Það er næstum árlegt að ég reyni að finna not fyrir allar fjaðrirnar af hringfasananum sem ég keypti fyrir mörgum árum síðan. Fjaðrirnar af þessum ham hafa vissulega komið mér að ýmsum notum í gegnum árin, en þeir sem þekkja til geta vottað að einn svona hamur af hringfasana samanstendur af ansi mörgum fjöðrum og enn hefur mér ekki tekist að nýta nema brot af þeim.

Á ferð minni í Veiðivötn sumarið 2016 fyllti ég örlítið á reynslubrunninn með því að veiða í vötnum sem ég hafði ekki prófað áður. Þeirra á meðal var Arnarpollur, sem eftir sumarið er orðinn eitt af mínum uppáhalds. Fallegt umhverfi og mikilúðlegir urriðar sem leynast þar í dýpinu. Sú fluga sem gaf mér jómfrúarfiskinn í vatninu var úr smiðju Stefáns Hjaltested. Mikill Nobbler, brúnn og eins og Stefáns er von og vísa, haganlega hnýttur. Án þess að slá því endanlega föstu, þá held ég að þetta hafi verið fyrsti brúni Dog Nobblerinn sem ég hef veitt á um ævina og það var enginn smá fiskur sem lét glepjast af honum. Sá brúni hefur verið mér hugleikinn alla tíð síðan, bæði Nobblerinn og urriðinn, og þegar ég rakst á mynd af flugu sem Nýsjálendingar nota töluvert í urriða, þá sá ég heilmikil not fyrir töluvert af fjöðrum hringfasanans gamalkunna.

Við fyrstu sýn virðist ekki mikið mál að hnýta slatta af fasanafjöðrum á öngul, en þessi fluga leynir töluvert á sér og það tók mig nokkrar tilraunir að ná henni þokkalegri. Ein útgáfa hennar verður örugglega með keiluhaus. Og hvar ætla ég henni fyrst í vatn? Jú, Arnarpollur í Veiðivötnum fær heiðurinn ef að líkum lætur. Uppskriftin og saga flugunnar kemur svo hér inn á síðunni á næstunni.