FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Afmæliskveðja

    15. júní 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar svo bregður við að flugur eiga 20 ára stórafmæli er ekki úr vegi að rifja upp sögu þeirra. Ekki síst þegar um er að ræða einfalda, skæða og vinsæla flugu sem vel flestir veiðimenn þekkja. Afmælisbarnið heitir BAB en margir þekkja hana sem Kibba eða jafnvel Orminn Kibba. Það var Ásgeir Halldórsson í Sportvörugerðinni sem smellti þessu upprunalega nafni á fluguna eftir að höfundur hennar hafði unnið Íslandsmótið í silungsveiði árið 2000. Mótið sótti Björgvin A. Björgvinsson með þessa óþekktu 4. ára flugu í farteskinu og bæði hann og flugan uppskáru verðskuldaða athygli og aðdáun á mótinu.

    BAB eins og hún kom mönnum fyrst fyrir sjónir – Ljósm. Björgvin Björgvinsson

    Einhverra hluta vegna vildi upprunalega nafn flugunnar ekki festast við hana, nema þá helst hjá kunningjum Björgvins og sérlegum vinum flugunnar sem gáfu henni gæluheitið Babbinn og undir því heiti hefur hún verið skráð fyrir óteljandi fiskum í veiðibókum við Laxá í Mývatnssveit, Brúará og víðar.
    Aðspurður tjáði Björgvin mér að flugan ætti uppruna sinn að rekja til ársins 1996 þegar hann setti fyrstu útgáfu hennar saman og prófaði þá um sumarið. Ungdómsárum sínum eyddi flugan síðan í nokkrum útfærslum í boxi Björgvins, prófuð reglulega, betrumbætt, prófuð enn og aftur og þannig koll af kolli þar til Björgvin var orðinn ánægður með útlitið og ekki síst lögun flugunnar og hegðun í vatn. Eins og áður segir, kom hún fyrst opinberlega fram á sjónarsviðið þegar Björgvin hafði landað Íslandsmeistaratitlinum árið 2000. Svo dult fór Björgin með fluguna að ekki einu sinni mótshaldarar sá til hennar fyrr en í lok keppninnar.

    BAB úr mínum væs
    BAB úr mínum væs

    Eins og sést á meðfylgjandi myndum er flugan einstaklega nett og tiltölulega létt þótt hún sé með kúluhaus. Björgvin notar fínt vínylrip í fluguna og hefur hnýtt hana smæsta á krók #16. Til að koma flugunni niður í straumvatni hefur hann gjarnan notað hana sem afleggjara með mun þyngri flugum. Sjálfur hef ég laumast til að hnýta hana nokkuð þyngri, jafnvel úr sverari vínyl og notað hana á mun styttri taum heldur en Björgvin gerir. Þetta eitt segir okkur að flugan er einstaklega veiðin, hvernig svo sem menn beita henni. Kannski fellst styrkur hennar einmitt í einfaldleikanum og því hversu alhliða hún hefur reynst mönnum.

    Það má með sanni segja að þetta afmælisbarn eldist einstaklega vel og það er vart til það flugubox sem ekki inniheldur einhverja útgáfu hennar; fínt vínyl, svert vínyl, grubber eða beinn, það virðist vera alveg saman hvernig menn hnýta hana, hún einfaldlega gefur. Takk, Björgvin A. Björgvinsson (BAB) fyrir þessa frábæru flugu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Angur

    8. júní 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Ég deili greinum og myndum af þessum vef á ýmsum samfélagsmiðlum. Einn þessara miðla er Instagram þar sem ég hef verið að setja inn myndir úr veiðiferðum og einstaka fiski sem slæðist á land undir merkinu @fosvefur  Þær eru yfirleitt ekki margar myndirnar sem ég birti af mínum aflabrögðum, en um daginn deildi ég einni sem tekin var í lok fyrsta veiðidags í Veiðivötnum hjá okkur hjónum í fyrra. Myndin er nokkuð hressileg, tekin við Litlasjó þar sem ég hafði raðað afla dagsins á vatnsbakkann.

    Umrædd mynd á Instagram

    Með myndinni var stuttorð lýsing, ekki ósvipuð þeirri hér að ofan. Ekki leið á löngu áður en hún hafði fengið 32♥ sem jafngilda Like á Facebook. En svo komu ein ummæli sem hafa verið að angra mig aðeins; 23 dead fish. Hideous ….  sem útleggst á íslensku; 23 dauðir fiskar. Hræðilegt ….  Ég sagði að þetta hefði angrað mig, ekki það að einhver hafi skrifað þessi ummæli, heldur sú áleitna spurning hvort mynd sem þessi stuði veiðimenn sem gæta hófsemi í veiði og láta sér nægja einn til tvo fiska í soðið eða sleppi jafnvel öllum fiskum, sama hvar þeir eru veiddir og hverrar tegundar þeir eru.

    Ég geri á engan hátt ráð fyrir því að þessi erlendi aðili og ummælahöfundur þekki til Veiðivatna og Litlasjós og geri sér því grein fyrir að vatnið er með stærstu sleppitjörnum norðan Alpafjalla. Því er nú einu sinni þannig farið að urriði á almennt fárra kosta völ til hrygningar í Veiðivötnum og stofninum hefur verið viðhaldið með seiðasleppingum. En burtséð frá því, þá gæti þessi mynd auðveldleg talist sönnun á frystikistuveiði eins og einhverjir kalla það að veiða sér til matar og þá ekki aðeins eina máltíð í einu. En, ég skammast mín ekkert fyrir að veiða mér til matar. Fiskur er frábær fæða, svo maður tali nú ekki um þegar hann kemur úr hreinni náttúru norðurhjara veraldar.

    Á sama tíma og neysla fiskpróteins hefur rokið upp á heimsvísu er talað um að ríflega 30% þess komi nú úr eldisfiski. Þetta eru ógnvekjandi tölur því til að framleiða 1 kg. af eldisfiski þarf að gefa honum fóður sem unnið er úr 1,46 kg. af viltum fiski (lýsi og fiskimjöl) og 1,3 kg. af jurtaafurðum (soja, repja, maís og hveiti). Þetta er því í raun fáránleg sóun og því þykir mér óþægilegra að sjá metralangar raðir af eldislaxi og silungi í stórmörkuðum eins og á myndinni hér að neðan, heldur en af hressilegum afla stangveiðimanna. Þessi mynd er tekin í stórmarkaði rétt við höfnina í Bergen í Noregi. Hér er ekki einn einasti villtur fiskur á myndinni, þetta er allt eldisfiskur úr innfjörðum Noregs og þetta fiskborð er rómað fyrir stærð sína, úrval og umfang.

    Frá Bergen í Noregi
    Frá Bergen í Noregi

    Ég velti því fyrir mér hvaða ummæli vinur minn á Instagram léti falla ef ég mundi birta þessa mynd þar. Þegar ég lék mér að þessu í huganum, sá ég hann fyrir mér með gómsætt sushi úr eldislaxi í glansandi plastboxinu sínu á leið heim til sín að dissa stangveiðimenn á Instagram. Verði honum að góðu, vonandi veit hann að plastboxið endar í holdi sjávardýranna sem síðan verða notuð sem fóður í eldislaxinn sem hann svo étur í sushi eftir einhver ár. Á meðan ætla ég að fá mér ristað brauð með reyktum eða gröfnum urriða úr Veiðivötnum.

     

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kanntu stöng að þræða?

    31. maí 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Ég man enn eftir augnablikinu þegar hönd var lögð á öxl mér og mælt til mín mildum rómi; Hafðu hana tvöfalda, þá gengur þetta betur. Þetta var fyrir mörgum árum þegar ég var staddur á veiðivörukynningu og var eitthvað að bögglast við að þræða flugustöng. Eitthvað hefur þetta greinilega gengið brösuglega, því þessi eldri, reyndi veiðimaður gat greinilega ekki orða bundist og vildi leiðbeina mér.

    fos_linalykkja

    Eftir þetta hef ég alltaf þrætt stöngina mína með línuna tvöfalda í gegnum lykkjurnar. Ég er sneggri að þræða stöngina og yfirleitt skiptið það engu máli ef ég missi línuna, hún rennur aðeins niður að næstu lykkju. Varðandi þennan eldri veiðimann, þá hef ég notið leiðsagnar hans á ýmsa vegu eftir þetta, en þessi fyrstu kynni okkar sitja trúlega fastast af öllu sem hann hefur kennt mér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vinda ofan af eða ekki?

    24. maí 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Maður skildi ætla að eftir nokkur ár, fjölda veiðiferða og óteljandi köst, þá væri maður laus við þennan ófögnuð sem vindhnútarnir eru. En, það er nú öðru nær. Þessir óþurftar pésar sem þeir eru hafa fylgt mér og munu trúlega alltaf gera. Ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér í vetur sem leið og ákvað að tefla á tæpasta vaðið og spurðist fyrir í veiðifélaginu mínu, hvort menn væru enn að eiga við vindhnúta, komnir á efri ár.

    Þeim sem til þekkja, þ.e. míns veiðifélags vita að ég mátti segja mér sjálfum að svörin yrðu eitthvað út og suður. En, merkilegt nokkuð, ég fékk hverja játninguna á fætur annarri að þetta væri nú alveg upp og ofan; stundum slæmt og í annan stað verra. Aðeins einn sagðist ekki vita hvað ég væri að tala um, hann þekkti ekki til þessa vandamáls, kannski vegna þess að það væru orðin svo mörg ár síðan hann veiddi síðast, en það er allt önnur saga.

    Þessar hugleiðingar sóttu aftur á mig um daginn þegar ég glímdi við einkennilega mikinn fjölda vindhnúta á tauminum mínum. Það var að vísu töluverður vindur, en ekki svo að ég missti bakkastið eitthvað niður, en hnútarnir tóku að raðast á tauminn hjá mér. Í einhverju bjartsýniskasti vegna mögulegra stórfiska ákvað ég að draga inn og leysa úr þessari bölv…. flækju sem hafði myndast. Á meðan ég tók ofan gleraugun (ég er sem sagt nærsýnn) og pírði augun á flækjuna (ég er sem sagt líka kominn með ellifjarsýni) varð mér hugsað til ráðs sem ég las fyrir einhverju síðan. Ef manni tekst að losa flækjuna (á endanum) þá ætti maður að renna tauminum á milli vara sér og athuga hvort brot eða einhverjir hnökrar væru á tauminum.

    fos_knots

    Eftir ótrúlega langa mæðu, nokkur pirringsköst og almenna ólund, tókst mér að greiða úr flækjunni og losa hnúta sem ekki voru fullhertir. Ég lét sem sagt reyna á þetta ráð og eiginlega sleikti tauminn. Og viti menn, það voru í það minnsta tvenn brot í taumaefninu sem ég hafði ekki séð með berum augum (ellifjarsýnin, sko) eða fundið á milli fingra mér (kuldinn, sko) þannig að ég hefði trúlega geta sparað mér allt þetta vesen og einfaldlega klippt, troðið flækjunni í vasann og hnýtt nýtt taumaefni á. Það fylgdi sögunni á sínum tíma að ef maður reyndi að endurnýta taumaefnið eftir vindhnúta, sérstaklega grennra efni, þá væri eins víst að nýr hnútur myndaðist í fyrsta eða öðru kasti, einmitt þar sem brotin væru í efninu. Hér eftir ætla ég gefa þessu betur gaum og sjá til hvort vindhnútum fækki ekki eitthvað hjá mér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Bara þurrflugur

    4. maí 2016
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Englendingar eru allra manna duglegastir að veiða á þurrflugu, þ.e. ef eitthvað er að marka allar frásagnir þeirra á veraldarvefnum. Það hefur vakið athygli Íslendinga hve þaulsæknir Englendingar eru við veiðar hér með þurrflugurnar einar að vopni. Ekkert veður virðist vera þurrflugum þeirra ofviða, það er næstum því sama á hverju gengur, alltaf er þurrflugan undir og þeir veiða ekkert minna en aðrir.

    Sjálfur hef ég farið í veiðiferð með þurrflugur einar að vopni og þá kom berlega í ljós vanmáttur minn með þessu veiðitæki. Eins og ég hef rakið í einhverjum pistlum hér, þá hafa mér stundum verið mislagðar hendur þegar ég rýk af stað í veiði með stuttum fyrirvara. Eitt sinn hafði ég verið að fylla á púpu- og straumfluguboxin mín og hafði alveg steingleymt að setja þau aftur í veiðivestið mitt. Þegar svo dásamleg veiðigyðjan bankaði upp á næsta dag með sólskin og stillu í farteskinu greip ég veiðivestið og allan annan búnað, tróð í skottið á bílnum og brenndi í nefnt vatn í grennd við borgina. Eitthvað hafði gyðjan platað mig því þegar á bakkann var komið var heldur meiri vindur í kortunum heldur en heima hjá mér. Nú, það er ekkert mál; hugsaði ég og setti saman sjöuna og seildist eftir púpuboxinu sem var auðvitað stútfullt af glæsilegum púpum, heima. Eftir að hafa reynt að koma þurrflugu út á vatnið, sem vel að merkja enginn fiskur sýndi nokkurn áhuga á, valdi ég mér púpulegustu þurrfluguna, makaði hana í drullu og jurtaleifum til að þyngja hana og barði hana niður í vatnið. Ég held svei mér þá að þetta sé í eina skiptið á ævinni sem mér hefur tekist að halda þurrflugu upp á yfirborðinu, sama hvað ég reyndi að koma henni niður í vatnið og halda henni þar. Lærdómur (ítrekað): yfirfara veiðivestið fyrir hverja ferð.

    Þurrflugur
    Þurrflugur

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kláraðu skipulagið

    1. maí 2016
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Nú hafa flestir tryggt sér veiðileyfi fyrir sumarið og vonandi langt fram í haustið. Að vísu kemur það fyrir að menn þurfi að endurskipuleggja einhverja daga ef ekki fæst frí eða ættarmót lenda á veiðidögum. Það sem gildir í þessu er að klára endurskipulagninguna alveg, ef til hennar þarf að koma. Eitthvað hefur maður heyrt af misskilningi veiðifélaga þegar einn úr hollinu gleymdi að uppfæra dagatalið sitt og mætti í veiði á röngum degi, einn og yfirgefinn. Eins hef ég heyrt ótrúlega sögu af sjálfvirkri leiðréttingu í farsíma sem breytti SMS skilaboði um Fnjóská í Brjósk sem viðtakandinn túlkaði umsvifalaust sem Blöndu þannig að þeir félagarnir fórust á mis.

    Sjálfur hef ég tekið upp á þeim óskunda að endurskipuleggja veiðivestið mitt síðla sumars án þess að klára það skipulag endanlega. Þannig var að ég ákvað með stuttum fyrirvara að skjótast í Langavatn á Mýrum, að mig minnir síðasta opna dag að hausti. Ég hafði þá verið í einhverri tiltekt í veiðivestinu mínu og gaf því ekkert endilega gaum þegar ég tók það ofan af snaga í skúrnum ásamt stöng, vöðlum og tilheyrandi. Ég man bara að þetta var yndislegur laugardagsmorgun og haustlitirnir við ofanverða Langá skörtuðu sínu fegursta og þegar ég kom upp að vatni var ekki annað hægt en bara setjast niður og njóta. Þegar ég loksins hafði mig á fætur og klæddi mig í var heldur rýrt af búnaði í vestinu. Engar klippur, engir taumar og ekkert flugubox. Það eina sem ég hafði mér til bjargar var einn sver taumur á hjóli og einhverjar afklippur í vöðluvasanum sem mér tókst að hnýta saman þannig að ég náði tæpum 9 fetum. Eins gott að ég þyrfti ekki að skipta oft um flugu því ég var aðeins með eina flugur sem ég hafði í einhverri rælni stungið í hjólatöskuna um sumarið, rauður Nobbler. Aflabrögðin urðu heldur rýr, ein bleikja sem vissi greinilega ekki hvaðan á sig stóð veðrið og lét glepjast. Lærdómur: yfirfara veiðivestið fyrir hverja ferð.

    Langavatn
    Langavatn

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 77 78 79 80 81 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar