FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Einelti

    17. mars 2015
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Eins og margir aðrir hóf ég mína veiðimennsku með maðk undir floti. Um leið og ósinn hafði rutt sig af ís var hugað af græjunum. Nú brestur minni mitt aðeins, en mér finnst eins og fyrsta röltið vestur að Ölfusá hafi yfirleitt verið upp úr mánaðarmótum apríl-maí. Nú er ég samt ekki alveg viss, finnst það ekki alveg passa við þann fisk sem engt var fyrir. Eitt sinn þegar ég var á þessu ferðalagi mínu gekk ég fram á reyndan veiðimann af Bakkanum þar sem hann hafði lagt flot og maðk rétt utan við skurð sem féll út í ósinn. Þarna háttar því þannig til að ósinn er stilltur og nokkuð gruggugur af framburði úr skurðunum, utar þar sem straums gætti var vatnið tært. Á þessum slóðum gat maður séð glitta í fiskinn þar sem hann úðaði í sig ætinu sem skurðurinn bar með sér.

    Ég man enn eftir undrun minni á veiðiaðferð þessa manns því hann lagði agnið nokkuð nálægt skurðinum og lét svo reka út að vatnaskilunum. Sjálfur hafði ég alltaf vanist því að leggja flotið miðja vegu frá bakka og að skilum, draga síðan rólega í land. Auðvitað var hans veiðiaðferð mun gáfulegri heldur en mín. Með tíð og tíma hefur skilningur minn á háttarlagi fisks aukist eitthvað og nú þykist ég gera mér grein fyrir því að það borgar sig ekki að lesa yfir hausamótunum á fiskinum eða leggja hann í einelti. Þess í stað les ég vatnið örlítið lengur og reyni af fremsta megni að kasta ekki yfir fiskinn. Flugurnar sem maður dembir út í vatnið og dregur í gegnum borðstofu fisksins gera lítið annað en stökkva honum á flótta. Mér skilst að fiskinum sé bara ekkert um að vera lagður í einelti af einhverjum smápöddum eða sílum sem ráðast beint að honum, hvað þá koma honum að óvörum aftanfrá. Betra sé að leggja fluguna inn að sjónsviði hans, dilla henni nokkrum sinnum og leyfa fiskinum að taka af skarið. Ef hann hefur áhuga, þá lætur hann sig hafa það að synda á eftir henni.

    Einelti, tvíelti, þríelti
    Einelti, tvíelti, þríelti

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Of þungar flugur?

    12. mars 2015
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Trúlega legg ég nokkrar vikur á hverjum vetri undir í tiltekt í bókarmerkjum internetvafrans míns. Ekki alls fyrir löngu fór ég í gegnum greinar sem ég hafði bókamerkt fyrir einhverjum árum um hönnun flugna. Mögulega hefði ég átt að vera búinn að lesa þessar greinar áður en ég fyllti á fluguboxin mín fyrir sumarið, en betra er seint en aldrei.

    Það sem vakti einna helst athygli mína var sá samhljómur sem vatnaveiðimenn höfðu uppi um of þungar flugur. Ég, eins og væntanlega margir aðrir, hef helst horft til þess að þyngja flugurnar mínar frekar en nota hæg- eða hraðsökkvandi línur eða tauma þegar á að koma flugunni niður. Hver kannast ekki við að hafa heyrt að koma flugunni hratt og örugglega niður þangað sem fiskurinn liggur? En getur verið að við séum að hugsa hraðar heldur en fiskurinn? Þegar kemur að því að koma púpu niður í vatnið þurfum við mögulega ekki að þyngja fluguna neitt mikið. Þess í stað gætum við sneitt utan af flugunni alla óþarfa, sem oft er meira fyrir okkur gert heldur en fiskinn. Efnisminni óþyngdar flugur sökkva oft alveg eins vel og þær bústnu sem við höfum þyngt um einhver grömm með blýi eða kopar. Og það sem meira er, þær sökkva á mun eðlilegri hraða heldur en þær sem við höfum þyngt sérstaklega.

    Ég get auðveldlega samsvarað mig með þeim sem telja að ofur-þyngdar flugur hafi frekar orðið til fyrir óþolinmæði veiðimannsins heldur en fiskinn á botninum. Óþolinmæði okkar veiðimannanna eftir því að fluga sekkur niður á æskilegt dýpi er oftar en ekki ástæða þyngdra flugna í vatnaveiði og hefur tíðkast lengi. Þegar hegðun slíkra flugna í vatninu er aftur móti skoðuð þá kemur oftar en ekki í ljós að hreyfing hennar þegar við drögum inn verður heldur hjákátleg í skásta falli, oftast óaðlaðandi í augum fisksins. Og svona til að setja þetta í eitthvert samhengi við það sem árstíðin bíður upp á, þá er engin spurning að þungur vörubíll étur sig betur niður í slyddu heldur en léttur smábíll, ekki satt? En því verður nú ekki á móti mælt að vörubíllinn er mun þunglamalegri heldur en smábíllinn. Ætli skordýrin í vatninu eigi ekki örlítið meira sameiginlegt með hreyfingum smábíls heldur en 12 tonna vörubíls.

    Næsta sumar ætla ég að vera duglegri að prófa óþyngdar, rennilegar púpur og sjá hvort þær veiði eitthvað minna heldur en þær sem eru í yfirþyngd, þ.e.a.s. ef ég nenni að bíða eftir að þær sökkvi.

    Nokkrar rennilegar Higa's SOS
    Nokkrar rennilegar Higa’s SOS

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ályktun eða athugun

    10. mars 2015
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Þær eru misjafnar aðferðirnar sem menn nota við að velja sér flugu. Sumir beita athyglinni fram í fingurgóma, meta vatnið og lífríkið með augunum og fara jafnvel höndum um það sem skolað hefur upp að bakkanum. Aðrir álykta sem svo að viðkomandi vatn hafi alltaf gefið fisk séu ákveðnar flugur notaðar og velja þannig eftir sögusögn eða eigin reynslu. Svo eru þeir sem vita þetta bara, þurfa ekkert að spá í hlutina, taka réttu fluguna upp úr boxinu, hnýta hana á rétta tauminn og leggja hana síðan fram á rétta staðinn og veiða hana með rétta inndrættinum. Ég mun seint tilheyra þessum hópi veiðimanna. Ef ég ætla í fullri alvöru að næla mér í fisk, verð ég í flestum tilfellum að beita athyglisgáfunni með hæfilegri blöndu af sögusögnum til að velja flugu. En ég verð líka að vera heiðarlegur og viðurkenna að oft mæti ég bara á staðinn, nýt þess að vera og set einhverja þekkilega flugu undir sem gæti alveg eins virkað.

    Auðvitað er gott að kunna skila á því hvernig hægt eða tengja flugnaval við það sem er efst á baugi í fæðu silungsins hverju sinni og ég væri að segja ósatt ef ég játaði ekki að það kitlar egóið þegar fyrsta val í flugu passar við matseðil silungsins, fyrsta kastið lendir á réttum stað, á réttum tíma og fiskur tekur fluguna umsvifalaust. En þeim skiptum fer fjölgandi að maður er bara full sáttur að vera og njóta. Allt annað er bara bónusvinningur Lottó veiðimannsins sem velur sér flugur eftir því hver þeirra hefur gefið honum flesta fiska.

    Nokkur eyru
    Nokkur eyru

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kíkt upp

    5. mars 2015
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Hver kannast ekki við þegar sólin er lágt á lofti og maður keyrir á móti henni? Ekkert sérstaklega þægilegt og ósjálfrátt pírir maður augun, fálmar eftir skyggninu, setur það niður og sólgleraugun upp. Þegar þið lendið í þessu næst og þurfið að stoppa á rauðu ljósi, prófið að skyggnast um og takið eftir því að eiginlega allir litir hverfa á milli ykkar og sólarinnar. Dökkir skuggar og form segja okkur miklu meira hvað er á ferðinni heldur en litir.
    Kannski er ég alveg úti á túni með þessar pælingar, en þegar fiskurinn horfir á eftir mýpúpunni stíga upp á yfirborðið og umbreytast í fullvaxna flugu, þá ímynda ég mér hann svolítið svipað sjálfum mér á móti sól. Stærsti munurinn er sá að ég get pírt augun, hann ekki. Þessar pælingar mínar urðu til þess að ég skoðaði svolítið litaflóru þurrflugna og viti menn; það eru til þurrflugur sem veiða heil ósköp án þess að eiga sér nokkra fyrirmynd í lífríkinu.

    Bull-fluga
    Bull-fluga

    Hefur einhver sér svona skordýr á Elliðavatni? Nei, vonandi ekki því þá hefur eitthvað stórkostlegt farið úrskeiðis í frárennslismálum í Kópavogi. Formið er nokkuð þekkt meðal skordýra, en litirnir eru eiginlega alveg út úr kú. Getur verið að fiskurinn sé bara að spá í formið og þess vegna veiðir Royal Coachman? Mér er sagt að grænn Coachman veiði ekkert síður en rauður og þá velti ég fyrir mér hvort al-svartur Coachman veiði og þá er ég að meina alveg svartur en hnýttur í Coachman-útlínum.

    Kannski eru allir þessi litir á flugum meira fyrir veiðimanninn heldur en fiskinn, hver veit. Mér dettur aftur á móti ekki í hug að mælast til þess að menn hætti að hnýta Royal Coachman, Royal Wulff eða aðrar litskrúðugar þurrflugur. Eiginlega þvert á móti, hnýtið nú eins margar þurrflugur og mögulegt er og notið þær eins oft og ykkur sýnist næsta sumar.

    Svartur Royal
    Svartur Royal

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Alveg að verða að flugu

    3. mars 2015
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Þegar mýið hefur fengið nóg af því að hanga á botninum sem lirfa hugar hún að umbreytingu í púpu. Þegar umbreytingunni er lokið losar hún sig upp af botninum, leitar ofar í vatnsbolinn og hættir sér út í óvissuna þar sem hungraður fiskurinn tekur oftar en ekki á móti henni. Þetta hljómar svolítið eins og fiskurinn sitji fyrir hverri einustu mýpúpu og hremmi hana um leið og hún hefur ferð sína upp á yfirborðið, en þannig er þetta í raun ekki.

    Toppflugan
    Toppflugan

    Hefðum við kost á og þol til að svamla undir yfirborði vatnsins snemma vors þegar vatnshitinn hefur stigið rétt yfir 4°C þá sæjum við heilu strókana af mýpúpum losa sig upp af botninum og berast út í vatnsbolinn. Hér gildir að fela sig innan fjöldans til að lifa af þetta stutta ferðalag upp að yfirborðinu. Ég hef hvergi séð hve hátt hlutfall mýpúpunnar lendir í fiskkjafti, en óábyrgt gæti ég skotið á að 80-90% púpa nær ekki upp að yfirborðinu og kemst til flugu. Þetta byggi ég aðeins á eigin lauslegri athugun þegar fluga klekst með því að telja flugur á u.þ.b. einum fermetra vatnsins. M.v. að á botninum getum við fundið 20.000 einstaklinga á hverjum fermetra, þá er eru það í besta falli 20% sem ná því að verða að flugu. Ég tek það skýrt fram að ég hef samt aldrei náð að telja 1000 flugur klekjast á yfirborði nokkurs fermetra, en þar kemur á móti að ég sat svo sem ekki lengi við og taldi. Hæst náði ég í 100 og þá ruglaðist ég.

    Mobuto
    Mobuto

    Á þessum árstíma erum við ekki alveg komin í þau spor að þurfa á flugum að halda sem eru eftirlíkingar mýpúpunnar, en það er rétt að huga að betri tíð og blómum í haga. Flugurnar sem við ættum að hafa tiltækar þegar mýpúpan er á ferli gætu t.d. verið Toppfluga Engilberts og Mobuto. Auðvitað koma Krókurinn og Kibbi þarna líka sterkt inn. Eru ekki allir örugglega með einhverja þessara í hnýtingu eða þegar klárar í boxi?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Litlar flugur, litlir fiskar?

    26. febrúar 2015
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Flugur sem notaðar eru í stóra fiska, eins og lax eru yfirleitt nokkru stærri heldur en þær sem við notum í silunginn. Undantekningar? Já, stórir ísaldarurriðar virðast vera hrifnari af stórum flugum. En hvort kom á undan, stór fluga og stór fiskur, eða stór fiskur og stór fluga? Rétt svar er; hvorugt. Það var nefnilega lítill fiskur sem kom fyrstur, svo stækkaði hann með því að éta lirfur, flugur og síli. Þegar hann var orðinn svo stór að minni fæða var honum ekki nóg, þá réðst hann á stærri fisk, dvergbleikju, murtu og seiði stærri bleikju. Þá tók vöxtur urriðanns kipp og veiðimenn þurftu færa sig upp um flugustærð. Ástæðan er óskaplega einföld, það er affærarsælast að bjóða fiskinum eitthvað sem hann ásælist, ekki smárétti þegar stórsteikur eru á boðstólum.

    Blóðormur
    Blóðormur

    En það eru nú samt til stórir fiskar sem sem éta smágerða fæðu og braggast bara nokkuð vel. Því megum við ekki gleyma að hnýta litlar flugur þessa dagana. Trúlega er mýið einhver smágerðasta fæða silungs sem við getum líkt eftir. Til að byrja með eru lirfur mýflugunnar af svipaðri stærð og krókur #18 og niður í #22, rauðar og hreyfa sig ekkert sérstaklega mikið á botninum. En, ekki gleyma því að þegar fiskur rótast í blóðormi á botninum, þá nær hann ekki að éta nema örlítinn hluta af því sem losnar af steinunum. Restin flýtur burt og getur verið á sveimi í vatninu innan um annað líf sem ekki er botnfast. Sem sagt; það má alveg draga Blóðorminn, hann þarf ekkert að liggja sem dauður á botninum. Og blóðormur þarf ekkert endilega að vera þyngdur, léttur Blóðormur sem leyft er að reka getur líka gefið fisk. Litlar flugur, litlir fiskar? Já, en ekki bara.

    Ummæli

    26.02.2015 – Sigurður Kr.: Áður en ég fór í fyrsta skipti upp í veiðivötn kom ég við í veiðibúð og bað um flugur sem virkuðu þar. Þegar afgreiðslumaðurinn lét mig fá Black ghost #2 með keiluhaus varð mér á orði að mig vantaði sko flugur, ekki rotara. „Stórir fiskar, stórar flugur“ var þá svarið sem ég fékk.Ég hef reyndar ekki enn kastað fyrrnefndum Black ghost en ég fékk fleiri flugur þarna í svipaðri stærð og fékk á þær fiska uppfrá. Þegar ég var úti í BNA fyrir nokkrum árum álpaðist ég inn í í stóra veiðibúð og kíkti á flugrnar hjá þeim. Þar var meðal annars hægt að fá svokallað „trophy trout collection“ og þar voru á ferð stórir og feitir streamerar. Greinilegt að kaninn trúir líka á „stórir fiskar, stórar flugur“. Svona streamerkall eins og ég stóðst ekki mátið og keypti náttúrulega einn svona pakka. Hef reyndar ekki fengið neinn trophy fisk á þetta en það er aldrei að vita.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 87 88 89 90 91 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar