Það var örugglega einhver heimspekingur sem sagði að það væri ekki til heimskuleg spurning, aðeins heimskuleg svör. Ég hef verið óhræddur við að spyrja spurninga sem næstum afsanna þessa fullyrðingu en svo hef ég líka átt minn þátt í að vera á mörkunum hvað varðar svörin. Ég man að vísu ekki hve langt er um liðið frá því ég fékk fyrst spurninguna um það hve langan tíma það tæki að ná tökum á fluguveiðinni. Fyrst ætlaði ég að slá um mig og svara einhverju af viti, en svo rann upp fyrir mér að ég hafði bara ekki minnstu hugmynd um rétt svar við þessari spurningu. Ég vék mér því hjá algildu svari og sagðist ætla að láta viðkomandi vita þegar ég kæmist að því. Það eru örugglega einhver ár síðan þetta var og enn hef ég ekki nema óljósa hugmynd um rétt svar. Ég vona eiginlega að ég komist aldrei að því, fluguveiðin er svo einstaklega skemmtilegur skóli.

Svona rétt á meðan ég færist örlítið nær svarinu, þá hef ég mótað með mér ákveðna hugmynd um tímaramma sem áhugasamir geta stuðst við. Segjum sem svo að viðkomandi fái áhuga á fluguveiði rétt um þrítugt. Þá á hann óteljandi góð ár eftir af ævinni, eiginlega öll þau bestu, en skiptum þeim upp í þrjú jafnlöng tímabil, hvert um sig 20 ár.

Eyddu fyrstu 10 árunum í að sannfæra sjálfan þig um að þú sért veiðimaður. Mér skilst að þetta sé einhver þumalputtaregla úr listnámi; sannfærðu sjálfan þig um að þú sért listamaður, þá fara aðrir að trúa því. Fluguveiði er listgrein. Eyddu síðan næstu 10 árum í að finna þér réttu tólin. Rétt eins og myndhöggvarinn, þá þarftu að kljúfa marga steina áður en Venus frá Milo sprettur fullsköpuð fram úr grjótinu og þá þarftu góðar græjur. Fluguveiðin er ekkert ósvipuð, taktu þér góðan tíma í að brýna meitlana, velja þér réttu græjurnar.

fos_kf_gislholtsvatn_third
Höfundur við Gíslholtsvatn

Næstu 20 árin eru undirstaða lærdóms. Lærðu á verkfærin, lærðu undirstöðuatriði flugukastsins undir handleiðslu einhvers sem vit hefur á, fyrri 10 árin og fylgstu síðan með þeim sama næstu 10 árin þar sem hann les veiðistaðina, lífríkið og velur sér flugur í takt við það sem er að gerast í náttúrunni.

Síðustu 20 árin eru mest spennandi. Þú ferð í þína fyrstu alvöru veiðiferðir upp á eigin spýtur og eyðir 10 árum í að gera öll mistökin sem enn eru óskráð í sögubækurnar og finnur eigin vanmátt gagnvart fiskinum og duttlungum hans. Þú mátt eiga von á að allt að 5 ár fari í bræðisköst og mislukkaðar veiðiferðir þar sem ekkert gengur upp, enginn fiskur kemur á land en smátt og smátt nærðu tökum á þessu og síðustu 10 árin nærðu að slaka þannig á að ánægjan og fullnægjan af einum fiski er þér næg í hverri veiðiferð.

Þeim sem þykja þessi viðmið taka aðeins of langan tíma, geta stytt heildartímann úr 60 árum niður í 6 ár, 6 vikur eða 6 daga. Fluguveiði er ekki háð tíma, hún er ávöxtur áhuga og elju og það er undir hverjum og einum komið hve langan tíma það tekur að ná tökum á þessu. Mundu bara að því skemur sem fyrstu 50 árin taka, því lengri tíma áttu í síðustu 10, en sættu þig við að þú verður aldrei fullnuma.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.