FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Að veiða tvær flugur

    12. apríl 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Flestir eru kunnugir því hvernig veiðimenn veiða tvær flugur á taumi, aðal- og aukaflugu, veiða með dropper eða afleggjara eins og kallað er. Þetta er sagt auka veiðimöguleika manna til muna og vissulega hef ég séð veiðimenn raða inn fiskum á sitthvora fluguna, þó algengara sé að menn veiði aðallega á aðra þeirra. Þá velja menn mismunandi týpur á tauminn, eina til að laða fiskinn að, vekja forvitni hans, en hina sem hann svo tekur þegar hún skýst inn í sjónsvið hans.

    fos_peacock_orgEn það er líka hægt að veiða tvær flugur á allt annan hátt. Við veiðifélagarnir rottum okkur yfirleitt saman þegar við komum á veiðislóð um það hvaða flugu hvort okkar um sig byrjar á að veiða. Já, við veiðum tvær mismunandi flugur þar til ein þeirra hefur sannað sig. Þá vill bregða við að sama flugan endar á hjá okkur báðum. En stundum dugar það einfaldlega ekki til. Það hefur alveg komið fyrir að Alma Rún hefur gefið og gefið, en aðeins öðru okkar. Hitt hefur þá þurft að fara í tilraunastarfsemi og endað kannski á Peacock. Það er nú ekki margt líkt með Peacock og Ölmu Rún, þannig að einhver ókunnur faktor er greinilega í spilinu. Drögum við veiðifélagarnir misjafnlega inn, leggst önnur þeirra betur niður heldur en hin eða er einfaldlega um það að ræða að ætið sem fiskurinn er í sé allt annað handan þessara 10 metra sem skilja okkur að við vatnið?

    fos_almarun

    Ég get svo sem ekki fullyrt eitthvað um þetta, en ég þori samt sem áður að draga eina mjög mikilvæga ályktun af þessu. Sú fluga sem sögð er veiða á ákveðnum stað, á ákveðnum tíma af ákveðnum veiðimanni, er alls ekki heilög og mögulega passar hún alls ekki tækni næsta manns eða inn á matseðil fisksins síðar. Undir liðnum vötnin hér á síðunni er að finna fjölda flugna sem gefið hafa í tilteknum vötnum. Þessar flugur eru aðeins sýnd veiði, ekki gefin, það eitt er víst.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að slétta úr taumi

    10. apríl 2017
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það er í raun mjög einfalt að klúðra því að rétta úr tauminum. Ef maður klemmir tauminn á milli fingurs og naglarm hættir jafnvel bestu taumum til að krullast upp í stað þess að rétta úr sér, þeir geta orðið eins og jólapakkaband á skærum.

    Taumur eða jólapakkaband?
    Taumur eða jólapakkaband?

    Þegar maður vill rétta úr taumi er best að taka þéttingsfast um sitt hvorn enda eða hluta hans og teygja á honum með jöfnu átaki. Rykkir og skrykkir eru aðeins til þess fallnir að slíta hnúta eða jafnvel tauminn sjálfan.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Frosinn taumur

    5. apríl 2017
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Í fyrrasumar var ég óvenju duglegur að veiða litlar flugur, þ.e. flugur sem hnýttar voru á króka #14 og #16. Mikið minni flugur á ég erfitt með að hnýta á tauminn, kominn á þennan aldur og er ekki með tvískipt gleraugu.

    Til að byrja með gekk mér heldur brösuglega að veiða þessi kríli, það var bara alls ekki eins og þær vildu leggjast út í framkastinu. Ég lengdi þá í tauminum, notaði 2X og 3X fremst, en allt kom fyrir ekki. Þær bara lögðust ekki eðlilega fram. Ég set eðlilega í skáletur vegna þess að það sem einum þykir eðlilegt eða ásættanlegt, þykir öðrum hlussugangur eða óþarfa stífni. Já einmitt, stífni, það var orðið sem kom upp í huga mér þegar ég kíkti á tauminn minn. Hvað ætli þessi taumur sé eiginlega gamall, hugsaði ég á meðan ég gróf eftir taumaveskinu og fann einn sem ekki var orðinn mattur í gegn og í þokkalegu ástandi. Eftir að hafa klippt allar lengingar framan af honum, byrjaði ég upp á nýtt og hnýtti X1, 0X og 3X framan á og lét reyna á kvikindið.

    fos_taumur

    Þessi taumur reyndist skárri, en alls ekki góður. Það fór að fara um mig, hafði allt kast frosið í höndunum á mér yfir veturinn? Heldur súr spólaði ég inn og kíkti á tauminn. Gat þetta verið? Var ég að blanda saman einhverju taumefni sem vildi ekki eiga samleið? Ég sá ekki betur en 0x parturinn væri úr allt öðru efni en hinir partarnir, sem þó gat ekki staðist því ég held mig að mestu við eina gerð taumaefnis, kaupi eiginlega ekkert annað. Það sló væntanlega rauðum bjarma á vatnið þegar ég gerði mér ljóst að ég hafði átt 0X spóluna hátt í þrjú ár í vestinu. Eftir að hafa gramsað í veiðitöskunni og fundið nýrri spólu af 1X og endurhannað tauminn frá grunni lögðust flugurnar eins vel fram og köstin mín yfirleitt bjóða uppá.

    Þetta var sú minning sem sótti á mig um daginn þegar ég undirbjó fyrstu (snautlegu) ferð sumarsins. Því fór ég vel yfir alla tauma og taumefni áður en ég pakkaði dótinu í bílinn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Stutt lína

    3. apríl 2017
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Vorboðar eru margir og af ýmsum gerðum. Heiðlóan hefur ákveðinn sess í hugum landsmanna og hennar má vænta í síðustu viku mars eða fyrstu viku apríl. Óðinshaninn, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, lætur yfirleitt ekki sjá sig fyrr en í annarri viku maí, svona u.þ.b. þegar veiðifélagið mitt færir sig frá hnýtingarþvingunum og út á tún til að teygja svolítið á línunum og liðka kastvöðvana.

    Ég man ekki alveg hvort það var s.l. vor eða þar síðasta að veiðifélagi minn var spurður á slíkri samkomu hvort hún væri ekki með full stutta línu á fjarkanum. Trúlega vafðist félaganum ekki tunga um tönn að þessu tilefni frekar en endranær og ég get rétt ímyndað mér að svarið hafi verið eitthvað á þá leið að hún þyrfti bara ekkert lengri línu í silunginn. Nú þekki ég takmarkað til laxveiða en af því sem ég hef flett upp þá eru flugulínur sem ætlaðar eru í laxveiði þetta á bilinu 80 – 120 fet fyrir einhendu á meðan flugulínur sem stimplaðar eru silungalínur yfirleitt á bilinu 60 – 80 fet. Ég held örugglega að allar mínar línur eru innan þessara marka, þ.e. á milli 60 og 80 feta. Það gæti þó verið að ég eigi eina sem er eitthvað styttri, væntanlega er hún ætluð í þurrfluguveiði.

    Óþarflega mikið úti
    Óþarflega mikið út af hjólinu

    Það kemur ekki oft fyrir að ég taki alla línuna út af hjólinu og í þau fáu skipti sem ég hef gert það, þá man ég ekki til þess að ég hafi náð að koma henni allri út, hún hefur svona meira verið að þvælast fyrir fótunum á mér. En, þegar sá stóri tekur, þá er ég viðbúinn og með nokkra tugi feta af undirlínu á hjólinu sem annars eru þarna bara til að víkka ummál miðjunnar í hjólinu þannig að stutta flugulínan mín krullist síður. Ég hef lúmskann grun um að því sé svipað farið með marga silungsveiðimenn, undirlínan þjónar aðeins þeim tilgangi að byggja undir flugulínuna á hjólinu. Sumir nota svera undirlínu með miklum slitstyrk en ég nota hefðbundna dacron línu með 20 punda slitstyrk og set bara þeim mun meira af henni inn á hjólið, ég get þá alltaf tekið af henni ef hún verður óheyrilega skítug og ógeðsleg. Hvort það reyni nokkurn tímann á hana er svo allt annað mál.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tekur þetta langan tíma?

    29. mars 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það var örugglega einhver heimspekingur sem sagði að það væri ekki til heimskuleg spurning, aðeins heimskuleg svör. Ég hef verið óhræddur við að spyrja spurninga sem næstum afsanna þessa fullyrðingu en svo hef ég líka átt minn þátt í að vera á mörkunum hvað varðar svörin. Ég man að vísu ekki hve langt er um liðið frá því ég fékk fyrst spurninguna um það hve langan tíma það tæki að ná tökum á fluguveiðinni. Fyrst ætlaði ég að slá um mig og svara einhverju af viti, en svo rann upp fyrir mér að ég hafði bara ekki minnstu hugmynd um rétt svar við þessari spurningu. Ég vék mér því hjá algildu svari og sagðist ætla að láta viðkomandi vita þegar ég kæmist að því. Það eru örugglega einhver ár síðan þetta var og enn hef ég ekki nema óljósa hugmynd um rétt svar. Ég vona eiginlega að ég komist aldrei að því, fluguveiðin er svo einstaklega skemmtilegur skóli.

    Svona rétt á meðan ég færist örlítið nær svarinu, þá hef ég mótað með mér ákveðna hugmynd um tímaramma sem áhugasamir geta stuðst við. Segjum sem svo að viðkomandi fái áhuga á fluguveiði rétt um þrítugt. Þá á hann óteljandi góð ár eftir af ævinni, eiginlega öll þau bestu, en skiptum þeim upp í þrjú jafnlöng tímabil, hvert um sig 20 ár.

    Eyddu fyrstu 10 árunum í að sannfæra sjálfan þig um að þú sért veiðimaður. Mér skilst að þetta sé einhver þumalputtaregla úr listnámi; sannfærðu sjálfan þig um að þú sért listamaður, þá fara aðrir að trúa því. Fluguveiði er listgrein. Eyddu síðan næstu 10 árum í að finna þér réttu tólin. Rétt eins og myndhöggvarinn, þá þarftu að kljúfa marga steina áður en Venus frá Milo sprettur fullsköpuð fram úr grjótinu og þá þarftu góðar græjur. Fluguveiðin er ekkert ósvipuð, taktu þér góðan tíma í að brýna meitlana, velja þér réttu græjurnar.

    fos_kf_gislholtsvatn_third
    Höfundur við Gíslholtsvatn

    Næstu 20 árin eru undirstaða lærdóms. Lærðu á verkfærin, lærðu undirstöðuatriði flugukastsins undir handleiðslu einhvers sem vit hefur á, fyrri 10 árin og fylgstu síðan með þeim sama næstu 10 árin þar sem hann les veiðistaðina, lífríkið og velur sér flugur í takt við það sem er að gerast í náttúrunni.

    Síðustu 20 árin eru mest spennandi. Þú ferð í þína fyrstu alvöru veiðiferðir upp á eigin spýtur og eyðir 10 árum í að gera öll mistökin sem enn eru óskráð í sögubækurnar og finnur eigin vanmátt gagnvart fiskinum og duttlungum hans. Þú mátt eiga von á að allt að 5 ár fari í bræðisköst og mislukkaðar veiðiferðir þar sem ekkert gengur upp, enginn fiskur kemur á land en smátt og smátt nærðu tökum á þessu og síðustu 10 árin nærðu að slaka þannig á að ánægjan og fullnægjan af einum fiski er þér næg í hverri veiðiferð.

    Þeim sem þykja þessi viðmið taka aðeins of langan tíma, geta stytt heildartímann úr 60 árum niður í 6 ár, 6 vikur eða 6 daga. Fluguveiði er ekki háð tíma, hún er ávöxtur áhuga og elju og það er undir hverjum og einum komið hve langan tíma það tekur að ná tökum á þessu. Mundu bara að því skemur sem fyrstu 50 árin taka, því lengri tíma áttu í síðustu 10, en sættu þig við að þú verður aldrei fullnuma.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kraftakarlar í roki

    27. mars 2017
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Það kemur almennri skynsemi lítið við, meira í átt við ósjálfráða hegðun, að ef eitthvað stendur fast, þá beitir maður meira afli til að losa það. Fastur skrúfbolti kallar á meira á átak eða WD40 og ómælda biðlund. Eftir sem áður verður maður að gæta þess að snúa ekki boltann í sundur, beita ekki of miklu afli.

    Það sama á við þegar maður kastar flugulínu upp í vindinn. Ef maður eykur aflið of mikið, leggur of mikið í kastið, þá er eins víst að stöngin spennist of hratt og niðurstaðan verði endalausir hnútar, vindhnútar. Það eina sem er í stöðunni er að minnka aflið, einbeita sér að sléttu og felldu kasti, lausu við alla kraftastæla og leggja þeim mun meiri einbeitingu á tvítogið, auka hraða línunnar umfram aflið í kastinu. Aukin línuhraða og þrengri línuboga umfram aflið.

    Ekkert rok, aðeins blíða
    Ekkert rok, aðeins blíða

    Þetta var örugglega það sem við veiðifélagarnir gleymdum ítrekað s.l. sumar þegar vindurinn tók af okkur öll völd og neyddi okkur til að veiða í þveröfuga átt miðað við það sem við hefðum kosið. Í það minnsta voru strengirnir í handleggjum og öxlum að drepa okkur bæði dagana á eftir.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 68 69 70 71 72 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar