Á fyrri hluta 20. aldar voru uppi áform um virkjun Urriðafoss. Fossfélag Einars Benediktssonar hafði þá uppi stórkallaleg áform um virkjanir í Þjórsá og járnbraut frá Reykjavík þangað austur.

Urriðafossvirkjun - Mynd: G. Sætersmoen, Vandkraften i Thjorsá elv, Island 1918
Urriðafossvirkjun – Mynd: G. Sætersmoen, Vandkraften i Thjorsá elv, Island 1918

Vegna almennrar andstöðu varð ekkert úr þessum áformum Fossfélagsins og um langan aldur höfum við fengið að njóta neðrihluta Þjórsár óspilltrar að mestu. En almenningur var ekki lengi í paradís og enn og aftur eru uppi hugmyndir um virkjun við Urriðafoss. Þau áform sem nú eru uppi eru ekki síður stórkallaleg og eru lýsandi dæmi um þá endalausu kröfu sem virðist vera sett á okkur að þurfa að berjast fyrir því að halda náttúrunni, því verðmætasta sem við eigum, óspjallaðri af arðsemisárásum og orkuþörf erlendra iðnrekenda.

Urriðafoss og umhverfi hans er einstaklega vel staðsett við Hringveginn okkar, rétt neðan brúarinnar yfir Þjórsá. Þar mætti byggja veglega aðstöðu fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda, því þarna er margt áhugavert að sjá. Þarna fellur þessi vatnsmesti foss landsins fram af tæplega 250 metra breiðum misgengisstalli í ánni þar sem hún sker stærsta samfellda hraun sem runnið hefur á jörðinni á sögulegum tíma, Þjórsárhraun. Óvíða er hægt að berja þetta hraun jafn glöggt augum eins og rétt ofan við Urriðafoss þar sem það gægist undan yngri jarðlögum. Aðdráttarafl fossins og umhverfisins er óumdeilt hjá þeim sem þangað hafa komið.

Fyrirhugað virkjanastæði Urriðafossvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun
Fyrirhugað virkjanastæði Urriðafossvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun

Um langan aldur hefur lax og sjóbirtingur gengið upp Urriðafoss, nýtt sér vatnsmagn hans til þess að komast ofar í Þjórsá eins langt og fiskgengt hefur verið hverju sinni. Mestar líkur eru á að fiskur hafi haft þennan hátt á frá upphafi vega og í það minnsta fram til 1896 þegar farvegur árinnar breyttist við jarðhræringar. Sá tálmi var endanlega yfirstiginn árið 1991 og nú nær göngufiskur aftur til efri svæða árinnar, þó sagnir hermi að hann hafi eftir sem áður gert hjálparlaust fram til 1991. Verði Þjórsá leidd í jarðgöngum frá fyrirhugaðri virkjun og niður fyrir Urriðafoss er eins víst að algjört hrun verði í þessum stærsta sjálfbæra laxastofni á Íslandi nema til stórkostlegra mótvægisaðgerða komi. Enn sem komið er hafa þessar aðgerðir ekki verið rannsakaðar né kortlagðar sem skildi. Mjög skiptar skoðanir eru á hugmyndum Landsvirkjunar um seiðafleytu við stífluna og allsendis óvíst að niðurgöngufiskur lifi ferðalag og fallhæð í slíku mannvirki af. Og þá á fiskurinn enn eftir að komast upp þann fiskveg sem byggja þyrfti. Enn og aftur er óvilhallra rannsókna þörf.

Fyrirhuguð Urriðafossvirkjun – Kort: verndumthjorsa.is
Fyrirhuguð Urriðafossvirkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Eftir því sem ég kemst næst yrði uppistöðulón Urriðafossvirkjunar rétt ríflega 12 ferkílómetrar að stærð. Þetta er næstum því jafn stórt og Skorradalsvatn eða Apavatn svo stærðin sé sett í samhengi við vötn sem lesendur þekkja. Þetta uppistöðulón mun færa á kaf gróið land og mýrar auk þess sem uppgreftri úr árfarveginum, efni sem til fellur við gangagerð ásamt seti úr lóninu yrði komið fyrir í grennd við lónstæðið, umhverfinu til lýtis og með töluverðri hættu á foki.

Urriðafossvirkjun hefur stundum verið nefnd punkturinn yfir i-ið í virkjunum Þjórsár. Mér er skapi nær að kalla hana skömmina sem bítur fórnarlambið.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.