Á árum áður stóð Landmönnum og Gnúpverjum mikill stuggur af systrum tveim í Búrfelli og Bjólfelli. Litlum sögum hefur farið af þeirri yngri eftir að sú úr Búrfelli sprakk á hlaupunum við Tröllkonugil hér um árið. Síðan þetta var hefur verið nokkuð rólegt yfir Þjórsárdal, ef undan eru skilin nokkur meinleysisleg gos í Heklu og skvettur úr Þjórsárhlaupum á árum áður. En það vill stundum gerast að óvættir taki sig upp þar sem hagsæld er mikil og nú eru það þrír óvættir sem herja á dalinn neðan Búrfells; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.

Það er með eindæmum hve lífseigir þessir óvættir geta verið. Þeir risu upp skömmu eftir 1900 og voru þá kveðnir niður af almannarómi en hafa nú rumskað á ný undir nýjum nöfnum. Umbúðirnar eru endurnýjaðar í hvert skipti sem þessar tillögur eru lagðar fram til nýtingar, en innihaldið er alltaf það sama. Fátt fer eins í pirrurnar á mér eins og að þurfa að svara sömu spurningunni trekk í trekk, eingöngu vegna þess að spyrjandinn væntir annars svars í hvert skipti sem hann spyr. Mitt svar er; nei, takk.

Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár – Kort: verndumthjorsa.is
Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár – Kort: verndumthjorsa.is

Á liðnum vikum hef ég birt hér þrjár greinar, eina fyrir hverja virkjunartillögu sem lögð hefur verið fram til Rammaáætlunar. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að ég er ekki sérlega ginkeyptur fyrir þessum hugmyndum, mér þykir einfaldlega nóg komið. Náttúru Íslands ætti ekki að setja á útsölu fyrir erlenda iðjuhölda sem sækjast eftir ódýrri raforku og ónýttum mengunarkvótum.

Þessum þremur virkjunum hefur verið teflt fram sem sjálfstæðum einingum, en með miklum samlegðaráhrifum og þannig er ríflega gefið í skyn að ef af einni verður, þá þarf að verða af þeim öllum. Samt sem áður hefur skort á heildstætt mat á umhverfisáhrifum þessara þriggja virkjana. Til hafa verið týnd ýmis rök með og á móti hverri virkjun fyrir sig, en stóru myndina vantar. Sem dæmi um brenglaða tölfræði má nefna að lífslíkur laxaseiða sem fara í gegnum hverfla einnar virkjunar eru sögð 80 – 95%. Stóra myndin er eftir sem áður sú að flest þessara seiða þyrftu að fara í gegnum hverfla þriggja virkjana á leið sinni til sjávar og þá eru lífslíkur þeirra á bilinu 51 – 80%. Skiptir þá litlu hve stórir hverflar eru settir í virkjanirnar. Ef við tökum svo þrýstinginn í aðrennslispípum virkjananna með í reikninginn þá er næsta víst að einungis helmingur þeirra lifið ferðalagið af og nái til sjávar. En þetta er bara hálf sagan, þessi seiði eiga síðan eftir að skila sér til baka úr sjógöngu. Til þess að ná til einu ósnertu búsvæða árinnar þurfa þau að ganga upp fyrir þrjár stíflur og í gegnum jafn mörg uppistöðulón. Ég gæti ekki annað en fyllst stolti yfir íslenskum laxfiskum ef þeim tekst þetta án annarra 50% affalla. Annað eins afrek hefur aldrei verið skráð í heiminum.

Nú kann einhver að spyrja hvar öll mín rök séu fyrir þessum fullyrðingum og það er ekki nema eðlilegt. Mikið efni um þessar fyrirhuguðu virkjanir má finna á vef Landsvirkjunar hér og hér, á vef Orkustofnunar, hjá Verkefnastjórn um Rammaáætlun og samtökunum Verndum Þjórsá. Einstaklega áhugaverður fyrirlestur dr. Margaret J. Filardo í HÍ hefur einnig verið mér hugleikinn. Upptöku af fyrirlestrinum má nálgast á vef HÍ með því að smella hér. Auk þessa hafa einstaklingar borið á borð fyrir okkur margar góðar greinar og samantektir á liðnum árum. Sem dæmi má nefna Hvammsvirkjun eftir Árna Árnasonar frá því í apríl 2015 sem nálgast má hér. Góð grein og vel rökum studd.

En ein eru þau rök sem ég hlusta mest á og met mikils. Það eru orð þeirra sem þekkja Þjórsá og nágrenni hennar betur en flestir aðrir, þeir sem þar búa. Málsvarar 28 bæja beggja vegna Þjórsár hafa lýst miklum efasemdum með áform um virkjanir í Neðri-Þjórsá. Þetta eru raddir sem mark er á takandi, fólk sem þekkir Þjórsá og lífríkið í nágrenni hennar af eigin raun. Þetta eru raddirnar sem stjórnvöld eiga að hlusta á, ekki þeirra sem einungis sjá verðmæti Þjórsár í kílóvattstundum, krónum og aurum. Ég leyfi mér að hvetja lesendur til að gefa grein í Bændablaðinu frá því í mars 2015 góðan gaum. Greinina má nálgast hér.

Íslensk náttúra hefur ótrúlegt aðdráttarafl, óspillt. Hér er að finna einhver stærstu ósnertu víðlendur í Evrópu, fjöll, ár og vötn sem draga að sér athygli og áhuga heimsbúa umfram allt annað sem Ísland hefur að bjóða. Íslendingum ber að varðveita þessa auðlind, við skuldum komandi kynslóðum ýmislegt og það er óþarfi að bæta óorðnum náttúruspjöllum á þann reikning. Um þessar mundir nýtur Ísland áhuga heimsbyggðarinnar eftir brókarbað hins Kanadíska Biebers. Af þeim ríflega 23.000.000 sem hafa horft á umrædda klippu hafa ótrúlega margir einblínt á og spurst fyrir um þetta ótrúlega land, náttúruna og umhverfið. Forsvarsmenn ferðamála hafa keppst við að lofa þessa ókeypis auglýsing og bent á að þetta sé 23 sinnum meira áhorf heldur en náðst hefur að Inspired by Iceland. Hversu margir ætli hafi ráðgert ferðalag til Íslands eftir að hafa rekist á kynningarmyndbönd Landsvirkjunar á síðustu árum?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.