Elliðavatn og Hólmsá 22. maí

Það er eiginlega þrennt sem getur dregið mann að vatni með stöng í hönd. Veðrið, forvitni og sögur af veiði. Þegar allt þetta smellur saman, þá getur maður ekki annað en lagt af stað. Veðrið s.l. miðvikudagskvöld var algjör toppur, mig hefur lengi langað að rölta út á Engjarnar gengt Elliðavatnsbænum og svo voru samfélagsmiðlar að veifa framan í mann myndum af fallegum fiskum úr Elliðavatni.

Við gleyptum í okkur kvöldmat, klæddum okkur í galla og renndum upp að Elliðavatni rétt um kl.19. Vatnið skartaði sínu fegursta og það voru nokkrir veiðimenn á staðnum og í það minnsta einn fiskur sem lét sjá sig. Við hertum upp hugann og röltum út á engjarnar. Reyndar varla hægt að segja að við röltum svo varlega fórum við þar sem engjarnar létu víða undan fótum okkar.

Blíðan á þriðjudag

Við komumst óhult fram á bakkann svo til gengt Elliðavatnsbænum og tókum til við að baða hinar ýmsu flugur, án árangurs. Einn fisk sáum við u.þ.b. í gamla farveginum, en það var nú allt og sumt og þessi veiðiferð varð heldur styttri þegar örlítið fór að kólna og skordýr hættu að klekjast.

Við vorum samt sem áður ekki södd útiverunnar þannig að við ákváðum að renna upp fyrir Gunnarshólma og kíkja á stöðuna við brúnna yfir Hólmsá.

Blíðan við Hólmsá – Ef vel er rýnt í myndina má sjá silungahrelli munda flugustöng fyrir miðri mynd

Það er skemmst frá því að segja að óvenju mikið vatn er í ánni, í það minnsta að mínu mati og breiðan neðan við brúnna var því stór og mikil. Kyrrt veðrið laðaði þurrflugudrauma fram úr boxum okkar og við gerum ýmsar tilraunir til að glepja þá fiska sem voru greinilega á ferðinni.

Þegar þurrfluguæfingar okkar þóttu fullreyndar, létum við gott heita og fórum heim. Tittirnir sem voru að gantast í okkur þarna, voru því ósærðir eftir okkar heimsókn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 9 / 0 0 / 2 5 / 6

Helluvatn 7. maí 2019

Krúttlegur skreppitúr í Helluvatn í Heiðmörk, það var eiginlega inntakið í þessari skyndilegu hugdettu sem við veiðifélagarnir fengum eftir kvöldmat í gær. Hitastigið hafið að vísu fallið um nokkrar gráður frá því fyrir kvöldmat og lífríkið var eftir því fallið í hálfgerðan dróma. Aðeins stöku fluga lét sig hafa það að klekjast út og aðrir fiskar en þeir smágerðu voru ekkert mikið á ferðinni.

Róleg tíð þarf alls ekki að vera af hinu slæma og við vorum hreint ekki einu veiðimennirnir sem nutu þess að eyða kvöldinu á þessum slóðum, fisklaus. Kvöldið var einstaklega fallegt og þótt stöku kul hefði gárað vatnið og hitastigið fallið á skömmum tíma niður undir 5°C.

Rétt um það bil sem við hættum náttúruskoðun okkar, hittum við tvo veiðimenn sem höfðu einnig ákveðið að leggja árar í bát. Annar þeirra hafði verið við vatnið rétt fyrir kvöldmat og þá var klak enn í gangi og hann sagði að t.d. Helluvatnið við brúnna hefði beinlínis kraumað af flugu og fiski. Við hefðum e.t.v. betur sleppt kvöldmatnum og smellt okkur í vatnið á meðan sólin yljaði ennþá. Hvað um það, þetta var kærkomin stund eftir daglegt amstur hversdagslífsins og fiskarnir sem ekki sýndu sig, eru bara í vatninu áfram og stækka og stækka, óáreittir.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 9 / 0 0 / 2 3 / 4

 

Hólmsá, sumardaginn fyrsta

Með Veiðikortið upp á vasann, græjurnar í skottinu og starandi á hitamælinn rokka á milli 7 og 8°C renndi ég upp að Elliðavatni laust fyrir hádegið, sumardaginn fyrsta. Auðvitað höfðu fréttir af fiski freistað mín, en heldur var nú fátt um veiðimenn þegar ég renndi í hlað við Elliðavatns bæinn. Síðar heyrði ég að einhverjir höfðu safnast saman í landi Kópavogs, rétt við stífluna og þar var víst veitt.

Elliðavatn, sumardaginn fyrsta

Eitthvað sagði mér að láta það eftir mér að renna upp fyrir Gunnarshólma og kíkja í Hólmsána. Þegar ég mætti á staðinn voru þar tveir bílar en ekki nokkurn veiðimann að sjá. Jæja, ég hefði þá frítt spil í beygjunni neðan við brú, þannig að ég klæddi mig og setti saman. Svona rétt mátulega var ég kominn í regnhelt þegar austanáttin hellti úr sér ísköldum hraglanda svo skoppaði á ánni.

Fyrst kast, ekkert. Annað kast, ekkert. Þriðja kast, og flugan var negld með látum. Miðað við aðfarirnar hefði mátt halda að þarna væru einhver pund á ferðinni, en við fyrsta stökk var ljóst að það hefði þurft gríðarlega jákvætt hugarfar til að geta talið heilt pund í því sem beit sig þarna fast í fluguna.

Fyrsti fiskur sumarsins

Eftir að hafa myndað þennan fyrsta fisk sumarsins, í fyrstu veiðiferð sumarsins, í fyrstu veiðiferð með nýja stöng, á þessum fyrsta degi sumars, var honum sleppt aftur í ána með þökk fyrir að kynda vel undir bakteríunni í karlinum.

Flugan sem þessi snaggaralegi urriði tók var Higa‘s SOS í viðsnúnum litum, sem sagt rauð og gyllt á krók #14.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 1 / 1 / 1

Helluvatn, 26. júlí

Það fór víst ekki framhjá neinum sem var staðsettur í grennd við höfuðborgina að það var sérstakt veðurfar í borginni í dag. Sól með þokuívafi, heitt og stillt veður. Sem sagt; kjöraðstæður fyrir ýmislegt silungafæði að klekjast út og krydda matseðil vatnabúa. Við veiðifélagarnir létum því slag standa og renndum upp að Elliðavatni seinnipart dagsins. Raunar endaði það með því að við fórum í Helluvatn og þar var nú heldur betur sýning í gangi. Fiskurinn velti sér í æti um allt austanvert vatnið þannig að litlu veiðimannahjörtun fóru á yfirsnúning af spenningi.

Við Helluvatn

Til að gera langa sögu stutta þá er eins gott að segja það strax að annar eins fjöldi flugna hefur trúlega aldrei verið prófaður á einni kvöldstund eins og sá fjöldi sem við prófuðum í mjög harðri samkeppni við náttúrulega fæðu silungsins í vatninu. Á endanum var það Royal Coachman þurrfluga sem sannaði sig og mjög falleg bleikja rann á hana og tók með látum, hjá veiðifélaga mínum. Ekki svo löngu síðar, eiginlega þegar við vorum að hætta og taka saman þá rann þessi líka fallegi urriði á sömu flugu og kom veiðifélaga mínum stórkostlega á óvart. Sá fiskur var svo svakalegur að ég varð að aðstoða við að losa fluguna úr honum enda ekki á eins manns færi að losa þurrflugu #12 úr skoltum u.þ.b. 7 sentímetra urriða þannig að hægt væri að sleppa honum. Flott kvöld við Helluvatn, nóg af fiski og fiskamat en ekki ein einasta taka hjá undirrituðum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 104 / 110 / 0 23 / 16 11 / 11

Hólmsá, 21.apríl

Sumardagurinn fyrsti og karlinn er kátur, kann sér vart læti yfir þessum fyrsta degi sumars, bæjarlækurinn opnar og Elliðavatnið með. Þegar óteljandi myndir af sprækum fiskum úr Elliðavatni tóku að dælast inn á veraldarvefinn, tók sig upp gamalkunnur kláði í kasthendinni, pirringur í tánum og óseðjandi löngun til að skella sér út í sumarið.

Úr varð að við hjónin fórum á gönguskónum, engar vöðlur, upp að Hólmsá fyrir ofan Gunnarshólma. Ég hef ekki minnstu hugmynd um það hvers vegna Elliðavatnið sjálft heillaði ekki í dag, en þetta varð í það minnsta ofaná. Bjart verður, 7°C og smávægilegur vindur að vestan, ákjósanlegar aðstæður.

Það eru einmitt þessar skyndihugdettur sem eru alltaf svo skemmtilegar og til að toppa þá fyrri fékk ég þá grillu í höfuðið að nota fimmuna og þurrflugu til að byrja með. Sumir segðu eflaust að þessi uppsetning sé sjálfsögð, en það er nú ekki svo í mínum púpu-smitaða huga. Fyrir valinu varð ein þeirra glæsilegu þurrflugna sem mér áskotnuðust um daginn frá Atlantic Flies og í þriðja kasti, upstream, rétt fyrir neðan brú, tók þessi líka skemmtilegi 48 cm. urriði. Fyrir svona púpugaur eins og mig, þá er nú ekki amaleg hvatning að setja í fyrsta fisk sumarsins á þurrflugu á sumardaginn fyrsta. Kannski er þetta vísbending um þurrflugusumar? Til vonar og vara og samkvæmt venju sleppti ég þessum fyrsta fiski sumarsins og sendi hann aftur til félaga sinna í Hólmsá með kveðjunni; Gleðilegt veiðisumar, kallinn minn.

Þurrfluga sumardagsins fyrsta
Þurrfluga sumardagsins fyrsta

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 / 1 1 3

Elliðaár 30. maí

Ekki fannst mér nú veðurútlitið í morgun lofa neitt sérstaklega góðu fyrir þennan hálfa dag sem góður vinnufélagi minn ánafnaði mér í Elliðaánum. Engu að síður var ég harð ákveðinn í að láta reyna á sjálfan mig og fara í þessa jómfrúarferð í árnar og ekki sé ég spönn eftir því núna þegar ég er kominn heim í hlýtt kotið.

Elliðaárnar (Dimma) í dag
Elliðaárnar (Dimma) í dag

Mér skilst að svona vatnsmagn og með þessum litblæ sé ekki beint ávísun á mikla veiði en svona tóku þær á móti mér í dag Elliðaárnar. Elliðavatnið grátt þar sem best lét ofan stíflu, brúnt víðast hvar og töluverður strekkingur úr austri. Við völdum að byrja ofan Fornahvarfs á svæðum 71 – 73 (Hólmatanga að Höfuðhyl). Það er skemmst frá því að segja að ég fékk þennan líka fína fisk við Hólmatanga á Pólskan Pheasant, fyrsta fisk ársins. Í þetta skiptið brá ég út af vananum og sleppti honum ekki vegna þess hve dasaður og blóðugur hann var þegar ég loksins náði honum á land. Það var ekki laust við að óhug setti að mér að rjúfa þessa venju mína, kannski yrði þetta eini fiskur sumarsins?

Rétt eftir að ég og nafni minn, sem var með hina stöngina í ánum, höfðum skiptum um svæði, sá ég til hans þar sem hann setti í fisk í Höfuðhyl og af stönginni að dæma var þar hin vænsti fiskur á ferð. Gott að honum tókst að staðfesta að enn er fiskur í hylnum, ekki varð ég var þar. Ég lagði leið mína niður að Horninu efra en færði mig fljótlega upp að Ármótum þar sem ég setti í fisk númer tvö. Ekki alveg eins stór og sá fyrri og fékk hann líf eftir stutta viðureign.

Það kom skemmtilega á óvart hve líflegt var við Ármótin, ég fékk einar 5 eða 6 mjög góðar tökur þar án þess þó að taka fleiri fiska á land og nokkrar snarpar skvettur sá ég einnig. Eftir dágóða stund var spurningin að skipta aftur eða leggja leið mína niður árnar og kanna fleiri staði. Úr varð að ég rölti af stað og reyndi fyrir mér á þeim stöðum sem ég hafði lagt á minnið (kortið gleymdist auðvitað í bílnum). Það verður ekki af ánum skafið hve marga fallega veiðistaði þær geyma og á leið minni niður að Grófarkvörn (58) setti ég í eina þrjá fiska til viðbótar en allir sluppu þeir eftir stutt átök. Ekki amaleg byrjun á sumrinu, núna þegar það er loksins að detta í gang.

Fyrsti fiskur ársins
Fyrsti fiskur ársins

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 2 0 / 2 2 / 5

Elliðavatn 16. maí

Það er ekkert lítið sem Elliðavatnið hefur tekið við sér þessa viku sem leið á milli ferða. Vatnshitinn, náttúran og veðrið (framan af) voru mjög nálægt því að vera komin í sumarbúning þegar við hjónin skruppum upp að Elliðvatnsbænum í gærkvöldi.

Fiskur að vaka og fluga í lofti, á vatni og hnýtt á taum. Dásamlegt veður og við reyndum fyrir okkur í næstum tvo tíma fram undan bænum þangað til kulaði skyndilega og fór að rigna allhressilega. Fyrsta nart sumarsins hjá mér, að vísu mjög nett, þannig að þetta er allt að koma.

Elliðavatn
Elliðavatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 0 / 0 1 / 3

Elliðavatn 9. maí

Loksins, loksins. Nei, ekki misskilja mig, það kom ekki fiskur á land en ég fór upp að Elliðavatni seinni partinn og baðaði tvær flugur, flækti allt of grannt taumefnið og endaði á því að festa fluguna í eina trénu í mílu fjarlægð. Örlitlar ýkjur, en sagan er skemmtilegri þannig.

Það gekk á með tveimur dropum og einu til tveimur snjókornum þótt hitamælirinn segði 5°C og það kulaði óþægilega ofan úr Heiðmörkinni, en mikið rosalega var gott að komast að vatninu. Ég böðlaðist ekkert lengi í vatninu, svona rétt aðeins á meðan konan lék Joan Wulff á grasblettinum við Elliðavatnsbæinn og þangað til kuldinn gerði óþægilega vart við sig í tánum á mér. Vatnið var sem sagt heldur kalt en samt var líf, fluga á vatninu og töluvert um uppitökur.

Nú fer þetta alveg að detta í gang, held ég. Verð trúlega samt að láta sjá mig á Klambratúni á morgun; JOAKIM’s dagur og Stefán Hjaltested örugglega til í að skamma mig fyrir léleg köst.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 0 / 0 0 / 2

Hólmsá 20. ágúst

Kunnugir vita að mér hefur aldrei tekist að særa fisk upp úr Hólmsá, þ.e. þeirri sem skiptist í Bugðu og Suðurá. Engu að síður finnst mér alltaf skemmtilegt að nota ánna til æfinga og sjálfsagt að reyna sig við straumvatnið annars lagið. Við hjónin skruppum upp fyrir Gunnarshólma í blíðunni eftir kvöldmat eftir að hafa virt kuldalegar gárurnar á Helluvatni fyrir okkur um stund. Ég veðjaði reyndar á að tré og runnar við Hólmsá mundu veita eitthvert skjól fyrir norðan gjólunni, en það reyndist takmarkað. Við komum okkur fyrir við bugðuna rétt neðan brúarinnar inn að Elliðakoti  þar sem ég þóttist sjá til fiskjar á breiðunni.

Árangurslaust reyndi ég fyrir mér í smá tíma en vék síðan fyrir frúnni þar sem hún kom röltandi með þurrfluguna sína á taumi. Ekki var að spyrja að því að í fyrsta kasti út á breiðuna tók þessi líka fína bleikja með látum hjá henni. Naum taka en á land náðist 1,5 punda vel haldin hryggna og ég bölvaði að vera ekki með þurrfluguboxið mitt með mér. Fyrsti fiskur frúarinnar í ánni og ég er enn fisklaus á þessum slóðum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 115 / 117 / 0 16 / 22 20 / 26

Ummæli

21.08.2014 – Þórarinn ‘Silungsveidi.isJá, það er eitthvað dularfullt afl sem dregur mann aftur og aftur að Hólmsánni, jafnvel þó maður veiði ekki neitt. Ef Elliðavatn er háskóli vatnaveiðinnar er Hólmsáin háskóli árveiðinnar.
Ég verð að fara að drífa mig þarna upp eftir áður en veiðitímabilið er á enda.
Mér hefur stundum dottið i hug að prófa þarna Tenkara græjur en á móti, þá eru þær bara fyrir smáfisk en samt gæti verið sniðugt að vera með svona langa stöng og láta fluguna detta ofan á vatnið.

Svar: Já, satt segir þú Þórarinn. Ég er farinn að trúa þessum með laumu-veiði við Hólmsánna, en alltaf reynir maður aftur og aftur.

Helluvatn, 2. maí

Það greip mig einhver óeirð seinni part dags sem jókst umtalsvert rétt eftir kvöldmat þannig að ég stakk af upp í Heiðmörk. Að vísu var veðrið ekki neitt sérstakt og ekki mikils fisks að vænta eins hressilega og hann blés, en af stað fór ég og gat slátrað tæpum tveimur tímum í rokinu við Helluvatn austanvert.

Ég þóttist vera austastur allra í vatninu, en komst svo að því að vatnið virðist ná miklu lengra í austur en mig grunaði. Hefðu þeir aðeins verið einn eða tveir, þá hefði ég væntanlega bent þessum góðu mönnum á að veiði í Suðurá er óheimil skv. reglum. En, þar sem þeir voru í það minnsta fjórir (þóttist telja sex á tíma) þá lét ég það eiga sig að ramba á milli þeirra og leiðrétta áttavillu þeirra. Finnst það samt alltaf svolítið leiðinlegt þegar veiðimenn geta ekki virt veiðisvæði.

Suðurá við Helluvatn
Suðurá við Helluvatn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 0 0 / 2 4 / 7

Ummæli

13.05.2014 – Þórarinn: Tja, hvar endar vatnið og áin tekur við. Ég hefði veitt þarna sjálfur í þeirri trú að ég væri að veiða á löglegum stað. Ég hefði líklega farið upp að brú og talið mig í fullum rétti. Gaman væri ef einhver sem þekkir þetta getur sagt um hvar menn mega veiða og hvar ekki því mér finnst það alls ekki vera á hreinu.

Kveðja, Þórarinn

PS. Takk fyrir skemmtilegan vef, ég hef oft haft þá ánægju að lesa hann þó ég hafi ekki skilið eftir svar fyrr.

Svar: Já, þessi spurning hefur kom nokkuð hressilega fyrir á Fésbókinni þegar ég birti þessa grein. Ég veit að það er fyrirspurn í gangi til OR / Veiðifélagsins um veiðimörkin og ég mun pósta svarið um leið og það best. Eflaust margir sem líkt er farið og þér.

Elliðavatn, 24. apríl

Gleðilegt sumar, veiðimenn um land allt. Í tilefni dagsins skrapp ég seinni part dags í Elliðavatnið, meira til að sýna mig og sjá aðra heldur en með stórar væntingar um afla í huga. Eins og vera ber voru nokkrir veiðimenn á staðnum, tveir, þrír úti á Engjum og svo nokkrir sunnan bæjar og í Helluvatni.

Jú, eitthvað höfðu menn orðið varir við fisk og þó nokkrir komið á land, en það sama verður ekki sagt um mig. Var mest á róli við Helluvatnið að sunnan og í Elliðavatni frá brú og að bæ. Ekki voru nú köstin eitthvað til að hrópa húrra fyrir, en þokkaleg miðað við þann vind sem stóð nokkuð stífur að austan.

Eina lífið sem ég varð var við var frekar áhugalaust nart rétt norðan brúar. Mér var hugsað til þess sem ég sá í Hellluvatni 22. mars. Það skildi þó aldrei vera að hann hefði heilsað upp á blóðorminn minn í dag?

Kannski þessi?
Kannski þessi?

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 0 0 0 / 2 2 / 4

Hólmsá, 1.júlí

Himbrimi
Himbrimi

Maður þekkir það að fiskurinn gufar upp eins og dögg fyrir sólu þegar þessi félagi sést á vötnunum. Án þess að fara út í þær pælingar hvernig stendur á því að hann er eftir sem áður, fisknasti fugl íslenskrar náttúru, þá hefði ég alveg eins getað verið himbrimi á sundi í gærkvöldi þegar ég fór í æfingaferð í Hólmsánna.

Það var alveg sama hvar og hvernig ég kom að ánni, neðan austustu brúar eða ofan túns við Gunnarshólma, alltaf sá ég bara í sporðinn á urriðanum þegar hann forðaði sér undan mér. Á tímabili leið mér svolítið eins og trölli í postulínsbúð. Var alvarlega að spá í fara úr vöðluskónum og læðast á tánum, prófaði meira að segja að læðast að ánni og gera…. ekkert í nokkrar mínútur, en það var eins og við manninn mælt, um leið og ég reisti stöngina var fiskurinn horfinn og eftir sat ég og átti ánna alveg út af fyrir mig á löngum kafla. O jæja, ég náði aðeins að æfa mig í andstreyminu.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 2 / 7 / 0 5 / 11 22

Elliðavatn 25.maí

Eigum við að ræða þetta eitthvað? Konan vildi ólm athuga hvort hann væri ennþá með Nobblerinn hennar, þessi gaur undir Vatnsendahlíðinni, þannig að við tókum stuttan skrepp upp úr kl.19 undir hlíðina. Vorum reyndar ekki alveg viss hvort við reyndum fyrir okkur þar eða fyrir innan Þingnesið, en úr varð að reyna aftur við farveg Dimmu.

Ekki rakst frúin á Nobbler-þjófinn sinn frá því í gærkvöldi en ég rakst á litlu systur urriðans frá því í gær. Sú var 46 sm. og í fínum holdum og vildi endilega hvítan Nobbler. Nú eru einhverjir hlutir farnir að gerast, þrátt fyrir að veðrið sé ekki upp á marga fiska, aðeins 4°C lofthiti og vatnið komið aftur niður fyrir 9°C. Svei, hvað sumarið ætlar að láta bíða eftir sér.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 1 0 / 2 14

Elliðavatn 24.maí

Ég get svo sem alveg viðurkennt að ég var byrjaður að skrifa þessa grein á meðan ég stóð í roki og rigningu undir Vatnsendahlíðinni í kvöld upp úr kl.22 Það voru ótrúlegustu yfirlýsingar sem mér komu í hug, flestar eitthvað á þá leið að nú væri nóg komið og ég ætlaði ekki að snerta á stöng fyrr en sumarið væri endanlega komið, kannski bara ekkert fyrr en seint í sumar. En það var fiskur á staðnum…..

Frúin fékk svo væna töku rétt upp úr kl.23 að taumurinn sat eftir í vatninu, flugulaus. Ef einhver rekst á þokkalegan urriða með grænan Nobbler í öðru munnvikinu, þá er skrautið í boði Þórunnar. Þegar ég svo frétti af girnd urriðans í grænan Nobbler tók ég upp boxið mitt og leitaði, en fann ekki. Ákvað að taka þann næst besta, grænan Dýrbít og setti undir. Og viti menn, í öðru kasti var tekið hressilega á móti og upp úr vatninu smaug þessi líka fallegi urriði í tignarlegum boga. Það er orðið svo langt síðan ég hef sett í fisk að ég var næstum búinn að gleyma hvað til bragðs ætti að taka. En eftir snarpa viðureign kom hann á þó á land, 52 sm. hængur og með þeim fallegri sem maður hefur náð. Hverjum þykir sinn fiskur fagur. Ef maður kíkir í töfluna góðu hjá Svarta Zulu þá hefur fiskurinn verið rétt innan við 3 pund m.v. eðlilegt holdafar og lengd.

Ég verð væntanlega með harðsperrur í kinnunum í fyrramálið, efast um að brosið þurrkist út af mér í nótt.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 1 0 / 1 13

Ummæli

25.05.2013 – NafnlausStyrkja taum er kvölda tekur 10 p. Svangir urriðar á ferð.

Svar: Já, þarna hittir þú naglan á höfuðið, Nafnlaus. Ég er nokkuð viss um að frúin hafi verið með 2x (c.a. 7 p) á þegar árásin var gerð á fluguna.

25.03.2013 – Ingólfur ÖrnSæl bæði tvö. Ég hitti ykkur við bílastæðið áður en þið hélduð á veiðistað í gærkveldi og frétti af fiskleysi vorsins. Gaman að heyra að þeim álögum er létt!

Bestu kveðjur, Ingólfur

Svar: Sæll Ingólfur og takk fyrir síðast. Að vísu gaf Þingeyingurinn ekki í þetta skiptið, en annað var eftir forskriftinni frá þér og álögunum aflétt. Kærar þakkir fyrir allar upplýsingarnar og spjallið.

25.03.2013 – Þórunn: Hrmfp!…….er enn að hugsa um þennan nobbler! – Er að spá í að sækj’ann bara, þó að það hafi verið aðeins of mikið “bling” í skottinu á honum.

26.03.2013 – UrriðiTrúi þessu ekki fyrr en ég sé myndir ;-)

Svar: Sko, þetta var bara alveg undir miðnættið og ég var orðinn svolítið loppinn á fingrunum, hefði trúlega tapað símanum/myndavélinni í vatnið hefði ég vogað mér að fikta við svoleiðis tæki 🙂 þannig að skátaheiðurinn verður að duga.

Helluvatn 23.maí

Það var nú ekkert óskemmtilegt að sjá alla fluguna klekjast á Helluvatni laust upp úr kl.19 í kvöld. Vatnið að koma til í hita eftir nokkuð hressilegt fall undanfarna daga og lífið aftur komið á stjá. Fiskur að vaka úti á vatninu og alveg upp í harða grjóti, bara hinu megin. Sem sagt; ég skaust einn eftir kvöldmat, bara svona til að komast eitthvað út eftir vinnu í dag. Eitthvað meira að segja um þessa ferð? Jú, ég náði að krækja mér í eina Lippu upp af botninum einhvers staðar lengst utan úr vatni. Eigandinn verður bara að bíta í það súra, hún er kominn í spúnaboxið mitt og verður þar áfram.

Ég held sem sagt áfram að vera einn umhverfisvænsti veiðimaður landsins, ekki einn fiskur það sem af er sumri.

Helluvatn
Helluvatn 23.maí 2013

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 12

Ummæli

24.05.2013 – HilmarSmá áskorun, í næstu veiðiferð þá notar þú bara þurrflugur ! :o  

Mbk, Hilmar

Svar: Það er svo sniðugt að ég verð að styðja á hnappinn ‘Samþykkja‘ þegar mér berast ummæli á greinar hjá mér. Ég hef eiginlega aldrei verið eins sáttur við að styðja á þennan hnapp eins og núna, geta slegið tvær flugur í einu höggi; samþykkja ummælin þín Hilmar og samþykkja áskorunina. Mér varð einmitt hugsað til boxins með þurrflugunum sem varð eftir í bílnum þegar ég sá allar vökurnar á vatninu. Sem sagt; sama hvernig veðrið verður um helgina, það verða þurrflugur sem fara undir hjá mér í næsta skrepp.

Elliðavatn 20.maí

Ég er kóngur í mínu eigin ríki, þ.e. þessari síðu, annars staðar ræður eiginkonan. Það tilkynnist formlega að Kristján X (tíu veiðilausar ferðir) hefur látið af embætti og við hefur tekið Kristján XI (ellefu veiðilausar ferðir).  Þetta er nú bara ekki hægt lengur. Ég lýsi allri ábyrgð á þessari ferð á hendur eiginkonunni. Hefði hún ekki með veiðiglampa í augum blikkað mig í morgun og spurt; Eigum við að skreppa aðeins í Elliðavatnið? þá hefði ég hvergi farið og frekar setið hér heima og skrifað endurminningar mínar Ég man þá tíð er ég veiddi fisk. Veit einhver um brjálaðan útgefanda?

En mikið rosalega var vatnið kalt og mikið hefur það kólnað síðustu daga. Staðkunnugur veiðimaður, sem eitt augnablik dýfði tánni í vatnið við hlið mér í morgun hafði á orði að nú væri ekkert í gangi, ekkert klak og fiskurinn þar af leiðandi ekkert að éta. Takk og bless, og þar með var hann farinn. Annar renndi í hlað á Elliðavatnsbænum þegar við hjónin vorum að taka saman og hafði sömu sögu að segja á meðan hann nuddaði lífi í bláar hendurnar og tók síðan stefnuna á Helluvatn með þeim orðum að komast í skjól. Vonandi hefur einhverjum þeirra fjölmörgu sem þar voru, einmitt í skjóli fyrir sunnan áttinni, gengið eitthvað betur en okkur hjónum.

Vatnshitamælir við Vatnsenda
Vatnshitamælir við Vatnsenda

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 11

Ummæli

20.05.2013 – Veiði-EiðurHef nákvæmlega sömu sögu að segja yðar hátign. Fór með pabba í Elliðavatnið í morgun. Mættir um 6 og farnir um 7. Keyrðum ófærðina í gegnum Heiðmörk og að Vífilstaðavatni þar sem við börðum í svona 1 og hálfan tíma. Sáum líf en fengum ekkert.

Ég hef tekið eftir mun minni aflabrögðum eftir að ég byrjaði að blogga. Þetta er ábyggilega því að kenna, blogginu sko. Ekki mér… ;)

Svar: Ég hef verið að hamast við að finna ástæður fyrir mínu fiskieysi en enda bara alltaf á því að líta í eigin barm. Ég hlýt bara að vera að gera eitthvað vitlaust. Er núna að spá í að sleppa bleikju í tjörnina í garðinum hjá mér, kvíð því samt aðeins ef þær vilja ekki bíta heldur.

20.05.2013 – Þórunn: Ok, Ég tek fulla ábyrgð á þessari veiðiferð, enda var hún svo snemma í morgunsárið og svo stutt að hún telst ekki með. Annars er gott að þú haldir að þú ráðir öllu á þessari síðu, haltu því bara áfram :) ….blikk, blikk…eigum við að skreppa?

20.05.2013 – Árni Jónsson: Örvæntu ekki. Eigi hef ég fleiri fiska dregið á land en þú minn kæri.

Svar: O, jæja. Það  eru þá ekki alveg allir sem draga kvikasilfur að landi í Þjóðgarðinum.

21.05.2013 – Svarti Zulu: Jæja það er nú hiti í kortunum framundan ( ef 5 – 9 stig teljast hiti) þannig að nú hlýtur þetta að fara að koma. Ég var þarna við Riðhólinn á sunnudagsmorguninn og ekki urðum við varir við fisk þó margt væri reynt. Og svo er Vífilsstaðavatnið alveg að svíkja mig þetta vorið og ég sem hélt að ég væri bara nokkuð góður þar.

Svar: Mér finnst eins og það hafi verið að koma eitthvað bakslag í vorið síðustu viku eða svo. Hlýnunin hefur verið helst til lítil og svo kom þessi kuldakafli núna um helgina, birrrrr.

Helluvatn og Hólmsá 9.maí

Frábært veður, kannski helst til bjart en af stað fórum við hjónakornin í morgun upp úr kl.9 og stefndum á Helluvatn að austan verðu. Þar sem við vorum greinilega ekki þau fyrstu á staðinn komumst við kannski ekki alveg að þeim stað sem við höfðum í huga en gerðum okkur að mjög góðu nokkurn spotta við norður bakkann. Spegilsléttur vatnsflöturinn og fiskur í uppitökum og alles. En, það var eiginlega alveg saman hvað maður bauð uppá, fiskurinn vildi ekki neitt. Frúin fór í gegnum allar þurrflugur sem fundust í boxum á meðan ég reyndi allt sem ekki sökk alveg eða var alveg við það að fljóta á yfirborðinu. Að vísu varð sú framför þetta vorið að ég fékk nokkuð hressilega töku á Blóðorm þegar ég var kominn aftur í púpurnar, en engin fiskur var dregin að landi í þetta skiptið.

Þrátt fyrir að hafa eytt hátt í 4 klst. við Helluvatn vorum við ekki alveg í þeim vöðlunum að vilja fara beint heim þannig að við skutumst upp fyrir Gunnarshólma til að kíkja aðeins á tvær breiður í Hólmsá sem okkur sýndust gefa góð fyrirheit í gærkvöldi á leiðinni úr Nátthagavatni. Það var nú svo sem ekkert brjálað líf á þessum slóðum, utan þess að við rákumst á Ingimund Bergsson (Hr. Veiðikort sjálfan) þar sem hann og hans hundur voru að spotta veiðistaði. Fljótlega varð ljóst að fleiri kunnugir voru á vappi, karladeild Mosó veiðifélagsins stikaði bakkana án þess að vera meira var við fisk heldur en við. Fínn endir á góðum degi og sjöunda fisklausa veiðin þetta vorið staðreynd.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 7

Nátthagavatn 8.maí

Meira í forvitni og af óstjórnlegri þörf fyrir að komast út í náttúruna lögðum við hjónin í stutt ferðalag eftir kvöldverð. Þar sem við áttum alveg eins von á að bekkurinn yrði þétt setinn við Elliðavatn var stefnan tekin á Nátthagavatn. Tja, hvað getur maður sagt? Jú, það er grunnt, mjög grunnt og ekki mikið líf með fiski að sjá. Samt sem áður var kvöldinu vel varið, dásamlegt veður (loksins) og afskaplega gott að komast út. Aflatölur? Nei, engar aflatölur.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 6

Hólmsá 27.apríl

Eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að gangast við því að hafa ráfað með bökkum Hólmsár í gær (27.apríl). Ég hef aldrei látið svo lítið að ganga meðfram bökkum árinnar fyrr en í gær og þótt ég hafi verið með stöng í hönd og einhverjar flugur tiltækar, var ég eiginlega meira á höttunum eftir því að skoða aðstæður frekar en veiða.

Mig hefur lengi langað til að kynnast þessari vand með förnu á en aldrei látið verða að því. Fyrir margt löngu las ég um sleppingar Jakobs Hafstein á eldisfiski (urriða og laxi) í ánna árið 1981 og þótti vafasamt tiltæki, en það er nú önnur saga sem menn geta lesið sér til um í gömlum tbl. Tímanns, Dagblaðsins og Þjóðviljanns. En aftur að kosningadeginum.

Ég hafði hugsað mér að rölta með ánni í nokkrum áföngum og í gær varð parturinn frá Fjárborgum (GPS hnit: 64°5,7360’N 21°44,1076’W) og austur að Gunnarshólma-túni (GPS hnit: 64°5,3406’N 21°41,7914’W) fyrir valinu sem gera eitthvað um 2,5km af farvegi árinnar. Nú er ég engin sérfræðingur, hvorki í veiði í ám né lækjum, en af þeirri litlu reynslu sem ég hef, gat ég nú svo sem séð nokkra staði á þessari leið sem gætu verið tilvaldir veiðistaðir. Verst þótti mér að fiskurinn var greinilega ekki sammála mér, því ég sá ekki eitt einasta kvikindi á leiðinni. Minnugur þessa að hafa lesið nokkrar lýsingar veiðimanna af hnjáskriðum, jafnvel magamjaki eftir bakkanum vegna styggðar fisksins, fór ég nú samt þokkalega varlega og reyndi að vera eins léttur á fæti og vöðlurnar leyfðu. En allt kom fyrir ekki. Kannski er bara engin fiskur á þessum slóðum á þessum árstíma, en nóg var nú samt af ætinu.

Næsti áfangi í þessum athugunum mínum gæti orðið frá ósi Bugðu og upp að Fjárborgum eða spölurinn fyrir Gunnarhólmalandi og inn að Nátthagavatni. Báðir þessir spottar luma á þekktum veiðistöðum, eftir því sem ég kemst næst í riti, og það verður bara spennandi að kanna þá. Nú er bara að bíða eftir örlítið skárra veðri, kannski smá sumri.

Að lokum; ég var ekki einn á þessum slóðum í gær þótt mér hafi ekki tekist að rekast á neinn. Svarti Zulu ásamt veiðifélaga reyndu fyrir sér fram og til baka frá Gunnarshólma og niður undir Suðurlandsveg eins og sjá má blogginu hans hérna.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 4

Ummæli

28.04.2013 – LogiÉg fór þarna þó nokkuð oft seinasta sumar í júní til lokunar og setti þó nokkuð oft í fisk en það er eins og þú sagðir að hnjáskriður og magamjak er það sem menn eiga að gera í þessari viðkvæmu á. Ég mætti þarna á fimmtudaginn við hylinn hjá klettinum fyrir ofan Gunnarshólma og setti þar í 3 og tóku þeir litla Black Ghost, Langskegg og svo leynivopnið mitt, tökuvari og uppstream er málið á þessum stað.

Svar: Frábært, takk fyrir þetta innlegg. Það er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að reynslusögum manna í Hólmsánni. Frekari könnunarleiðangrar á teikniborðinu 🙂

28.04.2013 – Logi: Og svo stóra breiðan við stóru brúna er sæmilegur áll þar sem fiskar geta leynst og eins lax frá og með mánaðrmótum ágúst/ september. Aðrir staðir þar sem ég hef alltaf séð fisk og eins sett í er litli fossinn fyrir ofan neðstu brúna (fyrstu brúna), fyrir neðan kvíslanna (þar sem Hólmsá kvíslast í Suðurá og Bugðu) og svo fyrir ofan göngubrúna, neðarlega í Bugðu, rétt fyrir ofan ósinn í Elliðavatn, bara ganga þann stað með þurrflugu og uppstream, Sá partur er nokkuð djúpur og lygn og mjög skemmtilegur.

Svar: Ég sá einmitt og prófaði aðeins að sökkva flugu í þennan hyl (sem mér sýndist vera heilmikil renna) á breiðunni fyrir neðan brú, mjög álitlegur staður og varð hugsað til bjartra og hlýrra daga þegar fiskurinn leitar öryggis og kulda. Bestu þakkir fyrir alla punktana, nú hefur maður úr einhverju alvöru að moða.

28.04.2013 – LogiEf þú kíkir á loftmynd á já.is af breiðunni sérðu hvernig állinn liggur í breiðunni.

Elliðavatn 25.apríl

Í einhvern tíma hefði maður nú örugglega vorkennt skátunum að leiða skrúðgönguna um bæinn á sumardaginn fyrsta í norðan garra og hraglanda. Þeir voru jú ekki í vöðlum eins og veiðimennirnir við Elliðavatn í dag, opnunardaginn. Eftir að hafa beðið fram yfir hádegið eftir því að súlan stigi aðeins í hitamælinum, drifum við okkur bara í vöðlurnar hérna heima (þetta er nú bara skottúr að heiman) og renndum upp að Elliðavatni. Alveg þokkalegur reytingur af veiðimönnum var vítt og breytt við vatnið, sumir lengst úti eins og gengur, en aðrir nokkuð fastir við bakkann.

Sökum nokkurs strekkings ákváðum við að rölta inn með vatninu vestan brúar, svolítið í skjóli fyrir verstu kviðunum. Við þóttumst nú ekki vera svo innarlega að ekki væri fiskjar von en urðum ekki vör þannig að við ákváðum að prófa fyrir okkur við Helluvatn að norðan. Þótt veðrið væri ekki upp á marga fiska var alveg prýðilegt að koma sér fyrir á þessum slóðum. Einn og einn veiðimaður reyndi fyrir sér við vatnið, stoppuðu stutt nema þá einna helst þeir sem höfðu komið sér fyrir við Kerið þar sem Suðurá rennur í vatnið. Ég er ekki frá því að þeir hafi tekið einhvern fisk sem er miklu meira en hægt er að segja um okkur hjónin. Þegar svo tók að ganga á með snjókomu, ákváðum við að nú væri komið nóg en vorum jafnframt sammála um að Elliða- og Helluvatn væru vötnin sem yrðu trúlega mest fyrir barðinu á okkur í sumar, svona sem virkra-daga-veiði-skreppir eftir vinnu.

Helluvatn - Horft til Suðurár
Helluvatn – Horft til Suðurár á sumardaginn fyrsta

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 0 / 0 0 / 0 0 / 0 0 / 0 3