Ég stend sjálfan mig oft að því að tylla stönginni minni hér eða þar, svona rétt á meðan ég þarf að gera eitthvað áríðandi eða klára að taka mig til í veiði. Yfirleitt er ég með stangarhaldara á bílnum og því engin afsökun að tylla stönginni ekki þar ef svo ber undir, en þrátt fyrir haldarana er spegillinn enn nokkuð vinsæll áningarstaður fyrir stöngina hjá mér. Þetta er slæmur staður, ég veit það og hugsa um það í hver einasta skipti sem ég legg stöngina mína á milli spegils og hurðapósts. Það þarf ekki nema augnabliks gleymsku og eitthvert fát til að opna hurðina og þá er stöngin væntanlega í sundur. Ég þarf að venja mig af þessum ósið.

Það er lítið skárra að halla stönginni upp að birkihríslu. Að vísu eru mestar líkur á að línan og jafnvel stöngin sjálf flækist í hríslunni og því minni líkur á að hún detti, en þetta er samt ekki góður staður. Á jörðina ætti stöngin aldrei að fara, þar er henni bráð hætta búinn þegar maður skoppar um á öðrum fæti, annað hvort á leið í eða úr vöðlunum.
Í upphafi er einfaldast að klára að klæða sig í allan útbúnað áður en maður setur stöngina saman, vera klár í slaginn og setja punktinn yfir i-ið með því að taka fram vopnið, setja það saman og hefja veiði. Í lok veiði ætti maður að byrja á því að taka stöngina í sundur, strjúka af henni og setja í hólkinn. Ef maður þarf endilega að leggja hana frá sér og er ekki með stangarhaldara á bílnum, þá er um að gera að leggja hana á húddið, beint fyrir framan framrúðuna, þá gleymist hún ekki upp við næsta runna eða tré.
Senda ábendingu