FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Líknarmeðferð

    19. október 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þegar líður á seinni hluta vertíðar hefur hugur manns stundum leitað til þess hvort ekki sé til einhver sú líknandi meðferð sem hægt er að beita á flugulínurnar. Kannski er það bara ég, en þegar líður á sumarið verða línurnar mínar stundum afskaplega leiðinlegar. Þær taka upp á því að renna illa, flækjast fyrir mér og eru hreinlega bara með almenn leiðindi af verstu gerð. Heilt yfir sumarið reyni ég að sinna línunum eftir bestu getu, en stundum dugar það bara alls ekki til.

    Almennt reyni ég að baða þær í öðru vatni en veiðivatni einu sinni til tvisvar á ári. Á haustin sting ég þeim í ilvolgt bað með smá uppþvottalegi. Leyfi þeim að liggja þar smá stund, strýk af þeim með mjúkum bómullarklút og skola vel á eftir. Þurrum spóla ég þeim síðan inn á hjólin eða vind þær upp í hankir og kem þeim fyrir á svölum stað og vitja þeirra ekki síðar en í mars. Ef mér sýnist svo, sting ég þeim þá aftur í volgt vatn og teygi svolítið á þeim, svona til að ná geymslukrullunum úr þeim fyrir vorið.

    fos_flugulinur

    Yfir sumarið geng ég alltaf með gleraugnaklút í veiðivestinu og bregð línunum við og við í gegnum hann. Það er merkilegt hvað hrein og tær náttúran okkar á það til að losa sig við óhreinindi yfir á flugulínurnar okkar. Ef ég er mikið á ferðinni þar sem drullupollar herja á veiðislóða, þá á ég það jafnvel til að bregða línunum í bað eftir að gusurnar hafa gengið yfir húddið á bílnum og þar með stangir og línur.

    En svo kemur að þeim tímapunkti að þessi daglega umhirða dugir ekki til og línurnar halda bara áfram að pirra mann. Þetta er víst merki þess að hilli undir endalok línunnar og eitthvað meira þarf til að hún renni þokkalega. Með tíð og tíma eyðist ysta kápa línunnar eða særist þannig að almenn þrif duga ekki til. Þá laumast ég til að nota línubón og lengi þar með líftíma línunnar aðeins, svona rétt út vertíðina. Á endanum verð ég víst að bíta í það súra epli að fjárfesta í nýjum línum, en það er vissulega hægt að lengja líftíma línunnar með þokkalegri umhirðu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Náttúran ræður för

    11. október 2016
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ætli nýliðið tímabil sé ekki tímabilið þegar náttúran fékk að ráða frá fyrstu veiðiferð og að þeirri síðustu. Dagatalinu var einfaldlega stungið undir stól og látið reyna á gyðjur og guði þegar veðrið var annars vegar. Vorið byrjaði snemma, fyrsti fiskur á sumardaginn fyrsta og við félagarnir stimpluðum okkur inn í sumarið fyrir alvöru 2.maí í Hlíðarvatni í Selvogi. Síðasta veiðiferð sumarsins var síðan 11.september í einmuna blíðu uppi á hálendi.

    Ég hafði það á orði hér á síðunni í sumar, að það væri víst ekki einleikið hve heppnir við veiðifélagarnir hefðum verið með veðrið í sumar. Ég bara man varla eftir leiðinlegu veðri, ef undan eru skildir einhverjir dagar þar sem vindur var með mesta móti, kalt og napurt og fiskurinn sökkti sér niður í bobbaát eða hrökklaðist út í vatnsbolinn, langt utan kastfærist. Þegar ég fer að hugsa málið, þá getur alveg verið að einhverjir dagar hafi ekki verið eins ákjósanlegir og minningar sumarsins gefa mér til kynna. Eða er þetta bara spurning um hugarfar?

    Ef maður er staðráðinn í að að njóta útiverunnar, þá eru til margar leiðir til að gera það hvernig sem viðrar. Lopapeysan sem tengdaamma prjónaði á mig fyrir rúmlega 20 árum er þar á meðal. Það hafa alveg komið þeir dagar sem hún var tekin fram, veiðijakkanum rennt upp í háls og hettan dregin yfir veiðihúfuna. En þeir dagar voru hreint ekki margir í sumar og eftir standa minningar um augnablikin þegar vindurinn gekk niður, vatnið stilltist og lífið fór heldur betur á stjá.

    Það eru líka til tvær minningar um smá rigningu. Annað skiptið fengum við svalandi úða síðasta klukkutímann af fimm tíma göngutúr hringinn í kringum eitt vatnanna. Nei, ég er ekki í afneitun, það var virkilega svalandi að fá smá rigningu í lok þeirrar veiðiferðar. Einu sinni kom það síðan fyrir að varla var þurr þráður á mannskapnum eftir þrjá tíma í veiði. Það kom heldur ekki að sök, því hitastigið var á bilinu 14 – 16°C, algjör stilla og fiskurinn tók eins og enginn væri morgundagurinn.

    Þegar maður velur sér áhugamál eins og stangveiði, þá verður maður að vera tilbúinn að lúta allt öðrum lögmálum heldur en þeir sem velja sér t.d. frímerkjasöfnun. Stangveiðin er bundin því að ytri aðstæður ráða för, það er annað hvort að láta sig hafa það eða sleppa því. Þegar upp er staðið, þá eru það góðu augnablikin sem standa svo langsamlega uppúr að hin hverfa í skuggann, er feykt út í hafsauga og hverfa algjörlega sjónum manns. Sumarið sem leið, var eitt það besta sem ég hef upplifað í stangveiðinni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hnífar

    4. október 2016
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    ‚Stolinn hnífur bítur best‘ segir málshátturinn, en ekki getur maður endalaust stolið sér hnífum. Ég held reyndar að ég hafi aldrei stolið hnífi, en ég hef keypt nokkra á 1 kr. af vinum og ættingjum þannig að ekki skærist á vinaböndin. Nú í lok sumars fór ég að taka eftir því að veiðihnífurinn minn var farinn að svíkja mig í aðgerð, sérstaklega ef ég var að gera að smærri fisk. Þetta lýsti sér helst þannig að ég varð að beita aðeins of miklu afli þannig að skurðurinn varð ekki hreinn og beinn, sléttur og felldur. Þegar svo roðtægjurnar voru farnar að hrannast upp við gotrauf fisksins, þá varð ekki lengur við unað.

    Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu
    Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu

    Eins og sjá má, var ekki vanþörf á að þrífa hnífa og slíður eftir sumarið. Vel að merkja, upprunalega slíðrið sem fylgdi mínum hníf dugði rétt eitt sumar, þannig að ég saumaði mér nýtt úr reiðhjóladekki sem hefur dugað í nokkur ár. En aftur að hnífunum. Eftir gott sumar í veiði lætur eggin vitaskuld á sjá, verður svolítið skörðótt og ávöl þannig að það var kominn tími til að leggja þá á stein og brýna þá síðan á stáli. Þegar eggin er orðin eitthvað í líkingu við brotalínurnar á myndinni hér að neðan, þá er kominn tími til að skerpa hana á steini.

    hnifar

    Ég nota flatan stein með grófu og fínu yfirborði til að forma eggina í V og svo stálið eða nýju græjuna mína, Rapid Steel frá F.Dick til að skerpa hana.

    Auðvitað nýtti ég tækifærið og þreif skefti og blöð með volgu vatni og sápu, renndi síðan yfir þau með fínum sandpappír og olíubar upp á nýtt. Ég hef aldrei skilið þá áráttu framleiðenda að lakka tréskefti, lakkið heldur sjaldnast lengi og olíuborinn viður er mun stamari heldur en lakkaður.

    Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.
    Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þeir leynast víða sauðirnir

    6. júlí 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Fyrir hálfum mánuði síðan birti ég hugleiðingar mínar um slælega umgengni við náttúru Íslands. Kveikjan að þeim hugleiðingum mínum var því miður umgengni veiðimanna við Hítarvatn sem ég varð vitni að.

    Í framhaldi þessa lenti ég á smá spjalli við kunningja mína í vinnunni og þá kom til tals hjarðhegðun okkar mannfólksins. Það virðist vera áberandi að þar sem einn sóði drepur niður fæti, þar spretta upp nokkrir til viðbótar og þannig getur smáræði orðið að ruslahaug. Það verður að viðurkennast að ég hef alveg fundið fyrir einkennum þessarar hjarðhegðunar hjá mér. Þegar ég kem að veiðistað þar sem umgengni hefur verið einstaklega slæleg, þá getur mig alveg brostið geð til að taka upp ruslið sem ég rekst á. Þetta eru aðeins væg einkenni og hafa blessunarlega engin áhrif á það hvernig ég hafa mínum sorpmálum, en sauðslegt engu að síður.

    Taumar og taumaendar fara einfaldlega niður í vöðlurnar mínar yfir daginn. Það eru reyndar til einstaklega sniðugar græjur sem hægt er að nota til að vinda taumaenda og girni inn á og tæma þegar komið er að næstu ruslatunnu en mér dugar vöðluvasinn eða brjóstmálið til að geyma mínar afklippur.

    Eftir notkun fara mínar drykkjarumbúðir einfaldlega aftur ofan í þann vasa eða bakpoka sem ég notaði til að bera þær með mér á veiðistað. Þetta er nú ekki flókið og ætti að vera á flestra færi, ekkert frekar en að ganga frá pappír eftir að hafa gengið örna sinna.

    En svo kemur að slógi og beinagörðum sem falla til á veiðistað. Einn kunningi minn vakti mig til umhugsunar um að margir veiðimenn hafa bara ekki hugmynd um það sem á sér stað þegar slógi eða fiskúrgangi er skilað aftur í vötnin. Sumir veiðimenn gera þetta í þeirri góðu trú að þeir séu að fóðra fiskinn sem eftir er í vatninu. Þetta er leiður misskilningur og útbreiddur. Við það að henda slógi í vatnið eða skilja það eftir við bakkann eru veiðimenn að viðhalda hringrás bandorma í náttúrunni sem aðeins veikir fiskistofnana í nærumhverfinu. Það eru helst krabbadýr og sviflægir fiskar sem nýta sér úrgang og þannig komast egg bandorms aftur inn í fæðukeðjuna og enda með einum eða öðrum hætti í lokahýsil sínum; laxi, urriða, bleikju, fugli eða spendýrum þar sem þeir fjölga sér enn frekar. Egg ormsins skila sér síðan aftur út í náttúruna með saur og þannig hefst hringrásin upp á nýtt. Það er því engum greiði gerður að skilja slóg og fiskúrgang eftir á veiðislóð. Komum fiskúrgangi í ruslið rétt eins og öðru sem til fellur á veiðistað.

    Lífsferill bandorms
    Lífsferill bandorms – © FOS.IS

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Af hverju ekki?

    29. júní 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Rétt eins jólasveinar fara á stjá í desember og páskaungar skjóta upp kollinum í mars eða apríl, þá vaknar hún á hverju ári spurningin um það hvers vegna ekki má nota síld og makríl sem beitu í hinu eða þessu vatninu. Þetta sumar er engin undantekning frá reglunni. En hvers vegna er þessi beita bönnuð í eins mörgum vötnum og raun ber vitni?

    Ekki veit ég til þess að sérstakar rannsóknir hafi verið gerðar á skaðsemi mismunandi beitu í vötnum, en þær eru nokkrar til sem lýsa sýkingum í síld og makríl, sýkingum sem hæglega geta haft áhrif á ferskvatnsfiska.

    Ein tegund hringorms, hvalormur (síldarormur) nýtir krabbadýr sem burðarhýsil þar sem ormurinn þroskast og verður smithæfur. Þess vegna eru fiskar sem nærast á krabbadýrum (t.d. loðna, sandsíli, síld og makríll) líklegir millihýslar hvalorms sem er, vel að merkja, ríkjandi tegund hringorma í norður Atlantshafi. En sýkingin er alls ekki einskorðuð við framangreindar tegundir. Hvalormur finnst í sjógengnum fiski, s.s. sjóreið, sjóbirtingi og laxi. Gotraufarsýking í laxi er t.d. vegna hvalorms. Nánar um hringorma hér.

    Önnur sýking sem herjar á síld og makríl er svipudýr að nafni Ichthyophonus hoferi. Þetta sníkjudýr hefur verið til staðar í íslensku sumargotsíldinni frá árinu 1991 og nýverið birti Hafró upplýsingar um að þessi sýking í stofninum sé aftur á uppleið. Eitt einkenni þessarar sýkingar er blæðing í holdi og líffærum fiska sem leiðir oft til dauða. Spendýrum stafar ekki hætta af þessu smiti en fæstum  þykir sýktur fiskur kræsilegur til átu eins og gefur að skilja enda getur nokkuð óþægileg lykt fylgt þessari sýkingu. Þekkt smitleið þessa sníkils er þegar fiskur étur sýktan vef. Í gegnum tíðina hefur þessi sníkill valdið töluverðum skaða í lax- og silungseldi víða um heim ásamt því að leggjast á stofna villtra laxfiska. Þótt þessi sýking nái sér ekki á strik í ferskvatni, benda rannsóknir til að sýking geti eftir sem áður átt sér stað í ferskvatni.

    Sýking í síld - © Mast
    Sýking í síld – © Mast

    Nú kann einhver að benda á að hér hafi ég ekki dregið fram neinar vísindalegar sannanir fyrir bráðri smithættu af síld og makríl, en sé litið til heimilda má leiða líkum að smitleiðum sem ber að varast. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum alltaf að leyfa villtum ferskvatnsstofnum okkar að njóta vafans, í þessu eins og öllu öðru sem getur stefnt framtíð þeim og heilbrigði í hættu. Það er undir veiðifélögunum komið að setja hömlur á notkun lífrænnar beitu og það verður víst seint einhugur um slíkar ákvarðanir, en séu þær settar ber veiðimönnum að fylgja þeim hvort sem þeim líkar betur eða verr.

    Þess ber að geta að þetta efni átti upphaflega að vera innlegg mitt í spjallþráð á Facebook, en þegar sá þráður fór að einkennast af upphrópunum og ósvífnum orðahnippingum á báða bóga, lét ég ógert að taka þátt í þeirri umræðu og ákvað að birta þetta hér á síðunni í staðinn.
    Hafi einhver athugasemdir eða ábendingar fram að færa um þessa samantekt mína, þá er viðkomandi velkomið að senda mér slíkt, en orðahnippingar og upphrópanir mun ég ekki birta.

    Heimildir, umfram þær sem finna má í tengdum greinum:
    Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins – Hringormar
    Hafrannsóknarstofnun – Ichthyophonus hoferi sníkjudýr í fiskum
    Mast – Ichthyophonus í síld
    Wildlife Disease Association – Effects of Ichthyophonus…
    University of Goteborg – Hassan Rahimian

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Er mamma þín hér?

    22. júní 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Þingvellir eru helgur staður í hugum margra hér á landi og þá ekkert síður Þingvallavatn með öllum sínum undrum og lífríki. Þegar maður mætir á Þingvöll, stígur maður léttar til jarðar, hefur augun hjá sér og gætir þess sérstaklega að skilja ekkert rusl eftir sig og munar ekkert um að taka það upp sem aðrir hafa misst frá sér, viljandi og óviljandi. Svipaða sögu má segja af Elliðavatni, sem er mörgum kært. Perla í næsta nágrenni við þéttbýlasta kjarna landsins, útivistarparadís með silungavon eins og einhver sagði. Þar gæta allir þess að ekkert óhreint skolist út í vatnið og hrófatildur fyrri tíðar víkja nú umvörpum af vatnsbakkanum.

    Lífríki beggja þessara vatna er vaktað og rannsakað með ærnum tilkostnaði sem greiddur er af almannafé, í einni eða annarri mynd. Hver reglugerðin á fætur annarri er sett fram til verndar lífríkinu þannig að úrgangur og affall manskepnunnar mengi nú örugglega ekki þessi vötn og næsta nágrenni þeirra. Hvort reglunum er síðan framfylgt er allt annað mál, á þessum stöðum eins og öðrum er bæði Jón og séra Jón og ekki gildir endilega það sama fyrir báða. Um bæði þessi vötn gildir að hægt er um vik fyrir gesti að losa sig við umbúðir og annað rusl í þar til gerð ílát og yfirleitt bregðast menn hart við þegar einhver verður uppvís að sóðaskap. Það ætti því að vera algjör óþarfi að þurfa ítrekað að hvetja menn til sjálfsagðrar umgengni sbr. þessa frétt.

    En veiðivötn má finna víðar en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og mörgum manninum þykir jafnvel vænna um þau sem fjarri eru erli og umferðanið borgarinnar. Fjöldi fólks sækir í kyrrð hreinnar og óspilltrar náttúru og er því tilbúið að draga börn og buru á vit afdala og heiða hvenær sem færi gefst. Ég skil þetta mjög vel, það er ekkert sem hleður mín batterí betur en hrein og tær náttúra. En, að sama skapi er það fátt sem dregur mig jafn mikið niður eins og að sjá óþarfa ummerki ferðalanga hvert sem litið er.

    Þótt barni verði brátt í brók.... við Frostastaðavatn
    Þótt barni verði brátt í brók…. við Frostastaðavatn

    Það er svo löngu ljós staðreynd að það sem maður getur borið með sér út í náttúruna getur maður líka tekið mér sér til baka. Víðast hvar er stutt í næsta rusladall og þó svo ekki væri, þá er örugglega alltaf pláss í bílnum fyrir smá rusl þar til komið er aftur til byggða.

    Um síðustu helgi var ég á ferð í Hítardal. Það er ekki aðeins vatnið sem dregur mig þangað, umhverfið og náttúran eru alveg einstök og það er næstum alveg sama hve margir mæta á staðinn, það er alltaf einhver kyrrð yfir svæðinu. Eins og áður segir, tel ég það ekkert eftir mér að tína það upp sem nágranni minn hefur misst frá sér, en þessa helgi féllust mér hendur. Ég einfaldlega hafði mig ekki í að tína upp allan þann notaða salernispappír, matarafganga og umbúðir sem gestir dalsins höfðu skilið eftir sig. Að ég tali nú ekki um óþrifnað og sóðaskap veiðimanna sem höfðu verið þar að veiðum. Það ætlar seint að takast að gera mönnum grein fyrir afleiðingum þess að henda innyflum og fiskafgöngum í veiðivötn. Fiskiandarmaðkur eykur útbreiðslu sína jafnt og þétt ef veiðimenn viðhalda hringrás hans á milli hýsla með þessum óþrifnaði. Sjá nánar í nýlegri grein minni Bandormar í fiski.

    Hítardal hefur um árabil verið sinnt af stakri prýði. Ruslatunnur eru þar víða, salernisaðstaða opin almenningi og aðgengi svæðisins með ágætum. En þetta virðist ekki duga öllum sem þangað leggja leið sína. Ég velti því fyrir mér hvernig heimilishald þessara gesta er eða uppeldi þeirra hefur verið háttað. Eiga þeir virkilega von á því að mamma þeirra mæti á staðinn og taki til eftir þá? Ég ætla rétt að vona að þessir aðilar hafi verið einir á ferð, mig óar við því að þeir hafi verið yngri veiðimönnum eða börnum sínum fyrirmynd í umgengni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 76 77 78 79 80 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar