Veiðiferðir þetta vorið hafa ekki verið margar og það er víst endalaust hægt að telja upp ástæður þess, en nú var sænskur dagur á fimmtudaginn og við veiðifélagarnir þurftum virkilega á smá tilbreytingu að halda. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað sænskur dagur er, þá er það frídagur sem ber upp á fimmtu- eða þriðjudag og ætti því með réttu að færast til um einn dag til að lengja helgina.
Hvað um það, við félagarnir vorum svo heppnir að geta látið okkur hverfa í sumarbústað í Borgarfirðinum yfir þessa löngu helgi og vitaskuld tókum við stangirnar með, ef vorið gerði nú svo lítið að láta sjá sig eitthvað um helgina, sem það og gerði upp að vissu marki. Annars er það nú helst af vorkomu fyrir vestan að frétta að það er ekki von á neinni hraðasekt á þeim bænum, vorið fer sér afskaplega rólega í þessu öllu. Eitthvað hefur vantað upp á hitatölur og gróður ber þess alveg merki að það vantar smá yl í rótina, það sást ágætlega á ferð okkar vestur Snæfellsnesið á föstudaginn.
Annars tók Hraunsfjörðurinn á móti okkur með blíðu og það var nokkurt líf með veiðimönnum, meira að segja þeim sem höfðu veitt í kalsanum á fimmtudag og gist í Berserkjahrauninu um nóttina. Aðrir höfðu lagt land undir fót um morguninn eins og við og það var töluverður fjöldi veiðimanna á staðnum, bæði austan og vestan við fjörðinn.
Við töltum niður með Þórsá og út á Búðanesið þar sem við reyndum fyrir okkur í töluverðan tíma. Hægt og rólega færðum við okkur síðan til norðurs, heldur tíðindalítið rölt hjá mér en veiðifélagi minn fékk eina hörku töku á Krókinn. Sá fiskur var greinilega vel tenntur, því flugan fór beinlínis í tætlur og lítið eftir af henni annað en kúlan sem komin var aftur að agnhaldi og einhverjar tjásur af vínil.
Mér vitandi voru flestir í svipuð sporum og við, nema þá góður kunningi okkar af Skaganum sem gerði fanta fína veiði við eyjuna. Hjá honum komu á land 6 eða 8 fiskar og þar af einhverjar þær fallegustu bleikjur sem ég hef séð í langan tíma úr Hraunsfirðinum, feitar og fallegar. Það jaðraði við að maður yrði smá abbó, en fyrst og fremst samgladdist maður honum með þessa fallegu fiska.
Upp úr miðjum degi fór að blása nokkuð af norðri, þannig að við leituðum aftur á Búðanesið sunnanvert þar sem mjög ljósar flugur, eiginlega bara hvítar, nutu smá athygli fiskanna sem þar leyndust. Það fór svo að mér tókst að plata lítinn urriðatitt á agnarsmáan hvítan og rauðan Nobbler, en þar með er nú öll sagan af afla sögð. Eftir að hvatt gamla og nýja kunningja sem voru á staðnum, héldum við til baka fyrir kvöldmat. Hef ekki heyrt af veiði eftir að við fórum af staðnum, en fyrir mína parta var ég orðinn mettur af hraðfara súrefni að norðan, en mögulega hefur eitthvað hægt á því þegar leið á kvöldið.
0 / 0
0 / 3
0 / 1
1 / 2
4 / 5
Senda ábendingu