Þessi greinarstúfur hefur verið að velkjast í hausnum á mér frá því í sumar, allt haustið og það sem af er vetrar. Það er nú alls ekki svo að ég birti hér allt sem mér dettur í hug, en í þetta skiptið var ég staðráðinn í að koma varfærnum orðum að því sem var að veltast í kollinum á mér, hugrenningar um orðaval og orðfæri.
Þannig er mál með vexti að mér fannst nokkuð áberandi í sumar sem leið að veiðimenn og þeir sem um veiði fjalla á opinberum vettvangi fóru að mínu mati nokkru offari í ræðu og rit. Í tímabili einkenndust frásagnir af sleggjudómum og dómhörku, nokkuð sem hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra, fyrir utan kannski eitt skipti sem mér er sérlega minnisstætt. Það var þegar dauðdómur var kveðinn upp yfir vatni einu hér sunnan heiða. Skömmu eftir þessa ótímabæru andlátsfregn varð ég vitni að því þegar Dauðahafsdómarinn setti í og landaði einni stærstu bleikju sem veiðst hefur í umræddu vatni. Bleikjan sú arna er nú uppstoppuð uppi á vegg og ber bæði vatni og veiðimanni fagurt vitni. Síðan þá hefur hver stórfiskurinn veiðst í þessu vatni og ástundun þess verið með ágætum. Það er ekki að illum hug að ég rifja þessa sögu hér upp, þvert á móti. Bæði bleikjan og umræddur veiðimaður eru mér sérstaklega kær, svo ekki sé nú talað um vatnið.

Síðasta sumar var með eindæmum óskemmtilegt hér sunnan heiða og uppi á hálendi hvað veðráttu snertir. Margir veiðimenn létu þetta fara í taugarnar á sér eins og vonlegt var. Verst þótti mér þó þegar umræðan snérist úr gæftaleysi á veiðislóð í að vötnin væru tóm, allt svik og prettir og menn fóru að efast um nafngiftir eins og t.d. Veiðivötn, þar veiddist aldrei neitt. Ekki kemur mér til hugar að mótmæla því að sumir dagar gáfu lítið sem ekkert uppi í Vötnum, en það er nú kannski ekki von á öðru þegar vindstyrkur fer vel yfir 10 m/sek. svo dögum skiptir og hitastig dettur á sama tíma niður fyrir 7°C. Kannski er þörf á orðskýringum hér, því orðið gæftaleysi á við um það þegar ekki gefur til veiða og hefur ekkert með ástand fiskistofna að gera. Jú, það var gæftaleysi stöku daga en Vötnin voru ekki fisklaus, á þessu er stór munur.

Talandi um vatnaklasa og nú einn sem stendur mér töluvert nærri. Um árabil hef ég fylgst með og stundað vötnin sunnan Tungnaár, Framvötnin. Þar hef ég átt óteljandi góðar stundir en mér kemur ekki til hugar að mótmæla því að bleikjunni þar hefur hnignað undanfarin ár. Þetta vita allir sem hafa stundað vötnin, en því má heldur ekki gleyma að á svæðinu eru fleiri vötn en bleikjuvötn sem vissulega þarfnast aðhlynningar og þó fyrst of fremst meiri nýtingar við. Á svæðinu eru einnig vötn sem í áratugi hafa verið þekkt fyrir góð vaxtarskilyrði urriða sem í þau er sleppt. Veiði í þessum vötnum sveiflast í takti við sleppingar, það tekur nefnilega alltaf smá tíma fyrir fisk að vaxa. Já, FOS.IS er oft fyrst með fréttirnar.
Vera má að ég hafi sérstaklega orðið var við neikvæða umræðu um Framvötnin þar sem í mig hefur verið hnippt vegna skrifa minna um þau hér á vefnum gegnum tíðina. Vera má að ég sé sérstaklega útsettur fyrir því þegar gífuryrði eru höfð um þessi vötn, hvort heldur einhverjum þykir úrræði til úrbóta ekki ómaksins verð eða ekki nægjanlega mikil. Sérkennilegast er þó þegar sami aðilinn hefur þau uppi við sitthvort tækifærið, en svona er það nú þegar besservisserar setjast við lyklaborðið. Ég er ekki eini unnandi t.d. Frostastaðavatns sem hef dregið úr viðveru minni þar, en þar með er ekki sagt að öll vötnin á svæðinu séu undir það sama sett. Þegar ástundun dregst saman í einu vatni, þá leita menn oft annað og greinilegt af aflatölum að það gerðu menn í sumar sem leið. Kýlingavatn og Blautaver komu sterk inn í aflatölum síðasta sumar eftir margra ára fjarveru af veiðiskýrslum. Mestu skiptir að þau vötn og fiskistofnar sem þess þurfa, fái aðhlynningu og það er ekkert leyndarmál að fjöldi unnenda Framvatna hafa lýst sig reiðubúna til verka þegar aðgerðaráætlun liggur fyrir. Það er vonandi að stórkostlega ýktar andlátsfregnir Framvatna verði ekki til þess að menn þrjóti örendið til verka þegar til kemur.

Og ef offjölgun bleikju var ekki fréttaefni, þá mátti alltaf grípa til þess að drepa eins og einn eða fleiri stofna af sjóbleikju. Það var að heyra í fyrrasumar að sjóreiður hefði þurrkast út fyrir vestan og norðan, ekki væri branda eftir, hvorki til matar né misþyrmingar. Og þetta var einmitt sumarið sem færði veiðimönnum í Hraunsfirði þessa líka býsn af sjóbleikju að mörgum þótti nóg um. Þetta var einmitt það sumarið sem þekktar sjóbleikjuár á Norðurlandi tóku upp á því að sýna veiðimönnum stórar og fallegar bleikjur sem aldrei fyrr. Sumarið sem ég endurnýjaði kynni mín af Hópinu í Húnaþingi og gerði frábæra sjóbleikjuveiði. Samfélagsmiðlar loguðu í andlátsfréttum og stöku veiðimenn lögðust í skrif minningagreina um sjóbleikjuna upp á heilu og hálfu skjáfyllirnar. Þeir sem nýlega höfðu snætt hnossgætið, urðu miður sín; Getur verið að ég hafi verið að éta síðustu sjóbleikjuna? Einn og einn veiðimaður reyndi að benda á eðlilegar sveiflur milli ára, en því miður voru það helst háværir besservisserar sem lesið höfðu þessar andlátsfréttir, þannig að eftir sumarið stendur að sjóbleikjan er útdauð, amen.

Ég er með töluverðan fjölda fjölmiðla í vöktun í tölvunni minni, hef eiginlega komið mér upp minni eigin fjölmiðlavakt þar sem lykilorðin eru m.a. stangveiði, urriði, bleikja og ýmislegt í þeim dúr. Sé hin fræga höfðatala Íslendinga tekin með í reikninginn, þá erum við bara nokkuð vel settir með fréttaflutning af veiði hér á landi, þótt veiðifréttamenn séu e.t.v. ekki margir. Mér er enn í fersku minni umræða sem fór af stað hér um árið þegar veiðimenn kvörtuðu hávært undan skorti á veiðifréttum. Þeir voru ekkert sérstaklega margir sem kvörtuðu, en þeir höfðu hátt og fréttamenn svöruðu þeim til baka; Sendið okkur þá fréttir þannig að við þurfum ekki að sækja allt. Það er mín tilfinning að veiðimenn hafi brugðist vel við og látið vita af sér og sinni veiði í auknu mæli, fréttirnar báru þess merki.
En það er ekki laust við að inni á milli hafi einhverjir argir veiðimenn séð sér leik á borði að ausa úr skálum reiði sinnar í gegnum aðsendar veiðifréttir. Þá helst þegar lítið hafði verið við að vera. Vönduð fréttamennska nær að sía ergelsið út, sannreyna sögurnar og milda gífuryrði sem mögulega hafa fokið. Heilt yfir held ég að þetta hafi alveg tekist bærilega og trúlega ekki allt birt sem berst, en stundum sleppur eitthvað í gegn, þá helst í gúrkutíð þegar lítið er að frétta og dálksentímetrarnir standa auðir þegar komið er að prentun. Það veit almættið að ég veit að það er ekki alltaf auðvelt að standa við fyrirheit eða skuldbindingar um greinar, en stundum er betra að segja ekki neitt heldur en eitthvað þreytt, sérstaklega þegar maður getur ekki sannreynt gildi þess.
Þá hefur mér loksins tekist að koma þessum hugrenningum mínum í orð og setningar. Mikið hef ég mildað af því sem upphaflega skaut niður í kollinn á mér og þessi grein hefur tekið miklum og mörgum breytingum með tímanum. Stundum er nefnilega betra að leggja hlutina frá sér, lesa þá yfir eftir nokkra daga, því fyrstu drög, rétt eins og fyrstu fréttir, eru ekki alltaf þær bestu.
Senda ábendingu