Það er eiginlega þrennt sem getur dregið mann að vatni með stöng í hönd. Veðrið, forvitni og sögur af veiði. Þegar allt þetta smellur saman, þá getur maður ekki annað en lagt af stað. Veðrið s.l. miðvikudagskvöld var algjör toppur, mig hefur lengi langað að rölta út á Engjarnar gengt Elliðavatnsbænum og svo voru samfélagsmiðlar að veifa framan í mann myndum af fallegum fiskum úr Elliðavatni.
Við gleyptum í okkur kvöldmat, klæddum okkur í galla og renndum upp að Elliðavatni rétt um kl.19. Vatnið skartaði sínu fegursta og það voru nokkrir veiðimenn á staðnum og í það minnsta einn fiskur sem lét sjá sig. Við hertum upp hugann og röltum út á engjarnar. Reyndar varla hægt að segja að við röltum svo varlega fórum við þar sem engjarnar létu víða undan fótum okkar.

Við komumst óhult fram á bakkann svo til gengt Elliðavatnsbænum og tókum til við að baða hinar ýmsu flugur, án árangurs. Einn fisk sáum við u.þ.b. í gamla farveginum, en það var nú allt og sumt og þessi veiðiferð varð heldur styttri þegar örlítið fór að kólna og skordýr hættu að klekjast.
Við vorum samt sem áður ekki södd útiverunnar þannig að við ákváðum að renna upp fyrir Gunnarshólma og kíkja á stöðuna við brúnna yfir Hólmsá.

Það er skemmst frá því að segja að óvenju mikið vatn er í ánni, í það minnsta að mínu mati og breiðan neðan við brúnna var því stór og mikil. Kyrrt veðrið laðaði þurrflugudrauma fram úr boxum okkar og við gerum ýmsar tilraunir til að glepja þá fiska sem voru greinilega á ferðinni.
Þegar þurrfluguæfingar okkar þóttu fullreyndar, létum við gott heita og fórum heim. Tittirnir sem voru að gantast í okkur þarna, voru því ósærðir eftir okkar heimsókn.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 9 | 0 / 0 | 0 / 2 | 5 / 6 |
Senda ábendingu