Ég hef stundum kallað hann ‚púkann‘ minn. Hann er stærri en svo að hann geti setið á öxlinni á mér, miklu stærri en það. Þetta er ekki heldur góður félagi minn sem sem stundum stendur álengdar og fylgist með mér æfa kastið og lætur mig heyra það ótæpilega ef ég geri einhverja vitleysu. Þessi púki hefur grafið um sig í kollinum á mér og fer meira að segja oftar með mér í veiði heldur en raunverulegur veiðifélagi minn.
Nú síðast kallaði hann á mig í hita leiksins þegar uppitökur voru úti um allt, fiskur í stuði og ég gerði mig sekan um að stoppa ekki nógu ákveðið í framkastinu. Stöngin lak einfaldlega niður að vatnsborðinu í lok kastsins og niðurstaðan varð auðvitað að ég náði ekki til fisksins.
Það er óskaplega dapurlegt að vera búinn að máta kastið með nokkrum falsköstum, finna rétta fjarlægð og stefnu, og missa það síðan niður við fætur sér í eina krullu og hreint ekki í þá stefnu sem lagt var af stað með í upphafi.

Það sem gerist þegar við gleymum ákveðna stoppinu í framkastinu er að stöngin dregur línuna niður að vatnsborðinu, löngu áður en fremsti partur línunnar hefur lagst niður. Útkoman verða hlykkir og snúningar sem eiga ekkert í raun ekkert skylt við annars ágætt falskastið sem veiðimaðurinn byggði upp áður en hann lagði línuna niður í framkastinu.
Senda ábendingu