FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hringormar í fiski

    2. mars 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Umræða og fyrirspurnir um sníkjudýr í silungi kemur reglulega fram á sjónarsviðið, einkum þegar veiðimenn verða varir við svæsnar sýkingar í fiski. Ég játa það fúslega þekking mín á sníkjudýrum í fiski hefur hingað til verið heldur yfirborðskennd og mörkuð af reynslu minni úr fiskvinnslu sem unglingur og því hef ég freistast til setja alla þessa óværu undir sama hatt. En svo er nú ekki.

    Áður en lengra er haldið, skal það tekið fram að við efnisöflun fyrir þessa samantekt las ég ógrynni fyrirspurna og svara á ýmsum spjallvefjum um þetta efni. Ekkert af því sem ég set hér fram er ættað af umræðuvefjum, þess í stað hef ég leyft fréttum sem hafa komið fram á síðustu árum að leiða mig áfram að greinum og rannsóknum lærðra manna. Heimilda er getið í niðurlagi.

    Hringormar er safnheiti yfir sníkjuþráðorma (Nematoda) sem fullorðnir lifa í maga villtra spendýra við Ísland. Þeir sem mest áberandi hafa verið í umræðunni eru; Anisakis simplex (hvalormur, síldarormur) og Pseudoterranova decipiens (selormur, þorskormur). Minna hefur farið fyrir t.d. Contracaecum osculatum og Phocascaris cystophorae sem hvorugur hefur fengið íslensk viðurnefni að því er ég best veit. Lífsferill hringorma skiptist í fimm stig. Fullorðinn lifir ormurinn í maga sjávarspendýra (lokahýsill) og þaðan berast egg hans út í sjó með saur hýsilsins þar sem krabbadýr (millihýsill) éta þau. Í millihýsil taka lirfurnar hamskiptum, þroskast og stækka þar til þriðja stigi er náð. Þá eru þær orðnar smithæfar og éti fiskur (burðarhýsill) þetta krabbadýr, tekur ormurinn sér bólfestu í fiskinum, upprúllaður og hættir að þroskast. Á þessum tímapunkti er t.d. hvalormurinn orðinn 2 – 4 sm. langur og kominn með gadda á fram- og afturenda sem auðvelda honum að rjúfa sér braut um vefi fisksins. Éti lokahýsill þennan smitaða fisk tekur það orminn aðeins örfáa daga að þroskast yfir á fjórða stig og ná kynþroska sem er fimmta og síðasta stig lífsferilsins. Fullþroska ormar lifa í 3 – 7 vikur í lokahýsil og geta af sér allt að 7500 egg á dag.

    Hvalormur í lifur þorsks - Anisakis simplex © Hans Hillewaert
    Hvalormur í lifur þorsks – Anisakis simplex © Hans Hillewaert

    Þekktir hýslar hringorma eru m.a. ránfiskar (þorskur, langa, steinbítur, keila) sjófuglar, selir, hvalir og sjógengnir laxfiskar (sjóbirtingur, sjóreiður og lax). Hvalormur finnst nánast eingöngu í innyflum ferskra fiska. Ef fiskurinn er aftur á móti geymdur óslægður í einhvern tíma, taka innyflin að meltast / skemmast þannig að ormurinn á greiða leið út í vöðva og önnur líffæri. Því ætti að slægja allan fisk sem fyrst til að koma í veg fyrir smit.

    En það er ekki algilt að hringormur haldi sig eingöngu í innyflum. Lirfa selorms í fiski er stór, gulbrún á lit og finnst oftast í vöðvum, sérstaklega þeim sem umlykja kviðarholið. Hún er uppsnúin inn í bandvefshylki í flökum sem fiskarnir mynda sjálfir. Þannig reyna þeir að einangra orminn.

    Selormur úr þorski – Pseudoterranova decipiens © Matthieu Deuté
    Selormur úr þorski – Pseudoterranova decipiens © Matthieu Deuté

    Neysla sýkts fiskjar þarf alls ekki að vera hættuleg sé gætt að geymsluháttum og matreiðslu. Nægjanlegt er að frysta fisk við -20°C í vikutíma til að drepa hringorm og sé fiskur matreiddur ferskur skal gæta þess að hann nái 70°C í eina mínútu, það skilar sama árangri. Hér ber heimildum ekki alveg saman þannig að ég hef valið að nefna lengstan tíma í frosti og hæsta hita við eldun sem getið er. Þurrkaður fiskur er meinlaus, þ.e. sé hann fullþurrkaður því hringormur þolir ekki að þorna. Skiptar skoðanir eru uppi um það hvort reyking sé næg forvörn, þannig að væntanlega er best að frysta fisk áður en hann er reyktur. Eins og kunnugt er losnar verulega um hold í fiski þegar hann er frystur og mörgum þykir því þýddur fiskur ekki eins heppilegur og ferskur þegar kemur að því að grafa. Því ætti að velja heilbrigðan ferskan fisk, lausan við smit og óværu ef hann er ætlaður í graf. Sjálfur hef ég fryst grafin urriða og tekið úr frysti eftir hentugleikum og alltaf þótt hann jafn góður, örlítið lausari í sér en ekkert sem orð er á gerandi.

    Þrátt fyrir þessi einföldu ráð eru dæmi þess að hringormur hafi náð að þroskast á fjórða stig í mönnum hér á landi og hefur tilfellum eitthvað farið fjölgandi með breyttum matarvenjum og neyslu hrás fisks hin síðari ár. Komist selormur lifandi niður í meltingarfæri manna getur hann borað sár í maga með tilheyrandi kvölum, ógleði og uppköstum fórnarlambsins, en yfirleitt gerir hann sér fljótlega grein fyrir að hann hefur ratað í óheppilegan hýsil og leitar því útgöngu sem fyrst. Sú útþrá á sér yfirleitt stað í gegnum vélinda og munn og getur því verið miður geðsleg fyrir þann sem fyrir því verður. Leiti ormurinn ekki upp, heldur niður meltingarveginn getur svo farið að lirfa ormsins bori gat á þarmana og komist þannig inn í kviðarholið eða líffæri svo sem lifur, gallblöðru eða eitla. Slíks smits verður yfirleitt vart á innan við 12 klst. Dauður selormur veldur aldrei skaða í manneskju.

    Hvalormurinn er almennt talinn hættulegri mönnum heldur en selormurinn. Hvalormurinn er gjarnari á að bori sig út úr maga og görnum fórnarlambsins og fara á flakk um kviðarholið með tilheyrandi sársauka, blæðingum og líffæraskaða. Eins er fólki hættara við ofnæmisviðbrögðum vegna hvalorms, hvort heldur hann sé lifandi eða dauður. Það er því rík ástæða til að gæta vel að fiski sem er mögulega sýktur af hvalormi. Hvalormur er orsök gotraufarblæðingar í villtum laxi sem einmitt hefur orðið vart hér á Íslandi á undanförnum árum. Þær sýkingar geta verið mjög svæsnar, allt að 150 ormar við gotrauf fisks auk þess að nánast allt kviðarholið getur sýkst, auk þunnilda og vefja. Það er því langur vegur frá að hringormur finnist ekki í laxi hér á landi.

    Heimildir

    Hringormar berast í fólk á Íslandi við neyslu á lítið elduðum fiski, Karl Skírnisson, Læknablaðið 1.tbl. 92.árg. 2006

    Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson

    Hringormar, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins 1997, Erlingur Hauksson

    Gotraufarblæðing í íslenskum laxi Sigurður Helgason og Árni Kristmundsson Rannsóknadeild fisksjúkdóma, Keldum

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Líkamsrækt

    10. desember 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Hún getur verið af mörgum gerðum, líkamsræktin sem menn stunda. Sumir hjóla án þess að ferðast neitt, aðrir ferðast með því að hjóla og það sama gildir um hlaup á bretti eða úti við. Svo eru þeir sem stunda jóga og næra þannig hug og hjarta á meðan aðrir þenja lungu og limi í crossfit. Gönguhópar hafa skotið upp kollinum hingað og þangað, eiginlega víðast hvar, þannig að maður er löngu hættur að kippa sér upp við að rekast á þungklossaða göngugarpa hingað og þangað uppi á fjöllum eða firnindum.

    Vatnaveiði leynir líka á sér hvað varðar líkamsrækt. Ef maður ætlar að eyða góðum hluta dags við veiði þarf oft nokkurn útbúnað; kaffi, nesti, auka flíkur, veiðihjól, stangir og þar fram eftir götunum. Allt vigtar þetta eitthvað í bakpokann þegar lagt er af stað í göngu að eða meðfram vatni. Ef veiðigyðjan er síðan með í för þarf að bera aflann til baka og þegar best lætur vigtar hann nokkur kíló eða tugi. Svo má ekki gleyma því að vöðlur, jakki og skór sem tilheyra yfirleitt eru ekkert endilega af léttari gerðinni.

    Hérna um árið, ég vil helst ekki segja hve langt síðan, fór ég reglulega til kroppatemjara á líkamsræktarstöð. Þar var ég látinn arka fram og til baka með lóð í báðum lúkum, taka spretti með stuttum hléum, hoppa út og suður og lyfta lóðum. Mér dettur ekki annað í hug en viðurkenna að ég fann töluverðan mun á mér eftir nokkrar vikur. Ég átti til dæmis miklu auðveldara með að beita háfinum og lyfta fallegri bleikju upp úr vatninu og göngutúrar í fullum skrúða inn með Frostastaðavatni eða Hítarvatni urðu nánast barnaleikur. Mér hefur samt alltaf fundist skemmtilegra að stunda líkamsrækt utandyra. Þar er ferskt loft í ómældu magni, ekki niðursoðið loft úr kerfi og þar er óendanlega vítt til allra átta.

    Gönguleiðin kortlögð
    Gönguleiðin kortlögð

    Talandi um vegalengdir hingað og þangað. Hefur einhver hugmynd um hvað það er langt frá stíflu inn að Vatnsendaklifi við Hítarvatn? 4,5 km. og sama vegalengd til baka. Leiðin við austanvert vatnið að Foxufelli er 2,5 km. og er hreinasta pallaleikfimi í hrauninu. Frá bílastæðinu austanvert við Frostastaðavatn og inn fyrir hraunið eru 1,5 km. sé farin stysta leið, sem gerist nú sjaldnast. Þetta er jafn löng leið og frá bílastæðinu við Hraunslæk, inn að víkinni og út á Búðarnes við Hraunsfjörð. Þessa spotta gengur maður með gleði í hjarta, nýtur umhverfisins og eftir atvikum, jafn kátur til baka.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Meira um Hvammsvirkjun

    2. desember 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Skv. frétt á vef Skipulagsstofnunar þann 18.nóv. hefur stofnunin ákveðið að víkja frá upphaflegum fresti til að vinna ákvörðun um endurskoðun umhverfismats Hvammsvirkjunar, sjá hér. Eins og fram kemur hefur stofnunin tekið sér frest til 11.des. til að ljúka verkinu.

    Það má ráða af fréttinni að starfsmönnum Skipulagsstofnunar þykir málið viðamikið, sem von er, og því þörf á lengri tíma til að komast að niðurstöðu um það hvort framkvæma þurfi nýtt umhverfismat.

    Eftir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
    Eftir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Þess má geta að FOS er kunnugt um að enn bætist við gögn sem Skipulagsstofnun er hvött til að kynna sér áður en kemur að endanlegri ákvörðun. Meðal þess sem lagt hefur verið til málanna er einstaklega góð og áhugaverð grein Árna Árnasonar, Hvammsvirkjun – Nauðsyn mats á umhverfisáhrifum. Greinina má nálgast á vef Árvíkur hérna, en nokkra úrdrætti má sjá hér að neðan. Eins og aðrar greinar Árna um þetta mál, er hún vel rökum studd og vert að gefa henni góðan gaum. Í henni rekur Árni þær breytingar sem orðið hafa á lífríki árinnar frá því nýgildandi umhverfismat var framkvæmt ásamt því að vekja verðskuldaða athygli á skorti rannsókna á s.k. mótvægisaðgerðum sem LV boðar samfara þessari virkjun.

    Hugsanlegar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, eins og Hvammsvirkjun, hafa þá sérstöðu í samanburði við eldri virkjanir ofar í ánni að göngufiskur á sér nú heimkynni í verulegum mæli ofan þeirra. Hvammvirkjun mun þannig hafa tvenns konar óheillavænleg áhrif á göngufisk. Virkjunin mun bæði spilla mikilvægum uppeldisstöðvum ofan og neðan virkjunar en auk þess þarf fiskur að komast fram hjá virkjuninni bæði á leið sinni upp og niður ána.

    Virkni seiðafleyta er óviss og hefur ekki fengið neina gagnrýna umfjöllun í tengslum við Hvammsvirkjun. Það sem hentar Sockeye-laxi þarf ekki að henta Atlantshafslaxinum.

    Niðurstöður rannsókna sýna að 89% seiða fara um seiðafleytuna við Wells-stífluna og 96% lifa það af. Árangurinn við Cowlitz-fossana er ekki jafngóður þótt hönnunin sé sú sama. Þar fara einungis 48% stálhausa (steelhead) um fleytuna en stálhaus er regnbogasilungur sem gengur í ár og vötn vestanhafs.

    Ég hvet lesendur til að lesa þessa grein í fullri lengd, hún er full af fróðleik og varpar áhugaverðu og gagnrýnu ljósi á gildandi umhverfismat og er starfsmönnum Skipulagsstofnunar eflaust kærkomið innlegg í þá vinnu sem framundan er til 11.des.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ómælanleg streitulosun

    19. nóvember 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Annað slagið reynir maður sig í veiði þar sem klukkan er á manni; veiði hefst á ákveðnum tíma, jafnvel gerð krafa um hlé á ákveðnu tímabili og svo verður maður að vera hættur ekki seinna en eitthvað ákveðið. Eftir að hafa leikið nokkuð lausum hala í veiði um árabil, veitt þegar mér sýnist og eins lengi og nennan er til, þá getur það beinlínis tekið á taugina hjá mér að fylgja klukkunni. Ég hef staðið sjálfan mig að því að taka sífellt upp klukkuna, sem í mínu tilfelli er farsíminn, og þá er stór partur af ánægjunni farinn. Ég beinlínis finn að rósemdin sem veiðin færir mér að öllu jöfnu er rokinn út í buskann og ég er allur svolítið á nálum. Á þeim veiðistöðum þar sem tiltölulega margt er um manninn eða vatn er nærri byggð, þar get ég alveg skilið að ákveðin tímamörk eru sett í veiði og ég fer fúslega eftir þeim, þannig að það sé á hreinu. En þar sem maður er jafnvel einn með sjálfum sér, órafjarri öllu nema náttúrunni sjálfri, þar vil ég getað farið á fætur í rólegheitunum, sötrað morgunkaffið mitt í friði og veitt síðan inn í nóttina eins og mér sýnist.

    fos_hraunsfjordur
    Ekkert stress

    Ég las fyrir nokkru ágæta umfjöllun í The Huffington Post um áhrif stangveiði á andlega vellíðan. Þetta var hin ágætasta grein, en hún gerði svo sem ekkert annað en setja í orð það sem ég upplifi á sjálfum mér í veiðinni. Í nútíma þjóðfélagi þar sem ríflega 80% landsmanna telja sig finna fyrir streitu eða afleiðingum hennar, þá er útivera í óspilltri náttúru, einn með sjálfum sér eða sínum nánustu, trúlega áhrifaríkasta leiðin til streitulosunar sem býðst í dag.

    Það verður seint hægt að setja raunhæfan verðmiða á þann auð sem við eigum í óspilltri náttúrunni þótt einhverjir telji sig geta sett verðmiða á náttúruna þegar búið er að gelda árnar, stífla vötnin og umbreyta þeim í uppistöðulón fyrir raforkuframleiðslu. Mesti auður náttúrunnar verður einfaldlega aldrei virkjaður með vélum og tækjum, hann er aðeins virkjanlegur með mannsandanum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Óvættir í Þjórsárdal

    10. nóvember 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Á árum áður stóð Landmönnum og Gnúpverjum mikill stuggur af systrum tveim í Búrfelli og Bjólfelli. Litlum sögum hefur farið af þeirri yngri eftir að sú úr Búrfelli sprakk á hlaupunum við Tröllkonugil hér um árið. Síðan þetta var hefur verið nokkuð rólegt yfir Þjórsárdal, ef undan eru skilin nokkur meinleysisleg gos í Heklu og skvettur úr Þjórsárhlaupum á árum áður. En það vill stundum gerast að óvættir taki sig upp þar sem hagsæld er mikil og nú eru það þrír óvættir sem herja á dalinn neðan Búrfells; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.

    Það er með eindæmum hve lífseigir þessir óvættir geta verið. Þeir risu upp skömmu eftir 1900 og voru þá kveðnir niður af almannarómi en hafa nú rumskað á ný undir nýjum nöfnum. Umbúðirnar eru endurnýjaðar í hvert skipti sem þessar tillögur eru lagðar fram til nýtingar, en innihaldið er alltaf það sama. Fátt fer eins í pirrurnar á mér eins og að þurfa að svara sömu spurningunni trekk í trekk, eingöngu vegna þess að spyrjandinn væntir annars svars í hvert skipti sem hann spyr. Mitt svar er; nei, takk.

    Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár – Kort: verndumthjorsa.is
    Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár – Kort: verndumthjorsa.is

    Á liðnum vikum hef ég birt hér þrjár greinar, eina fyrir hverja virkjunartillögu sem lögð hefur verið fram til Rammaáætlunar. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að ég er ekki sérlega ginkeyptur fyrir þessum hugmyndum, mér þykir einfaldlega nóg komið. Náttúru Íslands ætti ekki að setja á útsölu fyrir erlenda iðjuhölda sem sækjast eftir ódýrri raforku og ónýttum mengunarkvótum.

    Þessum þremur virkjunum hefur verið teflt fram sem sjálfstæðum einingum, en með miklum samlegðaráhrifum og þannig er ríflega gefið í skyn að ef af einni verður, þá þarf að verða af þeim öllum. Samt sem áður hefur skort á heildstætt mat á umhverfisáhrifum þessara þriggja virkjana. Til hafa verið týnd ýmis rök með og á móti hverri virkjun fyrir sig, en stóru myndina vantar. Sem dæmi um brenglaða tölfræði má nefna að lífslíkur laxaseiða sem fara í gegnum hverfla einnar virkjunar eru sögð 80 – 95%. Stóra myndin er eftir sem áður sú að flest þessara seiða þyrftu að fara í gegnum hverfla þriggja virkjana á leið sinni til sjávar og þá eru lífslíkur þeirra á bilinu 51 – 80%. Skiptir þá litlu hve stórir hverflar eru settir í virkjanirnar. Ef við tökum svo þrýstinginn í aðrennslispípum virkjananna með í reikninginn þá er næsta víst að einungis helmingur þeirra lifið ferðalagið af og nái til sjávar. En þetta er bara hálf sagan, þessi seiði eiga síðan eftir að skila sér til baka úr sjógöngu. Til þess að ná til einu ósnertu búsvæða árinnar þurfa þau að ganga upp fyrir þrjár stíflur og í gegnum jafn mörg uppistöðulón. Ég gæti ekki annað en fyllst stolti yfir íslenskum laxfiskum ef þeim tekst þetta án annarra 50% affalla. Annað eins afrek hefur aldrei verið skráð í heiminum.

    Nú kann einhver að spyrja hvar öll mín rök séu fyrir þessum fullyrðingum og það er ekki nema eðlilegt. Mikið efni um þessar fyrirhuguðu virkjanir má finna á vef Landsvirkjunar hér og hér, á vef Orkustofnunar, hjá Verkefnastjórn um Rammaáætlun og samtökunum Verndum Þjórsá. Einstaklega áhugaverður fyrirlestur dr. Margaret J. Filardo í HÍ hefur einnig verið mér hugleikinn. Upptöku af fyrirlestrinum má nálgast á vef HÍ með því að smella hér. Auk þessa hafa einstaklingar borið á borð fyrir okkur margar góðar greinar og samantektir á liðnum árum. Sem dæmi má nefna Hvammsvirkjun eftir Árna Árnasonar frá því í apríl 2015 sem nálgast má hér. Góð grein og vel rökum studd.

    En ein eru þau rök sem ég hlusta mest á og met mikils. Það eru orð þeirra sem þekkja Þjórsá og nágrenni hennar betur en flestir aðrir, þeir sem þar búa. Málsvarar 28 bæja beggja vegna Þjórsár hafa lýst miklum efasemdum með áform um virkjanir í Neðri-Þjórsá. Þetta eru raddir sem mark er á takandi, fólk sem þekkir Þjórsá og lífríkið í nágrenni hennar af eigin raun. Þetta eru raddirnar sem stjórnvöld eiga að hlusta á, ekki þeirra sem einungis sjá verðmæti Þjórsár í kílóvattstundum, krónum og aurum. Ég leyfi mér að hvetja lesendur til að gefa grein í Bændablaðinu frá því í mars 2015 góðan gaum. Greinina má nálgast hér.

    Íslensk náttúra hefur ótrúlegt aðdráttarafl, óspillt. Hér er að finna einhver stærstu ósnertu víðlendur í Evrópu, fjöll, ár og vötn sem draga að sér athygli og áhuga heimsbúa umfram allt annað sem Ísland hefur að bjóða. Íslendingum ber að varðveita þessa auðlind, við skuldum komandi kynslóðum ýmislegt og það er óþarfi að bæta óorðnum náttúruspjöllum á þann reikning. Um þessar mundir nýtur Ísland áhuga heimsbyggðarinnar eftir brókarbað hins Kanadíska Biebers. Af þeim ríflega 23.000.000 sem hafa horft á umrædda klippu hafa ótrúlega margir einblínt á og spurst fyrir um þetta ótrúlega land, náttúruna og umhverfið. Forsvarsmenn ferðamála hafa keppst við að lofa þessa ókeypis auglýsing og bent á að þetta sé 23 sinnum meira áhorf heldur en náðst hefur að Inspired by Iceland. Hversu margir ætli hafi ráðgert ferðalag til Íslands eftir að hafa rekist á kynningarmyndbönd Landsvirkjunar á síðustu árum?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skömmin bítur fórnarlambið

    3. nóvember 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Á fyrri hluta 20. aldar voru uppi áform um virkjun Urriðafoss. Fossfélag Einars Benediktssonar hafði þá uppi stórkallaleg áform um virkjanir í Þjórsá og járnbraut frá Reykjavík þangað austur.

    Urriðafossvirkjun - Mynd: G. Sætersmoen, Vandkraften i Thjorsá elv, Island 1918
    Urriðafossvirkjun – Mynd: G. Sætersmoen, Vandkraften i Thjorsá elv, Island 1918

    Vegna almennrar andstöðu varð ekkert úr þessum áformum Fossfélagsins og um langan aldur höfum við fengið að njóta neðrihluta Þjórsár óspilltrar að mestu. En almenningur var ekki lengi í paradís og enn og aftur eru uppi hugmyndir um virkjun við Urriðafoss. Þau áform sem nú eru uppi eru ekki síður stórkallaleg og eru lýsandi dæmi um þá endalausu kröfu sem virðist vera sett á okkur að þurfa að berjast fyrir því að halda náttúrunni, því verðmætasta sem við eigum, óspjallaðri af arðsemisárásum og orkuþörf erlendra iðnrekenda.

    Urriðafoss og umhverfi hans er einstaklega vel staðsett við Hringveginn okkar, rétt neðan brúarinnar yfir Þjórsá. Þar mætti byggja veglega aðstöðu fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda, því þarna er margt áhugavert að sjá. Þarna fellur þessi vatnsmesti foss landsins fram af tæplega 250 metra breiðum misgengisstalli í ánni þar sem hún sker stærsta samfellda hraun sem runnið hefur á jörðinni á sögulegum tíma, Þjórsárhraun. Óvíða er hægt að berja þetta hraun jafn glöggt augum eins og rétt ofan við Urriðafoss þar sem það gægist undan yngri jarðlögum. Aðdráttarafl fossins og umhverfisins er óumdeilt hjá þeim sem þangað hafa komið.

    Fyrirhugað virkjanastæði Urriðafossvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun
    Fyrirhugað virkjanastæði Urriðafossvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun

    Um langan aldur hefur lax og sjóbirtingur gengið upp Urriðafoss, nýtt sér vatnsmagn hans til þess að komast ofar í Þjórsá eins langt og fiskgengt hefur verið hverju sinni. Mestar líkur eru á að fiskur hafi haft þennan hátt á frá upphafi vega og í það minnsta fram til 1896 þegar farvegur árinnar breyttist við jarðhræringar. Sá tálmi var endanlega yfirstiginn árið 1991 og nú nær göngufiskur aftur til efri svæða árinnar, þó sagnir hermi að hann hafi eftir sem áður gert hjálparlaust fram til 1991. Verði Þjórsá leidd í jarðgöngum frá fyrirhugaðri virkjun og niður fyrir Urriðafoss er eins víst að algjört hrun verði í þessum stærsta sjálfbæra laxastofni á Íslandi nema til stórkostlegra mótvægisaðgerða komi. Enn sem komið er hafa þessar aðgerðir ekki verið rannsakaðar né kortlagðar sem skildi. Mjög skiptar skoðanir eru á hugmyndum Landsvirkjunar um seiðafleytu við stífluna og allsendis óvíst að niðurgöngufiskur lifi ferðalag og fallhæð í slíku mannvirki af. Og þá á fiskurinn enn eftir að komast upp þann fiskveg sem byggja þyrfti. Enn og aftur er óvilhallra rannsókna þörf.

    Fyrirhuguð Urriðafossvirkjun – Kort: verndumthjorsa.is
    Fyrirhuguð Urriðafossvirkjun – Kort: verndumthjorsa.is

    Eftir því sem ég kemst næst yrði uppistöðulón Urriðafossvirkjunar rétt ríflega 12 ferkílómetrar að stærð. Þetta er næstum því jafn stórt og Skorradalsvatn eða Apavatn svo stærðin sé sett í samhengi við vötn sem lesendur þekkja. Þetta uppistöðulón mun færa á kaf gróið land og mýrar auk þess sem uppgreftri úr árfarveginum, efni sem til fellur við gangagerð ásamt seti úr lóninu yrði komið fyrir í grennd við lónstæðið, umhverfinu til lýtis og með töluverðri hættu á foki.

    Urriðafossvirkjun hefur stundum verið nefnd punkturinn yfir i-ið í virkjunum Þjórsár. Mér er skapi nær að kalla hana skömmina sem bítur fórnarlambið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 4 5 6 7 8 … 14
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar