Eins ótrúlegt og það nú hljómar þá kom örlítið bakslag í veiðina hjá mér eitthvert sumarið hér um árið þegar vindur var með mesta móti og töluvert viðvarandi. Í minningunni var vindur eiginlega úr öllum áttum, alltaf og því nær ómögulegt fyrir mig að veiða eitthvað af viti. Það var eiginlega alveg sama hvernig ég snéri, mér fannst vindurinn alltaf koma á kasthöndina. Neyðin kennir naktri konu að spinna segir máltækið, þannig að ég tók mig til og æfði mig í að láta fluguna fara út í bakkastinu.
Ég gleymi því aldrei þegar ég prófaði þetta fyrst, snéri mér við og falskastaði upp á bakkann og gerði svo heiðarlega tilraun til að sleppa línunni í bakkastinu. Á meðan ég falskastaði var kallað til mín; Þú snýrð vitlaust og þegar flugan loksins fór út á vatnið þá heyrðist; Þetta var ljótt. Helmingurinn af þessu var satt, þetta var ljótt en ég snéri ekkert endilega vitlaust. Með tíð og tíma og ekki má gleyma endalausum tilraunum, þá náði ég þokkalegum tökum á því að snúa mér við og næ núna orðið 2/3 af vegalengd venjulegs kasts með því að sleppa í bakkastinu.
Það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef maður snýr sér öfugt og sum þeirra lærði ég the hard way svo ekki sé meira sagt.
Eftir fyrstu tilraunir mínar var sjálfstraustið eiginlega komið alveg niður fyrir frostmark og mér lá við að hætta þessu alveg. Trúlega hefur það verið fullvissa um fisk sem fékk mig síðan til að reyna þetta aftur. Ég stappaði í mig stálinu og taldi sjálfum mér trú um að þetta gæti bara ekki verið svona flókið og því einblíndi ég á eina muninn á þessu kasti og því venjulega; ekki klára kastið í framkastinu, klára það í bakkastinu. Þá fóru þetta aðeins að ganga.
Þegar ég hafði náð örlitlum tökum á þessu, fór ég ósjálfrátt að ofhugsa dæmið og gerði fáránlegar tilraunir til að snúa kastinu við. Þannig er að hjá flestum er smá munur á fram- og bakkastinu og þessu reyndi ég að snúa við. Slæm ávörðun. Það borgar sig ekki að reyna að snúa kastinu við, hugsa bakkast upp á bakkann og framkast út á vatnið. Það verður bara til þess að kastið fer í döðlu. Muna bara eftir markmiði kastsins, þ.e. að koma flugunni út á vatnið og stoppa því endanlega í bakkastinu, ekki framkastinu.
Vindur frá vinstri, sleppt til hægri
Ég er ekki alveg viss um að allir séu sammála mér, en þegar ég sný örlítið upp á líkamann í kastinu, þ.e. sný ekki endilega nefinu í framkastið heldur vinstra eyranu (ég er rétthentur) þá gengur kastið betur fyrir sig. Með þessu móti næ ég að fylgjast betur með ferli línunnar í framkastinu, sem er mér þá á vinstri hönd og í bakkastinu sem er mér þá á hægri hönd. Undir þessum kringumstæðum verð ég samt að hemja mig að snúa ekki upp á kastferil stangarinnar, hann verður eftir sem áður að vera 180° frá hægri til vinstri. Já, og svo muna að stoppa endanlega í bakkastinu, ekki framkastinu.
Einhvers staðar rakst ég á, man því miður ekki hvar það var, að lyfta vinstri hendinni upp í lokakastinu, leyfa línunni þannig að fá frítt spil til að renna út þegar ég sleppi henni. Með þessu móti þarf línan ekki að taka óþarfa sveigju framhjá fótunum á mér þegar hún rennur út. Svei mér ef þetta breytti ekki alveg bakkastinu mínu.
Eitt er ég enn að glíma við í þessu kasti og það er að ég á það mjög gjarnan til að reyna að hjálpa lokakastinu til að ná örlítið lengra út. Með öðrum orðum, ég set of mikinn kraft í síðasta kastið og þá ferð kastbugurinn náttúrulega í hnút, bókstaflega. Þetta er svo sem ekkert öðruvísi í þessu kasti heldur en öðrum, ég hef þessa tilhneigingu hvort sem ég ætla að sleppa flugunni í fram- eða bakkastinu.
Ég hef stundum kallað hann ‚púkann‘ minn. Hann er stærri en svo að hann geti setið á öxlinni á mér, miklu stærri en það. Þetta er ekki heldur góður félagi minn sem sem stundum stendur álengdar og fylgist með mér æfa kastið og lætur mig heyra það ótæpilega ef ég geri einhverja vitleysu. Þessi púki hefur grafið um sig í kollinum á mér og fer meira að segja oftar með mér í veiði heldur en raunverulegur veiðifélagi minn.
Nú síðast kallaði hann á mig í hita leiksins þegar uppitökur voru úti um allt, fiskur í stuði og ég gerði mig sekan um að stoppa ekki nógu ákveðið í framkastinu. Stöngin lak einfaldlega niður að vatnsborðinu í lok kastsins og niðurstaðan varð auðvitað að ég náði ekki til fisksins.
Það er óskaplega dapurlegt að vera búinn að máta kastið með nokkrum falsköstum, finna rétta fjarlægð og stefnu, og missa það síðan niður við fætur sér í eina krullu og hreint ekki í þá stefnu sem lagt var af stað með í upphafi.
Það sem gerist þegar við gleymum ákveðna stoppinu í framkastinu er að stöngin dregur línuna niður að vatnsborðinu, löngu áður en fremsti partur línunnar hefur lagst niður. Útkoman verða hlykkir og snúningar sem eiga ekkert í raun ekkert skylt við annars ágætt falskastið sem veiðimaðurinn byggði upp áður en hann lagði línuna niður í framkastinu.
Eins og kunnugt er þá hef ég ákveðna tilhneigingu til að safna vötnum, þá helst hérna á síðuna. Aðrir safna vötnum í atvinnuskyni og þá helst með því að stífla allar mögulegar og ómögulegar sprænur og bein þeim í risavaxin forðabúr til orkuframleiðslu. Hvaða álit sem menn kunna að hafa á forðabúrum þessum þá er ekki óalgengt að við tilbúning þeirra lokast göngu leið fisks eða íbúar náttúrlegra vatna sem hverfa undir forðabúrin verði að leita nýrra búsvæða.
Það er í eðli þessara forðabúra að vatnshæð þar sveiflast nokkuð á milli árstíða. Frá hausti og fram á vor er tappað af þeim með tilheyrandi lækkun og tærir hlutar þeirra sem í rennur allt árið um kring verða meira áberandi. Verður þá oft heilmikill handagangur í öskjunni hjá veiðimönnum og þeir flykkjast upp á heiðar og nýta tækifærið að egna fyrir fisk í þessum lónum. Þegar síðan snjó- og jökulbráð tekur að streyma aftur inn í lónin hverfa þessir góðu veiðistaðir undir litað jökulvatnið, en eins víst er að þar heldur fiskurinn þó enn til.
Þegar kemur að því að velja flugu í vötnum sem tekið hafa að skolast aftur, þá eru nokkrar flugur sem að sögn standa uppúr. Flugur sem nefndar hafa verið eru; Flæðarmús, Black Ghost Sunburst, Bleik og blá og mosagrænn Nobbler. Þessar flugur má síðan poppa enn frekar upp með því að nota UV efni í þær og þá helst rautt, appelsínugult og gult, því þeir litir ku vera mest áberandi UV lita í skoluðu vatni.
Sumir fluguveiðimenn virðast gleyma þeirri einföldu staðreynd að við getum ekki ýtt flugulínunni út úr topplykkjunni til að lengja í kastinu. Við verðum að draga hana út eða þá fá hana dregna út fyrir okkur. Flugukast byggist á samspili þriggja; veiðimanns, stangar og línunnar. Eitthvað eitt af þessu eða samspil þessa alls verður að sjá um að draga línuna út.
Veiðimaðurinn getur vitaskuld dregið línuna fram úr topplykkjunni, en þá ef vandinn eftir að koma henni út á vatnið. Veiðimaðurinn getur vitaskuld böðlast með stöngina fram og til baka með sífellt auknum krafti, en það er áhrifameira að auka hraða línunnar í kasti sem stutt er stigvaxandi krafti. Einfaldasta leiðin er að nota tog í framkastinu eða tví-tog í fram- og bakkastinu. Með toginu aukum við hraða línunnar og fremsti partur hennar á auðveldra með að draga línuna út úr topplykkjunni.
Þessi greinarstúfur hefur verið að velkjast í hausnum á mér frá því í sumar, allt haustið og það sem af er vetrar. Það er nú alls ekki svo að ég birti hér allt sem mér dettur í hug, en í þetta skiptið var ég staðráðinn í að koma varfærnum orðum að því sem var að veltast í kollinum á mér, hugrenningar um orðaval og orðfæri.
Þannig er mál með vexti að mér fannst nokkuð áberandi í sumar sem leið að veiðimenn og þeir sem um veiði fjalla á opinberum vettvangi fóru að mínu mati nokkru offari í ræðu og rit. Í tímabili einkenndust frásagnir af sleggjudómum og dómhörku, nokkuð sem hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra, fyrir utan kannski eitt skipti sem mér er sérlega minnisstætt. Það var þegar dauðdómur var kveðinn upp yfir vatni einu hér sunnan heiða. Skömmu eftir þessa ótímabæru andlátsfregn varð ég vitni að því þegar Dauðahafsdómarinn setti í og landaði einni stærstu bleikju sem veiðst hefur í umræddu vatni. Bleikjan sú arna er nú uppstoppuð uppi á vegg og ber bæði vatni og veiðimanni fagurt vitni. Síðan þá hefur hver stórfiskurinn veiðst í þessu vatni og ástundun þess verið með ágætum. Það er ekki að illum hug að ég rifja þessa sögu hér upp, þvert á móti. Bæði bleikjan og umræddur veiðimaður eru mér sérstaklega kær, svo ekki sé nú talað um vatnið.
Miðnætti við Hlíðarvatn í Selvogi
Síðasta sumar var með eindæmum óskemmtilegt hér sunnan heiða og uppi á hálendi hvað veðráttu snertir. Margir veiðimenn létu þetta fara í taugarnar á sér eins og vonlegt var. Verst þótti mér þó þegar umræðan snérist úr gæftaleysi á veiðislóð í að vötnin væru tóm, allt svik og prettir og menn fóru að efast um nafngiftir eins og t.d. Veiðivötn, þar veiddist aldrei neitt. Ekki kemur mér til hugar að mótmæla því að sumir dagar gáfu lítið sem ekkert uppi í Vötnum, en það er nú kannski ekki von á öðru þegar vindstyrkur fer vel yfir 10 m/sek. svo dögum skiptir og hitastig dettur á sama tíma niður fyrir 7°C. Kannski er þörf á orðskýringum hér, því orðið gæftaleysi á við um það þegar ekki gefur til veiða og hefur ekkert með ástand fiskistofna að gera. Jú, það var gæftaleysi stöku daga en Vötnin voru ekki fisklaus, á þessu er stór munur.
Miðnætti í Veiðivötnum
Talandi um vatnaklasa og nú einn sem stendur mér töluvert nærri. Um árabil hef ég fylgst með og stundað vötnin sunnan Tungnaár, Framvötnin. Þar hef ég átt óteljandi góðar stundir en mér kemur ekki til hugar að mótmæla því að bleikjunni þar hefur hnignað undanfarin ár. Þetta vita allir sem hafa stundað vötnin, en því má heldur ekki gleyma að á svæðinu eru fleiri vötn en bleikjuvötn sem vissulega þarfnast aðhlynningar og þó fyrst of fremst meiri nýtingar við. Á svæðinu eru einnig vötn sem í áratugi hafa verið þekkt fyrir góð vaxtarskilyrði urriða sem í þau er sleppt. Veiði í þessum vötnum sveiflast í takti við sleppingar, það tekur nefnilega alltaf smá tíma fyrir fisk að vaxa. Já, FOS.IS er oft fyrst með fréttirnar.
Vera má að ég hafi sérstaklega orðið var við neikvæða umræðu um Framvötnin þar sem í mig hefur verið hnippt vegna skrifa minna um þau hér á vefnum gegnum tíðina. Vera má að ég sé sérstaklega útsettur fyrir því þegar gífuryrði eru höfð um þessi vötn, hvort heldur einhverjum þykir úrræði til úrbóta ekki ómaksins verð eða ekki nægjanlega mikil. Sérkennilegast er þó þegar sami aðilinn hefur þau uppi við sitthvort tækifærið, en svona er það nú þegar besservisserar setjast við lyklaborðið. Ég er ekki eini unnandi t.d. Frostastaðavatns sem hef dregið úr viðveru minni þar, en þar með er ekki sagt að öll vötnin á svæðinu séu undir það sama sett. Þegar ástundun dregst saman í einu vatni, þá leita menn oft annað og greinilegt af aflatölum að það gerðu menn í sumar sem leið. Kýlingavatn og Blautaver komu sterk inn í aflatölum síðasta sumar eftir margra ára fjarveru af veiðiskýrslum. Mestu skiptir að þau vötn og fiskistofnar sem þess þurfa, fái aðhlynningu og það er ekkert leyndarmál að fjöldi unnenda Framvatna hafa lýst sig reiðubúna til verka þegar aðgerðaráætlun liggur fyrir. Það er vonandi að stórkostlega ýktar andlátsfregnir Framvatna verði ekki til þess að menn þrjóti örendið til verka þegar til kemur.
Miðnætti í Framvötnum
Og ef offjölgun bleikju var ekki fréttaefni, þá mátti alltaf grípa til þess að drepa eins og einn eða fleiri stofna af sjóbleikju. Það var að heyra í fyrrasumar að sjóreiður hefði þurrkast út fyrir vestan og norðan, ekki væri branda eftir, hvorki til matar né misþyrmingar. Og þetta var einmitt sumarið sem færði veiðimönnum í Hraunsfirði þessa líka býsn af sjóbleikju að mörgum þótti nóg um. Þetta var einmitt það sumarið sem þekktar sjóbleikjuár á Norðurlandi tóku upp á því að sýna veiðimönnum stórar og fallegar bleikjur sem aldrei fyrr. Sumarið sem ég endurnýjaði kynni mín af Hópinu í Húnaþingi og gerði frábæra sjóbleikjuveiði. Samfélagsmiðlar loguðu í andlátsfréttum og stöku veiðimenn lögðust í skrif minningagreina um sjóbleikjuna upp á heilu og hálfu skjáfyllirnar. Þeir sem nýlega höfðu snætt hnossgætið, urðu miður sín; Getur verið að ég hafi verið að éta síðustu sjóbleikjuna? Einn og einn veiðimaður reyndi að benda á eðlilegar sveiflur milli ára, en því miður voru það helst háværir besservisserar sem lesið höfðu þessar andlátsfréttir, þannig að eftir sumarið stendur að sjóbleikjan er útdauð, amen.
Miðnætti við Hóp
Ég er með töluverðan fjölda fjölmiðla í vöktun í tölvunni minni, hef eiginlega komið mér upp minni eigin fjölmiðlavakt þar sem lykilorðin eru m.a. stangveiði, urriði, bleikja og ýmislegt í þeim dúr. Sé hin fræga höfðatala Íslendinga tekin með í reikninginn, þá erum við bara nokkuð vel settir með fréttaflutning af veiði hér á landi, þótt veiðifréttamenn séu e.t.v. ekki margir. Mér er enn í fersku minni umræða sem fór af stað hér um árið þegar veiðimenn kvörtuðu hávært undan skorti á veiðifréttum. Þeir voru ekkert sérstaklega margir sem kvörtuðu, en þeir höfðu hátt og fréttamenn svöruðu þeim til baka; Sendið okkur þá fréttir þannig að við þurfum ekki að sækja allt. Það er mín tilfinning að veiðimenn hafi brugðist vel við og látið vita af sér og sinni veiði í auknu mæli, fréttirnar báru þess merki.
En það er ekki laust við að inni á milli hafi einhverjir argir veiðimenn séð sér leik á borði að ausa úr skálum reiði sinnar í gegnum aðsendar veiðifréttir. Þá helst þegar lítið hafði verið við að vera. Vönduð fréttamennska nær að sía ergelsið út, sannreyna sögurnar og milda gífuryrði sem mögulega hafa fokið. Heilt yfir held ég að þetta hafi alveg tekist bærilega og trúlega ekki allt birt sem berst, en stundum sleppur eitthvað í gegn, þá helst í gúrkutíð þegar lítið er að frétta og dálksentímetrarnir standa auðir þegar komið er að prentun. Það veit almættið að ég veit að það er ekki alltaf auðvelt að standa við fyrirheit eða skuldbindingar um greinar, en stundum er betra að segja ekki neitt heldur en eitthvað þreytt, sérstaklega þegar maður getur ekki sannreynt gildi þess.
Þá hefur mér loksins tekist að koma þessum hugrenningum mínum í orð og setningar. Mikið hef ég mildað af því sem upphaflega skaut niður í kollinn á mér og þessi grein hefur tekið miklum og mörgum breytingum með tímanum. Stundum er nefnilega betra að leggja hlutina frá sér, lesa þá yfir eftir nokkra daga, því fyrstu drög, rétt eins og fyrstu fréttir, eru ekki alltaf þær bestu.
Ég þreytist seint á því að endurtaka rulluna um að stangveiði sé alls ekki eins flókið mál og margur vill meina. Á sama tíma geri ég mér grein fyrir því að ákveðnir veiðistaðir útheimta töluverða reynslu ef þokkalegur árangur á að nást. Ég til dæmis er frekar slakur veiðimaður í miklum straumi og það stóð alltaf til að fá tilsögn mér reyndari veiðimanna í sumar í slíkum aðstæðum. Það stóð ekkert á því að mér stæði aðstoð til boða, en mér tókst að humma þetta fram af mér í allt sumar. Alltaf fann ég einhverja afsökun fyrir því að drífa mig af stað, ef það var ekki veðrið þá var það einhver önnur veiði eða viðburðir. Þessi vankunnátta mín hverfur ekkert og það er vonandi nægur tími til stefnu til að ráð bót á henni, ég er ekkert stressaður yfir þessu.
Raunar er það nú svo að bónusar stangveiðinnar eru alltaf að stimpla sig meira og meira inn hjá mér, útiveran og bara það að vera. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að fiskurinn sem ég hef mestan áhuga á heldur sig aðeins á fallegum stöðum. Eða er það öfugt, verða staðir fallegir við það að fiskurinn staldrar þar við? Sama hvort er, þá snýst stangveiðin mín sífellt meira og meira um það að njóta.
Höfundurinn einn með sjálfum sér, næstum því
Kannski er þetta helsta ástæða þess að í sumar sem leið drap ég lítið niður fæti þar sem fjöldi veiðimanna safnaðist saman, mér tekst bara ósköp illa að bara vera í margmenni, hvað þá í samkeppni um hvern einasta fermetra sem unnt er að nýta á vatnsbakkanum. Auðvitað fagna ég því einlæglega að fleiri og fleiri virðast leggja stund á stangveiði hér á landi, í það minnsta ef eitthvað er að marka aðsókn að þekktum veiðistöðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. En mér er einnig umhugað um þá upplifun sem veiðimenn hafa af veiði og hvernig veiðistaðirnir líta út í lok dags.
Ég er lítið hrifinn af því að veiða á klukkunni og vera úthlutað ákveðnu veiðisvæði eins og víða þekkist. Mér varð nú samt hugsað jákvætt til þessa fyrirkomulags þegar ég sá urmul veiðimanna á einum og sama bleðlinum í sumar. Svo margir voru veiðimennirnir að ég þóttist heyra kvein gróðursins undan fótum þeirra og það voru satt best að segja fleiri á staðnum heldur ég sá í nokkurn tíma í hverfisbúðinni minni þegar hún var og hét. Þetta var einfaldlega ekkert fyrir mig og því hélt ég áfram og fann mér afvikinn stað fyrir mig og mínar hugsanir þar sem aðeins mín spor mörkuðu slóðina.