Ég á nokkra kunningja sem fylgjast með boltanum. Þeir eru óviðræðuhæfir á laugardögum (eru það annars ekki leikdagar?) á veturna, ekkert má trufla einlífi þeirra fyrir framan sjónvarpsskjáinn og evrópu- og heimsmeistaramót eru stórhátíðir og næstum rúmhelgir dagar. Sumir þeirra skilja ekkert í mínu áhugamáli, svipað og ég skil ekki baun í þeirra skeggræðum um kaup og sölu leikmanna. Ég sem hélt að mansal væri ólöglegt.
Einhverju sinni lenti ég í því að missa glottið út í skellihlátur þegar fyrir framan mig stóð einn, íklæddur rauðri íþróttatreyju með feitletraða auglýsingu flugfélags þvert yfir brjóstkassann og býsnaðist yfir því að allir veiðimenn væru íklæddir sömu ljótu veiðifötunum, grátt og grænt. Trúlega er allur veiðifatnaður öðrum líkur í augum þeirra sem ekki eru haldnir veiðidellunni, en þetta var svolítið að henda steini úr glerhúsi fannst mér. Ég er heldur ekki viðræðuhæfur á sumrum, ekki bara um helgar, heldur eiginlega alla daga, þannig að mér ferst að setja út á stórhátíðir fótboltaáhugamanna.
En auðvitað er þetta ákveðin sýki, þ.e. veiðidellan. Maður byrjar í rólegheitum með eina stöng og hjól, örfáar flugur í boxi og áður en hendi er veifað er maður byrjaður að hnýta sýnar eigin flugur, fjölgar stöngum og hjólum og til að taka steininn úr, þá fjárfestir maður í ljótu grænu veiðivesti og grá-brúnum vöðlum og veiðijakka. Svo kemst maður á hættulegt stig þegar maður stendur sjálfan sig að því að velta við steinum í vatninu í leit að matseðli silungsins eða velta fyrir sér ástandi fiskistofna. Maður getur jafnvel tekið upp á því að hafa áhyggjur af erfðamengun villtra fiskistofna ef milljóna virði eldisfisks sleppur úr sjókvíum við Ísland eða óafturkræfum áhrifum arðbærra virkjana sem rústa fiskfarvegum. Þetta er stórhættuleg della og rétt að vara unga veiðimenn við, það er aldrei að vita hvar þetta endar hjá ykkur, en mikið ofboðslega er þetta nú skemmtilegt.