Flýtileiðir

Góðir kostir

Hvað þarf til þess að verða góður veiðimaður? Því hafa margir svarað í gegnum tíðina, sumir fullir sjálftrausts og sannfæringu um eigið ágæti, en aðrir með hógværu lítillæti og taka það fram að þeir sjálfir uppfylli ekki helming þess sem gátlistinn yfir góðan veiðimann telur upp. Ég geri mér engar grillur um að ég sé góður veiðimaður, en ég stefni á það og þess vegna reyni ég að hafa nokkra punkta í huga þegar kemur að veiði.

Fyrir það fyrsta reyni ég af fremsta megni að tileinka mér þolinmæði í fluguveiðinni, ekki síst þegar kemur að kastinu. Takk fyrir, en mér gengur það yfirleitt bölvanlega. Ég hef ekki hugmynd um hve marga fiska ég fæli undan fljótfærum köstum á hverju sumri, þeir skipta væntanlega tugum. En, ég á mér viðreisnar von því ég geri mér grein fyrir þessum skorti á þolinmæði og ætla að tileinka mér aukna þolinmæði þegar kemur að næstu vertíð, loksins. Mín þolinmæði kemur úthaldi við veiði ekkert við, það er allt annar handleggur sem ég kem hér að síðar.

fos_kf_thingvallavatn_kvold
Við Þingvallavatn

Æfingin skapar meistarann, já einmitt. Ég æfi mig alls ekki nógu mikið, eiginlega ekki neitt áður en ég fer í fyrstu veiðiferð sumarsins. Ég reyndar skrepp nokkur kvöld niður á tún með nokkrum félögum, en þær æfingar snúast yfirleitt fljótlega upp í þögla keppni um að kasta sem lengst, ekki fallegast eða nákvæmast. Ég þarf virkilega að taka mig á í æfingunum, það fer á gátlistann fyrir næsta sumar.

Athygli er víst eitthvað sem fluguveiðimenn eiga að hafa í ríku mæli. Jú, ég athuga veðurspánna, hvenær næsta frídag ber við helgi og svo legg ég af stað. Þar með er athyglisgáfa mín eiginlega búin. Þegar ég mæti á staðinn gleymi ég allt of oft að skima umhverfið, skoða undir steinana og ganga úr skugga um hvað fiskurinn sé mögulega að éta. Ég byrja bara á einhverri öruggri flugu og sé síðan til hver verður næst í röðinni. Kannski maður reyni að breyta þessu eitthvað næsta sumar.

Ég er ríkulega búinn þrautseigju, sem er talinn kostur fyrir fluguveiðimann. Reyndar hef ég heyrt einhverja nota orð eins og þrjóska og þvermóðska þegar þeir lýsa þrautseigjunni minni, en það eru bara þeirra orð. Ég get alveg átt það til að standa mjög fastur fyrir og reyna, og reyna, og reyna þótt ekkert gefi. Mín þrautseigja leysir þolinmæðina oft af hólmi.

Þessi grein er fyrst og fremst samin fyrir sjálfan mig sem áminning um allt það sem ég ætla að laga í sumar. Ef til vill á hún ekkert erindi við aðra, eða kannski þó smá?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com