Sumardagurinn fyrsti, til lukku með hann og allt sumarið sem er framundan. Mér er eiginlega alveg sama hvað veðurfræðingar segja, þetta skal verða frábært sumar og mér fannst það persónulega byrja alveg ágætlega í dag. Veðrið var næstum alveg eins og sum sumur hafa verið, það skiptumst á skyn og skúrir, vindur og logn, glennur og glannaskapur.
Á vissum aldri gerist það að rúmið heldur manni ekki föngnum nema rétt fram að sólarupprás, maður er kominn á fætur fyrir allar aldir, stirður og næstum lurkum laminn eftir ekki nema örfárra klukkutíma svefn. Þannig var morguninn í morgun og það var ekki fyrr en á þriðja kaffibolla að hætti að braka í liðamótum sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í kroppinum á mér. Þá er bara eitt að gera; drífa sig í veiði.
Fyrir valinu varð Hraunsfjörður, eins og svo oft áður þegar sumarið gengur í garð. Þessir fordæmalausu tímar, lesist sem túristalausu tímar, eru svo frábærir. Nú hefur maður eignast aftur sitt gatslitna malbik þjóðvegakerfisins og þarf ekki að deila því með nokkrum einasta manni. Maður getur næstum bara sagt bílnum að keyra vestur á Snæfellsnes og maður þarf ekkert að hafa áhyggjur af einhverjum bílaleigubíl sem er stopp næstum hálfur inni á veginum og fólki sem gónir eins og naut á nývirki á ósaltað hrossakjöt á fæti innan næstu girðingu. Sem sagt; við veiðifélagarnir renndum vestur á nesið í morgunsárið en stoppuðum reyndar við Langá, svona rétt aðeins til að þykjast vera túristar í eigin landi. Mig langaði reyndar rosalega mikið til að gera at í einhverjum og fara inn fyrir girðinguna sem á stóð ‚Aðgangur bannaður öðrum en veiðimönnum við Langá‘. Mér fannst ég uppfylla öll skilyrði þess að mega stíga inn fyrir girðinguna; veiðimaður (í það minnsta sjálfskipaður) og ég var við Langá. Mér tókst, með einum góðum kaffibolla og góni út í loftið að svæfa púkann sem rumskaði innra í mér, settist aftur inn í bílinn og hélt ferð minni áfram.
Hraunsfjörður tók á móti okkur um kl. 10 í blíðu, eða því sem næst. Hitastigið var í það minnsta vel yfir frostmarki, vindur ekki nálægt því að vera efni í gula viðvörun og úrkoman hefði ekki einu sinni getað orsakað smá spýju af skriðuföllum. Frábært veður til gönguferðar úr Berserkjahrauni, framhjá Réttinni og inn að Búðanesi. Dásamlegt veður og það fór bara batnandi eftir því sem leið á daginn.
Á einhverjum tímapunkti tókum við okkur pásu, gæddum okkur á heimasmurðum flatkökum með hangikjöti, aðeins meira kaffi, salamipylsu og góðum osti. Maður fann það hreint og beint að íslenska sumarið sogaðist niður í lungun á manni þar sem það kraumaði og kitlaði allar útivistataugar, snerti viðkvæmar veiðibakteríur sem tóku óðara við sér, fjölgaði hratt og breiddust út um allan kroppinn.
Ha? Ertu að bíða eftir veiðifréttum og tölum? Tja, þá verður þú að bíða aðeins lengur. Það er nefnilega alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt við allar veiðiferðir. Það jákvæðasta við þessa veiðiferð, umfram allt það sem hér á undan er talið, var einfaldlega það að það var engin fiskilykt af hvorki háfum né netum á leiðinni heim, bara fullt að íslensku sumri sem gengið er í garð.
0 / 0
0 / 0
0 / 0
1 / 1
2 / 2
Senda ábendingu