Fyrir mörgum er þynnka óhjákvæmilegur fylgifiskur fyllerís, aðrir þekkja ekkert til hennar og hafa aðeins kynnst henni af afspurn eða fyrir löngu sagt skilið við fyllerí og óráðssíu. Þetta er undarlegur inngangur að greinarstúf, ég veit, en hafið smá biðlund því ég er alveg að koma mér að efninu; taumum og taumaendum.
Við, þessi stórundarlegi hópur mannskepnunnar sem stundar fluguveiði, höfum oft heyrt að grannur taumur sé málið. Sum okkar erum alveg sammála, önnur örlítið skeptísk og enn aðrir meðlimir hópsins fussa bara og sveia. En hvað er þetta eiginlega með granna tauma? Hvers vegna skipta þeir svona miklu máli? Ef við tækjum 100 greinar og myndbrot um granna tauma og hentum þeim í pott og syðum upp á þeim, þá er líklegt að eftir stæðu þrjú atriði sem þær allar snerust í raun um; grannur taumur sést síður í vatni, grannur taumur tekur síður á sig straum og grannur taumur leggur fluguna betur fram. Ofan á þessum kjarna mundi trúlega fljóta ýmislegt groms af hinu og þessu sem ágætt er að hafa í huga og kunna skil á.
Ég á kunningja sem eftir þó nokkuð mörg ár í veiði, á enn í vandræðum með að aðgreina línu, taum og taumenda þegar hann segir frá. „Æji, þetta þarna sem er fest á endann á snúrunni“ og ég leiðrétti hann og segi „Það heitir taumur og snúran er línan.“ Eftir augnablik heyrist síðan „Áttu svona dót til að hnýta framan á línuna, ekki þetta þykka, heldur þetta mjóa“ og ég segi „Dótið heitir taumendi og það er fest framan á tauminn, ekki línuna“ Eftir smá tíma í veiði, gæti þessi kunningi svo tuldrað fyrir munni sér „Andsk… hnútar, ég þarft að skipta um endann á línunni“ og ég sé fyrir mér stórslys og ónýta lykkju á línunni. Hann er vitaskuld að tala um vindhnúta á taumendanum.

Ég veit ekki hve oft ég hef soðið upp á þessari súpu til að ná fram kjarnanum, en í dag hljómar hún svona:
- þú heldur á flugustöng
- við flugustöngina er fest fluguhjól
- við fluguhjólið er fest baklína
- við baklínuna er fest flugulína
- við flugulínuna er festur taumur
- við tauminn er festur taumaendi
- við taumaendann er fest fluga
Í daglegu tali um tauma, þá eru veiðimenn gjarnir á að leggja að jöfnu tauminn og taumendann, sem er bara allt í lagi, því sumir nota einfaldlega sama efnið í hvoru tveggja og festa við línuna. En, það sem ég ætlaði að minnast á, eins og ég hef gert oft áður, þá þurfa menn að þekkja það sem þeir kaupa og geta metið þörfina á sverleika taums og taumenda við mismunandi aðstæður.
Taumar og taumendar eru merktir með ýmsum hætti. Slitstyrkur taums er mældir í pundum eða kílóum (grömmum). Slitstyrkur taums segir lítið sem ekkert til um sverleika hans í dag vegna þess að hann fer eftir efninu sem notað er í framleiðslu hans. Ef þú ert að leita að grönnum taum eða taumaefni, þá þarft þú að horfa á einhverja tölu sem stendur framan við bókstafinn X eða voðalega litla tölu fyrir aftan kommu sem er eitthvað brot úr millimetra. Ég hef tamið mér að notast við þessa X tölu þegar ég vel mér taum í venjulegri vatnaveiði, en þar sem von er á stærri fiski þá horfi ég gjarnan á slitstyrk efnisins, sem er vel að merkja ekki möguleg stærð á fiski. Kraftmikill urriði sem er 5 pund fer létt með að slíta efni sem er skráð með slitstyrk í sömu pundum. Þetta er nokkuð sem ég segi kunningja mínum oft, mjög oft. En hvað er þetta þá með þynnkuna? Jú, láttu stærð flugunnar og aðstæður í vatni, rennandi og kyrru, ráða því hve þunnan taum þú notar. Ef þú ert í vafa um samband flugu og taums, þá getur þú haft þessa töflu til hliðsjónar.






