FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Fiskur á þurru landi

    27. október 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Nú er vika liðin frá fyrstu grein minni um virkjanir í Neðri-Þjórsá og mér hefur því gefist tími til að lesa mér til um virkjun númer tvö; Holtavirkjun. Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin, þá hefur tilfinning mín fyrir þessum virkjunum ekki batnað við þann lestur, hvað þá tilkynningu Landsvirkjunar um ráðstöfun orkunnar úr Hvammsvirkjun sem kom fram aðeins tveimur tveimur dögum eftir að fyrsta grein mín birtist. Hvammsvirkun er sem sagt ætluð til kísilmálmvinnslu Thorsil í Helguvík. Ég læt liggja á milli hluta álit mitt á ráðstöfun orkunnar úr Þjórsá, þar greinir mig verulega á við forsvarsmenn Landsvirkjunar.

    Ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir fossum á Íslandi og það eitt að tilkoma Holtavirkjunar yrði til þess að þurrka tvo þeirra upp, Hestafoss og Búða, er eiginlega nóg til að ég er ósáttur við þessi áform. En fleira kemur vitaskuld til.

    Búðafoss - Mynd: Landsvirkjun
    Búði – Mynd: Landsvirkjun

    Hér að ofan má sjá samsetta mynd úr gögnum Landsvirkjunar sem nær til stíflunnar við Búða. Þarna var byggður fiskvegur árið 1991 sem hefur svo sannanlega skotið styrkari fótum undir laxagengd í Þjórsá. Ég get ekki skilið gögn Landsvirkjunar á annan veg en þessi fiskvegur verði óþarfur, því lítið sem ekkert vatn mun renna niður Búða eins og þó er sýnt á myndinni. Gangi áætlanir eftir um Holtavirkjun mun árfarvegurinn standa þurr nema í stærstu flóðum þegar hleypa þarf framhjá stíflunni.

    Áform þessarar virkjunar eru að nokkru frábrugðin Hvammsvirkjunar hvað varðar uppistöðulónið. Ekki er gert ráð fyrir jafn mikilli söfnun framburðar í Árneslón eins og í Hagalón og því gætu lífslíkur fiska verið eitthvað skárri, en þar kemur á móti að lónið yrði töluvert stærra og fjórðungur þess mundi sökkva víðfeðmu votlendi þar sem yfir 1000 varpfuglar hafa tekið sér bólfestu. Eins og þetta sé ekki nóg, þá hefði þessi virkjun í för með sér lengstan þurra kafla Þjórsár af öllum virkjunarkostunum þremur, 10 km. frá Búða og niður fyrir Árnessporð. Á þessum 10 km. kafla eru einhver stærstu búsvæði laxins í Þjórsá. Þessi kafli verður heldur rýr ef aðeins Kálfá rennur um hann frá gömlu ármótunum við Miðhúsahólma og það er lítil von til að fiskur fjölgi sér á þurru landi. Landsvirkjun hefur haldið því fram (MBL 23.03.2012) að mótvægisaðgerðir sem ráðist yrði í mundu tryggja fiskistofnum ásættanleg búsvæði í stað þeirra sem mundu eyðileggjast.

    Árnessporður - Mynd: Landsvirkjun
    Árnessporður – Mynd: Landsvirkjun

    Þessi fyrirhugaða virkjun hefur, rétt eins og Hvammsvirkjun, verið spyrt saman við Urriðafossvirkjun með þeim rökum að fyrrnefndu virkjanirnar séu forsenda Urriðafossvirkjunar með tilliti til ísstjórnunar í neðri hluta Þjórsár. Holtavirkjun hefur jafnvel verið tengd umræðu um jákvæð áhrif Urriðafossvirkjunar á framtíð laxastofns Þjórsár. Eitthvað er ég nú hræddur um að sú tenging sé á veikum grunni byggð og kýs því að leiða hana alfarið hjá mér þar til vísindalegar niðurstöður liggi fyrir, þ.e. heildstæðari en þær sem unnt er að nálgast í dag. Fiskirannsóknir á þessu svæði hafa að mestu leyti einskorðast við laxagengd í Kálfá, staðbundnir stofnar hafa orðið útundan í rannsóknum eins og áður er getið, það er engu líkara en skollaeyrum sem skellt við tilvist þeirra stofna.

    Holtavirkjun - Kort: verndumthjorsa.is
    Holtavirkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Svo fráleit sem áform um Holtavirkjun eru í mínum huga ætla ég að láta hér staðar numið. Það er vart eyðandi fleiri orðum í hugmynd að virkjun sem hefur jafn mikil spjöll í för með sér eins og þessi áform bera með sér. Ég vonast til að þessi virkjun verði fljótlega færð úr biðflokki í ruslið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Guð, hvað þetta er fallegt

    21. október 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Það er einkennilegt hve lítil augnablik geta greypt sig svo fast í minni að þau mást aldrei út. Ég á mér eitt svona augnablik, lítið andvarp sem ég deili með besta vini mínum. Þetta var fyrir nokkuð mörgum árum, fleiri en ég vil endilega tilgreina, að við hjónin vorum á ferð í Þjórsárdal á leið inn að Stöng með tjald, prímus og nesti. Þetta var á þeim árum sem þjóðvegurinn lá innan og yfir Gaukshöfða, leiðinlegur malarvegur, holóttur og beinaber. Rétt í þann mund sem við komum yfir höfðann heyrði ég hvar frúin greip andann á lofti, leit angurvært yfir dalinn þar sem hann lá baðaður í geislum kvöldsólarinnar fyrir framan okkur og hvíslaði; Guð, hvað þetta er fallegt. Þetta er augnablik sem gleymist aldrei. Ég efast ekki um að fleiri hafi fengið þessa tilfinningu og ég óska þess að enn fleirum gefist kostur á að upplifa hana um ókomin ár. Mögulega er því samt á annan veg farið því ásýnd þessa svæðis gæti tekið miklum stakkaskiptum til hins verra á næstu árum.

    Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun
    Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun

    Í lok september rann út frestur til að skila inn athugasemdum við umhverfismat á fyrirhugaðri Hvammsvirkjun í Þjórsá og nýttu 39 aðilar sér tækifærið. Persónulega hefði ég kosið að fleiri aðilar hefðu nýtt sér þennan frest, en það er e.t.v. ekki fjöldi athugasemda sem skiptir máli heldur það sem þær innihalda. Þó aðeins ein vel ígrunduð athugasemd hefði komið fram, ætti hún að vera nóg til þess að vekja ráðmenn til umhugsunar um gildi þessa svæðis fyrir annað en orkuframleiðslu.

    Eftir virkjun – Mynd: Landsvirkjun
    Eftir virkjun – Mynd: Landsvirkjun

    Áhugafólk um verndun Þjórsár hefur bent á ýmsa vankanta á fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta árinnar, allt frá sjónmengun til óafturkræfra áhrifa á lífríkið, dýr og plöntur.

    Frá því fiskvegurinn við Búða var opnaður árið 1991 hefur lax tekið sér bólfestu á svæðum í ánni sem lokuðust við jarðskjálftann árið 1896 og göngufiskur fært sig sífellt ofar í Þjórsá og þverár hennar. Þessarar fiskgengdar hefur orðið vart í Þverá, Sandá, Fossá og Minnivallalæk, veiðimönnum og náttúruunnendum til óblandinnar ánægju. Bæði lax og sjóbirtingur ganga nú í flestar, ef ekki allar þessara áa ofan Búða. Því hljómar það einkennilega að sjóbirtingurinn kemur lítið sem ekkert fram í niðurstöðum þeirra fáu rannsókna sem farið hafa fram á svæðinu, engar upplýsingar um stofnstærð né gönguhegðun og þar af leiðandi ekki gert ráð fyrir neinum mótvægisaðgerðum vegna hans. Það dugir ekki að skella skollaeyrum við tilvist birtingsins og láta eins og hann sé ekki til staðar. Endurskoðaðar áætlanir Landsvirkjunar gera ráð fyrir ‘stórum’ hverflum, gerð fiskfarvega og rennslisstýringu, allt eitthvað sem á að auðvelda fiskinum að ferðast… á pappírnum.

    En það má ekki gleyma því að í Þjórsá og þverám hennar eru líka stofnar staðbundins urriða og bleikju. Þær litlu rannsóknir sem gerðar hafa verið á göngufiski á þessum slóðum ná ekki til staðbundins fiskjar að því er ég best veit og því eru engar mótvægisaðgerðir á döfinni fyrir þann fisk sem á sér fasta búsetu á virkjanasvæðinu.

    Fyrir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
    Fyrir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Mönnum hefur orðið tíðrætt um þá hrygningarstaði sem opnuðust ofan Búða og inn að Viðey árið 1991 og það með réttu. Svæðið er talið henta einstaklega vel til hrygningar og hefur örugglega átt stóran þátt í að auka viðkomu laxa í Þjórsá. En þarna er ekki aðeins að finna lax; urriði og bleikja hafa haldið til á þessum slóðum svo áratugum ef ekki hundruðum skiptir. Stór hluti þessa svæðis mun þorna upp ef af Hvammsvirkjun verður, þ.e. alveg frá virkjun og niður að Ölmóðsey eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

    Eftir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
    Eftir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Geta má nærri að svæðið ofan virkjunar, svo kallað Hagalón nýtist fiski ekkert til hrygningar vegna framburðar sem þar safnast saman og myndar botnset sem drepur allt líf. Með tilkomu Hagalóns raskast um 68% af búsetusvæði fiska á virkjanasvæðinu og þar við bætist að rennsli á milli annarra fyrirhugaðra lóna verður aðeins brot af núverandi rennsli Þjórsár í farvegum hennar. Nefndar hafa verið tölur um 10 – 15 rúmmetra á sek. í stað 360 – 400 í eðlilegu árferði. Það gefur augaleið að svo lítið vatn dugir seiðum og hrognum ekki til lífs. Heildarárhrif virkjunarinnar á vatnasvæði Þjórsár, neðan Búrfells, nema um 30% Áhugasömum um vernd svæðisins er bent á mikið efni sem finna má á vefnum Verndum Þjórsá.

    Þegar ég nefni hér önnur fyrirhuguð lón á svæðinu hugsa ég til þess að Hvammsvirkjun er skv. minnisblaði OS; ..hluti af samfelldri heild virkjanasvæða. Vegna ísmyndunar í ánni þarf að byggja Hvammsvirkjun og Holtavirkjun á undan Urriðafossvirkjun. Hvammsvirkjun er aðeins fyrsta skrefið í keðju virkjana í Neðri-Þjórsá, hún er fyrsta skrefið í óafturkræfri eyðileggingu árinnar neðan Búrfells og trúlega sú sem mest áhrif hefur á lífríkið. Athugið, ég á eftir að skrifa greinarnar um Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, ég gæti hæglega skipt um skoðun þegar ég hef lokið lestrinum um þær virkjanir.

    Í sumar sem leið átti ég því láni að fagna að spreyta mig í veiði í Þverá við bæinn Fossnes. Í ármótum Þjórsár og Þverár er ótrúlegur veiðistaður þar sem staðbundinn fiskur, urriði og bleikja skjótast fram og til baka á milli bergvatnsins og jökulvatnsins auk þess sem göngufiskur, lax og sjóbirtingur stökkva í vatnaskilunum og gefa fyrirheit um kröftugar tökur. Þar sem ég stóð við ármótin og mátaði ýmsar flugur fyrir fiskinn, varð mér litið upp í hlíðina við afleggjarann að Gnúpverjavegi og sá hvar fyrirhuguð lónshæð er merkt með skilti. Verði að Hvammsvirkjun fer kletturinn sem ég stóð á undir vatn, nokkrar þúsundir tonna og væntanlega fá veiðimenn framtíðarinnar aldrei tækifæri til að njóta dásemda þessa svæðis. Ég vildi óska þess að önnur sjónarmið en peningar fái ráðið um framtíð Þjórsár og þess ótrúlega lífríkis sem þar er. Ég er hræddur um að uppistöðulón og varnargarðar fái ekki fólk til að andvarpa og segja; Guð, hvað þetta er fallegt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Bleikja er lax(fiskur)

    14. október 2015
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það er næstum ómögulegt að strippa straumfluguna á of miklum hraða fyrir urriðann. Hver þekkir ekki tökurnar þegar maður spólar síðasta kastið inn á hjólið í stað þess að beita hefðbundnum inndrætti. Auðvitað geta svona síðbúnar tökur verið rosalega svekkjandi þegar maður hefur jafnvel verið að berja vatnið svo klukkustundum skiptir án þess að verða var og svo spólar maður inn í fýlukasti og…. BANG, fiskur á.
    Í sumar sem leið tók veiðifélagi minn mig á örnámskeið í strippi. Nú bið ég lesendur um að róa sig, hér var um námskeið í inndrætti að ræða, ekki fatafellingum. Hvað um það, 99% af minni reynslu í fluguveiði hefur orðið til í silungsveiði þannig að ég hef ekki samanburð á strippi fyrir lax og silung. Af því sem ég hef þó séð, þá er það hreint og beint púl að strippa fyrir lax og eins og gott að hafa hraðar hendur. Nú sel ég ekkert, ekki einu sinni þann orðróm sem ég heyrði um árið að þetta ógnar stripp fyrir laxinn sé til að æsa hann til töku frekar en auglýsa eitthvert æti. Ég get svo sem samsvarað þetta að einhverju leiti við urriða. Stundum er einfaldlega nauðsynlegt að rífa fiskinn upp úr logmollunni og draga inn eins og ands…… sé á hælum flugunnar, þá tekur hann með látum og gefur ekkert eftir.

    Bleikjur
    Bleikjur

    En víkjum aftur að örnámskeiði í strippi. Veiðifélaga mínum er lagið að egna bleikjur til að taka litla Nobblera þegar ekkert annað virkar, helst bleika Nobblera. Ég svo sem þóttist geta þetta líka, setti nákvæmlega sömu fluguna undir og strippaði, ekkert gerðist. Ég sleppti öllum pásum á stippinu, ekkert gerðist. Ég jók hraðann á strippinu og ég fékk viðbrögð, fá veiðifélaganum; Þú verður að strippa hraðar. Hraðar? Nei, hættu nú alveg. Bleikjan hefur í mínum huga alltaf haft yfir sér stimpil rólyndis og yfirvegunar, heldur orkueyðslu í lágmarki og étur aðeins það sem er innan seilingar. Á ég nú að gera ráð fyrir því að hún noti sporðinn af einhverju offorsi og göslist á eftir flugu sem flengist í gegnum vatnið á einhverjum ógnar hraða?
    Ég lét það eftir félaga mínum og jók hraðann þar til mig var farið að verkja í öxl, arma og fingur. Auðvitað fékk ég bleikju og hef orðið að kyngja því fyrir lífstíð að bleikjan, þessi yndislega rólegi fiskur er greinilega af stofni laxfiska og getur því svipað hressilega til ættingja sinna, urriða og lax, þegar kemur að fæðuöflun.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Steiktur, reyktur, soðinn og …

    7. október 2015
    Matur

    Upp

    Forsíða

    Mér liggur við að segja að því miður fjaraði áhugi minn á fiski allsnarlega út eftir að hafa unnið í fiskvinnslu sem unglingur. Svo sterkt hefur eimt af þessari ládeyðu að ég legg mér nánast aðeins til munns þann fisk sem ég hef sjálfur veitt og verkað. En einn maður getur vart étið á annað hundrað fiska yfir sumarið og því ferð stór hluti aflans í frystinn til síðari tíma. Töluvert fer í reyk og er deilt þannig með vinum og vandamönnum, annað er eldað eftir hentugleikum. Þannig getur afli sumarsins nýst vel fram undir og rétt framyfir áramótin. Mikið lengur getur maður ekki geymt fisk í frysti án þess að eiga það á hættu að hann skemmist.

    Ein er þó sú geymsluaðferð sem ég hef lengi ætlað að prófa og það er þurrkun. Fyrir nokkrum árum gaukaði vinsamlegur veiðimaður að mér þurrkaðri bleikju á bökkum Frostastaðavatns og frá þeim tíma hef ég alltaf ætlað að prófa þetta. Ég efast ekki um að fleiri veiðimenn hafa prófað að þurrka silung og eflaust eru nokkrar aðferðir notaðar, hver hefur sitt lagið á þessu og skiptir væntanlega litlu hvernig þetta er framkvæmt, svo lengi sem útkoman er góð.

    Allur ferskvatnsfiskur getur borið með sér sníkjudýr sem geta tekið sér bólfestu í spendýrum og því er rétt að snyrta fiskinn vel og frysta áður en hafist er handa við þurrkun.

    Fyrst af öllu útbý ég pækil með 100 gr. af salti í 1,5 ltr. af vatni. Þetta magn dugar ágætlega fyrir u.þ.b. 20 flök af undirmálsfiski, þ.e. fiski undir 500 gr. sem hentar einmitt ágætlega til þurrkunar, jafnt bleikja sem urriði.

    Skorið í flökin
    Skorið í flökin

    Næst tek ég afþýdd flökin og sker þvert á þau inn að roði með u.þ.b. 1,5 sm. millibili. Þetta er gert til þess að fiskurinn þorni hraðar og jafnar. Eftir að öll flökin hafa verið þverskorin og spyrðubönd þrædd í hvert þeirra, læt ég þau liggja í pæklinum í 10 – 15 mín.

    Flökin í pækil
    Flökin í pækil

    Svona rétt á meðan flökin liggja í pæklinum ætla ég að nefna að með því pækla fiskinn verður bragðið af honum skarpara auk þess sem saltið virkar sem rotvörn rétt á meðan fiskurinn nær að þorna. Annar kostur, ekki síðri er að saltið heldur lykt í algjöru lágmarki á meðan á þurrkun stendur, nokkuð sem ég hafði áhyggjur af í byrjun, þar sem ég þurrka fiskinn innandyra.

    Komið í þurrk
    Komið í þurrk

    Til að hengja flökin upp hef ég fest nokkra króka undir hillu við hitaveitugrindina í bílskúrnum þar sem flökin fá að hanga í rúmlega viku eða þar til þau eru þurr í gegn. Sumir þurrka fisk utandyra eða í kaldri útigeymslu en þá verður að gæta þess að fluga komist ekki í fiskinn og því eins gott að velja svalari árstíma. Hitastig hefur auðvitað mikil áhrif á þann tíma sem það tekur að þurrka fiskinn og ekki síður hvort einhver hreyfing sé á loftinu. Staðið, kalt loft verður til þess að þurrkun tekur nokkuð lengri tíma.
    Að þurrkun lokinni er það smekksatriði og undir styrkleika tanna komið hvort flökin eru barinn eða neytt sem bitafiskur. Hvort sem verður ofan á þá roðríf ég fiskinn og set í box eða poka og þannig ætti hann að geymast í frysti eins lengi og vill. Reyndar hefur ekkert af þeim fiski sem ég hef þurrkað hingað til náð því að fara í frysti, svo vinsæll hefur hann verið hjá þeim sem hafa smakkað.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Furðufuglar

    22. júlí 2015
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Og enn heldur maður áfram á að furða sig á dýrum merkurinnar, nú eru það apakettir. Þegar kemur að veiðinni þá apa ég oft ýmislegt eftir öðrum, stundum með árangri en oft ekki. Þannig er að þegar maður fær leiðbeiningar um góðan veiðistað, flugu eða veiðiaðferð, þá vantar oft eitthvað í jöfnuna. Góður staður með ákveðna flugu og ákveðnum inndrætti virkar mögulega mjög vel hjá einum en alls ekki hjá öðrum. Ein ástæða þessa getur einfaldlega verið að á meðan vinur minn er á staðnum og veiðir vel, þá er ég þar ekki. Til að gefa vini mínum frið, þá kem ég síðar og þá er veðrið kannski ekki það saman, tími sólarhringsins annar og þess vegna fæ ég ekki neitt með sömu flugu og inndrætti.

    Um daginn fór ég í Veiðivötn, þann dásamlega stað. Í vopnabúrinu voru hægsökkvandi línur, sökktaumar og stórar þungar flugur. Leiðbeiningarnar sögðu mér að þessu ætti að koma niður, niður og helst ennþá neðar til að egna fyrir fiskinn. Apakötturinn ég fór eftir þessu en það gerist bara ekkert, eða næstum því. Ég fékk nart, og annað en svo festi ég í grjóti þannig að ég tapaði þeirri flugu. Ef einhver húkkar í gyltan Nobbler #4 í Litlasjó, þá er hann í boði mínu.

    Það var ekki fyrr en ég frétti í gegnum veiðifélaga minn að menn væru að pikka upp fisk með því að nota léttar straumflugur í yfirborðinu á urrandi strippi að ég fór að taka fisk. Svona getur nú apakötturinn í manni farið illa með mann.

    En ég kynntist líka öðrum apaketti í Veiðivötnum. Sá hafði komið sér fyrir með tvær kaststangir á töluverðri strandlengju, kannski þetta 250 – 300 m. langri og hljóp á milli þeirra eins og hann ætti lífið að leysa til að skipta um beitu og henda aftur út. Þegar við veiðifélagarnir höfðum græjað okkur fórum við nokkuð vel til hliðar við ytri stöngina hans og byrjuðum að veiða okkur frá þeim stað og út með ströndinni. Á einu augabragði var beitukóngurinn mættur við ytri stöngina, dró í land með miklum hraði og tók fram flugustöng og byrjaði að kasta langt og ákveðið í átt að veiðifélaga mínum. Ég staldraði við og reyndi að meta vegalengdina á milli félaga míns og mannsins og taldi hana yfirdrifna svo við værum ekki að ógna óðalinu sem hann hafði helgað sér. Samt sem áður tók hann til við að vaða ákveðið í átt að okkur og hélt áfram að kasta flugunni eins og hann ætti lífið að leysa.

    Þá rann upp fyrir mér ljós, þessi ágæti veiðimaður var alveg eins mikill apaköttur og ég, nema hann hafði tekið upp siði himbrima á hreiðri, þandi út vængina og gerði sig eins breiðan og unnt var til að hræða okkur í burtu. Ég ber mikla virðingu fyrir himbrimanum þegar hann ver hreiður sitt þannig að við vikum kurteislega úr kastfæri þessa ágæta manns og skömmu síðar var hann á bak og burt með báðar kaststangirnar og fluguna. Óðalið stóð eftir, húsbónda- og væntanlega fisklaust eftir allan busluganginn. Ég vona að við höfum ekki stimplað okkur inn í Veiðivötnin sem uppáþrengjandi veiðidóna með því að koma okkur fyrir í grennd við þennan ágæta veiðimann en það er greinilega misjafnt mat manna á æskilegu bili á milli stanga. Því miður á ég ekki mynd af röð veiðimanna á Lönguströnd við Litlasjó til að birta hér, en þar var nokkuð þétt setinn bekkurinn og virtist fara vel á með mönnum þrátt fyrir nándina.

    Ekta himbrimi
    Ekta himbrimi

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Dónar

    15. júlí 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Það lá við að ég hoppaði hæð mína þegar ég renndi í fljótheitum yfir fréttir liðinnar viku. Loksins er að komast á skrið vitundarvakning um að banna dóna á veiðistöðum. Nú síðast var það Landssamband veiðifélaga sem vakti máls á þessu vandamáli. Veiðidónar eru til af ýmsum gerðum; Færðu þig, þetta er minn staður – Æ, það kemur einhver og tekur upp ruslið eftir mig, mamma? – Er ekki pláss fyrir einn enn á milli ykkar hjóna? og svo má lengi telja.

    Að vísu rann fljótlega upp fyrir mér að mér hafði yfirsést einn bókstafur í fyrirsögninni, þetta voru víst drónar sem menn vildu banna. Jæja, það er alveg eins hægt að hella úr skálum reynslu sinnar af drónum eins og dónum. Eins skemmtileg og tæknin er, þá get ég alveg tekið undir með LV að drónar eiga lítið erindi á veiðistaði, nema þá veiðimenn og flugstjórar séu í þægilegri fjarlægð frá öðrum og valdi ekki ónæði með suði og lágflugi yfir hausum annarra.

    Ég er annars lítið fyrir að setja boð og bönn um hitt og þetta sem í raun á að vera innifalið í almennri skynsemi og kurteisi. Það að raska kyrrð og ró næsta veiðimanns með óþarfa látum og nærgengi (nærgöngull, ganga nærri næsta manni) er einfaldlega eitthvað sem á ekki að þurfa að binda í lög og reglur. Mér er reyndar skapi nær að biðja menn um að horfa til himins á björtum degi á Þingvöllum eða inni á hálendi og leiða þá hugann að því hvort ekki sé rétt að setja einhverjar reglur um flug trukka yfir veiðistað, sjá grein mína frá í febrúar á þessu ári.

    En vitaskuld verður eitthvað að gera, því á meðal okkar veiðimanna finnast ekki aðeins dónar og drónar, heldur einnig flón sem láta alltaf eins og þeir séu einir í heiminum. Það verður víst seint hægt að setja reglur sem banna þess háttar veiðimenn, við verðum víst bara að bíða eftir því að þeir þroski með sér smá kurteisi.

    fos_flon

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 85 86 87 88 89 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar