Þyrla eða þyrilvængja er skemmtilegt orð á ekki minna skemmtilegu fyrirbæri sem ég sem veiðimaður, hef eflaust notið góðs af. Nei, mig rekur ekki minni til að hafa stigið upp í þyrlu um ævina en eflaust hafa einhverjar góðar loftmyndir sem ég hef stuðst við fyrir veiðiferðir verið teknar úr þyrlu.
Síðasta sumar lá nú samt við að ég legði það formlega til að nafni þessa fyrirbæris yrði breytt í trukk. Ég geri mér grein fyrir því að það nafn er þegar í notkun, en stórir trukkar heita hvort hið er orðið ‚stórar vinnuvélar sem þvera veginn‘ og þrýstingur hefur eiginlega útrýmt trukki í öllum vatnslögnum. Að vísu er hægt að taka eitthvað með trukki, en það á ekki við í vatnaveiði. Ef einhver hefur náð því hvað ég er að fara, þá getur sá hinn sami hætt lestrinum núna. Hinir, sem enn standa á gati, eiga þá völina að hætta eða lesa til enda og ná innihaldinu sem ég er alveg að koma að.
Þannig var að síðasta sumar var ég í nokkur skipti við veiðar þar sem seðlamenn höfðu keypt sér útsýnisflug með þyrlu. Já, náttúrufegurð á Íslandi er einstök og sjálfsagt að leita allra leiða að ná einhverju af auðmagni veraldar út á það. Ekki geri ég mér neinar grillur um að útsýnisflug þessi hafi verið farin sérstaklega til að skoða mig og því fannst mér lítil ástæða til að fljúga jafn lágt og raun bar vitni. Þegar þyrlan nálgaðist var eins og náttúran héldi niðri í sér andanum, fuglarnir hættu að flögra á milli trjágreina og vatnið kyrrðist einkennilega. Vitaskuld tók fyrir alla veiði á meðan þyrlan flögraði þarna yfir og töluverðan tíma á eftir.
Síðar um sumarið fór ég nokkrar ferðir inn á hálendið og ekki var flugumferðin minni þar. Ef eitthvað þá var hún meiri og lægri heldur en við Þingvelli og þar var fiskurinn áberandi hvekktari eftir að þyrlur höfðu flogið yfir. Friðland að fjallabaki hljómaði svolítið ankannanlega á meðan andrúmsloftið titraði undan trukki spaðanna. Vegna þessa mælist ég til um að nafnið trukkur verði heimfært yfir á þessi flygildi sem raska heiðanna ró í tíma og ótíma og umferð trukka síðan sett í sama flokk og utanvegaakstur.
Í gegnum árin hefur maður tekið ástfóstri við ákveðin vötn. Stundum vegna fisksins, stundum vegna umhverfisins. Eitt þessara vatna hjá mér er Langavatn í Borgarbyggð. Náttúrufegurð á þessum slóðum er mikil og vatnið hefur fært mér einn af stærstu fiskunum sem ég hef veitt um æfina. Flestir leggja leið sína að Langavatni að austan, að Beilárvöllum, færri að vestan, upp með Langá, en það er ekki síðra svæði. Saga Langavatns og Langavatnsdals er þyrnum stráð. Þar hefur verið harðbýlt og á ýmsu gengið í aldanna rás (Jóhannes Davíðsson, Tíminn 1984). En það þarf ekki að leita aldir aftur í tímann til að finna dæmi um harmasögu Langavatns.
Árið 1970 hófst vatnsmiðlun úr vatninu og við getum frá þeim tíma rakið stórfeldar breytingar á lífríki þess, allt til dagsins í dag. Fljótlega eftir hækkun vatnsins jókst lífauðgi þess töluvert með mikilli viðkomu fiskjar. Nokkuð sem er þekkt og ég hef rakið hér áður (Þegar stíflan eldist). Stór hluti Beilárvalla fór undir vatn og strandlengjan skertist verulega. Að sama skapi jókst bakkarof og fjaran varð grýtt og gróðursnauð.
Langavatn 1965 – Kunnugir þekkja höfðann til hægri sem eyju í dag (Ljósm.Tómas Einarsson)
Fiskur sem áður sótti í Beilá lagði þá hegðun af og þar hefur hann ekki sést síðan í byrjun 8. áratugs síðustu aldar. Þar sem ég hef engar heimildir fundið um hrygningu í ánni læt ég ósagt látið um möguleg afföll á þeim slóðum. Aftur á móti er öruggt að urriði hrygndi í efrihluta Langár fyrir tilkomu stíflunnar (Þór Dan Jónsson, Fiskifræðilegar rannsóknir í Langavatni Mýrarsýslu 1984) en nú hrygnir urriðinn vísast aðeins í Langavatnsá, nyrst í vatninu. Þangað hefur hann að miklu leiti hopað eftir að smábleikja lagði undir sig syðri hluta vatnsins. Þó hefur einn og einn stórurriði veiðst í vatninu að sunnan, en þó helst að vestan.
Stórurriði úr Langavatni 2011
Fiskiræktarsjónarmið réðu alfarið þeirri ákvörðun að stífla Langavatn. Fyrir það fyrsta reyndist með tilkomu stíflunnar unnt að miðla vatni til Langár þann tíma árs sem lítið var í ánni „sem er talið til mikilla hagsbóta fyrir ána sem veiðiá“ eins og segir í Matsgerð Fiskistofu frá árinu 2009. Í annan stað er sagt frá því í Morgunblaðinu 29.2.1980 að „Tilkoma þessa mannvirkis hefur dregið nær alveg úr ísruðningi í ánni á vetrum sem áður var árviss og olli tjóni á fiskstofni árinnar.“ Til viðbótar má nefna að eflaust hefur frjósamt vatnið úr Langavatni fyrstu árin eftir stíflun þess, verið laxaseiðum Langár og viðkomu þeirra mikil búbót.
Þegar fram liðu stundir varð aftur á móti mikill hnignun í þessari frjósemi og væntanlega hefur þeirra áhrifa lítið gætt umfram þau 2 – 10 ár sem reikna má með að hún almennt vari. Væntanlega er lífríki Langár nú endanlega komið aftur til fyrra horfs og spurning hvort lífríkið beri allt það ungviði laxa sem þar klekst út. Að vísu eru bakkar árinnar vel grónir og trjágróður þar ætti að sjá fyrir töluverðri næringu fyrir ánna.
Eins má velta því fyrir sér hvort stíflan gegni enn því hlutverki sínu að stemma stigum við ísruðningi eins og henni var upphaflega ætlað. Án þess að geta vísað til rannsókna tel ég ekki ólíklegt að almenn hlýnun loftslags hin síðari ár hafi breytt ísalögum á Langavatni sunnanverðu þannig að fiskistofni Langár standi ekki lengur sú sama ógn af og áður. Vel að merkja á ég erfitt með að tala um fiskistofna Langár í eintölu. Í Langavatni er enn stofn stórurriða úr Langá sem hefur verið meinaður aðgangur að hrygningarstöðvum sínum frá árinu 1970. Ætli sá dagur renni upp að honum verði gert kleift að hrygna aftur í efri hluta Langár?
Konan mín sagði við mig um daginn að frá því ég tók upp fluguveiði, þá hafi ég aðeins átt eitt áhugamál. Raunar sagði hún að ég hefði ekki átt neitt áhugamál áður en að fluguveiðinni kom. Jú, ég kannast örlítið við eitthvað af þessu, kannski þetta með áhugamálsleysið. Ég þori alveg að andmæla konunni minni augliti til auglitis, en í þetta skiptið ætla ég að fela mig aðeins innan um hið ritaða orð.
Ég á mér nefnilega annað og ekki minna áhugamál heldur en stangveiðina. Ég er sérstakur áhugamaður um endurheimt náttúrulegra vatnsfarvega. Þetta er að vísu ekki hátt skrifað áhugamál hér á Íslandi enda ekki vinsælt að ræða það opinskátt að brjóta eitthvað niður sem aðrir hafa byggt upp. Annað sem gerir málið viðkvæmt er að töluvert af stíflum og hömlum sem settar hafa verið í náttúrulega farvegi áa á Íslandi eru tilkomnar vegna fiskiræktar.
Hvernig stíflun nýtist til fiskiræktar er nokkuð mismunandi. Stundum hefur afrennsli vatna verið stíflað vegna fiskiræktar í vötnunum sjálfum en stundum til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum leysinga á uppeldissvæði í ám sem úr þeim renna. Þá eru einnig þekkt dæmi þess að stíflur eru notaðar til miðlunar vatns á þeim tímum er uppgöngufiskur þarf eitthvað til að synda í á leið sinni upp árnar. Auðvitað er þetta síðast nefnda sagt með nokkurri kerskni, en smá sannleikskorn í því samt.
Horft yfir stífluna
Þegar vatnsborð innan stíflu er hækkað og vatn flæðir yfir gróið land, hefst útskolun lífrænna efna og áburðar sem eykur frjósemi vatnsins allverulega, lífauðgi eykst mjög hratt. Fiskur, sé hann til staðar á annað borð, tekur þá mjög við sér, stækkar hratt og fjölgar mikið. Í flestum tilfellum er þetta að vísu skammgóður vermir. Haldist hækkað yfirborð, kemur að því að gróðurinn eyðist eða rotnar og útskolun næringarefna þrýtur. Það er nokkuð misjafnt hve langan tíma þetta ferli tekur. Fræðimenn telja að þessi útskolun geti varað í 2 – 10 ár (Guðni Guðbergsson, Fræðaþing landbúnaðarins 2009) / Þór Dan Jónsson, Fiskifræðilegar rannsóknir í Langavatni Mýrarsýslu 1984). Sem dæmi um vatn eða lón sem þannig er háttað til um, má nefna Blöndulón sem var myndað 1991. Fyrstu fjögur árin varð vart við gríðarlega fjölgun silungs, aðallega bleikju og veiddist mikið af vel öldum fiski. Að fáum árum liðnum, fækkaði fiskinum aftur á móti mjög hratt og sá litli fiskur sem varð eftir var mjög illa haldinn. Nú er svo komið að nánast ekkert veiðist í lóninu.
Fyrst eftir myndun eða hækkun yfirborðs hálendislóna, eins og Blöndulóns og Þórisvatns, verður skötuormur uppistaðan í fæðu silungsins. Skötuormurinn nærist á rotnandi jurtaleyfum en honum fækkar hratt þegar lífauðgi vatnsins þverr og þá þarf fiskurinn að leita í aðra og fjölbreyttari færðu. Þá leitar hann í sviflægari fæðu, leggur sér sem sagt flest til munns en að lokum kemur að því að lífauðgin þverr svo við tekur fæðuþurrð.
Hún er ekki ýkja frábrugðin saga þeirra vatna sem stífluð hafa verið til miðlunar á láglendi. Lífauðgi þeirra eykst hratt, fiski fjölgar og hann stækkar til að byrja með. Svipaða sögu má segja af lífauðgi og þar með lífríki ánna sem úr þeim renna. Þar dafnar ungviði urriða og laxa vel fyrstu árin en það heyrir til undantekninga að þetta ástand vari lengur en fyrrgreind 2 – 10 ár. Að þeim tíma liðnum færist lífríkið að mestu til fyrra horfs, í besta falli. Oft standa neikvæð áhrif ofan stíflu eftir, eyðing hrygningarstöðva, fábreyttari jurtaflóra og svo má lengi telja. Þessu til viðbótar má nefna að rof við vatnsbakka eykst umtalsvert ef vatnsborð er breytilegt og á sama tíma líður lífríkið í fjörunni fyrir. Dæmi um vatn sem þetta má nefna Skorradalsvatn í Borgarfirði.
Undan Árbæjarstíflu
Yfirleitt standa stíflur óhaggaðar allan sinn líftíma og gott betur en það. Eins og áður segir hafa flestar þeirra verið reistar hér á landi vegna raforkuframleiðslu, áveitu eða fiskiræktrar. Það heyrir til undantekninga á Íslandi að þær séu fjarlægðar, hvort heldur þær séu í notkun eða löngu aflagðar. Þótt lokur séu teknar úr þeim sem óþarfar eru orðnar, þá halda þær áfram að vera þyrnir í augum manna og fiska og hafa mikil áhrif á fiskfarvegi (Áhrif ræsa og brúa á ferðir fiska og búsvæði þeirra, 2007).
Í grein minni hér um daginn um varmanám í vötnum, gat ég þess að vötn hitna nær eingöngu í efsta metra yfirborðsins. Þegar kemur að djúpum vötnum eins og Þingvallavatni er því ljóst að dýpri vatnslög hitna ekki fyrr en umhverfing vatnsins hefur átt sér stað, þ.e. heitt vatnið af yfirborðinu leitar niður á við og þrýstir köldu vatninu upp í vatnsbolinn. Þessi umhverfing er hæg og því er mikilvægt að raska ekki hlýnun þessara vatna á yfirborðinu með snefilefnum eins og leynast í tilbúnum áburði
Vötn sem svona er háttað til um eru mjög frjósöm, sífelld umskipti (mælt í árstíðum) færir næringu á milli svæða í vatninu og viðkoma gróðurs og skordýra eykst. Að raska þessu jafnvægi, jafnvel í litlum hluta vatnsins getur haft mjög neikvæð áhrif á lífríkið. Heitasta tíma ársins er yfirborðshiti Þingvallavatns rétt um 10°C, á 20 sm. dýpi er hann 8°C og 6°C á 80 sm. Allur vatnsbolurinn fyrir neðan þessa dýpt er kaldari, yfirleitt miklu kaldari nema þar sem linda nýtur við. Lindavatnið sem streymir inn í Þingvallavatn er á bilinu 2,7°C til 4°C og á miklu dýpi er það nánast eins hitaveita þar sem vatnið er að jafnaði ekki nema 1°C.
Ákveðið svæði við vatnið sker sig mikið úr hvað hitastig varðar og hefur gert svo í hundruð ára, Nesjahraun. Þarna hefur heitt grunnvatn ofan úr Hengli streymt fram og yljað vatnið næst ströndinni. Frá því Nesjavallavirkjun tók til starfa hefur hiti grunnvatns á þessum slóðum hækkað verulega, svo mjög á köflum að hitatölur 17 – 27°C hafa mælst í gjám sem áður voru rétt ilvolgar. Við þekkjum þessi svæði og nágrennið sem einstakar uppeldisstöðvar urriðans í vatninu og hafa veiðst þar ótrúlegir drekar. Kyrrstöðuástandið sem skapast á þessum slóðum, sífelldur sumarhiti og vel það, hefur að öllum líkindum breytt hegðunarmunstri fisksins þannig að hann leggst ekki í dvala nema mjög skamman tíma, ef þá nokkurn yfir veturinn. Hér hafa mannanna verk væntanlega getið af sér verulegt frávik í eðlilegri hegðun urriðans.
Almennt hefur meðalhiti Þingvallavatns hækkað hin síðari ár, rétt eins og annarra vatna á norðlægum slóðum. Einn fylgifiskur þessa er að nú leggur vatnið mun síður en áður. Ísinn á Þingvallavatni hefur hingað til virkað sem ágætis einangrun í miklum kuldum og þannig temprað hitasveiflur. Sé ísinn ekki til staðar er þessi temprun horfin og vatnshitinn getur tekið mjög miklum sveiflum í hita. Viðkvæmari tegundir gróðurs gætu þannig horfið og harðgerðari plöntur náð yfirhöndinni með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lífríkið í heild sinni. Verði miklar breytingar á svifi í Þingvallavatni er næsta víst að það hafi mikil áhrif á viðkomu murtunnar og þar með annarra fiska í vatninu. Hvort sú verður raunin, verður framtíðin væntanlega ein að skera úr um en þangað til ber okkur skilda til að vernda umhverfi og lífríki vatnsins af fremsta megni. Eitt af því sem við verðum að horfast í augu við eru áhrif mannlegs inngrips í lífríkið sem hingað til hefur fyrst og fremst hefur verið hita- og efnamengun.
Öll þekkjum við það þegar gróðurinn á landinu fer að taka við sér á vorin og sólar tekur að njóta. Við njótum þessa einnig, annað hvort beint undir sólu eða með því að sjá gróðurinn grænka í kringum okkur. Það léttist á okkur brúnin.
En það er fleira sem nýtur sólar en augað sér. Vötnin okkar stunda s.k. varmanám, þ.e. ljóseindir úr sólarljósinu skella á rafeindum vatnssameindanna sem mynda vatnið og þær drekka í sig orkuna ljóssins, vatnið hitnar. Hlutfallslega er mest varmanám vatnsins í efsta metranum við yfirborðið. Þar nýtist u.þ.b. 50% sólarljóssins til upphitunar. Því dýpra sem leitað er niður í vatnið, því hægara verður varmanámið. Veiðimenn þekkja þennan efsta metra vatnanna sem annað gjöfulasta veiðisvæði þeirra. Hitt svæðið er botninn, e.t.v. gjöfulli vegna þess að þar tekur botngróðurinn til sín sólarljósið og bindur í lífrænni orku sem fóstrar síðan æti fyrir fiskinn. Við getum séð hvar varmanám er í góðum gír. Vatnið virðist blátt, því blárra því heilbrigðara.
Það er ýmislegt sem getur haft áhrif á þetta varmanám og þar á meðal er skortur á sólarljósi. Það segir sig sjálft að þegar lítillar sólar nýtur við þá hlýna vötnin okkar ekki eins mikið fyrir vikið. Áhrif þessa ættu að vera augljós, vatnið er kaldara, plöntur og þörungar ná ekki að beisla sólarljósið og þar með verður heldur fátt um fína drætti í gróðri, skordýrum, fiskum og á endanum hjá veiðimanninum.
Það sem getur einnig orsakað lélegt varmanám er aur og ólífrænar agnir í vatninu sem ná að tvístra sýnilega ljósinu frá sólinni áður en rafeindir vatnssameindanna ná að beisla orkuna. Endurkast þessara vatna verður því oft gráleitt eða mjólkurlitað og er þannig vísbending til okkar um lélega framleiðni. Árstíðabundnar sveiflur í framburði til stöðuvatna er oft á tíðum af hinu góða. Framburður ber með sér næringu sem kemur lífríkinu til góða, en þegar framburður er viðvarandi, allt árið um kring, þá er úti um lífríkið.
Þekkt dæmi um ‚litað‘ vatn er t.d. Lagarfljót. Það hefur alltaf verið frekar skolað að sjá en samt tekið nokkrum breytingum eftir árstíðum. Þessar smávægilegu sveiflur dugðu hér áður fyrr til þessa að varmanám átti sér stað stóran hluta ársins og þannig viðhélst lífríkið. Nú er svo komið að vatnið er ekki lengur ‚litað‘ heldur hefur það tekið massífan lit af sífelldum framburði, sveiflurnar eru horfnar og lífríkið er á öru undanhaldi. Í þessu tilfelli getum við aðeins sjálfum okkur um kennt.
Það er mál manna að við Eyjafjallagosið 2010 hafi vötn á afréttum Suðurlands orðið fyrir áföllum vegna gosefna sem í þau barst. Hvort skammtímaáhrif þessa hafi orðið til þess að vatnshiti hafi lækkað þekki ég ekki, en reikna má með að langtímaáhrifin geti orðið nokkur. Það tekur alltaf einhvern tíma fyrir ösku að veðrast og verða að salla og það er einmitt þessi fíngerði salli sem á eftir að berast í vötnin okkar og hamla varmanámi þeirra á næstu árum. Við þessu getum við lítið gert, náttúran hefur sinn gang í þessu eins og svo mörgu öðru. E.t.v. verða aðrir umhverfisþættir til þess að draga úr skaðanum, ef hann verður þá nokkur.
Það er þrennt sem mér finnst skemmtilegast að gera; veiða silung að vori, veiða silung að hausti og svo þess á milli. Oft hefur veiðinni að vori og hausti verið líkt saman, fiskurinn fer sér hægt og svipaðar flugur virka einna best á þessum árstíma. Hvað veðráttuna varðar þá er svo sem allur gangur á því hvernig það hagar sér.
Tökum til dæmis veðrið síðasta vor. Þegar leið á apríl hlýnaði heldur í veðri, að vísu með smá úrkomu, en almennt góð skilyrði fyrir veiði. En með hlýindunum jukust líka leysingar og vötnin sem þegar höfðu rifið af sér ísalög, kólnuðu aftur. Þegar slíkt gerist, þá kemur nokkurs konar bakslag í fiskinn og vorið í honum hægir á sér. Maí kom sterkur inn, hitastigið reis allsnarlega og fiskurinn tók aftur við sér. Það var samt hrollur í mér og það leiddi til stuttra, árangurslausra veiðiferða.
Ég var svo bjartur að spá góðu sumri og löngu mildu hausti. Kannski réði þar mestu að mér finnst skemmtilegra og veiða langt inn í haustið heldur en snemma vors. Oft hef ég gert ágæta veiði í vötnunum á haustin, svona á milli þess að bleikjan hefur hrygnt og urriðinn fer í hrygningu. Þetta er auðvitað að því gefnu að hitastigið falli ekki mjög skart og vindar blási ekki af miklum móð.
Veiðispáin mín gekk alveg eftir, svona til helminga í það minnsta. Eitt besta veiðisumar í langan tíma. Um haustið er allt aðra sögu að segja. Í mínu nær umhverfi var eins og skrúfað hefði verið fyrir þá litlu sól sem sumarið annars færði okkur og nokkrar snarpar lægðir gengu helst til snemma yfir landið og blésu heldur hressilega. Að sama skapi kólnuðu vötnin fyrr en ella og veiðin einfaldlega datt niður þótt vel hafi gefið í ám og lækjum langt að vetri. Langa milda haustið sem ég spáði varð sem sagt heldur stutt í annan endann.
Þetta kallast sveiflur í náttúrunni og ekkert við þeim að segja né gera. Einn þrálátasti misskilningur mannskepnunnar er sá að hún geti stjórnað náttúrunni, en ekki öfugt. Að vísu getum við gert ýmislegt til að raska náttúrunni, jafnvel dælt fiski í ár og vötn sem vart ber hann. En slíkar ráðstafanir skila sér sjaldnast sem dempari á eðlilegar sveiflur náttúrunnar. Þó eitt og eitt haust, jafnvel heilu sumrin bregðist í veiði, þá þarf nú eitthvað meira til ef hrun á að kallast. Náttúrlegar sveiflur í tíðarfari, fiskgengd og afkomu stofna eru einfaldlega eitthvað sem veiðimenn þurfa að lifa við og kannski fyrst og fremst, þeir þurfa að læra að lifa við. Köld vötn að vori eða hausti eru bara eðlileg, ekki förum við að leggja hitaveitu í vötnin okkar, eða hvað? Það er kannski efni í annan pistil.