Þegar ég hnýti t.d. tinsel í skott á flugu, þá nota ég í það minnsta tvöfalt efnið þar sem því verður komið við. Það er náttúrulega hægt að hnýta hvern þráð fyrir sig en þá er hætt við að hnýtingin verður of klunnaleg þegar allir fjórir til fimm strimlarnir eru komnir niður á búkinn. Þess í stað tek ég efnið niður í ríflega tvöfalda lengd skottsins, hnýti það beint niður á búkinn og brýt það aftur til að ganga frá því. Með þessu móti festist efnið betur niður og það þarf færri vafninga af hnýtingarþræði til að tryggja það. Að vísu eru til þær flugur sem þessu verður ekki viðkomið, en þær eru fáar og það lærist fljótt af endingu flugnanna hver þeirra hefur verið hnýtt með tryggu skrauti og hver ekki.
