FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hvaða flugu á ég að velja?

    20. júní 2023
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Það er hreint ekki alltaf auðvelt að gera upp við sig hvaða flugur maður eigi að velja úr geymsluboxinu yfir í jakkaboxið. Í mínu tilfelli skiptast geymsluboxin mín næstum því í tvo jafna helminga; flugur sem hafa sannað sig og svo tilraungripi. Þegar ég tala um flugur sem hafa sannað sig, þá eru það reyndar oftast eldri flugur eða þær sem bregða lítið frá eldri fyrirmyndum. Flestar hafa þær einfaldleika þess að vera mótív skordýra eða smáfiska sem hafa fyrir löngu sannað sig.

    Undir tilraunagripi flokkast nýjungar í sköpulagi, efni eða útliti.  Oft glannalegar nýjungar sem einhver gerði frábæra veiði á í fyrra eða árið þar á undan sem sögurnar glöptu mann til að hnýta heilu raðirnar af í mismunandi stærðum; Þessa verð ég að prófa. Ég er alls ekki einn um að láta glepjast, það fjölgar sífellt í flokkinum tilraunagripir og framboðið eykst ár frá ári. Hugmyndaauðgi hnýtara eru fá takmörk sett og ný efni til hnýtinga ýta undir nýjar flugur eða betrumbættar útgáfur eldri flugna.

    Samtals er framboð þrautreyndra flugna og tilraunagripa orðið slíkt að veiðimenn eru, margir hverjir, haldnir valkvíða á mjög háu stigi. Í stað þess að ná tökum á ákveðinni flugu, gera smávægilegar breytingar á henni ef hún stendur ekki undir væntingum, þá sveiflast menn öfganna á milli, staldra stutt við tegund eða útfærslu flugna. Sumar flugur ganga í augun á fiski, aðrar ganga í augu veiðimanna og þannig verða sífellt til fleiri og fleiri tilraunaflugur. Ég upplifi það að vera með tilraunaflugu á tauminum í klukkutíma, útheimtir aðra tvo á milli fingranna við þvinguna, gera einhverjar breytingar sem ég tel vera til bóta, oftast eitthvað smáræði til einföldunar. Svo tekur annar klukkutími við með hana í veiði og ef illa gengur, bæði í fiskum talið eða framsetningu, þá taka bara aðrir tveir tímar við í lagfæringum.

    Eftir stendur að lífseigustu flugurnar eru þessar hefðbundu og ef ég raða í jakkaboxið mitt, þá fylla þær ¾ á meðan tilraunaflugurnar fá aðeins ¼ af plássinu. Smátt og smátt, með tíð og tíma færast þó alltaf fleiri og fleiri úr tilraunaflugum yfir í þær sem hafa sannað sig, með öðrum orðum þeim fjölgar þar sem smekkur minn og fiskanna fer saman, nokkuð sem einkennist helst af því að ég lúffa fyrir þeirra smekk.

    Allur sá tími sem fer í að fínpússa hugmynd að flugu er þó minnsta málið. Það er ekki fyrr en á veiðislóð er komið að hin raunverulegu vandmál fara að skjóta upp kollinum, því sjaldnast er það jafn augljóst og á myndinni hér að ofan hvað flugu skal velja og bjóða fiskinum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tuskast

    15. júní 2023
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það er hægt að tuskast við fleira en fisk í veiði. Reglulega seilist ég í innanávasa á jakkanum mínum eða vöðlunum og næ mér þar í tusku sem ég bregð á línuna, sérstaklega ef ég er að veiða í vatni sem auðveldlega gruggast eða er auðugt af plöntu- eða dýrasvifi.

    Ég hef minnst á þetta hér áður, en bara vegna þess að ég hrasaði nýlega yfir reynslusögu veiðimanns þar sem hann dásamaði örtrefjaklút til að þurrka af línunni sinni, þá langar mig til að árétta að nota ekki slíka klúta á flugulínur. Vissulega eru örtrefjaklútar fljótvirk leið til að þrífa óhreinindi af flugulínum, en þeir eru, eins og nafnið bendir til, búnir til úr örtrefjum og eru í raun ekkert annað en afar fíngerður pottaskrúbbur, framleiddur úr hráefnum eins og polyester, nylon, kevlar eða nomex. Allt kemísk efni sem eru harðari heldur en hefðbundin efni sem notuð eru í flugulínur.

    Við endurtekna notkun á örtrefjaklút fjarlægir þú smátt og smátt ysta lagið af flugulínunni og það er einmitt lagið sem tryggir rennsli línunnar í gegnum stangarlykkjurnar. Í staðinn ættir þú að vera með mjúkan bómullarklút, jafnvel gleraugnaklút sem er örlítið stamur. Þeir klútar gera sama gagn og örtrefjaklútur, bara að muna að þrífa aldrei þurra flugulínu með þurrum klút. Annað hvort klúturinn eða línan verða að vera blaut, annars ertu að nota óhreinindin eins og slípimassa.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Frábært, fast

    13. júní 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Eins frábært og það getur verið að draga inn og finna smá nart og enn annað, þá getur þetta líka verið vonbrigði dagsins, vikunnar eða mánaðarins, ef þér er virkilega annt um fluguna. Þetta var sem sagt allt ein ímyndun, þú varst að skrönglast í botninum og settir svo fast á milli steina eða í stærsta og ljótasta hraungrjóti sem fyrirfinnst í öllu vatninu. Reyndar eru öll grjót sem fanga fluguna þína ljót og illa innrætt náttúrufyrirbrigði.

    Þú reynir að toga aðeins fastar í línuna og hefur þá væntanlega sett fluguna endanlega fasta í grjótinu og þarft að hugsa málið upp á nýtt, hefðir betur sleppt því að toga, það er síðasta úrræðið sem þú ætti að prófa. Ef þú ert að veiða í straum, þá væri e.t.v. fyrsta úrræðið að venda línunni út í strauminn, jafnvel veltikasta þannig að straumurinn nái góðu taki á línunni þinni og dragi hana þannig frá stóra ljóta grjótinu. Hver veit nema flugan losni við átak úr gagnstæðri átt.

    Þessi leið er ekki alveg eins áhrifarík í kyrrstæðu vatni en samt möguleg ef þér tekst að veltikasta beint út frá festunni og leyfa vatninu að halda við línuna og draga lítillega inn. Það ótrúlega mikið sem vatnið getur sett sig í spor akkeris sem þú getur nýtt þér til að draga fluguna úr festunni.

    Er ekki bara fast hjá þér vinur?

    Svo getur þú náttúrulega gefið línuna alveg lausa, spólað nægjanlega út af hjólinu þannig að þér takist að vaða yfir á hin bakka árinnar eða út á nærliggjandi nef eða stein við vatnið og draga þannig í fluguna að hún mögulega losni. Fyrir alla muni, ekki beita stönginni með því að rykkja eða skrykkja í línuna, það eina sem gæti gerst er að þú brjótir stöngina eða slítir tauminn. Beindu stangartoppinum að skurðpunkti línunnar við vatnið og taktu á línunni, mjúkt en örugglega.

    Næst síðasta úrræðið sem ég hef að bjóða þér er að vaða út að steininum og ýta við flugunni með fætinum, ef það er ekki oft djúpt að steininum á annað borð. Ef þú nærð ekki alveg að honum, þá gætir þú reynt að draga alla línuna inn, teygja stangartoppinn út yfir steininn og húkka þannig fluguna úr festunni. Farðu samt varlega, því veiðistangir eru ekki hannaðar fyrir slíkt átak og það má lítið út af bera til að brjóta toppinn. Síðasta úrræðið er svo það sem þú byrjaði mögulega á að prófa og hefðir betur látið ógert. Mín reynsla segir mér að það séu í raun minni líkur á að losa flugu með því að toga í línuna heldur en öll önnur ráð bjóða upp á, en þegar allt um þrýtur, þá er ekkert annað eftir en leggja stangartoppinn niður, beina honum að skurðpunktinum við vatnið og toga. Það er í raun tvennt sem getur gerst; flugan losnar og þú þarft jafnvel að loka augunum á meðan hún skýst fram hjá þér í loftinu eða taumurinn eða fluguhnúturinn slitnar og þú þarft að kveðja fluguna þína endanlega.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Soft hackle flugur

    8. júní 2023
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Ein fluga, ein tegund flugna, allar flugur með mjúkum fönum, eða hvað? Allt góðar og gegnar spurningar sem ég veit fyrir víst að í það minnsta einn annar hefur velt fyrir sér, kannski fleiri. Byrjum á byrjuninni og minnumst á Lilju soft hackle flugnanna sem allir vildu kveðið hafa, fyrstir. Trúlega er Partridge and Orange sú fluga sem fyrst var getið í riti. Sumir segja að hennar sé getið árið 1496, aðrir eru heldur hófstilltari og tilnefna skráðar heimildir um North Country flugur frá því á fyrstu árum nítjándu aldar. Eitt er þó víst, flugunni er lýst mjög nákvæmlega á bls. 32 í bók T.E. Pritt, Yorkshire Trout Flies sem kom út árið 1895 þó hún sé nefnd Orange and Partridge. Það má því örugglega halda því fram að soft hackle flugur eru ekkert nýmeti á borðum fiska og sterkar vísbendingar leiða okkur í þá átt að fyrstu fjaðrir sem hnýttar voru á einhvern krók hafi verið mjúkar og fyrsta flugan hafi því verið soft hackle.

    Ein fluga? Nei, hreint ekki. Lengi vel fundust þó strangtrúarmenn sem töldu aðeins grannholda flugur a‘la North Country til soft hackle flugna. Eitthvað hefur þó þynnst í þeim sértrúarsöfnuði síðustu áratugi, klerkar þess safnaðar ekki verið áberandi og í dag er almennt viðurkennt að allar flugur sem hnýttar eru með mjúku hringvafi, væng eða skeggi séu soft hackle sbr. orðanna hljóðan. Í dag skiptir engu máli hvort um er að ræða votflugur, púpur, mjónur eða jafnvel straumflugur.

    Fyrir löngu síðan rak ég augu í tilvitnun þess efnis að soft hackle flugur væru með eðlislæga sýniþörf því allar eiga þær það sameiginlegt að vera líflegar í vatni, sama hverrar ættar þær eru. Við inndrátt mynda mjúkar fanirnar sveip sem dillar sér í vatninu, gefur flugunni líf og lokkar fiskinn til töku. Sjálfur hef ég hnýtt töluvert af klassísku votflugum sem upprunalega áttu að vera með heilum fjaðurvæng en notað þess í stað mjúkar fjaðrir í hringvaf, jafnvel tví- eða þrefalt hringvaf. Eðlilega er hreyfing slíkra flugna í vatni allt önnur en þeirra upprunalegu en ekkert síðri.

    Flestar púpur og mjónur eru í raun frekar stirðar í vatni, lítil ef nokkur hreyfing á efninu í flugunni og því er það inndrátturinn einn sem færir líf í þær. En með því að bæta mjúku hringvafi eða skeggi við þessar flugur, þá er komið efni sem leggst aftur með búknum við inndrátt, réttir úr sér í pásunni og líkir ágætlega eftir því þegar púpa eða gyðla er að brjótast um í vatninu og losar sig við hylkið sem umlykur hana. Við eigum alveg ágætt dæmi um gjöfula flugu sem gædd er miklu lífi með mjúku, löngu og dillandi skeggi; Langskeggur. Með fullri virðingu fyrir þessari ágætu flugu, þá væri hún aðeins svipur hjá sjón ef skeggið vantaði, svipaði bara til óendalega margra annarra flugna og trúlega væri hún alls ekki eins veiðin skegglaus eins og hún er í raun.

    Til að fara heilan hring í sögunni, þá er ein af mínum uppáhalds flugum klassísk Black Pennell með mjúku hringvafi. Hring í sögunni? Jú, Black Pennell er upprunalega soft hackle fluga og þannig hefur hún verið ótrúlega gjöful í hálöndum Bretlandseyja allt frá því hún kom fram, snemma á nýtjándu öld. Þessa flugu nota ég þegar klak toppflugunnar er í hámarki, vatnið þakið hylkjum, loftið iðar af flugu og fiskurinn lítur ekki við þurrflugu eða púpu. Ástæðan er afar einföld, fiskurinn er að hamast í klekjum sem halda sig 10 – 15 sm. undir yfirborðinu og er ekkert að ómaka sig eftir einni og einni flugu á yfirborðinu, hvað þá neðar í vatnsbolnum.

    En hvað með straumflugu sem soft hackle? Jú, af hverju ekki? Þær virka alveg ótrúlega vel og þetta er ekki einhver hugarburður minn. Ein vinsælasta soft hackle straumfluga sem komið hefur fram er Gartside’s Soft hackle Streamer. Þessa flugu kynnti Jack Gartside heitinn fyrir umheiminum fyrir hartnær 40 árum síðan og í sannleika sagt, þá getur hún alveg talist langamma margra þekktari flugna sem hnýttar eru úr mjúkum gervihárum í dag. Þar hitti skrattinn langömmu sína, því sú gamla er miklu líflegri í vatni en gervifrjóvguðu barnabörnin hennar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hér um árið

    6. júní 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Hér um árið, reyndar fyrir mjög mörgum árum síðan, þá reyndi ég fyrir mér í öðru sporti með alveg þokkalegum árangri. Ég sem sagt prófaði að skjóta blýklumpi í mark og tókst bara nokkur oft að hitta brúsa eða spjald. En það vantaði eitthvað sem ég vissi ekki þá og veit ekki enn þann dag í dag hvað er. Og því er einfaldlega þannig farið að ef maður veit ekki hvers maður fer á mis, þá er ekki auðvelt að finna það og því lagði ég byssuna á hilluna og hef verið sáttur við það síðan að skjóta bara út línu.

    En það er ekki alltaf auðvelt að skjóta út línu, þ.e. með flugustöng, en það breytir því ekki að flestum er það frekar gefið að byrja þetta sport og ná þokkalegum tökum á því með tíð og tíma. Að verða góður kastari er svo allt annað mál, það hefur tekið suma ævina alla og stundum hefur hún ekki dugað til. Enn er ég að læra og skána lítið með árunum, finnst mér. Um leið og ég hef sniðið einhvern vankant af kastinu mínu, þá kemur bara einhver annar í ljós eða það finnst mér í það minnsta kosti og ég tek aftur fram kastbiblíurnar mínar og fletti þeim.

    Það hefur þó ósjaldan komið fyrir að mér verður hugsað til þess hvers vegna í ósköpunum ég þurfi að vera að þessari fíneríseringu á kastinu mínu. Það eru ótal margir góðir veiðimenn sem hafa bara sætt sig við eða látið sig hafa einhverja hnökra í kastinu og eru bara sáttir við veiðilífið og tilveruna. Þegar upp er staðið og árunum hefur fjölgað, þá er ég trúlega þarna mitt á milli. Mér er næstum sama hvort kastið mitt er ágætt eða gallað, svo lengi sem það dugar til að koma flugunni út. Ef það er eitthvað sem nær því að fara sérstaklega í taugarnar á mér, þá leita ég mér aðstoðar hjá vini sem getur sagt mér til eða hugsa til veiðimanns sem ég rakst eitt sinn á.

    Sá sem ég rakst á, var frábær veiðimaður og lifði sig 100% inn í hið ljúfa veiðilíf. Hann stóð þarna úti í vatninu, sveiflaði stönginni út og suður, barði flugunni niður í bæði fram- og bakkastinu og stóð greinilega á sama að flestir fiskar forðuðu sér snarlega undan gusuganginum. Þegar ég varð svo vitni að því að einn þeirra villtist á fluguna hans, þá skelli hló viðkomandi svo hjartanlega að ég gat ekki annað en samglaðst, tók upp og rölti til hans þar sem hann bakkaði að landi og glímdi við að halda fiskinum á flugunni. Ég hef aldrei orðið vitni að jafn hissa veiðimanni og þessum ágæta manni; Þetta er nú meiri kjáninn, hann tók fluguna mína varð honum á orði þegar fiskurinn var kominn á land. Hvers vegna í ósköpunum hefði ég átt að bjóðast til að segja honum eitthvað til, halda flugunni á lofti með því að stoppa ákveðið í fram- og bakkastinu og reyna að lengja örlítið í línunni í hverju falskasti? Nei, ég sá enga ástæðu til að eyðileggja ánægjuna fyrir þessum góða manni, hann vissi nákvæmlega að hann væri enginn kastsnillingur og trúði mér fyrir því að hann væri fyrst og fremst að þessu til að njóta. Í stað þess að segja honum lítillega til, þá sagði hann mér margfalt til með því að trúa mér fyrir þessu. Ég hef ekki rekist á þennan veiðimann síðan þetta var, vona samt innilega að hann hafi ekki hætt stangveiðinni, það er sjaldan sem maður hittir jafn sáttann veiðimann.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Villuvandræði

    1. júní 2023
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Í boltanum er víst talað um að lið sé í villuvandræðum þegar einhver leikmaður hefur fengið of margar villur á sig og það liggur í loftinu að hann verði rekinn af velli við þá næstu. Meira veit ég ekkert um þessi vandræði, ég greip bara þessa fyrirsögn eftir að ég var búinn að skrifa þessa grein og hafði bara ekki hugmynd um það hver fyrirsögnin ætti að vera.

    Án þess að fara nákvæmlega út í þau hugrenningartengsl sem urðu til þess að ég fór að bera stangveiði saman við boltaíþróttir, þá varð mér hugsað til þess um daginn að það vantar kannski dómara í stangveiðina. Nú kann einhver að hugsa með sér; Já, einmitt. Eins og það þurfi nú að koma með fleiri boð og bönn inn í stangveiðina, gat nú verið. Nei, það þarf ekkert að setja boð og bönn, flestir veiðimenn hafa sett sér sínar eigin siðareglur í veiðinni, umgangast aðra veiðimenn af virðingu og tillitssemi, veiða einungis þar sem þeir hafa heimild til að veiða og þar fram eftir götunum. En svo er misjafnt hvað hverjum finnst vera viðeigandi, ekki þarf öllum að finnast hið sama og stundum getur tökuþrá slegið bestu veiðimenn út af laginu þannig að þeir sýna á sér óæskilegar hliðar. Þá væri nú gott að hafa dómara … nei, annars ég er hættur við. Það eru eflaust fleiri dómbærir veiðimenn til heldur þeir sem eru haldnir dómgreindarskorti. Við þurfum ekkert fleiri dómara, þeim sem finnst á sér brotið þurfa bara að seilast ofan í eigin vasann og taka upp gula spjaldið og benda viðkomandi á að þarna hafi hann tekið feilspor.

    Væntanlega eru til þeir einstaklingar sem koma til með að taka gula spjaldinu óstinnt upp, en þeir eru þá bara með allt önnur viðmið en brotaþolinn eða hreint og beint frekir, óalandi og óferjandi að eðlisfari. Þeim aðilum finnst kannski ekkert sjálfsagðara heldur en fylla upp í bilið sem veiðimaður hefur skilið eftir þegar hann vék sér afsíðis til að losa fluguna úr nýveiddum fiski eða setjast niður til að skipta um taum eða flugu. Ég held að flestum þætti þetta tilefni fyrir gula spjaldið; Sæll félagi, ég er nú ekki hættur að veiða, ertu til í að færa þig? Auðvitað getur maður átt von á að fá andsvar, það er réttur hvers manns, en ef andsvarið er t.d. Hva, átt þú þennan veiðistað, er þetta einkaland, þá veit maður í það minnsta að einhverjum hefur gengið illa þann daginn. Hvernig menn spila út sínum trompum gegn slíkum undirtektum er auðvitað misjafnt, ég mundi ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana, án þess þó að efna til handalögmála. Vinsamleg samskipti á veiðislóð verða að mínu mati seint ofnotuð.

    Svo getur handhafi gula spjaldsins vitaskuld ‚gert sig sekann‘ um að troða einhverjum um tær, jafnvel að einhverjum fjarstöddum. Þær er skondnar sögurnar sem maður hefur heyrt af veiðistað sem einhverjum lýst ágætlega á, ekki kjaftur í augsýn og veiðimaður ákveður því að leggja agn fyrir fisk. Skömmu síðar mætir lénsherra héraðsins á bakkann, blóðrauður í framan, augun skjóta gneistum og er með þaulæfða sögu um að hann hafi nú fundið þennan stað fyrst fyrir 25 – 50 árum síðan, alltaf veitt þarna og hnykkir út með spurningunni hvort viðkomandi hafi hugsað sér að vera lengi eða hvort hann sé ekki bara að fara. Mitt svar væri einfaldlega að biðja um símanúmer lénsherranns, ég skuli láta hann vita þegar ég hætti. Ef það dugar ekki, þá mundi ég grípa til gula spjaldsins, festa mér söguna í minni og geta gripið til hennar síðar í góðra vina hópi.

    Enn skemmtilegri, eða hitt þó heldur, eru þeir sem skilja eftir sönnunargögn fyrir veru sinni á veiðislóð. Þessir aðilar eiga ekkert sameiginlegt með prökkurunum sem tóku álitlega veiðistaði frá uppi í Veiðivötnum um árið, enda gerðu flestir sér grein fyrir að þarna var um hreint spaug að ræða. Nei, þeim sem ég vísa til hefur reyndar fækkað verulega hin síðari ár, en sumir kvitta þó enn fyrir veru sinni í hina stóru gestabók náttúrunnar með því að skilja einhvern óþarfa eftir sig. Sumir ganga svo langt að tryggja að undirskrift þeirra taki ár hundruði að hverfa, skilja eftir sig plastflöskur, umbúðir og girnisspotta þannig að það sé nú alveg öruggt að viðvera þeir gleymist ekki. Það er til alveg ótrúlega einföld lausn á þessu, vertu með margnota poka í bílnum og taktu það með þér að sem þú barst á veiðislóð. Pokinn má þess vegna vera gulur, þú getur þá notað hann sem gula spjaldið á næsta mann ef þér sýnist svo.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 6 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar