Við vorum að rifja það upp um helgina að fyrsta ferð okkar að vori með færanlega veiðihúsið okkar var þann 14. maí 2016 og þá var kalt yfir nóttina og hitinn yfir daginn rétt náði 12°C. Þrátt fyrir mjög lágar hitatölur í veðurspá helgarinnar, þ.e. yfir blá nóttina, þá létum við það ekki stoppa okkur á föstudaginn og renndum með allt okkar hafurtask vestur á Snæfellsnes. Bara til að hafa það á hreinu, þá náði hitastigið að degi til töluvert yfir 12°C, hrein og klár sumarblíða í firðinum.
Það var með eindæmum fallegt veður við Hraunsfjörðinn um kvöldmatarleitið á föstudag og við biðum ekki boðanna, heldur græjuðum okkur upp og töltum meðfram Þórsá út á Búðanes. Við gerðum nú e.t.v. ekki ráð fyrir að halda það út að bíða eftir síðdegisflóðinu um kl.23:00 + þann tíma sem það tæki að ná til Búðaness, en það fór nú svo að veðurblíðan, kyrrðin og vökur bleikjunnar héldu okkur við vatnið til að ganga tvö um nóttina. Afraksturinn var nú kannski ekki alveg í takt við þann tíma sem við eyddum við vatnið, tvær bleikjur sem ég vil reyndar meina að hafi slysast á sitt hvora fluguna því þær voru margar reyndar þetta kvöld í harðri samkeppni við órætt æti sem var í vatninu.
Við vorum mætt laust upp úr hádegi á laugardag í blíðskaparveðri niður að vatni og hugsuðum okkur heldur betur gott til glóðarinnar. Nú skyldum við ná árdegisflóðinu og máta nýjar og allt aðrar flugur. Við biðum og biðum, biðum aðeins lengur og örlítið meir eftir því að bleikjan léti sjá sig í björtu og fallegu veðrinu, en sýning var ekki í boði. Alla þessa bið notuðum við til að prófa hinar og þessar flugur, mismunandi inndrátt og dýpi, en við litlar undirtektir. Einhverjir tittir voru það eina sem við sáum og svo flundru veiðifélaga míns og eina bleikju sem fékk líf.
Einhverjum kann að þykja það slitin klisja að segja að veðrið, umhverfið og fegurðin hafi vegið upp fábrotin aflabrögð, en þannig var það nú samt hjá okkur á laugardaginn. Þrátt fyrir töluverða umferð við vatnið, þá náðum við ekki fréttum af aflabrögðum og flestir stoppuðu stutt við sýndist mér. Einn veiðimaður vakti þó aðdáun mína þar sem hann eyddi töluverðum tíma í að leiðsegja tveimur ungum veiðimönnum um lendur stangveiðinnar. Gaman að sjá upprennandi veiðimenn spreyta sig við bleikjuna. Næsta skref er síðan að kenna þessum ungu veiðimönnum að taka með sér ruslið.
Við létum föstudaginn og laugardaginn duga, tókum sunnudagsmorguninn í rólegheitum með vel útilögðum hádegisverði og héldum síðan heim á leið, reyndar með örstuttu stoppi á leiðinni. Meira síðar ……
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
1 / 2 | 1 / 11 | 0 / 0 | 0 / 2 | 6 / 7 |
Senda ábendingu