FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Bandormar í fiski

    12. mars 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Bandormur fjárlaga er nokkuð þekkt fyrirbæri þar sem ein breyting í fjárlögum hefur keðjuverkandi áhrif á önnur lög sem þarf því að breyta. Margir hafa horn í síðu þessa bandorms, treysta ekki alveg öllu sem laumast þarna inn og getur haft áhrif á allt annað en það sem upphafleg fjárlög innihéldu. Það sama má segja um bandorm í náttúrunni. Hann er ótukt sem smitað getur hressilega út frá sér.

    Nokkuð reglulega senda veiðimenn frá sér myndir af innyflum fiska og spyrjast fyrir um hvað sé eiginlega á ferðinni, fullt af hvítum kúlum og allt gróið saman. Flesta þessara samgróninga má rekja til bandorma. Þeir teljast til flatorma, Plathelminthes og hreiðra um sig í iðrum manna og dýra. Fjöldi bandormstegunda finnast í fiski á og við Ísland. Bandormar sækja alla sína næringu til hýsilsins og festa sig gjarnan í líffæri hýsilsins með krókum sem eru staðsettir á höfði ormsins.

    Samgróningar í bleikju – © Eiður Kristjánsson
    Samgróningar í bleikju – © Eiður Kristjánsson

    Bandormur í fiski er útbreiddur á Íslandi. Hér á landi finnast nokkrar tegundir bandorma en segja má að tvær þeirra séu kunnastar; Eubothrium (skúformur) og Diphyllobothrium (fiskiandarmaðkur / laxamaðkur).

    Skúformur finnst nánast í öllum laxfiski á Ísland svo einfalt er það. Ormurinn notar laxfiska sem lokahýsil á lífsleiðinni og hefst helst við í meltingarvegi þeirra, gjarnan í skúflöngum og þaðan fær hann viðurnefni sitt. Egg ormsins berasta út í vatnið með saur fisksins þar sem þau eru étin af örsmáum krabbadýrum þar sem ormurinn þroskast. Hringrásin lokast svo við að sviflægur fiskur étur þessi krabbadýr eða verður sjálfur stærri fiski að bráð. Hér á landi finnast tvær tegundir skúforma, önnur herjar helst á bleikju en hin á urriða og lax. Sú síðar nefnda getur orðið allt að 1 metra að lengd, en sú fyrri aðeins þriðjungur þeirrar lengdar. Fiskur drepst sjaldnast þótt sýktur sé, en sé sýkingin veruleg dregur óhjákvæmilega úr vexti fisksins þar sem töluverð næring fer til ormsins og mótstöðuafl fiskins gegn sjúkdómum þverr. Skúformur og fiskiandarmaðkur eiga það sameiginlegt að þeir ganga sjaldnast það nærri lokahýsil að hann drepist, því það er þeim í hag að lokahýsill geti fóstrað eins marga kynþroska orma og hægt er.

    Lífsferill fiskiandarmaðks er örlítið flóknari heldur en skúformsins. Þessir ormur nýtir fisk sem millihýsil því lokahýsill er fiskiæta, fuglar og spendýr. Egg berast frá lokahýsil í vatn með saur þar sem smágerð krabbadýr éta þau, rétt eins og í lífsferli skúforms. Í tilfelli fiskiandarmaðksins eru krabbadýrin aftur á móti étin af millihýsil, fiski þar sem lirfurnar brjóta sér leið út úr meltingarveginum og dreifa sér um kviðarhol hans. Lirfurnar hjúpa sig hvítleitum þolhjúp, yfirleitt kúlulaga og bíða þess að fiskurinn verði étinn af lokahýsil þar sem ormurinn nær kynþroska og fjölga sér. Verði sýking í fiski veruleg, getur ormurinn breiðst út í hold hans, þunnildi og flök, ásamt því að innyfli gróa saman og fiskurinn verður ófrjór. Ekki er óalgengt að fiskurinn verði horaður, kviðmikill og slappur sem gerir hann að auðfenginni bráð, hvort heldur annarra fiska eða lokahýsils.

    Fiskifræðingar hafa orðið varir við beint samhengi smits og fjölda fugla á og við vötn og því er um að gera fyrir veiðimenn að ganga tryggilega frá slógi og rjúfa þannig hringrás ormsins í náttúrunni.

    Hvorug þessara tegunda bandorms eru hættulegar mönnum, en það er vel skiljanlegt að menn veigri sér við að éta mikið sýktan fisk. Um matseld fisks gilda hér sömu reglur og við hringormi, frystið og/eða hitið fisk upp fyrir 70°C, það drepur orminn.

    Heimildir

    Eldisbóndinn – Eldi bleikju, Hólaskóli

    Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Stífleiki tauma

    6. mars 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Línuframleiðendur leggja mikinn metnað í hönnun, efnisval og frágang lína sinna áður en þær fara á markað. Það sama má segja um framleiðendur tauma og taumaefnis. Það er síðan undir veiðimanninum komið að para hvoru tveggja rétt saman.

    Sjálfur hef ég oft lent í því að vera með of stífan taum fyrir einhverja ákveðna línu, taum sem passar fullkomlega með annarri. Hér er ég ekki að tala um sverleika taums á móti línu, heldur stífleika. Oft var það ekki fyrr en í fyrstu köstunum að ég tók eftir þessum mistökum mínum. Framsetning flugunnar var eitthvað einkennileg og mýkra eða snarpara kast lagaði ekki málið. Það er trúlega hvergi eins áríðandi að allt passi saman eins og þegar maður veiðir þurrflugu, þá verður allt að passa svo flugan líði um loftið, stöðvist án áreynslu og leggist rólega á vatnið.

    Linur, mátulegur, stífur
    Linur, mátulegur, stífur

    Ágætt ráð til að kanna hvort stífleiki taums sé passandi er að mynda lykkju taums og línu þannig að samsetningin sé á toppnum. Ef taumurinn lekur niður af samsetningunni er hann of linur. Ef hann setur beygju á línuna er hann of stífur. Þarna rétt á milli, ef taumurinn kemur eins og eðlilegt framhald af línunni, heldur svipuðum boga og hún, þá er hann mátulegur. Einfalt og gott ráð til að máta taum og línu saman áður lagt er af stað í fyrsta kast.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hringormar í fiski

    2. mars 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Umræða og fyrirspurnir um sníkjudýr í silungi kemur reglulega fram á sjónarsviðið, einkum þegar veiðimenn verða varir við svæsnar sýkingar í fiski. Ég játa það fúslega þekking mín á sníkjudýrum í fiski hefur hingað til verið heldur yfirborðskennd og mörkuð af reynslu minni úr fiskvinnslu sem unglingur og því hef ég freistast til setja alla þessa óværu undir sama hatt. En svo er nú ekki.

    Áður en lengra er haldið, skal það tekið fram að við efnisöflun fyrir þessa samantekt las ég ógrynni fyrirspurna og svara á ýmsum spjallvefjum um þetta efni. Ekkert af því sem ég set hér fram er ættað af umræðuvefjum, þess í stað hef ég leyft fréttum sem hafa komið fram á síðustu árum að leiða mig áfram að greinum og rannsóknum lærðra manna. Heimilda er getið í niðurlagi.

    Hringormar er safnheiti yfir sníkjuþráðorma (Nematoda) sem fullorðnir lifa í maga villtra spendýra við Ísland. Þeir sem mest áberandi hafa verið í umræðunni eru; Anisakis simplex (hvalormur, síldarormur) og Pseudoterranova decipiens (selormur, þorskormur). Minna hefur farið fyrir t.d. Contracaecum osculatum og Phocascaris cystophorae sem hvorugur hefur fengið íslensk viðurnefni að því er ég best veit. Lífsferill hringorma skiptist í fimm stig. Fullorðinn lifir ormurinn í maga sjávarspendýra (lokahýsill) og þaðan berast egg hans út í sjó með saur hýsilsins þar sem krabbadýr (millihýsill) éta þau. Í millihýsil taka lirfurnar hamskiptum, þroskast og stækka þar til þriðja stigi er náð. Þá eru þær orðnar smithæfar og éti fiskur (burðarhýsill) þetta krabbadýr, tekur ormurinn sér bólfestu í fiskinum, upprúllaður og hættir að þroskast. Á þessum tímapunkti er t.d. hvalormurinn orðinn 2 – 4 sm. langur og kominn með gadda á fram- og afturenda sem auðvelda honum að rjúfa sér braut um vefi fisksins. Éti lokahýsill þennan smitaða fisk tekur það orminn aðeins örfáa daga að þroskast yfir á fjórða stig og ná kynþroska sem er fimmta og síðasta stig lífsferilsins. Fullþroska ormar lifa í 3 – 7 vikur í lokahýsil og geta af sér allt að 7500 egg á dag.

    Hvalormur í lifur þorsks - Anisakis simplex © Hans Hillewaert
    Hvalormur í lifur þorsks – Anisakis simplex © Hans Hillewaert

    Þekktir hýslar hringorma eru m.a. ránfiskar (þorskur, langa, steinbítur, keila) sjófuglar, selir, hvalir og sjógengnir laxfiskar (sjóbirtingur, sjóreiður og lax). Hvalormur finnst nánast eingöngu í innyflum ferskra fiska. Ef fiskurinn er aftur á móti geymdur óslægður í einhvern tíma, taka innyflin að meltast / skemmast þannig að ormurinn á greiða leið út í vöðva og önnur líffæri. Því ætti að slægja allan fisk sem fyrst til að koma í veg fyrir smit.

    En það er ekki algilt að hringormur haldi sig eingöngu í innyflum. Lirfa selorms í fiski er stór, gulbrún á lit og finnst oftast í vöðvum, sérstaklega þeim sem umlykja kviðarholið. Hún er uppsnúin inn í bandvefshylki í flökum sem fiskarnir mynda sjálfir. Þannig reyna þeir að einangra orminn.

    Selormur úr þorski – Pseudoterranova decipiens © Matthieu Deuté
    Selormur úr þorski – Pseudoterranova decipiens © Matthieu Deuté

    Neysla sýkts fiskjar þarf alls ekki að vera hættuleg sé gætt að geymsluháttum og matreiðslu. Nægjanlegt er að frysta fisk við -20°C í vikutíma til að drepa hringorm og sé fiskur matreiddur ferskur skal gæta þess að hann nái 70°C í eina mínútu, það skilar sama árangri. Hér ber heimildum ekki alveg saman þannig að ég hef valið að nefna lengstan tíma í frosti og hæsta hita við eldun sem getið er. Þurrkaður fiskur er meinlaus, þ.e. sé hann fullþurrkaður því hringormur þolir ekki að þorna. Skiptar skoðanir eru uppi um það hvort reyking sé næg forvörn, þannig að væntanlega er best að frysta fisk áður en hann er reyktur. Eins og kunnugt er losnar verulega um hold í fiski þegar hann er frystur og mörgum þykir því þýddur fiskur ekki eins heppilegur og ferskur þegar kemur að því að grafa. Því ætti að velja heilbrigðan ferskan fisk, lausan við smit og óværu ef hann er ætlaður í graf. Sjálfur hef ég fryst grafin urriða og tekið úr frysti eftir hentugleikum og alltaf þótt hann jafn góður, örlítið lausari í sér en ekkert sem orð er á gerandi.

    Þrátt fyrir þessi einföldu ráð eru dæmi þess að hringormur hafi náð að þroskast á fjórða stig í mönnum hér á landi og hefur tilfellum eitthvað farið fjölgandi með breyttum matarvenjum og neyslu hrás fisks hin síðari ár. Komist selormur lifandi niður í meltingarfæri manna getur hann borað sár í maga með tilheyrandi kvölum, ógleði og uppköstum fórnarlambsins, en yfirleitt gerir hann sér fljótlega grein fyrir að hann hefur ratað í óheppilegan hýsil og leitar því útgöngu sem fyrst. Sú útþrá á sér yfirleitt stað í gegnum vélinda og munn og getur því verið miður geðsleg fyrir þann sem fyrir því verður. Leiti ormurinn ekki upp, heldur niður meltingarveginn getur svo farið að lirfa ormsins bori gat á þarmana og komist þannig inn í kviðarholið eða líffæri svo sem lifur, gallblöðru eða eitla. Slíks smits verður yfirleitt vart á innan við 12 klst. Dauður selormur veldur aldrei skaða í manneskju.

    Hvalormurinn er almennt talinn hættulegri mönnum heldur en selormurinn. Hvalormurinn er gjarnari á að bori sig út úr maga og görnum fórnarlambsins og fara á flakk um kviðarholið með tilheyrandi sársauka, blæðingum og líffæraskaða. Eins er fólki hættara við ofnæmisviðbrögðum vegna hvalorms, hvort heldur hann sé lifandi eða dauður. Það er því rík ástæða til að gæta vel að fiski sem er mögulega sýktur af hvalormi. Hvalormur er orsök gotraufarblæðingar í villtum laxi sem einmitt hefur orðið vart hér á Íslandi á undanförnum árum. Þær sýkingar geta verið mjög svæsnar, allt að 150 ormar við gotrauf fisks auk þess að nánast allt kviðarholið getur sýkst, auk þunnilda og vefja. Það er því langur vegur frá að hringormur finnist ekki í laxi hér á landi.

    Heimildir

    Hringormar berast í fólk á Íslandi við neyslu á lítið elduðum fiski, Karl Skírnisson, Læknablaðið 1.tbl. 92.árg. 2006

    Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson

    Hringormar, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins 1997, Erlingur Hauksson

    Gotraufarblæðing í íslenskum laxi Sigurður Helgason og Árni Kristmundsson Rannsóknadeild fisksjúkdóma, Keldum

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Pensill eða nál

    17. febrúar 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það er nokkuð misjafnt hvernig menn ganga frá haus á flugu, þ.e. lakka hann. Sumir nota aðeins nál sem þeir dýfa í lakkið og renna síðan í hring um hausinn og ná þannig heilli lökkun með einu handbragði. Aðrir hafa paufast þetta með nálina í nokkrum atrennum, þar á meðal ég, á meðan enn aðrir nota lakkpensil og lakka hausinn í einni til tveimur strokum.

    Nál og pensill
    Nál og pensill

    Eitt er það þó sem getur auðveldar mönnum verulega lökkunina og það er hnýtingarklemma sem hægt er að snúa flugunni í, þ.e. heilan hring þannig að nálinni eða penslinum er haldið kjurum við hausinn og flugunni snúið. Eftir að hafa klaufast við þetta í nokkur skipti er maður nokkuð fljótur að komast upp á lagið og nær þá einni umferð í einu handtaki.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Beygja og kreppa

    13. febrúar 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég hnýti t.d. tinsel í skott á flugu, þá nota ég í það minnsta tvöfalt efnið þar sem því verður komið við. Það er náttúrulega hægt að hnýta hvern þráð fyrir sig en þá er hætt við að hnýtingin verður of klunnaleg þegar allir fjórir til fimm strimlarnir eru komnir niður á búkinn. Þess í stað tek ég efnið niður í ríflega tvöfalda lengd skottsins, hnýti það beint niður á búkinn og brýt það aftur til að ganga frá því. Með þessu móti festist efnið betur niður og það þarf færri vafninga af hnýtingarþræði til að tryggja það. Að vísu eru til þær flugur sem þessu verður ekki viðkomið, en þær eru fáar og það lærist fljótt af endingu flugnanna hver þeirra hefur verið hnýtt með tryggu skrauti og hver ekki.

    Beygja og kreppa
    Beygja og kreppa

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ofgnótt af þræði

    10. febrúar 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það hefur alveg farið það orð af mér að ég sé helst til nískur og nýtinn, en þegar kemur að hnýtingarþræði hef ég frekar verið fullur vantrausts á þessum auma spotta sem notaður er í flugur. Trúlega hef ég verið allt of duglegur að nota hnýtingarþráð í gegnum árin, notað allt of mikið af honum og verið helst til mikill groddi.

    Hér hefði nú mátt spara í vængfestingu og haus
    Hér hefði nú mátt spara í vængfestingu og haus

    Góður hnýtingarþráður er ótrúlega sterkur, meira að segja einn og stakur, svo ekki sé talað um þegar þrír til fimm vafningar koma saman. Ég hef mér það til málsbóta að það eru trúlega algengustu mistök hnýtara að nota of mikinn þráð, bæta einum til tveimur vafningum við, setja hnút og svo annan til að vera alveg öruggur. Þetta á sérstaklega við þegar maður er að vinna á einum og sama punktinum á flugunni með nokkur hnýtingarefni. Oft vill þá brenna við að maður full-hnýtir fyrsta efnið niður, bætir svo öðru eða tveimur ofaná og vefur allt til fullnustu og hnýtir allt of marga hnúta á milli efna.

    Þegar ég fór að spara vafningana, notaði aðeins einn til tvo fyrir hvert efni og lét það eiga sig að hnýta half hitch á milli, þá fóru flugurnar mínar að verða töluvert rennilegri svo ekki sé talað um fallegri. Síðustu hnútana í hverja flugu spara ég að vísu aldrei, þeir verða að vera tryggir því lakk herðir ekki hnút, það heldur honum ekki einu sinni saman ef hann er lélegur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 80 81 82 83 84 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar