Fiskur á þurru landi

Nú er vika liðin frá fyrstu grein minni um virkjanir í Neðri-Þjórsá og mér hefur því gefist tími til að lesa mér til um virkjun númer tvö; Holtavirkjun. Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin, þá hefur tilfinning mín fyrir þessum virkjunum ekki batnað við þann lestur, hvað þá tilkynningu Landsvirkjunar um ráðstöfun orkunnar úr Hvammsvirkjun sem kom fram aðeins tveimur tveimur dögum eftir að fyrsta grein mín birtist. Hvammsvirkun er sem sagt ætluð til kísilmálmvinnslu Thorsil í Helguvík. Ég læt liggja á milli hluta álit mitt á ráðstöfun orkunnar úr Þjórsá, þar greinir mig verulega á við forsvarsmenn Landsvirkjunar.

Ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir fossum á Íslandi og það eitt að tilkoma Holtavirkjunar yrði til þess að þurrka tvo þeirra upp, Hestafoss og Búða, er eiginlega nóg til að ég er ósáttur við þessi áform. En fleira kemur vitaskuld til.

Búðafoss - Mynd: Landsvirkjun
Búði – Mynd: Landsvirkjun

Hér að ofan má sjá samsetta mynd úr gögnum Landsvirkjunar sem nær til stíflunnar við Búða. Þarna var byggður fiskvegur árið 1991 sem hefur svo sannanlega skotið styrkari fótum undir laxagengd í Þjórsá. Ég get ekki skilið gögn Landsvirkjunar á annan veg en þessi fiskvegur verði óþarfur, því lítið sem ekkert vatn mun renna niður Búða eins og þó er sýnt á myndinni. Gangi áætlanir eftir um Holtavirkjun mun árfarvegurinn standa þurr nema í stærstu flóðum þegar hleypa þarf framhjá stíflunni.

Áform þessarar virkjunar eru að nokkru frábrugðin Hvammsvirkjunar hvað varðar uppistöðulónið. Ekki er gert ráð fyrir jafn mikilli söfnun framburðar í Árneslón eins og í Hagalón og því gætu lífslíkur fiska verið eitthvað skárri, en þar kemur á móti að lónið yrði töluvert stærra og fjórðungur þess mundi sökkva víðfeðmu votlendi þar sem yfir 1000 varpfuglar hafa tekið sér bólfestu. Eins og þetta sé ekki nóg, þá hefði þessi virkjun í för með sér lengstan þurra kafla Þjórsár af öllum virkjunarkostunum þremur, 10 km. frá Búða og niður fyrir Árnessporð. Á þessum 10 km. kafla eru einhver stærstu búsvæði laxins í Þjórsá. Þessi kafli verður heldur rýr ef aðeins Kálfá rennur um hann frá gömlu ármótunum við Miðhúsahólma og það er lítil von til að fiskur fjölgi sér á þurru landi. Landsvirkjun hefur haldið því fram (MBL 23.03.2012) að mótvægisaðgerðir sem ráðist yrði í mundu tryggja fiskistofnum ásættanleg búsvæði í stað þeirra sem mundu eyðileggjast.

Árnessporður - Mynd: Landsvirkjun
Árnessporður – Mynd: Landsvirkjun

Þessi fyrirhugaða virkjun hefur, rétt eins og Hvammsvirkjun, verið spyrt saman við Urriðafossvirkjun með þeim rökum að fyrrnefndu virkjanirnar séu forsenda Urriðafossvirkjunar með tilliti til ísstjórnunar í neðri hluta Þjórsár. Holtavirkjun hefur jafnvel verið tengd umræðu um jákvæð áhrif Urriðafossvirkjunar á framtíð laxastofns Þjórsár. Eitthvað er ég nú hræddur um að sú tenging sé á veikum grunni byggð og kýs því að leiða hana alfarið hjá mér þar til vísindalegar niðurstöður liggi fyrir, þ.e. heildstæðari en þær sem unnt er að nálgast í dag. Fiskirannsóknir á þessu svæði hafa að mestu leyti einskorðast við laxagengd í Kálfá, staðbundnir stofnar hafa orðið útundan í rannsóknum eins og áður er getið, það er engu líkara en skollaeyrum sem skellt við tilvist þeirra stofna.

Holtavirkjun - Kort: verndumthjorsa.is
Holtavirkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Svo fráleit sem áform um Holtavirkjun eru í mínum huga ætla ég að láta hér staðar numið. Það er vart eyðandi fleiri orðum í hugmynd að virkjun sem hefur jafn mikil spjöll í för með sér eins og þessi áform bera með sér. Ég vonast til að þessi virkjun verði fljótlega færð úr biðflokki í ruslið.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com