Bandormur fjárlaga er nokkuð þekkt fyrirbæri þar sem ein breyting í fjárlögum hefur keðjuverkandi áhrif á önnur lög sem þarf því að breyta. Margir hafa horn í síðu þessa bandorms, treysta ekki alveg öllu sem laumast þarna inn og getur haft áhrif á allt annað en það sem upphafleg fjárlög innihéldu. Það sama má segja um bandorm í náttúrunni. Hann er ótukt sem smitað getur hressilega út frá sér.
Nokkuð reglulega senda veiðimenn frá sér myndir af innyflum fiska og spyrjast fyrir um hvað sé eiginlega á ferðinni, fullt af hvítum kúlum og allt gróið saman. Flesta þessara samgróninga má rekja til bandorma. Þeir teljast til flatorma, Plathelminthes og hreiðra um sig í iðrum manna og dýra. Fjöldi bandormstegunda finnast í fiski á og við Ísland. Bandormar sækja alla sína næringu til hýsilsins og festa sig gjarnan í líffæri hýsilsins með krókum sem eru staðsettir á höfði ormsins.

Bandormur í fiski er útbreiddur á Íslandi. Hér á landi finnast nokkrar tegundir bandorma en segja má að tvær þeirra séu kunnastar; Eubothrium (skúformur) og Diphyllobothrium (fiskiandarmaðkur / laxamaðkur).
Skúformur finnst nánast í öllum laxfiski á Ísland svo einfalt er það. Ormurinn notar laxfiska sem lokahýsil á lífsleiðinni og hefst helst við í meltingarvegi þeirra, gjarnan í skúflöngum og þaðan fær hann viðurnefni sitt. Egg ormsins berasta út í vatnið með saur fisksins þar sem þau eru étin af örsmáum krabbadýrum þar sem ormurinn þroskast. Hringrásin lokast svo við að sviflægur fiskur étur þessi krabbadýr eða verður sjálfur stærri fiski að bráð. Hér á landi finnast tvær tegundir skúforma, önnur herjar helst á bleikju en hin á urriða og lax. Sú síðar nefnda getur orðið allt að 1 metra að lengd, en sú fyrri aðeins þriðjungur þeirrar lengdar. Fiskur drepst sjaldnast þótt sýktur sé, en sé sýkingin veruleg dregur óhjákvæmilega úr vexti fisksins þar sem töluverð næring fer til ormsins og mótstöðuafl fiskins gegn sjúkdómum þverr. Skúformur og fiskiandarmaðkur eiga það sameiginlegt að þeir ganga sjaldnast það nærri lokahýsil að hann drepist, því það er þeim í hag að lokahýsill geti fóstrað eins marga kynþroska orma og hægt er.
Lífsferill fiskiandarmaðks er örlítið flóknari heldur en skúformsins. Þessir ormur nýtir fisk sem millihýsil því lokahýsill er fiskiæta, fuglar og spendýr. Egg berast frá lokahýsil í vatn með saur þar sem smágerð krabbadýr éta þau, rétt eins og í lífsferli skúforms. Í tilfelli fiskiandarmaðksins eru krabbadýrin aftur á móti étin af millihýsil, fiski þar sem lirfurnar brjóta sér leið út úr meltingarveginum og dreifa sér um kviðarhol hans. Lirfurnar hjúpa sig hvítleitum þolhjúp, yfirleitt kúlulaga og bíða þess að fiskurinn verði étinn af lokahýsil þar sem ormurinn nær kynþroska og fjölga sér. Verði sýking í fiski veruleg, getur ormurinn breiðst út í hold hans, þunnildi og flök, ásamt því að innyfli gróa saman og fiskurinn verður ófrjór. Ekki er óalgengt að fiskurinn verði horaður, kviðmikill og slappur sem gerir hann að auðfenginni bráð, hvort heldur annarra fiska eða lokahýsils.
Fiskifræðingar hafa orðið varir við beint samhengi smits og fjölda fugla á og við vötn og því er um að gera fyrir veiðimenn að ganga tryggilega frá slógi og rjúfa þannig hringrás ormsins í náttúrunni.
Hvorug þessara tegunda bandorms eru hættulegar mönnum, en það er vel skiljanlegt að menn veigri sér við að éta mikið sýktan fisk. Um matseld fisks gilda hér sömu reglur og við hringormi, frystið og/eða hitið fisk upp fyrir 70°C, það drepur orminn.
Heimildir
Eldisbóndinn – Eldi bleikju, Hólaskóli
Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson
Senda ábendingu