Hvað eiga þessir hlutir sameiginlegt? Kannski ekki margt, en þó það að hvern þeirra fyrir sig má nota til að finna skemmdir í öllum gerðum stangarlykkja. Jafnvel bestu lykkjur á stöng geta skemmst í hversdagslegri veiðiferð, sandur á línu getur virkað eins og sandpappír, slý sem hangir á línunni getur innihaldið ýmsa aðskotahluti (brotnar flugur, jafnvel odd af öngli) og ég hef heyrt af veiðimanni sem staðhæfði að agnarlítil fluga sem hnýtt var með kevlar þræði hefði spænt upp topplykkjuna á stönginni hans.
Hvort sem við trúum þessari sögu um skaðsemi kevlar, þá má auðveldlega finna hnökra og skemmdir í stangarlykkjum með því að renna smá stubb af sokkabuxum, bómullarhnoðra eða hnýtingarflosi í gegnum lykkjurnar. Minnsta arða eða skarð í lykkju verður til þess að dreggjar efnisins festar og sjá má hvar gera þarf við lykkju eða skipta um. Skemmd í lykkju getur verið dýrkeypt ef hún særir uppáhalds línuna þína, þannig að þetta er eitthvað sem vert er að athuga áður en sumarið gengur fyrir alvöru í garð.
Kvöld eitt fyrir skemmstu skaust það upp í kollinn á mér að þegar ég bleytti í færi síðast, þá fannst mér einhver stirðleiki væri í öllu. Það brakaði í beinum, hjólið tifaði ekki eins og venjulega þegar ég dró út af því og köstin voru hreint ekki upp á marga fiska. Þetta kvöld ákvað ég því að kveikja ekki á Netflix. Þess í stað kveikti ég á streymisveitunni og hlustaði á nokkur góð veiðispjöll, tók fram vaskafatið og fyllti það með ilvolgu vatni og setti línurnar mínar í bað.
Á meðan ég var að baða línurnar, strjúka af þeim með mjúkum klút, þerra og fríska upp á þær með örþunnu lagi af línubóni, þá ráfaði hugsunin til veiðihjólsins. Af hverju tifaði það ekki þegar ég dró út af því? Ætli það séu einhverjar leifar af gróðri eða sandkorn að þvælast inn í því? Þannig teygðist á streymishlustuninni og ég tók spólurnar af öllum hjólunum mínum, vætti tusku með maskínuolíu og þurrkaði öll óhreinindi, smurði legur og herti upp á því sem losnað hafði. Tikk, tikk, tikk og línan rann út af hjólinu og inndrátturinn var jafn og átakalaus.
Það var svo næsta kvöld að ég kveikti á Netflix, en eftir skamma stund var ég hreint ekki með hugann lengur við það sem rúllaði yfir skjáinn. Hausinn var kominn eitthvert allt annað og ég bakkaði til baka, kveikti á næsta þætti veiðispjallsins, fór fram í geymslu og náði í vöðlurnar mínar og veiðijakkann. Hvaða rennislás var það nú sem var farinn að stirðna? Best að yfirfara þá alla og bursta úr þeim með gömlum tannbursta og renna létt yfir þá með þéttikanntastifti eins og maður gerir við bílinn á haustinn. Þessi skollans plastrennilásar, alltaf þarf eitthvert sandkorn að þvælast í þeim og vera til vandræða. Rétt eins og sandkorn sem þvælst hefur inn í vöðluskó og byrjar að merja hælinn á sokkunum eða leggjast undir ilina. Best að kíkja aðeins á sokkana, kannski þarf ekki nema setja einn dropa af fljótþornandi hnútalími í fleiðrið til að forða því að þeir fari að leka. Já, hvernig var það með aukavöðlurnar, var ekki farið að trosna við sauma í klofinu, best að tékka aðeins á þeim líka.
Já, svona geta kvöldi orðið til gagns og gamans á meðan að maður bíður eftir því að veðrið skáni aðeins, smá hiti geri vart við sig og maður geti opnað ferðavagninn, þrifið og gengið úr skugga um að allt sé eins og það á að vera. Hvernig var það annars með þessa gasleiðslu, var ekki kominn tími á að endurnýja hana?
Dyggum lesendum er það eflaust löngu ljóst að ég er kuldaskræfa og því var það með tilhlökkun að ég hlustaði vel og vandlega á alla spádóma um að hlýtt og notalegt sumar sem væri fram undan. Það eru einhverjar vikur síðar fjölmiðladyggur veðurviti lét þetta út úr sér og enn (þegar þetta er ritað) er hitastigið hér á landi ekki meira en svo að það snjóar reglulega í bæjarhólinn hér við Sundin. Það var nú bara um helgina síðustu að hætta varð við fyrirhugaða veiðiferð vegna allra slæmra veðurskilyrða sem upp komu; hávaða rok, ausandi rigning, skítakulda og snjókomu.
Ef fram heldur sem horfir, þá verð ég að rifja upp öll klækjabrögðin til að snúa á kalt vatnið og ofankomuna þannig að ég verði ekki skjálfandi á beinunum í fyrstu alvöru veiðiferðum sumarsins. Já, þetta er náttúrulega svolítið hirtu þinn helv… tjakk en það er öruggara að búa sig undir það versta þegar kemur að veðrinu heldur en það besta. Það er auðveldara að fækka fötum á veiðislóð heldur en bæta á sig.
Og hvað er það svo sem ég klæðist innan undir áður en ég smokra mér í vöðlunar? Jú, ull og helst í tveimur misþéttum lögum þannig að ekkert af líkamshitanum sleppi út í gerviefnið í vöðlunum. Að gefnu tilefni skal það tekið fram að bómull er ekki ull og er langt því frá heppilegur undirfatnaður. Sjálfur reyni ég að forðast gerviefni, svo sem flís eða dacron, næst líkamanum einfaldlega vegna þess að þegar þessi efni blotna, jafnvel bara við það að svitna í hita augnabliksins þegar maður glímir við þann stóra, þá kólnar þessi fatnaður hratt og losar sig síður við raka heldur en náttúruleg ull. Ef ég dreg á mig gervibrækur, þá eru þær örugglega utan yfir ullina.
Nú er ég sem sagt klæddur og kominn á ról, þokkalega hlýtt og því eins gott að viðhalda því og þá reyni ég, ef mögulegt er, að klæða mig í vöðlurnar innandyra. Kannski er það bara ég en mér finnst eins og það gjóli stundum á Íslandi og þá getur kuldinn hæglega smokrað sér inn fyrir ullina. Já, ég er kuldaskræfa og mér er meinilla við að byrja daginn með kuldahroll þannig að ég vil helst vera kominn í hlýtt áður en ég sting nefinu út fyrir dyrnar, með húfuna á hausnum.
Áður en ég legg af stað, þá geng ég úr skugga um að handklæðið mitt sé til staðar í veiðitöskunni. Það getur munað miklu að geta þurrkað sér um hendurnar eftir að hafa skipt um flugu, lagað taum eða handfjatlað fisk. Þurrar hendur eru vænlegri í vettlingana heldur en blautar. Já, ég er alltaf með ullarvettlinga eða stúkur í veiði, tvennar frekar en stakar, þannig að ég geti skipt um ef það er einhver vosbúð. Ég gleymdi víst að nefna ullarsokkana, en þeir eru mér lífsnauðsynlegir. Þéttir og fíngerðir næst tám, grófari þar utan yfir. Passa mig bara að það verði ekki of þröngt um tærnar í vöðlusokkunum, mér kólnar fyrr því þrengra sem er um tærnar. Enn hef ég ekki prófað að taka með mér heitt vatn á brúsa til að hella niður í vöðluskóna ef mér kólnar, en þetta ku vera algengt í vorveiði norður í Kanada ef eitthvað er að marka veraldarvefinn. Sjáum til hvernig sumrinu vindur fram, ég get þá alltaf hitað mér vatn á prímusinum og prófað.
Í gegnum árin hef ég barist við fastar flugur, bæði í botni og veiðijökkum. Þessir dásamlegu svampflipar eða frönsku rennilásar sem límdir eru á flesta veiðijakka hafa oft gert mér lífið leitt. Þeir hafa gripið svo óþyrmilega í flugurnar sem ég sting þar til þerris eða hvíldar að það þarf meiriháttar langa pásu til að losa þær, oft með töluverðum geðsveiflum og tilheyrandi formælingum.
Þegar svo þessir kubbar með eigin aðdráttarafli (segulmagni) komu á markaðinn, þá áskotnaðist með einn slíkur sem ég gerði nokkrar heiðarlega tilraunir til að nota, með afar misjöfnum árangri. Fyrir utan að mér fannst kubburinn heldur þungur, þá var ýmislegt annað dinglandi utan á mér (klippur, taumaspjald o.fl.) sem laðaðist heldur mikið að honum, þannig að ég húkkaði hann fljótlega úr.
Það var svo fyrir einhverju síðan að ég sá þessa einföldu lausn; gataður korktappi með spotta í gegn sem auðvelt var að húkka við hvað eina sem þegar dinglaði utan á mér. Ekkert segulmagn eða óþarfa festur.
Í leit minni að heppilegum spotta rakst ég á þetta samtengi úr hálsbandi, þessum sem maður fær á hverri einustu sýningu eða ráðstefnu sem maður sækir. Nú get ég húkkað korktappanum úr festingunni, náð flugunum auðveldlega úr og komið þeim fyrir í viðeigandi boxi eftir daginn.
Það þarf ekki alltaf að vera flókið og ef rétt er gengið frá spottanum að neðan, þá er ekkert mál að skipta um tappa þegar sá gamli er orðinn heldur götóttur.
Í einhvern tíma hef ég nefnt veiðimanninn sem kaupir leyfi, má byrja á ákveðnum tíma og skal hætta á ákveðnum tíma og hann nýtir allan þennan tíma. Þessi gaur eða gella vaknar fyrir allar aldir, er búin(n) að taka sig til og allt dótið komið út í bíl áður en veiðifélagarnir hafa einu sinni látið renna á könnuna. Gott mál hjá honum eða henni, en ég er ekki þarna. Þetta þýðir samt ekki að ég sé eitthvað að drolla, ég byrja bara þegar mér sýnist og hætti þegar ég á að hætta.
Svo hef ég líka nefnt það að stundum tekur fiskurinn alveg upp í harða landi, rétt í þá mund þegar ég hætti inndrættinum (stoppa eitt augnablik) og lyfti stönginni til að taka fluguna upp úr vatninu. Og nú getur einhver spurt sig hvernig í ósköpunum sé hægt að tengja þessar tvær tilvitnanir saman í einni grein. Til að komast að því þarft þú að lesa áfram.
Þegar ég hef nú loksins lokið við 1 – 2 kaffibolla, morgunverð, jafnvel farið í annað skiptið á prívatið (kannski of miklar upplýsingar) og er með allt mitt klárt, þá legg ég af stað og mæti á veiðistað, ég er byrjaður að veiða. Þegar flugan er komin út í vatnið, þá tekur við ákveðinn taktur sem raunar er stundum erfitt að viðhalda vegna þess að úti í náttúrunni get ég verið með eindæmum kleyfhuga. Hvort er ég að veiða eða njóta þess sem fyrir augu ber? Eigum við ekki bara að segja að á meðan flugan er í vatninu og ég hef minnsta grun um að það sé fiskur á ferðinni, þá er ég að veiða. Þess á milli er ég að njóta, glápa og góna út í loftið og einfaldlega að vera til.
Minnugur þess að flugur veiða aðeins á meðan þær eru í vatninu, þá reyni ég að halda flugunni þar eins lengi / oft / mikið og mögulegt er. Ef mér sýnist svo, þá dreg ég hana stundum alveg að fótum mér, vitandi að fiskurinn tekur stundum miklu nær heldur en marga grunar. Í annan tíma hætti ég að draga inn þegar mér finnst að flugan sé lent í einskismannslandi eða eins og útlendingurinn segir, komin out of strike zone. Þá ég lyfti stönginni í næsta kast, jafnvel með töluvert af línunni úti, til hvers að hafa fluguna þar sem enginn fiskur er?
Það að taka upp verulega lengd af línu, sérstaklega ef hún er eitthvað þyngri heldur en flotlína, getur verið kúnst, en það lærist fljótlega. Það er alveg öruggt að þér lærist það aldrei ef þú prófar það ekki. Sumar samsetningar stangar og línu gera það að verkum að þetta er ekkert mál, aðrar stangir ráða lítið sem ekki við þetta og því verður maður einfaldlega að prófa sig áfram. Galdurinn er að lyfta stönginni með jafn stígandi átaki upp í efstu stöðu, taka í línuna og ná henni þannig í öftustu stöðu í einni samfellu. Og viti menn, við erum að nýta okkur akkerið sem vatnið hefur hengt í línuna, stöngin hleðst við upptökuna og er tilbúin í eitt framkast og þú getur skotið línunni út og hafið veiðina að nýju. Og hvað er maður að vinna með þessu? Jú, í stað þess drolla við að taka línuna upp, leggja hana að fótum þér í einhverju kuðli, þá nýtir þú vatnið til að hlaða stöngina, tekur upp og skýtur henni út í einu, ákveðnu framkasti og vonandi lendir hún einmitt þar sem þér fannst að fiskurinn nartaði í hana í síðasta inndrætti.
Ég veit ekki alveg hvað það er, kannski er það bara ég, en mér finnst veiðimenn vera duglegri að vori heldur en á miðju sumri að spyrja náungann á veiðistað hvernig gengur. Þegar líður á sumarið fækkar þessum spurningum, kannski telja veiðimenn þá eins víst að það gangi bara vel, flugur á sveimi og allt í gangi. Svo getur líka verið að spaugarinn sé oftar á ferðinni að vori, laumast niður að vatni án þess að vera með græjurnar með sér og nýtur þess bara að gera góðlátlegt grín að norpandi veiðimönnum í skítakulda og vosbúð og spyr því; Hvernig gengur þegar augljóst er að það er ekkert að gerast.
En satt er það, það getur gengið misjafnlega vel í veiðinni að vori og ástæðurnar geta verið ýmsar og misjafnar eftir aðstæðum. Heilt yfir, þá ætti fiskurinn að vera í þokkalega góðu tökustuði, ef hann er þá á annað borð kominn á ról. Það er reynsla mín að vök á vatni, jafnvel íslaust vatn að vori kveikir meira í veiðimönnum heldur en endilega fiskinum, svona rétt til að byrja með. En svo kemur að því að ætið fer á ról, verður meira á berandi og þá fer fiskurinn af stað.
Eitt er það sem hefur reynst mér ágætlega að vori er að veiða rauðar flugur, hvort sem það eru buzzerar, púpur eða straumflugur. Svo setur maður auðvitað fyrirvarann á þetta og segir; það sem maður notar oftast, það veiðir. Kannski er þetta bara til marks um hvað ég set oftast undir frekar en það sem fiskurinn endilega vill umfram eitthvað annað.
Sumir veiða eingöngu einlitar, daufar flugur að vori. Aðrir fara alveg í hina öfgana og beita eingöngu flugum sem þurfa nánast ekkert sólarljós til að glampa og glitra þannig að fiskurinn sjái þær örugglega, segja þeir. Ætli ég sé ekki þarna mitt á milli, hófstillt notkun á glitþræði og hotspot, en yfirleitt einlit fluga eða með skörpum litaskilum.