Krúttlegur skreppitúr í Helluvatn í Heiðmörk, það var eiginlega inntakið í þessari skyndilegu hugdettu sem við veiðifélagarnir fengum eftir kvöldmat í gær. Hitastigið hafið að vísu fallið um nokkrar gráður frá því fyrir kvöldmat og lífríkið var eftir því fallið í hálfgerðan dróma. Aðeins stöku fluga lét sig hafa það að klekjast út og aðrir fiskar en þeir smágerðu voru ekkert mikið á ferðinni.
Róleg tíð þarf alls ekki að vera af hinu slæma og við vorum hreint ekki einu veiðimennirnir sem nutu þess að eyða kvöldinu á þessum slóðum, fisklaus. Kvöldið var einstaklega fallegt og þótt stöku kul hefði gárað vatnið og hitastigið fallið á skömmum tíma niður undir 5°C.
Rétt um það bil sem við hættum náttúruskoðun okkar, hittum við tvo veiðimenn sem höfðu einnig ákveðið að leggja árar í bát. Annar þeirra hafði verið við vatnið rétt fyrir kvöldmat og þá var klak enn í gangi og hann sagði að t.d. Helluvatnið við brúnna hefði beinlínis kraumað af flugu og fiski. Við hefðum e.t.v. betur sleppt kvöldmatnum og smellt okkur í vatnið á meðan sólin yljaði ennþá. Hvað um það, þetta var kærkomin stund eftir daglegt amstur hversdagslífsins og fiskarnir sem ekki sýndu sig, eru bara í vatninu áfram og stækka og stækka, óáreittir.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 9 | 0 / 0 | 0 / 2 | 3 / 4 |
Senda ábendingu