FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Horfinn fiskur

    31. júlí 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það kemur fyrir mig, rétt eins og aðra veiðimenn, að ég missi fisk eftir að ég þykist vera búinn að tryggja tökuna og held þokkalega við. Mér fannst samt keyra alveg um þverbak s.l. sumar þegar ónefndur veiðimaður sem ég fylgist stundum með, missti hvern fiskinn á fætur öðrum með tilheyrandi formælingum og særindum. Væntanlega varð ekki aðeins veiðimaðurinn sár, fiskurinn væntanlega einnig, en svekkelsið sat aðeins eftir hjá veiðimanninum. Svona getur þetta stundum verið, en þegar þetta er farin að verða regla frekar en undantekning, þá er rétt að staldra við og athuga hvort ekki megi bæta úr ástandinu. Verð raunar að taka það fram að viðkomandi veiðimaður lagfærði fljótlega hvað það nú var sem ekki virkaði og tók fjölda fiska á land eftir þetta ólukkutímabil.

    Eitt af því sem vert er að athuga ef flugan vill ekki haldast í fiskinum er hvort krókurinn sé nógu beittur. Það segir sig nokkuð sjálft að sljór krókur heldur verr en beittur. Fyrstu reddingar felast þá í að skipta um flugu og ganga úr skugga um að sú nýja sé nægjanlega beitt. Síðar má taka fram brýnið og skerpa örlítið á flugunni sem sleppti fiskinum.

    Ef ekkert er að krókinum, má efast um að flugan sé yfirhöfuð í réttri stærð. Ef hún mögulega of stór? Það hljómar alltaf jafn ótrúlega, en minni fluga festist betur en stór. Prófaðu að færa þig niður um eina stærð í flugu, e.t.v. liggur vandmálið í stærð hennar.

    Á sporðinum burt
    Á sporðinum burt

    Þegar þetta tvennt er talið, þá eru lagfæringar á viðbragði og viðhaldi það sem oftast situr eftir. Mér hefur alltaf fundist latar tökur silungsins, sér í lagi bleikjunnar, eiga það frekar til að leka úr fiskinum. Það má svo sem alltaf reyna að landa fiskinum án þess að bregðast svolítið ákveðnar við slíkum tökum, annað hvort tekst það eða ekki. Það er reyndar sömu sögu að segja um snaggaralegt viðbragð eftir lata töku. Stundum tekst það, stundum ekki. Þarna á veiðimaðurinn völina og þar með kvölina. Sjálfur hef ég oftar en ekki brugðist tvöfalt við lötum tökum bleikjunnar; reist stöngina og tekið nokkuð hressilega í línuna á sama augnabliki. Hvort sem ég hef þannig náð að tryggja tökuna betur eða að hún var mun ákveðnari heldur en ég hélt, þá hefur þetta yfirleitt virkað fyrir mig, yfirleitt. Stundum hefur það komið fyrir að upp úr vatninu skjótist flugan ein og sér. Þetta eru augnablikin sem ég leik broddgölt á vatnsbakkanum og hnipra mig saman. Hver vill fá flugu í andlitið?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Góðir kostir

    26. júlí 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Hvað þarf til þess að verða góður veiðimaður? Því hafa margir svarað í gegnum tíðina, sumir fullir sjálftrausts og sannfæringu um eigið ágæti, en aðrir með hógværu lítillæti og taka það fram að þeir sjálfir uppfylli ekki helming þess sem gátlistinn yfir góðan veiðimann telur upp. Ég geri mér engar grillur um að ég sé góður veiðimaður, en ég stefni á það og þess vegna reyni ég að hafa nokkra punkta í huga þegar kemur að veiði.

    Fyrir það fyrsta reyni ég af fremsta megni að tileinka mér þolinmæði í fluguveiðinni, ekki síst þegar kemur að kastinu. Takk fyrir, en mér gengur það yfirleitt bölvanlega. Ég hef ekki hugmynd um hve marga fiska ég fæli undan fljótfærum köstum á hverju sumri, þeir skipta væntanlega tugum. En, ég á mér viðreisnar von því ég geri mér grein fyrir þessum skorti á þolinmæði og ætla að tileinka mér aukna þolinmæði þegar kemur að næstu vertíð, loksins. Mín þolinmæði kemur úthaldi við veiði ekkert við, það er allt annar handleggur sem ég kem hér að síðar.

    fos_kf_thingvallavatn_kvold
    Við Þingvallavatn

    Æfingin skapar meistarann, já einmitt. Ég æfi mig alls ekki nógu mikið, eiginlega ekki neitt áður en ég fer í fyrstu veiðiferð sumarsins. Ég reyndar skrepp nokkur kvöld niður á tún með nokkrum félögum, en þær æfingar snúast yfirleitt fljótlega upp í þögla keppni um að kasta sem lengst, ekki fallegast eða nákvæmast. Ég þarf virkilega að taka mig á í æfingunum, það fer á gátlistann fyrir næsta sumar.

    Athygli er víst eitthvað sem fluguveiðimenn eiga að hafa í ríku mæli. Jú, ég athuga veðurspánna, hvenær næsta frídag ber við helgi og svo legg ég af stað. Þar með er athyglisgáfa mín eiginlega búin. Þegar ég mæti á staðinn gleymi ég allt of oft að skima umhverfið, skoða undir steinana og ganga úr skugga um hvað fiskurinn sé mögulega að éta. Ég byrja bara á einhverri öruggri flugu og sé síðan til hver verður næst í röðinni. Kannski maður reyni að breyta þessu eitthvað næsta sumar.

    Ég er ríkulega búinn þrautseigju, sem er talinn kostur fyrir fluguveiðimann. Reyndar hef ég heyrt einhverja nota orð eins og þrjóska og þvermóðska þegar þeir lýsa þrautseigjunni minni, en það eru bara þeirra orð. Ég get alveg átt það til að standa mjög fastur fyrir og reyna, og reyna, og reyna þótt ekkert gefi. Mín þrautseigja leysir þolinmæðina oft af hólmi.

    Þessi grein er fyrst og fremst samin fyrir sjálfan mig sem áminning um allt það sem ég ætla að laga í sumar. Ef til vill á hún ekkert erindi við aðra, eða kannski þó smá?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvenær er matatími?

    24. júlí 2017
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Ég hef stundum heyrt talað um að ekkert hafi veiðst í tiltekin tíma vegna þess að fiskurinn hafi legið á meltunni. Sjálfur hef ég aldrei upplifað það að sjá silung liggja á meltunni og hef satt best að segja ekki minnstu hugmynd um hvernig það ætti að fara fram. Hingað til hef ég trúað líffræðingum sem halda því fram að silungur éti stöðugt svo lengi sem fæðuframboð er til staðar og hitastig vatnsins fellur ekki þannig að orkubúskapurinn verði neikvæður. En, svo lengi má halda einhverju fram að maður fer að leggja trúnað á það, eða hvað?

    Ég hef séð bleikju leggjast fyrir þegar vatnshitinn fer upp fyrir 9°C, þá leitar hún niður á botn eða eins og þekkt er í Frostastaðavatni, inn í víkur þar sem kalt vatn sprettur fram undan hrauninu. Urriðinn dregur sig víst í hlé þegar hitastigið nær 12°C en mér hefur aldrei tekist að sjá hvar og hvernig hann leggst fyrir. En þetta kemur matarást silungs eiginlega ekkert við. Meira að segja þegar bleikjan sækir í kaldara vatn, leggst fyrir, þá hættir hún alls ekkert að éta, annars væri lítið um fluguveiði á sumrum víðast hvar.

    fos_bleikja_rod
    Bleikja

    Veiðimenn þurfa væntanlega að leita annarrar ástæðu heldur margumtalaðs matarhlés þegar silungurinn hættir skyndilega að taka agn þeirra. Frá vori og fram á haust er líklegasta skýringin að fiskurinn hafi fært sig til í vatnsbolnum vegna hita eða vegna þess að álitlegra æti hafi skyndilega tekið að klekjast eða komið inn á veiðisvæði hans. Veiðimenn mega ekki gleyma því að silungur er nýjungagjarn, hann tekur nýframkomið æti fram yfir það sem hefur verið á matseðlinum fram að þeim tíma. Fiskurinn færir sig meira að segja til í vatnsbolnum til að nálgast nýja ætið, snýr eiginlega baki við gamla matseðlinum þótt nóg sé eftir á honum. Dæmi um svona háttalag er þegar urriði tekur Nobbler grimmt fyrri part dags, en hættir því skyndilega um hádegisbil eða um seinna kaffi þegar t.d. toppflugan tekur að klekjast. Þá færir fiskurinn sig til í vatninu, leitar örlítið út frá ströndinni eða skerjum, utar á vatnið og tekur toppfluguna rétt undir yfirborðinu. Ef þessi breyting fer framhjá veiðimanninum, þá virkar þetta eins og urriðinn verði skyndilega saddur, hætti að éta og leggist á meltuna, en því fer fjarri. Hann er einfaldlega að skipta um rétt á matseðlinum sem þýðir að veiðimaðurinn verður þá að skipta um agn, hvíla Nobblerinn og taka fram Toppfluguna.

    Síðla sumars og á haustin er ekki óalgengt að fiskurinn dragi sig niður á botn eða út í dýpið þegar skyndilega hvessir eða langvarandi goluskítur hefur verið við vatnið. Vindkæling getur verið töluverð og fellt vatnshita um nokkrar gráður á skömmum tíma ef hressilega blæs. Fiskurinn hættir ekkert endilega að éta, hann étur bara eitthvað allt annað og á öðru dýpi heldur en áður. Það er undir veiðimanninum komið að finna út úr því hverju hann er að sinna og koma réttu agni niður eða út til hans. Auðveldlega sagt, erfiðara við að eiga.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • DT, WF, ST eða L

    12. júlí 2017
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Hversu margir hafa ekki rekist á þessar skammstafanir á flugulínum? Um daginn var ég að spjalla við vinnufélaga minn, þokkalega reyndan veiðimann og þá bárust flugulínur í tal. Það kom mér ekkert á óvart að hann hváði þegar ég sagði honum að ég veldi WF (weight forward) umfram DT (double taper) línur. Eftir að hafa skýrt í stuttu máli fyrir honum, muninn á þessum línum, þá rann upp fyrir honum ljós; Já, ætli ég eigi ekki svona línu sem ég nota eiginlega aldrei, keypti hana á útsölu á slikk. En hver er eiginlega munurinn á þessum línum? Eftirfarandi er alls ekki tæmandi úttekt, en gefur kannski einhverja hugmynd um helstu atriðin sem skilja þessar línur að. Byrjum á smá upprifjun á því hvernig algengar flugulínur eru byggðar upp.

    Fremsti partur línunnar (tip) er yfirleitt innan við eitt fet og þjónar þeim eina tilgangi að festa tauminn við línuna. Næst kemur fremri kónn línunnar (front taper) sem er breytilegur eftir línum, oft ekki nema 9 fet, stundum styttri, stundum til muna lengri. Á eftir kóninum kemur sjálfur belgur línunnar og er yfirleitt í sama sverleika allt aftur að aftari kón (back taper) sem er yfirleitt eins eða svipaður að lengd og sá fremri. Saman nefnast þessir þrír partar (kónarnir og belgurinn) haus línunnar. Önnur undantekningin frá þessu eru línur sem búnar eru s.k. skothaus og eru einkenndar með ST (shooting taper). Þá má segja að aftari kóninn vanti alveg, línan mjókkar snarlega niður í rennslislínuna sem er einmitt aftasti partur línunnar. Hin undantekningin er svo línur sem eru raunar frekar vandfundna. Það sem einkennir þær er að þær eru af sama sverleika frá byrjun til enda, hafa hvorki haus né hali. Þessar línur eru einkenndar með L (level taper).

    fos_linubygging
    Gerðir flugulína

    Almennt er sagt um DT línur að þær beri veltikast betur heldur en WF línur, auðveldara sé að stjórna þeim og þær leggist mjúklegar niður. WF línur henta aftur á móti betur en DT línur til að ná lengri köstum. Þetta er gott og gilt, eins langt og það nær, en hafa ber í huga að það er massi fremsta parts línunnar sem ræður mestu um hve fínlega hún leggst fram. Grönn lína með löngum fremri kón hefur minni massa heldur en sama lína með stuttum kón. Þannig getur WF lína lagst alveg eins mjúklega fram í styttri köstum eins og DT lína ef t.d. fyrstu 30 fetin eru svipuð hönnuð hvað varðar massa.

    Þegar kemur að veltikastinu og meira reynir á jafna dreifingu þyngdar, koma kostir DT línunnar í ljós. Þegar kasta á upp í vind, þá hefur WF aftur á móti vinninginn. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er það undir hverjum og einum komið hvort hann velur DT eða WF línu. Trúlega eru WF línurnar vinsælli vegna þess að það er hægt að velja sér þannig línu sem er með svipaða byggingu og DT lína og virkar því svipað í styttri köstum, gefur þar að auki kost á lengri köstum ef á þarf að halda, en þá á kostnað fínleika þegar hún leggst niður.

    Sísta línan til að kasta af þessum gerðum er L línan. Að vísu er þetta sú lína sem flýtur best, þ.e. jafnast þar sem hún er af sama sverleika frá byrjun til enda. Það er því alveg sama hvaða hluti hennar liggur í vatninu, hún flýtur eins alla leið. Vegna lögunnar línunnar og jafnrar þyngdardreifingar er hún aftur á móti einstaklega leiðinleg í kasti.

    Þegar einhver var spurður að því hvað ST lína væri eiginlega, þá svaraði hann að skotlína væri eiginlega WF lína á sterum, allur massinn hefði safnast saman fremst í henni. Mér finnst þetta ágæt skýring.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Af dellum

    10. júlí 2017
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Ég á nokkra kunningja sem fylgjast með boltanum. Þeir eru óviðræðuhæfir á laugardögum (eru það annars ekki leikdagar?) á veturna, ekkert má trufla einlífi þeirra fyrir framan sjónvarpsskjáinn og evrópu- og heimsmeistaramót eru stórhátíðir og næstum rúmhelgir dagar. Sumir þeirra skilja ekkert í mínu áhugamáli, svipað og ég skil ekki baun í þeirra skeggræðum um kaup og sölu leikmanna. Ég sem hélt að mansal væri ólöglegt.

    Einhverju sinni lenti ég í því að missa glottið út í skellihlátur þegar fyrir framan mig stóð einn, íklæddur rauðri íþróttatreyju með feitletraða auglýsingu flugfélags þvert yfir brjóstkassann og býsnaðist yfir því að allir veiðimenn væru íklæddir sömu ljótu veiðifötunum, grátt og grænt. Trúlega er allur veiðifatnaður öðrum líkur í augum þeirra sem ekki eru haldnir veiðidellunni, en þetta var svolítið að henda steini úr glerhúsi fannst mér. Ég er heldur ekki viðræðuhæfur á sumrum, ekki bara um helgar, heldur eiginlega alla daga, þannig að mér ferst að setja út á stórhátíðir fótboltaáhugamanna.

    fos_flugustangir_longer

    En auðvitað er þetta ákveðin sýki, þ.e. veiðidellan. Maður byrjar í rólegheitum með eina stöng og hjól, örfáar flugur í boxi og áður en hendi er veifað er maður byrjaður að hnýta sýnar eigin flugur, fjölgar stöngum og hjólum og til að taka steininn úr, þá fjárfestir maður í ljótu grænu veiðivesti og grá-brúnum vöðlum og veiðijakka. Svo kemst maður á hættulegt stig þegar maður stendur sjálfan sig að því að velta við steinum í vatninu í leit að matseðli silungsins eða velta fyrir sér ástandi fiskistofna. Maður getur jafnvel tekið upp á því að hafa áhyggjur af erfðamengun villtra fiskistofna ef milljóna virði eldisfisks sleppur úr sjókvíum við Ísland eða óafturkræfum áhrifum arðbærra virkjana sem rústa fiskfarvegum. Þetta er stórhættuleg della og rétt að vara unga veiðimenn við, það er aldrei að vita hvar þetta endar hjá ykkur, en mikið ofboðslega er þetta nú skemmtilegt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Æ, ég tylli henni hérna

    5. júlí 2017
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Ég stend sjálfan mig oft að því að tylla stönginni minni hér eða þar, svona rétt á meðan ég þarf að gera eitthvað áríðandi eða klára að taka mig til í veiði. Yfirleitt er ég með stangarhaldara á bílnum og því engin afsökun að tylla stönginni ekki þar ef svo ber undir, en þrátt fyrir haldarana er spegillinn enn nokkuð vinsæll áningarstaður fyrir stöngina hjá mér. Þetta er slæmur staður, ég veit það og hugsa um það í hver einasta skipti sem ég legg stöngina mína á milli spegils og hurðapósts. Það þarf ekki nema augnabliks gleymsku og eitthvert fát til að opna hurðina og þá er stöngin væntanlega í sundur. Ég þarf að venja mig af þessum ósið.

    Þessar eru öruggar á leiðinni heim
    Þessar eru öruggar á leiðinni heim

    Það er lítið skárra að halla stönginni upp að birkihríslu. Að vísu eru mestar líkur á að línan og jafnvel stöngin sjálf flækist í hríslunni og því minni líkur á að hún detti, en þetta er samt ekki góður staður. Á jörðina ætti stöngin aldrei að fara, þar er henni bráð hætta búinn þegar maður skoppar um á öðrum fæti, annað hvort á leið í eða úr vöðlunum.

    Í upphafi er einfaldast að klára að klæða sig í allan útbúnað áður en maður setur stöngina saman, vera klár í slaginn og setja punktinn yfir i-ið með því að taka fram vopnið, setja það saman og hefja veiði. Í lok veiði ætti maður að byrja á því að taka stöngina í sundur, strjúka af henni og setja í hólkinn. Ef maður þarf endilega að leggja hana frá sér og er ekki með stangarhaldara á bílnum, þá er um að gera að leggja hana á húddið, beint fyrir framan framrúðuna, þá gleymist hún ekki upp við næsta runna eða tré.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 63 64 65 66 67 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar