FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Vetrarhamur tauma

    29. mars 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég var fínpússa græjurnar mínar um daginn; baðaði línurnar mínar enn eitt skiptið, fór yfir veiðihjólið og herti upp á ýmsu og losaði annað, þá opnaði ég fyrir rælni taumaveskið mitt. Æ, þessi ósköp fíngerðu spottar sem maður notar til að trappa línuþykktina niður í eitthvað sem getur flutt fluguna þokkalega út á vatnið. Sumir þykkir og pattaralegir fyrir línu #7, aðrir mjóir og nettir fyrir línu #4. Bestu vinir mínir og þó hinir mestu skaðvaldar sem maður getur kynnst í lok langs veiðidags þegar köstin hafa tekið upp á því að vera ómarkviss með lélegur bakköstum og svipusmellum í framkastinu.

    Taumarnir lágu þarna í veskinu og létu lítið fyrir sér fara, hringaðir upp með tvöföldum vafningi í enda til að varna því að þeir færu á flakk og í flækju. Raunar var það nú svo að ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af því að þeir færu í flækju, þeir voru svo rækilega fastir í sínu fari, rétt eins og stjórnmálamaður sem hefur bitið í sig á unglingsárum að vera á móti einu eða öllu og hefur haldið því áfram allan sinn feril á þingi. Ég losaði varlega upp á vafningunum á einum taum og ætlaði að rétta úr honum. En, nei. Það var nú ekki það sem hann hafði í huga. Ég veit ekki hvaða hljóð það var sem hann gaf frá sér þarna á borðinu, því verður kannski best lýst með orðinu krull. Taumurinn sem sagt krullaði sig bara aftur saman í fallegan 2“ hring og ég get svarið það, hann vafði sig tvisvar um sjálfan sig á endanum, geispaði framan í mig og lagðist aftur í vetrardvalann sinn. Mér fannst þetta nú heldur ótuktarleg framkoma sem minnti einna helst á ungling sem maður reynir að vekja á morgnanna; rumskar örlítið en snýr sér fljótlega aftur á hina hliðina og steinsofnar aftur.

    Við þetta varð ekki búið, svo ég tók alla taumana mína úr veskinu og losaði upp á þeim. Jú, það var ekki um að villast, þeir snéru allir upp á sig og sofnuðu aftur í sömu stellingu og þeir hafa legið í allan veturinn. Snar í snúningum opnaði ég veiðitöskuna, þessa með öllum aukahlutunum sem maður notar eiginlega aldrei, og sótti strokuleður. Ég er sem sagt alltaf með strokuleður í töskunni til að renna taumunum í gegnum til að þrífa þá og rétta úr. Í þetta skiptið dugði gervigúmmíið ekki til. Það réttist bara örlítið úr þeim eitt augnablik en svo sótti allt í sama farið aftur. Þá mundi ég eftir leðurpjötlu sem ég átti í fórum mínum, þær ku virka vel á stífa tauma og sumir taumaframleiðendur selja meira að segja svoleiðis pjötlur dýrum dómum. Fyrstu tölur gáfu til kynna að leðrið væri málið, en svo féll þetta allt í sama farið. Eins og Bangsímon í framan fór ég að hugsa mig um. Einhvers staðar rakst ég á grein eftir álíka nískupúka og sjálfan mig sem tímdi ekki að kaupa sér nýja tauma á hverju einasta vori, hvað var það sem hann notaði á óþekka tauma? Jú, bút úr reiðhjólaslöngu og ég átti einmitt smá bút úti í bílskúr. Ég klippti mér u.þ.b. 5 sm. spotta af slöngunni, skolaði hana undir heitu vatni til að losna við allt barnapúðrið og svo renndi ég fyrsta tauminum í gegnum hana. Og viti menn, hann hitnaði greinilega mátulega til að gleyma því hvernig hann lá í hnipri í vetur og lá beinn og fallegur á eldhúsborðinu. Eftir að hafa dregið alla taumana mína í gegnum slöngubútinn, lagt þá beina og fallega á borðið gat ég vafið þá aftur upp og stungið í taumaveskið þar sem þeir bíða eftir því að ég farið í fyrstu veiði vorsins. Vonandi sofna þeir ekki of fast, en þá á ég alltaf reiðhjólaslönguna mína í veiðitöskunni með öllu hinu dótinu sem ég nota svo sjaldan.

    fos_vintage_taumar

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Stífleiki tauma

    6. mars 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Línuframleiðendur leggja mikinn metnað í hönnun, efnisval og frágang lína sinna áður en þær fara á markað. Það sama má segja um framleiðendur tauma og taumaefnis. Það er síðan undir veiðimanninum komið að para hvoru tveggja rétt saman.

    Sjálfur hef ég oft lent í því að vera með of stífan taum fyrir einhverja ákveðna línu, taum sem passar fullkomlega með annarri. Hér er ég ekki að tala um sverleika taums á móti línu, heldur stífleika. Oft var það ekki fyrr en í fyrstu köstunum að ég tók eftir þessum mistökum mínum. Framsetning flugunnar var eitthvað einkennileg og mýkra eða snarpara kast lagaði ekki málið. Það er trúlega hvergi eins áríðandi að allt passi saman eins og þegar maður veiðir þurrflugu, þá verður allt að passa svo flugan líði um loftið, stöðvist án áreynslu og leggist rólega á vatnið.

    Linur, mátulegur, stífur
    Linur, mátulegur, stífur

    Ágætt ráð til að kanna hvort stífleiki taums sé passandi er að mynda lykkju taums og línu þannig að samsetningin sé á toppnum. Ef taumurinn lekur niður af samsetningunni er hann of linur. Ef hann setur beygju á línuna er hann of stífur. Þarna rétt á milli, ef taumurinn kemur eins og eðlilegt framhald af línunni, heldur svipuðum boga og hún, þá er hann mátulegur. Einfalt og gott ráð til að máta taum og línu saman áður lagt er af stað í fyrsta kast.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvað er verra en frumskógur?

    6. janúar 2015
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir svo heppnir að vera boðið að fylla í hóp sem stundað hefur Veiðivötn í fjölda ára. Við þurftum ekki að hugsa okkur lengi um og þáðum boðið. Það hefur lengi verið hugur til þess hjá okkur að komast innar í landið að sunnan heldur en Framvötnin og þarna bauðst gullið tækifæri. Eins og vera ber, leitaði ég til mér kunnugri manna eftir leiðbeiningum um útbúnað og aðferðir. Ekki stóð á góðum ráðum og helst nefndu menn; koma flugunni niður, djúpt. Já, ég þóttist nú kannast við einhverjar leiðir til þess. Langur taumur, þungar flugur, jafnvel sökktaumar sem eiga að húrra öllu dótinu niður á botn á innan við 20 sek. Vandamálið hefur bara alltaf verið að ég hef átt í bölvuðu basli með sökktauma í kastinu.

    Eftir að hafa skeggrætt þetta á mínu heimili, þá varð úr að ég keypt hægsökkvandi línu #7 (intermediate) fyrir konuna og svo var ég svo lukkulegur að fá lánaða heldur hraðvirkari línu #8 á stöng #7 fyrir sjálfan mig. Menn geta svo rétt ímyndað sér hversu mikið stökk þetta var fyrir flotlínumanninn mig að höndla þessa hraðsökkvandi línu. En þetta er aðeins inngangurinn að því sem mér býr í brjósti.

    Eftir þessa ferð og þá reynslu sem ég fékk af línunni sem ég hafði fengið að láni, fór ég á stúfana og kíkti á nokkrar línur. Var einhvern tímann talað um línufrumskóg? Hvað ætli það heiti þá sem ég rakst á varðandi sökklínur? Hvað sem það nú var, þá var það miklu þéttara heldur en frumskógur og mér tókst að villast strax í fyrstu skoðunarferð. Hvers vegna hefur framleiðendum ekki tekist að merkja línurnar sínar með sökkhraða sem er skiljanlegur? Þegar ég fór af stað, hafði ég í huga töflu yfir sökkhraða lína sem ég hafði nálgast hjá AFTM:

    Class / Type

    Sökkhraði (tommur á sek)

    Dýpt (fet)

    Intermediate

    < 1

    0-5

    I

    1 – 1 ¾

    5-10

    II

    2 ½ – 3

    10 – 20

    III

    3 ½ – 4

    20 – 25

    IV

    4 ½ – 5

    25 – 30

    V

    5 – 6

    30

    VI

    6 ¼ – 7

    > 30

    Express

    7 – 8

    > 30

    Lead core 450gr

    7 – 8 ¾

    > 30

    Hér ætla ég að taka dæmi um línur frá þremur algengum framleiðendum; Airflo, Scientific Anglers og Rio. Eflaust eru eiginleikar lína frá þessum aðilum og jafnvel innan gerða eitthvað mismunandi sem getur alveg skýrt mismun þeirra á merkingum, en fyrir leikmann er alls ekki auðvelt að gera sér grein fyrir því hve hratt og djúpt hver þessara lína sekkur.

    Airflo Jú, ég þóttist skilja intermediate hjá þeim en rak síðan í roga stans þegar kom að fast intermediate og Sink Rate 3, 5 og 7. Humm, sagði kunnugur við mig þegar ég spurði hvað tölurnar við Sink Rate ættu að segja mér. Ég komst síðar að því að þessi framleiðandi er ekkert að flækja málið; Sink Rate er einfaldlega tommur á sek. sem viðkomandi lína sekkur en ég veit enn ekki hvað fast intermediate stendur fyrir. Engar tölur uppgefnar um hámarksdýpi.

    Scientific Anglers Þessar línur eru skilmerkilega stimplaðar með Type III, Type V o.s.frv. sem mér fannst lofa góðu. Eina vandamálið er að sökkhraði þessara lína stemmir hvorki við Airflo tölurnar né AFTM töfluna. Á heimasíðu SA fann ég að Type III sekkur 2 ½ – 3 ½ tommur á sek. og er gefin upp fyrir 5 – 10 feta dýpi. Type V sekkur 4 ½ – 6 tommur á sek. og er gerð fyrir 20+ feta dýpi.

    Rio Type 3 sekkur 3 – 4 tommur á sek. og Type 4 sekkur 4 – 5 tommur. Ekkert meira um það að segja og litlar upplýsingar um hámarksdýpi að finna hjá þeim.

    Ástæðan fyrir því að ég vildi bera saman línur frá þessum þremur framleiðendum er einföld; þeir nota sömu aðferð við að mæla sökkhraða sinna lína, en því miður virðist sú mælieining ekki alveg ná til kaupenda.

    Ég reyndar endaði á því að kaupa mér samskonar línu og frúin er með, intermediate sem sekkur alveg mátulega fyrir alhliða notkun og rennur alveg glettilega vel. Vel að merkja þá er hún ekki frá neinum ofangreindra aðila og kostaði mig langt innan við helming af meðalverði þeirra og ég var einfaldlega guðs feginn að hafa ratað þokkalega óskemmdur út úr þessum skógi sökklína.

    Flugulínur
    Flugulínur

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tilbúningur

    21. desember 2013
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumaefni
    Taumaefni

    Tilbúnir taumar sem við getum keypt í verslunum eru oftast frammjókkandi, með eða án lykkju sem maður bregður í línulykkjuna. Þessir taumar eru hannaðir fyrir Meðal-Jóninn sem notar miðlungs línuna á miðlungs stöngina sína undir algengustu kringumstæðunum. Ef þú bregður út frá einhverju þessara atriða að einhverju leiti, þá ert þú ekki lengur með besta tauminn í veiðinni. Það var u.þ.b. á miðri síðustu öld sem 60/20/20 reglan varð til. Einföld regla um skiptingu taums sem eignuð hefur verið Frakkanum Charles Ritz. Fyrsti parturinn (lesið frá vinstri) á að vera u.þ.b. 2/3 af þvermáli línunnar, næsti partur á að vera u.þ.b. tveimur X-um grennri og sá síðasti enn öðrum tveimur X-um grennri. Út frá þessu eru flestir tilbúnir taumar framleiddir og eru merktir með með sverleika síðasta partsins, þeim grennsta. Segjum sem svo að þú sért að veiða með lítilli votflugu (#14) á línu #5. Þú velur þér frammjókkandi taum sem endar í stærð 3x m.v. þumalputtaregluna: stærð flugu / 4 = 3,5 ~ 3X taumur. Í þessum útreikningi er ekkert mark tekið á því að þú ert að tengja þennan taum við línu #5 en við skulum gefa okkur að taumurinn byrji í sverleika sem er 2/3 af línunni. Einhverra hluta vegna þarft þú síðan að taka fram línu #7 en heldur þig við votflugu #14. Þá er komið upp vandamál, áttu að velja þér tilbúinn taum sem byrjar á meiri sverleika þannig að hann passi línunni eða áttu að halda þig við tauminn sem passar flugunni? Ég hefði leyst málið með því að taka fram 7 fet af sveru taumaefni sem passar línu #7, segjum 2/0X. Ég veit að ég ætla mér að hnýta síðasta partinn úr 2,5 fetum af 3X taumaefni þannig að hann passi flugunni. Valið stendur þá á milli 0X eða 1X í þessi 2,5 fet sem eiga að vera í miðjunni. Ætli ég hefði ekki valið 1X, en auðvitað fer þetta allt eftir því hvað hverjum finnst best.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skrítinn skuggi

    9. október 2013
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Ég er af þessari kynslóð sem ólst upp við Vísnaplötuna. Þið vitið; Ég á mér lítinn skrítinn skugga, skömmin er svo líkur mér……. Þessi skuggi hefur náttúrulega fylgt mér alla tíð og hefur svo sem ekkert verið að plaga mig í gegnum tíðina, nema þá þegar ég fór að stunda fluguveiði. Þá var það þessi langi mjói skuggi sem kom eins og framlenging af kasthendinni, laumaði sér frameftir stönginni og sleikti línuna, tauminn og alveg út að flugunni. Þessi skuggi fór fljótlega að plaga mig vegna þess að hann fór í taugarnar á fiskinum sem ég var að eltast við. Ég hef áður minnst á að þegar ég treysti í blindi á fyrstu samsetninguna sem ég fékk tilbúna í veiðivöruverslun án nokkurra efasemda frá minni hálfu. Þá var ósköp lítið um veiði hjá mér nema mér tækist að koma flugunni út í einhverju róti. Sem sagt; taumurinn sem ég fékk með fyrstu stönginni minni var allt of sver. Hann var svo sver að þessi litli skrítni skuggi fann sér mjög auðvelda leið niður á botn vatnanna eftir honum.

    Um leið og ég náði tökum á að grenna tauminn fóru flugurnar mínar að leggjast betur og skugginn missti takið á tauminum og komast ekkert lengra út á vatnið heldur en að línuendanum. Mér fannst eins og mér hefði tekist að leika á kvikindið og fór að hrósa happi í fluguveiðinni mun oftar en áður.

    Ég og skugginn minn á veiðum
    Ég og skugginn minn á veiðum

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taumur fyrir þurrflugu

    3. nóvember 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumur

    Heppilegur taumur í þurrfluguveiði gæti til dæmis verið 4X taumur, u.þ.b. 12‘ að lengd. Ég hef það fyrir satt að sumir taka einfaldlega ‚venjulega‘ 9‘ tauminn sinn og bæta 4X taumaefni framan við hann þannig að þetta þarf ekki að vera flókið.

    Hvort taumurinn eigi að skera yfirborðið eða ekki er álitamál milli veiðimann. Sumir gera mikið úr þeim möguleika að taumurinn myndi skugga og/eða ljósbrot sem fælir fiskinn ef hann liggur á yfirborðinu. Öðrum gæti bara ekki staðið meira á sama og halda áfram að nota venjulega poly-tauminn sinn á yfirborðinu. Í versta falli smyrja sumir smá óhreinindum á hann svo hann skeri yfirborðið. Nú er ég sjálfur ekki góð fyrirmynd í þurrfluguveiði, en verið horfandi á konuna mína leggja þessi kríli á yfirborðið í sumar sem leið, notandi venjulegt taumaefni og takandi fisk í tíma og ótíma þá hlýt ég að hallast að þeim síðarnefndu.

    Eitt er það sem taumsérfræðingar og veiðimenn hafa nefnt og gott er að hafa í huga varðandi þurrflugutauminn og það er að láta hann ásamt taumaefninu liggja í vatni sólarhring áður en veiða skal. Við þetta mýkist taumurinn og þanþol hans eykst til muna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 5 6 7 8 9 10
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar