FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Einfalt í einfaldleika sínum

    18. janúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Ein af mörgum greinum sem ég las fyrripart vetrar fjallaði um gildi einfaldra flugna. Þar fór Ný-Sjálendingurinn Bob Wyatt mörgum orðum um gildi þess að einfalda málin þegar átt er við styggan fisk, einhvern styggasta fisk sem þekkist í heiminum sagði hann, Ný-Sjálenska urriðann. Já, það er margt líkt með okkur, sitt hvoru megin á jörðinni. Styggustu urriðar veraldar finnast greinilega á báðum stöðum.

    Í þessari grein var farið mörgum orðum um einfaldar flugur og margar nefndar til sögunnar. Meðal þeirra var Killer Bug, Frank Sawyer, flugan sem hefur svolítið fallið í skugga systur sinnar, Pheasant Tail. Svo langt gekk greinarhöfundur í skrifum sínum að hann fullyrti að hverjum veiðimanni ætti að nægja að eiga þessa flugu og aðeins hana eina. Það eru raunar mörg ár síðan ég hnýtti Killer Bug síðast og það eru enn nokkur eintök af henni í geymsluboxinu mínu. Hvers vegna? Jú, trúlega vegna þess að ég hef sjaldan haft rænu á að setja hana undir. Ég er trúlega mikið glysgjarnari heldur en urriðinn, vel frekar einhverja í lit eða með áberandi broddi úr boxinu og læt eintökin af Killer Bug því í friði.

    fos_killer_bug

    Ég viðurkenni það fúslega að stundum ætti maður að prófa sömu flugu, bara í annarri stærð áður en maður sleppir sér lausum í boxinu. Hversu oft hefur maður ekki staðið sig að því að vera með einfalda flugu í höndunum sem ekkert gefur og í stað þess að skipta niður í stærð eða lögun, þá æðir maður áfram og velur einhverja í allt öðrum lit og gengur ekkert betur. Þegar svo veiðibækurnar eru bornar saman í lok dags, kemur í ljós að veiðifélaginn hefur einmitt verið með sömu fluguna í höndunum, bara örlítið minni, og veitt á hana eins og enginn væri morgundagurinn.

    En aftur að Bob Wyatt. Hann, ásamt stórum hópi veiðimanna á Nýja Sjálandi, vinna markvisst að því að kenna öðrum veiðimönnum að nota fáar tegundir flugna í nokkrum stærðum og leggja meira upp úr formi þeirra og lögun heldur en beinlínis útliti. Nota t.d. Killer Bug þegar þeir vilja líkja eftir skordýri á púpustigi, Pheasant Tail á næsta þroskastigi og svo Griffith‘s Gnat fyrir fullvaxta flugu. Kannski maður ætti að útbúa sér box einfaldleikans fyrir næsta sumar? Bara þrjár tegundir flugna í stærðum frá #10 og niður í #18.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Bakgrunnur hnýtinga

    16. janúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Mér hættir til að verða svolítið þreyttur í augunum þegar ég hef setið lengi við hnýtingar. Ég hnýti að vísu mest í gegnum stækkunargler með ljósi, en það er alltaf eitthvað á bak við fluguna sem er að flækjast inn í sjónsviðið. Einfalt ráð við þessu er að festa stífan pappír á stand eða klemma hann við hilluna á bak við þvinguna.

    Ljós bakgrunnur
    Ljós bakgrunnur

    Best er að nota ljósan pastelbakgrunn sem endurkastar ekki birtunni í augun á manni. Það er ekki úr vegi að verða sér úti um nokkra fleiri liti, t.d. ljósbláan eða grænan, jafnvel  ljósgráan og skipta annars slagið um bakgrunn, það hvílir augun og stundum er betra að sjá hvítu fjaðrirnar ef bakgrunnurinn er ekki mjög ljós. Svo má alltaf nota þennan hlutlausa bakgrunn þegar taka skal myndir af meistarastykkjunum. Það er fátt meira ergilegt við góðar flugumyndir heldur en sjá allt mögulegt en þó ekkert í bakgrunni flugnanna, bara eitthvað sem dregur athyglina frá henni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taktu afrit

    11. janúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Nú hljóma ég eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni, en í yfir 25 ár vann ég mest í tölvubransanum og lagði þar endalaust áherslu á að menn tækju afrit af vinnunni sinni. Að vísu er þetta svipað hjá mér eins og hjá bifvélavirkjanum sem ekur alltaf um á druslum og trésmiðnum sem á heima í hálfkláraða húsinu, ég tók ekki alltaf afrit sjálfur.

    Afritunargeymsla
    Afritunarbúnaður

    En að taka afrit af flugu sem maður hnýtir fyrir sumarið getur alltaf komið sér vel. Ekki setja endilega allar flugurnar sem þú hnýtir í fluguboxið sem þú ferð með í veiði. Það getur komið sér vel að eiga afrit af nýrri flugu til að kíkja aðeins á hana næsta vetur ef allar klárast yfir sumarið. Sjálfur hef ég lent í því að veiðifélagi minn gerði góða veiði á ákveðna flugu og þegar hnýtingarlisti næsta vetrar var settur saman, þá gat ég ómögulega fundið mynd eða uppskrift af flugunni sem frúnna vantaði og líst var; hún var svona brún, með vír og haus. Þá hefði nú verið gott að eiga eins og eitt stykki í afritunarboxinu til að bera undir frúnna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Grafin langloka

    9. janúar 2017
    Matur

    Upp

    Forsíða

    Einmitt á þessum tíma ársins er matarlystin farin að leita að allt öðru en stórsteikum og endalausum sætindum. Þá getur verið gott að grípa eins og eitt gott flak af gröfnum urriða frá síðasta sumri úr frystinum, sjóða sér egg og sneiða rauða papriku og lárperu í grófar sneiðar. Smella þessu á gróft langlokubrauð með smá slettu af graflaxsósu, ferskan ávaxtasafa í glas og gera vel við sjálfan sig. Góð veiðibók eða tímarit á kantinum til að blaða í, skemmir svo ekki fyrir.

    fos_grafin_langloka

    Myndin er að vísu frá síðasta sumri en svona geta nú nestistímarnir verið í veiðinni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Árleg leit að flugu

    4. janúar 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það er næstum árlegt að ég reyni að finna not fyrir allar fjaðrirnar af hringfasananum sem ég keypti fyrir mörgum árum síðan. Fjaðrirnar af þessum ham hafa vissulega komið mér að ýmsum notum í gegnum árin, en þeir sem þekkja til geta vottað að einn svona hamur af hringfasana samanstendur af ansi mörgum fjöðrum og enn hefur mér ekki tekist að nýta nema brot af þeim.

    Fasanafjaðrir
    Fasanafjaðrir

    Á ferð minni í Veiðivötn sumarið 2016 fyllti ég örlítið á reynslubrunninn með því að veiða í vötnum sem ég hafði ekki prófað áður. Þeirra á meðal var Arnarpollur, sem eftir sumarið er orðinn eitt af mínum uppáhalds. Fallegt umhverfi og mikilúðlegir urriðar sem leynast þar í dýpinu. Sú fluga sem gaf mér jómfrúarfiskinn í vatninu var úr smiðju Stefáns Hjaltested. Mikill Nobbler, brúnn og eins og Stefáns er von og vísa, haganlega hnýttur. Án þess að slá því endanlega föstu, þá held ég að þetta hafi verið fyrsti brúni Dog Nobblerinn sem ég hef veitt á um ævina og það var enginn smá fiskur sem lét glepjast af honum. Sá brúni hefur verið mér hugleikinn alla tíð síðan, bæði Nobblerinn og urriðinn, og þegar ég rakst á mynd af flugu sem Nýsjálendingar nota töluvert í urriða, þá sá ég heilmikil not fyrir töluvert af fjöðrum hringfasanans gamalkunna.

    fos_mrssimpson_big
    Mrs. Simpson

    Við fyrstu sýn virðist ekki mikið mál að hnýta slatta af fasanafjöðrum á öngul, en þessi fluga leynir töluvert á sér og það tók mig nokkrar tilraunir að ná henni þokkalegri. Ein útgáfa hennar verður örugglega með keiluhaus. Og hvar ætla ég henni fyrst í vatn? Jú, Arnarpollur í Veiðivötnum fær heiðurinn ef að líkum lætur. Uppskriftin og saga flugunnar kemur svo hér inn á síðunni á næstunni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vangaveltur um hnýtingar

    28. desember 2016
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það líður nú ekki langur tími frá því veiðitímabilinu lýkur þangað til hugurinn leitar á veiðislóðir aftur. Þetta árið held ég að það hafi tekið innan við hálfan mánuð frá því ég fór síðasta að veiða, að ég fór að hugsa til næsta sumars. Auðvitað er þetta bara brjálæði, en ég hef þó þessa vefsíðu til að fleyta mér yfir köldustu mánuðina og ylja mér við endurminningar liðins sumars.

    Á næstu dögum fer maður að taka til á hnýtingarborðinu, setja saman einhver gáfulegan lista til að hnýta eftir og ráðast á eitthvað af hnýtingarefninu sem maður hefur sankað að sér í haust og það sem af er vetrar. Ég er reyndar fyrir löngu farinn að leiða hugann að flugum og þá skaut upp í kollinn á mér hversu mikið viðhorf mitt til fluguhnýtingar hefur breyst frá því ég steig fyrstu skrefin í hnýtingum. Þegar ég byrjaði að hnýta, snérust fyrstu flugurnar um að koma þræðinum á öngulinn án þess að slíta hann í tíma og ótíma, festa einhverjar fjaðrir niður í væng, vefja eða skeggja þær eftir því sem maður treysti sér til og fela síðan fluguna fyrir allra augum. Reyndar á ég ennþá einhverjar af þessum einstaklega ljótu, illahnýttu flugum. Einhver kann að segja að mér hafi lítið farið fram, en ég er alltaf að verða sáttari.

    fos_adstada

    Síðar tók við það lengsta tímabil sem hefur varað í mínum hnýtingum. Tímabil hinna ítarlegu leiðbeininga sem fylgt var út í ystu æsar og hvergi brugðið frá uppskriftinni. Ég vil reyndar meina að þetta tímabil hafi verið mér holt og ég lært mikið af því. Með tíð og tíma hef ég sannfærst um að flugur verða eiginlega að fylgja ákveðnum reglum til að ganga í augun á silunginum. Vængur á vorflugu á sér sinn rétta stað, skegg þarf að vera rétt vaxið niður og skott má ekki vera úr hófi langt. Eitthvað svipað má segja um púpur, þær þurfa að eiga sér haus, miðju og hala (ef það á við) í þokkalegum hlutföllum. Allar þessar óskráðu reglur hefur maður lært af því að fylgja uppskriftum þekktra flugna í gegnum tíðina og það síast inn hvað gengur og hvað gengur ekki í hnýtingum.

    Nú leitar hugurinn aftur til þess að setja mark mitt á flugurnar, hnýta örlítið frábrugðið uppskriftinni í efnisvali eða áherslum, gera flugurnar svolítið að mínum í stað þess sem höfundarnir hugsuðu sér nákvæmlega í upphafi. Ég er ekki að tala um að mínar útfærslur veiði endilega betur en þær upprunalegu, þær eru bara aðeins meira mínar. Samhliða hefur hugurinn leitað á ókunnar slóðir og sífellt oftar hef ég leitað í smiðju lítt þekktra hnýtara eða þá gleymdra flugna og gefið þeim nýtt líf í boxinu mínu. Nú kann einhver að segja að það þurfi ekki sífellt að finna upp nýjar flugur, þær hafi þegar komið fram sem veiða og það er mikið til í því. En þá færi nú fyrst að hilla undir leiðindi við hnýtingarnar ef maður hnýtti aðeins Pheasant Tail og Peacock.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 72 73 74 75 76 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar