Eins ótrúlegt og það nú hljómar þá kom örlítið bakslag í veiðina hjá mér eitthvert sumarið hér um árið þegar vindur var með mesta móti og töluvert viðvarandi. Í minningunni var vindur eiginlega úr öllum áttum, alltaf og því nær ómögulegt fyrir mig að veiða eitthvað af viti. Það var eiginlega alveg sama hvernig ég snéri, mér fannst vindurinn alltaf koma á kasthöndina. Neyðin kennir naktri konu að spinna segir máltækið, þannig að ég tók mig til og æfði mig í að láta fluguna fara út í bakkastinu.
Ég gleymi því aldrei þegar ég prófaði þetta fyrst, snéri mér við og falskastaði upp á bakkann og gerði svo heiðarlega tilraun til að sleppa línunni í bakkastinu. Á meðan ég falskastaði var kallað til mín; Þú snýrð vitlaust og þegar flugan loksins fór út á vatnið þá heyrðist; Þetta var ljótt. Helmingurinn af þessu var satt, þetta var ljótt en ég snéri ekkert endilega vitlaust. Með tíð og tíma og ekki má gleyma endalausum tilraunum, þá náði ég þokkalegum tökum á því að snúa mér við og næ núna orðið 2/3 af vegalengd venjulegs kasts með því að sleppa í bakkastinu.
Það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef maður snýr sér öfugt og sum þeirra lærði ég the hard way svo ekki sé meira sagt.
Eftir fyrstu tilraunir mínar var sjálfstraustið eiginlega komið alveg niður fyrir frostmark og mér lá við að hætta þessu alveg. Trúlega hefur það verið fullvissa um fisk sem fékk mig síðan til að reyna þetta aftur. Ég stappaði í mig stálinu og taldi sjálfum mér trú um að þetta gæti bara ekki verið svona flókið og því einblíndi ég á eina muninn á þessu kasti og því venjulega; ekki klára kastið í framkastinu, klára það í bakkastinu. Þá fóru þetta aðeins að ganga.
Þegar ég hafði náð örlitlum tökum á þessu, fór ég ósjálfrátt að ofhugsa dæmið og gerði fáránlegar tilraunir til að snúa kastinu við. Þannig er að hjá flestum er smá munur á fram- og bakkastinu og þessu reyndi ég að snúa við. Slæm ávörðun. Það borgar sig ekki að reyna að snúa kastinu við, hugsa bakkast upp á bakkann og framkast út á vatnið. Það verður bara til þess að kastið fer í döðlu. Muna bara eftir markmiði kastsins, þ.e. að koma flugunni út á vatnið og stoppa því endanlega í bakkastinu, ekki framkastinu.

Ég er ekki alveg viss um að allir séu sammála mér, en þegar ég sný örlítið upp á líkamann í kastinu, þ.e. sný ekki endilega nefinu í framkastið heldur vinstra eyranu (ég er rétthentur) þá gengur kastið betur fyrir sig. Með þessu móti næ ég að fylgjast betur með ferli línunnar í framkastinu, sem er mér þá á vinstri hönd og í bakkastinu sem er mér þá á hægri hönd. Undir þessum kringumstæðum verð ég samt að hemja mig að snúa ekki upp á kastferil stangarinnar, hann verður eftir sem áður að vera 180° frá hægri til vinstri. Já, og svo muna að stoppa endanlega í bakkastinu, ekki framkastinu.
Einhvers staðar rakst ég á, man því miður ekki hvar það var, að lyfta vinstri hendinni upp í lokakastinu, leyfa línunni þannig að fá frítt spil til að renna út þegar ég sleppi henni. Með þessu móti þarf línan ekki að taka óþarfa sveigju framhjá fótunum á mér þegar hún rennur út. Svei mér ef þetta breytti ekki alveg bakkastinu mínu.
Eitt er ég enn að glíma við í þessu kasti og það er að ég á það mjög gjarnan til að reyna að hjálpa lokakastinu til að ná örlítið lengra út. Með öðrum orðum, ég set of mikinn kraft í síðasta kastið og þá ferð kastbugurinn náttúrulega í hnút, bókstaflega. Þetta er svo sem ekkert öðruvísi í þessu kasti heldur en öðrum, ég hef þessa tilhneigingu hvort sem ég ætla að sleppa flugunni í fram- eða bakkastinu.
Senda ábendingu