Vorboðar eru margir og af ýmsum gerðum. Heiðlóan hefur ákveðinn sess í hugum landsmanna og hennar má vænta í síðustu viku mars eða fyrstu viku apríl. Óðinshaninn, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, lætur yfirleitt ekki sjá sig fyrr en í annarri viku maí, svona u.þ.b. þegar veiðifélagið mitt færir sig frá hnýtingarþvingunum og út á tún til að teygja svolítið á línunum og liðka kastvöðvana.
Ég man ekki alveg hvort það var s.l. vor eða þar síðasta að veiðifélagi minn var spurður á slíkri samkomu hvort hún væri ekki með full stutta línu á fjarkanum. Trúlega vafðist félaganum ekki tunga um tönn að þessu tilefni frekar en endranær og ég get rétt ímyndað mér að svarið hafi verið eitthvað á þá leið að hún þyrfti bara ekkert lengri línu í silunginn. Nú þekki ég takmarkað til laxveiða en af því sem ég hef flett upp þá eru flugulínur sem ætlaðar eru í laxveiði þetta á bilinu 80 – 120 fet fyrir einhendu á meðan flugulínur sem stimplaðar eru silungalínur yfirleitt á bilinu 60 – 80 fet. Ég held örugglega að allar mínar línur eru innan þessara marka, þ.e. á milli 60 og 80 feta. Það gæti þó verið að ég eigi eina sem er eitthvað styttri, væntanlega er hún ætluð í þurrfluguveiði.

Það kemur ekki oft fyrir að ég taki alla línuna út af hjólinu og í þau fáu skipti sem ég hef gert það, þá man ég ekki til þess að ég hafi náð að koma henni allri út, hún hefur svona meira verið að þvælast fyrir fótunum á mér. En, þegar sá stóri tekur, þá er ég viðbúinn og með nokkra tugi feta af undirlínu á hjólinu sem annars eru þarna bara til að víkka ummál miðjunnar í hjólinu þannig að stutta flugulínan mín krullist síður. Ég hef lúmskann grun um að því sé svipað farið með marga silungsveiðimenn, undirlínan þjónar aðeins þeim tilgangi að byggja undir flugulínuna á hjólinu. Sumir nota svera undirlínu með miklum slitstyrk en ég nota hefðbundna dacron línu með 20 punda slitstyrk og set bara þeim mun meira af henni inn á hjólið, ég get þá alltaf tekið af henni ef hún verður óheyrilega skítug og ógeðsleg. Hvort það reyni nokkurn tímann á hana er svo allt annað mál.
Senda ábendingu