Flýtileiðir

Hvenær er matatími?

Ég hef stundum heyrt talað um að ekkert hafi veiðst í tiltekin tíma vegna þess að fiskurinn hafi legið á meltunni. Sjálfur hef ég aldrei upplifað það að sjá silung liggja á meltunni og hef satt best að segja ekki minnstu hugmynd um hvernig það ætti að fara fram. Hingað til hef ég trúað líffræðingum sem halda því fram að silungur éti stöðugt svo lengi sem fæðuframboð er til staðar og hitastig vatnsins fellur ekki þannig að orkubúskapurinn verði neikvæður. En, svo lengi má halda einhverju fram að maður fer að leggja trúnað á það, eða hvað?

Ég hef séð bleikju leggjast fyrir þegar vatnshitinn fer upp fyrir 9°C, þá leitar hún niður á botn eða eins og þekkt er í Frostastaðavatni, inn í víkur þar sem kalt vatn sprettur fram undan hrauninu. Urriðinn dregur sig víst í hlé þegar hitastigið nær 12°C en mér hefur aldrei tekist að sjá hvar og hvernig hann leggst fyrir. En þetta kemur matarást silungs eiginlega ekkert við. Meira að segja þegar bleikjan sækir í kaldara vatn, leggst fyrir, þá hættir hún alls ekkert að éta, annars væri lítið um fluguveiði á sumrum víðast hvar.

fos_bleikja_rod
Bleikja

Veiðimenn þurfa væntanlega að leita annarrar ástæðu heldur margumtalaðs matarhlés þegar silungurinn hættir skyndilega að taka agn þeirra. Frá vori og fram á haust er líklegasta skýringin að fiskurinn hafi fært sig til í vatnsbolnum vegna hita eða vegna þess að álitlegra æti hafi skyndilega tekið að klekjast eða komið inn á veiðisvæði hans. Veiðimenn mega ekki gleyma því að silungur er nýjungagjarn, hann tekur nýframkomið æti fram yfir það sem hefur verið á matseðlinum fram að þeim tíma. Fiskurinn færir sig meira að segja til í vatnsbolnum til að nálgast nýja ætið, snýr eiginlega baki við gamla matseðlinum þótt nóg sé eftir á honum. Dæmi um svona háttalag er þegar urriði tekur Nobbler grimmt fyrri part dags, en hættir því skyndilega um hádegisbil eða um seinna kaffi þegar t.d. toppflugan tekur að klekjast. Þá færir fiskurinn sig til í vatninu, leitar örlítið út frá ströndinni eða skerjum, utar á vatnið og tekur toppfluguna rétt undir yfirborðinu. Ef þessi breyting fer framhjá veiðimanninum, þá virkar þetta eins og urriðinn verði skyndilega saddur, hætti að éta og leggist á meltuna, en því fer fjarri. Hann er einfaldlega að skipta um rétt á matseðlinum sem þýðir að veiðimaðurinn verður þá að skipta um agn, hvíla Nobblerinn og taka fram Toppfluguna.

Síðla sumars og á haustin er ekki óalgengt að fiskurinn dragi sig niður á botn eða út í dýpið þegar skyndilega hvessir eða langvarandi goluskítur hefur verið við vatnið. Vindkæling getur verið töluverð og fellt vatnshita um nokkrar gráður á skömmum tíma ef hressilega blæs. Fiskurinn hættir ekkert endilega að éta, hann étur bara eitthvað allt annað og á öðru dýpi heldur en áður. Það er undir veiðimanninum komið að finna út úr því hverju hann er að sinna og koma réttu agni niður eða út til hans. Auðveldlega sagt, erfiðara við að eiga.

Eitt svar við “Hvenær er matatími?”

  1. Þórunn Björk Avatar

    Jááááá, héld ég þekki þetta! Þetta heitir sínart og fer þannig fram að maður er sínartandi í eitthvað frá því að maður vaknar og þangað til maður fer að sofa. ….Sefur silungur?

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com