Flýtileiðir

Náttúran ræður för

Ætli nýliðið tímabil sé ekki tímabilið þegar náttúran fékk að ráða frá fyrstu veiðiferð og að þeirri síðustu. Dagatalinu var einfaldlega stungið undir stól og látið reyna á gyðjur og guði þegar veðrið var annars vegar. Vorið byrjaði snemma, fyrsti fiskur á sumardaginn fyrsta og við félagarnir stimpluðum okkur inn í sumarið fyrir alvöru 2.maí í Hlíðarvatni í Selvogi. Síðasta veiðiferð sumarsins var síðan 11.september í einmuna blíðu uppi á hálendi.

Ég hafði það á orði hér á síðunni í sumar, að það væri víst ekki einleikið hve heppnir við veiðifélagarnir hefðum verið með veðrið í sumar. Ég bara man varla eftir leiðinlegu veðri, ef undan eru skildir einhverjir dagar þar sem vindur var með mesta móti, kalt og napurt og fiskurinn sökkti sér niður í bobbaát eða hrökklaðist út í vatnsbolinn, langt utan kastfærist. Þegar ég fer að hugsa málið, þá getur alveg verið að einhverjir dagar hafi ekki verið eins ákjósanlegir og minningar sumarsins gefa mér til kynna. Eða er þetta bara spurning um hugarfar?

Ef maður er staðráðinn í að að njóta útiverunnar, þá eru til margar leiðir til að gera það hvernig sem viðrar. Lopapeysan sem tengdaamma prjónaði á mig fyrir rúmlega 20 árum er þar á meðal. Það hafa alveg komið þeir dagar sem hún var tekin fram, veiðijakkanum rennt upp í háls og hettan dregin yfir veiðihúfuna. En þeir dagar voru hreint ekki margir í sumar og eftir standa minningar um augnablikin þegar vindurinn gekk niður, vatnið stilltist og lífið fór heldur betur á stjá.

Það eru líka til tvær minningar um smá rigningu. Annað skiptið fengum við svalandi úða síðasta klukkutímann af fimm tíma göngutúr hringinn í kringum eitt vatnanna. Nei, ég er ekki í afneitun, það var virkilega svalandi að fá smá rigningu í lok þeirrar veiðiferðar. Einu sinni kom það síðan fyrir að varla var þurr þráður á mannskapnum eftir þrjá tíma í veiði. Það kom heldur ekki að sök, því hitastigið var á bilinu 14 – 16°C, algjör stilla og fiskurinn tók eins og enginn væri morgundagurinn.

Þegar maður velur sér áhugamál eins og stangveiði, þá verður maður að vera tilbúinn að lúta allt öðrum lögmálum heldur en þeir sem velja sér t.d. frímerkjasöfnun. Stangveiðin er bundin því að ytri aðstæður ráða för, það er annað hvort að láta sig hafa það eða sleppa því. Þegar upp er staðið, þá eru það góðu augnablikin sem standa svo langsamlega uppúr að hin hverfa í skuggann, er feykt út í hafsauga og hverfa algjörlega sjónum manns. Sumarið sem leið, var eitt það besta sem ég hef upplifað í stangveiðinni.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com