Ég deili greinum og myndum af þessum vef á ýmsum samfélagsmiðlum. Einn þessara miðla er Instagram þar sem ég hef verið að setja inn myndir úr veiðiferðum og einstaka fiski sem slæðist á land undir merkinu @fosvefur Þær eru yfirleitt ekki margar myndirnar sem ég birti af mínum aflabrögðum, en um daginn deildi ég einni sem tekin var í lok fyrsta veiðidags í Veiðivötnum hjá okkur hjónum í fyrra. Myndin er nokkuð hressileg, tekin við Litlasjó þar sem ég hafði raðað afla dagsins á vatnsbakkann.

Með myndinni var stuttorð lýsing, ekki ósvipuð þeirri hér að ofan. Ekki leið á löngu áður en hún hafði fengið 32♥ sem jafngilda Like á Facebook. En svo komu ein ummæli sem hafa verið að angra mig aðeins; 23 dead fish. Hideous …. sem útleggst á íslensku; 23 dauðir fiskar. Hræðilegt …. Ég sagði að þetta hefði angrað mig, ekki það að einhver hafi skrifað þessi ummæli, heldur sú áleitna spurning hvort mynd sem þessi stuði veiðimenn sem gæta hófsemi í veiði og láta sér nægja einn til tvo fiska í soðið eða sleppi jafnvel öllum fiskum, sama hvar þeir eru veiddir og hverrar tegundar þeir eru.
Ég geri á engan hátt ráð fyrir því að þessi erlendi aðili og ummælahöfundur þekki til Veiðivatna og Litlasjós og geri sér því grein fyrir að vatnið er með stærstu sleppitjörnum norðan Alpafjalla. Því er nú einu sinni þannig farið að urriði á almennt fárra kosta völ til hrygningar í Veiðivötnum og stofninum hefur verið viðhaldið með seiðasleppingum. En burtséð frá því, þá gæti þessi mynd auðveldleg talist sönnun á frystikistuveiði eins og einhverjir kalla það að veiða sér til matar og þá ekki aðeins eina máltíð í einu. En, ég skammast mín ekkert fyrir að veiða mér til matar. Fiskur er frábær fæða, svo maður tali nú ekki um þegar hann kemur úr hreinni náttúru norðurhjara veraldar.
Á sama tíma og neysla fiskpróteins hefur rokið upp á heimsvísu er talað um að ríflega 30% þess komi nú úr eldisfiski. Þetta eru ógnvekjandi tölur því til að framleiða 1 kg. af eldisfiski þarf að gefa honum fóður sem unnið er úr 1,46 kg. af viltum fiski (lýsi og fiskimjöl) og 1,3 kg. af jurtaafurðum (soja, repja, maís og hveiti). Þetta er því í raun fáránleg sóun og því þykir mér óþægilegra að sjá metralangar raðir af eldislaxi og silungi í stórmörkuðum eins og á myndinni hér að neðan, heldur en af hressilegum afla stangveiðimanna. Þessi mynd er tekin í stórmarkaði rétt við höfnina í Bergen í Noregi. Hér er ekki einn einasti villtur fiskur á myndinni, þetta er allt eldisfiskur úr innfjörðum Noregs og þetta fiskborð er rómað fyrir stærð sína, úrval og umfang.

Ég velti því fyrir mér hvaða ummæli vinur minn á Instagram léti falla ef ég mundi birta þessa mynd þar. Þegar ég lék mér að þessu í huganum, sá ég hann fyrir mér með gómsætt sushi úr eldislaxi í glansandi plastboxinu sínu á leið heim til sín að dissa stangveiðimenn á Instagram. Verði honum að góðu, vonandi veit hann að plastboxið endar í holdi sjávardýranna sem síðan verða notuð sem fóður í eldislaxinn sem hann svo étur í sushi eftir einhver ár. Á meðan ætla ég að fá mér ristað brauð með reyktum eða gröfnum urriða úr Veiðivötnum.
Senda ábendingu