FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Þynnast upp

    12. janúar 2025
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Fyrir mörgum er þynnka óhjákvæmilegur fylgifiskur fyllerís, aðrir þekkja ekkert til hennar og hafa aðeins kynnst henni af afspurn eða fyrir löngu sagt skilið við fyllerí og óráðssíu. Þetta er undarlegur inngangur að greinarstúf, ég veit, en hafið smá biðlund því ég er alveg að koma mér að efninu; taumum og taumaendum.

    Við, þessi stórundarlegi hópur mannskepnunnar sem stundar fluguveiði, höfum oft heyrt að grannur taumur sé málið. Sum okkar erum alveg sammála, önnur örlítið skeptísk og enn aðrir meðlimir hópsins fussa bara og sveia. En hvað er þetta eiginlega með granna tauma? Hvers vegna skipta þeir svona miklu máli? Ef við tækjum 100 greinar og myndbrot um granna tauma og hentum þeim í pott og syðum upp á þeim, þá er líklegt að eftir stæðu þrjú atriði sem þær allar snerust í raun um; grannur taumur sést síður í vatni, grannur taumur tekur síður á sig straum og grannur taumur leggur fluguna betur fram. Ofan á þessum kjarna mundi trúlega fljóta ýmislegt groms af hinu og þessu sem ágætt er að hafa í huga og kunna skil á.

    Ég á kunningja sem eftir þó nokkuð mörg ár í veiði, á enn í vandræðum með að aðgreina línu, taum og taumenda þegar hann segir frá. „Æji, þetta þarna sem er fest á endann á snúrunni“ og ég leiðrétti hann og segi „Það heitir taumur og snúran er línan.“ Eftir augnablik heyrist síðan „Áttu svona dót til að hnýta framan á línuna, ekki þetta þykka, heldur þetta mjóa“ og ég segi „Dótið heitir taumendi og það er fest framan á tauminn, ekki línuna“ Eftir smá tíma í veiði, gæti þessi kunningi svo tuldrað fyrir munni sér „Andsk… hnútar, ég þarft að skipta um endann á línunni“ og ég sé fyrir mér stórslys og ónýta lykkju á línunni. Hann er vitaskuld að tala um vindhnúta á taumendanum.

    Ég veit ekki hve oft ég hef soðið upp á þessari súpu til að ná fram kjarnanum, en í dag hljómar hún svona:

    1. þú heldur á flugustöng
    2. við flugustöngina er fest fluguhjól
    3. við fluguhjólið er fest baklína
    4. við baklínuna er fest flugulína
    5. við flugulínuna er festur taumur
    6. við tauminn er festur taumaendi
    7. við taumaendann er fest fluga

    Í daglegu tali um tauma, þá eru veiðimenn gjarnir á að leggja að jöfnu tauminn og taumendann, sem er bara allt í lagi, því sumir nota einfaldlega sama efnið í hvoru tveggja og festa við línuna. En, það sem ég ætlaði að minnast á, eins og ég hef gert oft áður, þá þurfa menn að þekkja það sem þeir kaupa og geta metið þörfina á sverleika taums og taumenda við mismunandi aðstæður.

    Taumar og taumendar eru merktir með ýmsum hætti. Slitstyrkur taums er mældir í pundum eða kílóum (grömmum). Slitstyrkur taums segir lítið sem ekkert til um sverleika hans í dag vegna þess að hann fer eftir efninu sem notað er í framleiðslu hans. Ef þú ert að leita að grönnum taum eða taumaefni, þá þarft þú að horfa á einhverja tölu sem stendur framan við bókstafinn X eða voðalega litla tölu fyrir aftan kommu sem er eitthvað brot úr millimetra. Ég hef tamið mér að notast við þessa X tölu þegar ég vel mér taum í venjulegri vatnaveiði, en þar sem von er á stærri fiski þá horfi ég gjarnan á slitstyrk efnisins, sem er vel að merkja ekki möguleg stærð á fiski. Kraftmikill urriði sem er 5 pund fer létt með að slíta efni sem er skráð með slitstyrk í sömu pundum. Þetta er nokkuð sem ég segi kunningja mínum oft, mjög oft. En hvað er þetta þá með þynnkuna? Jú, láttu stærð flugunnar og aðstæður í vatni, rennandi og kyrru, ráða því hve þunnan taum þú notar. Ef þú ert í vafa um samband flugu og taums, þá getur þú haft þessa töflu til hliðsjónar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Áður en hendi sé veifað

    13. júlí 2023
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Tíminn flýgur hratt á … og svo framvegis. Áður en maður veit af, þá eru nokkur ár liðin hjá í sviphendingu. Ég var í smá brasi um daginn með taumaefnið mitt, hnútar héldu illa og stundum var alveg sama hvað ég hnýtti taumaenda varlega við tauminn, taumaendinn einfaldlega hrukku í sundur. Auðvitað vissi ég alveg hvað var að, taumaefnið sem ég greip var orðið stökkt og lélegt þannig að ég greip aðra spólu og reyndi það efni. Allt fór á sama veg og ég greip því til þriðju spólunnar. Sama sagan og ég brá því á það ráð að færa mig niður um styrkleika og prófa það efni. Jú, það gekk en ég var fyrir bragðið með lífið í lúkunum að nú tæki örugglega sá stóri og færi burt með taum og flugu.

    Það eitt að ég væri með þrjár spólur með sama taumaefni í töskunni er náttúrulega vísbending um að eitthvað er að í birgðabókhaldinu. Ég hef aldrei keypt tvær spólur á sama tíma af sama efni, þannig að í það minnsta tvær af þessum spólum voru komnar af léttasta skeiði, þ.e. orðnar eitthvað gamlar og trúlega var líka farið að súrna aðeins í þeirri yngstu. Nú ætla ég að láta verða að því að kaupa mér heftiplástur, líma á nýja taumaefnið mitt og skrifa á plásturinn með penna árið sem ég keypti taumaefnið.

    Það er alveg sama hvað maður passar upp á taumaefnið, það einfaldlega mattast og þornar með árunum, missir styrk og verður stökkt. Sumu efni er hægt að redda með því að leggja það í bleyti, en á endanum kemur að því að ekki verður meira gert til endurheimta styrk þess og sveigju. Það er annars grátlegt að efnið verður ónothæft á 2-3 árum, það tekur nefnilega venjulegt taumaefni u.þ.b. 600 ár að brotna niður í náttúrunni og þau ár duga því alveg til að gera einhvern óskunda af sér. Taktu taumastubbana með þér og komdu þeim í ruslið eða endurvinnslu (flokkast með plasti).

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvað ræður taumurinn þinn við?

    27. júní 2023
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Á flestum spólum taumaefnis eru skráðar ýmsar upplýsingar um eiginleika efnisins, s.s. úr hvaða plastefni taumurinn er gerður, hve mikið er á spólunni (yds / metrar), sverleiki efnisins (in / mm) og síðast, en ekki síst; slitstyrkur efnisins (lb / kg). Svo er þarna stundum eða oftast að finna einhverja tölu með X fyrir aftan sem ég styðst oftast við þegar ég ákveð hvaða taumaenda ég viljið hafa fyrir ákveðna flugu. Þumalputtareglan með X töluna er að deila í stærð flugunnar með þremur (3) og þá fær maður út c.a. X stærð taums. Dæmi: þar sem ég á ekki von á kröftugum fiski (sjóbirtingi eða urriða af stærri stærðinni) og er með flugu #12 í höndunum þá veldi ég taum 4X eða öllu heldur 3X (12/3=4).

    Það eru til ýmsar töflur um samspil taumaenda og stærðir flugna, þar á meðal hér á FOS. Öllum þessum töflum ætti að taka með fyrirvara þegar kemur að vali taumaefnis og þá sérstaklega hvað varðar slitstyrkt efnis. Fyrir það fyrsta er slitstyrkur tauma afar mismunandi eftir hráefninu í þeim, framleiðendum og gerðum frá sama framleiðanda. Það er alltaf öruggast að lesa á spóluna sjálfa ef þú ert að velta fyrir þér vali á taum eða taumaenda miðað við fiskinn sem þú ert að eltast við. En þó þú veltir fyrir þér og lesir á spóluna, þá er ekki allt sagt sem skiptir máli, ekki heldur í einhverri töflu sem þú finnur á vefnum.

    Ég á kunningja sem ferðast vítt og breytt um veraldarvefinn og hann á sér uppáhalds lendingarsíðu. Þar finnur hann allt sem hann þarf að vita um fluguveiði. Eini gallinn á síðunni er að hún er Bresk og allt sem rökstutt er á henni í orðum eða með huglægu mati, miðast við Bretland. Hann þóttist himinn hafa höndum tekið þegar hann fann samanburðartöflu þar sem mælt var með 4X taum, 0.18mm sverum taum í miðlungs urriða. Miðlungs urriði á Bretlandi er tittur á Íslandi og það kom mér því ekkert á óvart að hann lenti ítrekað í að slíta tauminn þegar hann setti í fisk sem var 5lb (pund). Auðvitað er alveg hægt að landa urriða sem er 5 pund á 4X taum en þá verður fiskurinn líka að vera dasaður eða veiðimaðurinn að taka afskaplega mjúkt á móti og vera með tilheyrandi mjúkar græjur. Það leiðinlega er að þá gæti viðureignin orðið löng og skemmtileg fyrir veiðimanninn, en hreint ekki skemmtileg fyrir fiskinn og ekki heppileg ef sleppa skal fiskinum, en það er önnur saga.

    En gefum okkur að þessi kunningi minn hafi lesið á spóluna og valið taumaefni eftir því hver uppgefinn slitstyrkur efnisins væri. Segjum sem svo að hann sé á veiðislóð þar sem vænta má bleikju sem er á bilinu 2 til 3 pund. Bætum því við að þetta er vatn, ekki lækur eða á. Hann gruflar í spólunum sínum og rekst á spólu sem merkt er með slitstyrk 3.5lb (pund). Til gamans skulum við taka fram að þetta var 6X taumaefni, 0.15mm. Hann kastar út, leyfir flugunni að damla eða dregur löturhægt inn, fær töku, glímir við bleikjuna og landar henni í háfinn. Málið er dautt og bleikjan væntanlega líka, þetta er of góður (mat) fiskur til að sleppa.

    Í næstu veiðiferð fer hann í allt annað vatn þar sem frændi bleikjunnar á heima og urriðinn er mögulega þekktur fyrir að vera fjörugur, vilja hasar og bregðast vel við. Svo skemmtilega vill til að í þessu vatni er helst að finna urriða í sömu stærð, 2 til 3 pund. Kunningi minn man alveg eftir flottu 3ja punda bleikjunni og velur sama taumaefni. Urriði tekur allt öðruvísi en flestar bleikjur gera og mér finnst líklegast að kunningi minn rjúki út í veiðibúð og kvarti yfir þessu rusl taumaefni sem honum var selt því þegar innar á spóluna kom, var það alónýtt og hrökk í sundur við hverja einustu töku eða í miðri viðureign.

    Ef við kryfjum þennan slitstyrk tauma, þá er hann mældur með jöfnu, hægt aukandi átaki í einhverri græju þar sem ákveðin lengd af taumaefni er fest í á milli tveggja arma sem færast í sundur. Græjan stendur alveg föst á gólfinu, er ekkert að vinda upp á sig, rykkja í efnið eða breyta átakinu frá einni hlið til annarrar. Slitstyrkur tauma hefur ekkert með þyngd fisks að gera, ekki tegund hans eða atferli. Þetta er einfaldlega mæling á því hvenær taumurinn slitnar í græjunni. Ef þið trúið mér ekki eða viljið fræðast meira um þetta, þá er ágæta lýsingu IGFA á prófunum að finna hérna. Alveg burtséð frá efasemdum mínum um taumastyggð fiska, þá nota ég alltaf umtalsvert sveran taumaenda þar sem ég á von á sjóbirtingi eða sprækum urriða. Sem viðmið þá nota ég minnst 16 punda taum í vötnum uppi á hálendi, helst 20 punda og í vissum vötnum fer ég ekki neðar en 25 punda. Eftir að ég tók upp þetta viðmið, þá heyrir það til undantekninga að ósærður taumur gefi sig, um hnútana mína gildir allt annað mál. Og í guðanna bænum, ekki rugla saman taum í lax eða urriða/sjóbirting. Urriði í sömu stærð og lax á alltaf vinninginn í atorku og dugnaði við að taka á móti.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tuskast

    15. júní 2023
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það er hægt að tuskast við fleira en fisk í veiði. Reglulega seilist ég í innanávasa á jakkanum mínum eða vöðlunum og næ mér þar í tusku sem ég bregð á línuna, sérstaklega ef ég er að veiða í vatni sem auðveldlega gruggast eða er auðugt af plöntu- eða dýrasvifi.

    Ég hef minnst á þetta hér áður, en bara vegna þess að ég hrasaði nýlega yfir reynslusögu veiðimanns þar sem hann dásamaði örtrefjaklút til að þurrka af línunni sinni, þá langar mig til að árétta að nota ekki slíka klúta á flugulínur. Vissulega eru örtrefjaklútar fljótvirk leið til að þrífa óhreinindi af flugulínum, en þeir eru, eins og nafnið bendir til, búnir til úr örtrefjum og eru í raun ekkert annað en afar fíngerður pottaskrúbbur, framleiddur úr hráefnum eins og polyester, nylon, kevlar eða nomex. Allt kemísk efni sem eru harðari heldur en hefðbundin efni sem notuð eru í flugulínur.

    Við endurtekna notkun á örtrefjaklút fjarlægir þú smátt og smátt ysta lagið af flugulínunni og það er einmitt lagið sem tryggir rennsli línunnar í gegnum stangarlykkjurnar. Í staðinn ættir þú að vera með mjúkan bómullarklút, jafnvel gleraugnaklút sem er örlítið stamur. Þeir klútar gera sama gagn og örtrefjaklútur, bara að muna að þrífa aldrei þurra flugulínu með þurrum klút. Annað hvort klúturinn eða línan verða að vera blaut, annars ertu að nota óhreinindin eins og slípimassa.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvaða taum ertu með?

    26. janúar 2023
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Nei, nú er ég ekki að spyrja lesendur, heldur vísa til þess þegar maður situr í mestu makindum heima við og einhver hringir, hendir á mann skilaboðum eða sendir tölvupóst og spyr hvaða taum maður notar. Úff, að fá svona spurningu er eins og flétta fjölþátta reipi, það eru svo margar breytur sem geta haft áhrif á svarið að maður eiginlega verður bara að svara einhverju almennu um sver- og stífleika miðað við flugu og lengd miðað við á hvaða dýpi viðkomandi ætlar að veiða. Þá hefur maður ekki tekið hitastig vatns, efni í taum eða mögulega stærð fisks með í reikninginn og þá getur voðinn verið vís fyrir þann sem spyr.

    Kannski bara einfaldast að nota spún?

    Auðvitað er hægt að víkja sér pent undan svari og vísa á einhverja af ‘standard’ formúlum fyrir taum eins og t.d. Taumalengd en þá er samt sem áður horft framhjá afar stuttum taumum og afar löngum taumum, mismunandi hráefni og umfram allt því sem skiptir verulegu máli; aðlögunarhæfni og reynslu veiðimanns. Það er nefnilega mikill munur á hæfum veiðimanni og reynslubolta. Ég hef nefnilega fengið það á tilfinninguna að reynsluboltarnir spá afskaplega lítið í mismunandi tauma, eru ekkert að velta sér upp úr samsetningu eða efnisvali, það er eins og mismunandi aðstæður, fiskur eða hvað eina sem getur haft áhrif á taumavalið sé orðið innbyggt í atferli þeirra og þeir þurfa ekkert að spá og spekúlera. Mér skilst að þetta sé fylgifiskur þess að vera reynslubolti umfram þá sem ‘bara’ brenna af áhuga. 

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Er ég að kasta allri tölunni?

    27. desember 2022
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Ég er yfirleitt alltaf á oddatölu, þ.e. þegar ég er með flugustöng. Að vísu á ég stangir sem eru á sléttri tölu, en einhverra hluta vegna þá hefur mér alltaf þótt oddatölur eiga betur við þá veiði sem ég stunda. Hvort ég sé alltaf að nota þessa oddatölu alveg til fullnustu er svo allt annað mál.

    Trúlega kemur það oftar en ekki fyrir að ég falli undir túlkun Ed Jaworowski sem hann setti fram í The Cast: Theories and Applications for More Effective Techniques um fluguveiðimenn sem ættu beinlínis að nota þyngri línu á stangirnar sínar heldur en númer þeirra segir til um.

    Þetta set ég fram þvert ofan í mitt persónulega álit að vera ekkert að yfirspekka stangir, heldur nota rétt númer en prófa aðra uppsetningu af línu (hvernig hún er byggð) ef sú gamla virkar ekki. Línan þarf reyndar ekkert að vera gömul, ég hef alveg lent í því að kaupa línu af réttri þyngd en hún virkaði bara alls ekki. Ed aftur á móti beinlínis segir veiðimönnum sem alltaf veiða stutt að nota einu númeri þyngri línur en stöngin segir til um. Þetta styður hann með þeirri röksemd að AFTM kerfið gerir ráð fyrir besta samspili stangar og línu þegar þú ert með 30 fet hennar á lofti og tekur sem dæmi að sú lína á stöng #5 sé um það bil 140 grain. Ef þú ert aftur á móti alltaf í stutta spilinu, segjum 20 fetum, þá ert þú aldrei með meira en 100 grain á lofti af línu #5 og þessi 100 grain er um að bil þyngdin á línu #3. Til þess að nýta allt það sem stöng #5 hefur upp á að bjóða í stutta spilið (20 fet eða skemmra) þá er þér alveg óhætt að vera með línu #6 og þú þarft ekkert að óttast að yfirhlaða stöngina.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 10
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar