mikið líf við Búðanesið.
Þetta byrjaði rólega, lifnaði lítið við og það bar helst til tíðinda að kunningjakona okkar tók upp svipaðan veiðistíl og ég, missti vænan fisk rétt í þann mund sem hann hefði átt að koma á land. Veiðifélagi minn tók til við ýmsar tilraunir með afleggjara og tökuvara og uppskar væna bleikju sem fékk far með okkur heim. Annars var lítið um að vera nema að það var sérstaklega áberandi að eftir rigningarskúrina, sem voru nokkrir, var eins og bleikjan færi hamförum í uppitökum, lengst úti á vatninu.
Lengi héldum við í vonina og ekki síst þegar kvöldkyrrðin tók við, en á endanum létum við undan klukkunni og dröttuðumst yfir hraunið og að Mjósundi þar sem bíllinn beið okkar. Þar bar að garði félaga okkar sem við höfðum hitt á Búðanesi deginum áður við þriðja mann, nú var sögustund. Þeir félagar höfðu ákveðið að halda aftur á Búðanesið á sunnudag og þar lentu þeir í fínni veiði, tóku 18 bleikjur og félagar hans voru enn að þegar hann þurfti frá að hverfa. Já, Hraunsfjörðurinn getur verið dyntóttur og ekki getur maður alltaf verið á réttum stað.