Hún getur verið af mörgum gerðum, líkamsræktin sem menn stunda. Sumir hjóla án þess að ferðast neitt, aðrir ferðast með því að hjóla og það sama gildir um hlaup á bretti eða úti við. Svo eru þeir sem stunda jóga og næra þannig hug og hjarta á meðan aðrir þenja lungu og limi í crossfit. Gönguhópar hafa skotið upp kollinum hingað og þangað, eiginlega víðast hvar, þannig að maður er löngu hættur að kippa sér upp við að rekast á þungklossaða göngugarpa hingað og þangað uppi á fjöllum eða firnindum.

Vatnaveiði leynir líka á sér hvað varðar líkamsrækt. Ef maður ætlar að eyða góðum hluta dags við veiði þarf oft nokkurn útbúnað; kaffi, nesti, auka flíkur, veiðihjól, stangir og þar fram eftir götunum. Allt vigtar þetta eitthvað í bakpokann þegar lagt er af stað í göngu að eða meðfram vatni. Ef veiðigyðjan er síðan með í för þarf að bera aflann til baka og þegar best lætur vigtar hann nokkur kíló eða tugi. Svo má ekki gleyma því að vöðlur, jakki og skór sem tilheyra yfirleitt eru ekkert endilega af léttari gerðinni.

Hérna um árið, ég vil helst ekki segja hve langt síðan, fór ég reglulega til kroppatemjara á líkamsræktarstöð. Þar var ég látinn arka fram og til baka með lóð í báðum lúkum, taka spretti með stuttum hléum, hoppa út og suður og lyfta lóðum. Mér dettur ekki annað í hug en viðurkenna að ég fann töluverðan mun á mér eftir nokkrar vikur. Ég átti til dæmis miklu auðveldara með að beita háfinum og lyfta fallegri bleikju upp úr vatninu og göngutúrar í fullum skrúða inn með Frostastaðavatni eða Hítarvatni urðu nánast barnaleikur. Mér hefur samt alltaf fundist skemmtilegra að stunda líkamsrækt utandyra. Þar er ferskt loft í ómældu magni, ekki niðursoðið loft úr kerfi og þar er óendanlega vítt til allra átta.

Gönguleiðin kortlögð
Gönguleiðin kortlögð

Talandi um vegalengdir hingað og þangað. Hefur einhver hugmynd um hvað það er langt frá stíflu inn að Vatnsendaklifi við Hítarvatn? 4,5 km. og sama vegalengd til baka. Leiðin við austanvert vatnið að Foxufelli er 2,5 km. og er hreinasta pallaleikfimi í hrauninu. Frá bílastæðinu austanvert við Frostastaðavatn og inn fyrir hraunið eru 1,5 km. sé farin stysta leið, sem gerist nú sjaldnast. Þetta er jafn löng leið og frá bílastæðinu við Hraunslæk, inn að víkinni og út á Búðarnes við Hraunsfjörð. Þessa spotta gengur maður með gleði í hjarta, nýtur umhverfisins og eftir atvikum, jafn kátur til baka.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.