Ég ætla að ljóstra upp smá leyndarmáli, ekki alveg en næstum því. Eitt af uppáhalds vötnunum mínum er undir þann klafa sett að vatnsborðið getur rokkað allrosalega milli árstíða. Almennt er þetta ekki heppilegt fyrir lífríkið, fiskurinn verður nokkuð áttaviltur þegar kemur að hrygningu, sérstaklega ef sveiflur í vatnsborði eru ekki árstíðabundnar.
Gróðurbakki
En aftur að þessu vatni mínu. Vatnsborðið á vanda til að falla verulega yfir sumarið og þá kemur oft allt annað landslag á botninum í ljós. Sólarljósið nær betur niður í vatnsbolinn og gróður tekur við sér á stöðum sem annars eru snauðir að vetri eða vori. Einn svona staður í vatninu er meirihluta ársins langt úti í dýpinu og ég hef prófað að vaða í kastfæri við þennan stað þegar þannig stendur á, sökkt púpum vel niður, skannað svæðið kerfisbundið án þess að verða nokkurn tíma var við líf á þessum slóðum. Eina sem ég hef haft upp úr krafsinu eru visnaðar gróðurleyfar og rætur. Þegar aftur vatnsborðið lækkar, þá færist fjör í leikinn. Um leið og sólarljósið kemst að þessum gróðri tekur hann við sér og skömmu síðar tekur fiskurinn sér bólfestu í grend. Svona staði er að finna víða í vötnum og um að gera fyrir veiðimenn að heimsækja vötnin á mismunandi árstímum. Þar sem allt er dautt að vori, getur verið fjör að hausti.
Það er sorgarsaga að segja frá, en á ferðum mínum í sumar hef ég sjaldan séð jafn mikið af rusli við hin ýmsu vötn okkar Íslendinga heldur en núna. Girnis- og taumaflækjur ásamt ýmsu öðru rusli sem menn hafa borið með sér á bakkana liggja víða eins og hráviði fyrir manna og dýra fótum.
Samtýningur af bakkanum
Það er haft eftir land- og veiðivörðum við Þingvallavatn að það hafi orðið mikil bylting í umgengni veiðimanna þar á bæ eftir fyrirmyndar samkomulag sem gert var þar um bætta umgengni veiðimanna sl. vor. Það væri óskandi að sú hugarfarsbreyting sem átti sér greinilega stað við Þingvelli hefði náð betur til annarra veiðistaða á Íslandi þetta sumar.
Bjór- og gosdrykkjadósir, samlokupokar, tissjú og notaður salernispappír á bak við næsta stein er ekki óalgengt skraut annars fallegra veiðistaða og víða hefur þetta aukist verulega frá því sem áður var. Ég er ekki einn um þessa upplifun, fleiri veiðimenn hafa vakið máls á þessu við mig. Þetta er ekki aðeins til mikillar óprýði og rýrir verulega ánægju manns af útivist, heldur er þetta einnig stór hættulegt dýralífi við vötnin.
Nýlega var ég við Hítarvatn á Mýrum þar sem ég gekk fram á himbrima þar sem hann húkti í flæðarmálinu með girni vafið um höfuð, háls og gogg þannig að hann gat enga björg sér veitt.
Himmi frá Hítarvatni – Smellið fyrir stærri mynd
Svo var af fuglinum dregið að ég gat án fyrirhafnar fangað hann í háf og klippt girnið utan af honum þannig að honum varð ekki frekar meint af.
Dræsurnar sem ég náði að klippa af fuglinum voru væntanlega leifar gamallar festu í botni sem hafði slitnað, þó ekki víst þar sem svona girnisflækjur geta auðveldlega fokið út á vatnið og orðið sund- og vaðfuglum skeinuhættar.
Afklippurnar
Það er virkilega þörf á víðtækari vitundarvakningu meðal veiði- og útivistarfólks um almenna kurteisi við náttúruna okkar. Hvaða stefnu sem menn hafa í náttúruvernd, já eða stefnuleysi, þá er ekkert sem breytir því að við eigum ekki náttúruna, hún er hluti af arfleið sem okkur ber að skila í sama ef ekki betra ástandi til barnanna okkar. Að launum fáum við að njóta hennar og nýta með skynsamlegum hætti.
Vöðluvasinn
Ég hef áður haft orð á því að allt sem vil teljum nauðsynlegt að bera með okkur út í náttúruna, getum við einnig tekið með okkur heim. Þetta á ekki síst við um umbúðir og pappír sem sumir geta ekki verið án ef þeir skreppa afsíðis. Það er svo misjafnt hvað menn þurfa til þess að draga leifarnar með sér heim eða gæta þess að þær fjúki ekki ‚óvart‘ frá þeim. Sumum nægir vasinn á vöðlunum, aðrir þurfa heilu plastpokana, en eitt er víst, ef veiðimaður hefur þrótt til að bera eitthvað með sér á veiðistað ætti hann ekki að veiða svo lengi að hann skorti þrótt til að bera það sama með sér heim á leið.
Netapokinn
Sjálfur nota ég netapoka undir aflann, svona þegar hann gefst á annað borð, en eins og aflabrögðin hafa stundum verið í sumar hefur pokinn komið í aðrar en ekki síðri þarfir. Í pokann safna ég girnisflækjum, dósum og öðru drasli sem verður á vegi mínum og tæmi síðan í næsta rusladall, jafnvel þótt hann sé nokkra tugi km. í burtu. Það er ótrúlegt ruslið sem maður rekst á og hefur safnað þannig saman í sumar. Að vísu verð ég að játa að sumt týni ég ekki upp, þar á meðal er notaður salernispappír. Hann getur mamma þess sem notaði komið og sótt því stundum hef ég það á tilfinningunni að það sé það sem sumir bíði eftir að gerist. Sumir virðast aldrei vaxa upp úr því að mamma komi og taki til eftir þá.
Veiðimenn, reynum nú að vaxa upp úr barndóminum og sýnum meiri ábyrgð og umhyggju fyrir náttúrunni. Sú móðir er frábrugðin okkar, það erum við sem þurfum að gæta hennar.
Ég hef verið að glugga í skýrslu Veiðimálastofnunar um rannsóknir í Hlíðarvatni í Selvogi árið 2012. Í skýrslunni kemur fram að fjöldi fiska, veiddir á stöng og í rannsóknarnet fækkaði stórlega á milli áranna 2008 og 2012, nokkuð sem kemur ekki á óvart miðað við umræðuna í fyrra. Þrátt fyrir þessa fækkun kemur fram að lengdardreifing fiskjar er sú sama á milli ára, þ.e. fiskurinn hefur ekki minnkað sem er skv. mínum viti ákveðin vísbending um að vatnið sé ekki ofsetið. En hvað er þá á ferðinni? Jú, væntanlega er orsakanna að leita í hitastigi vatnsins, það hefur hækkað í mælingu um 1,4°C og Hlíðarvatnsjaxlarnir hafa kvartað sáran undan því að gamlir góðir veiðistaðir séu fisklausir.
Ég var að velta fyrir mér samhenginu þarna á milli þegar Veðurstofan smellti inn uppgjöri á nýliðnum júní; Meðalhiti mældist 9,9 stig í Reykjavík…. 0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu júnímánaða. Og þegar maí er skoðaður þá er sagan ekki ósvipuð; Meðalhiti í Reykjavík var 5,8 stig…. 1,2 stigum undir meðallagi maímánaða síðustu 10 ára. Þetta er kaldasti maí í Reykjavík síðan 2005 og þar hafið þið það, ekki furða að mér væri kalt í vorveiðinni. Þegar maður ber síðan saman fréttir úr Hlíðarvatni á milli vora þá er engum blöðum um það að fletta að s.l. vor var gjöfulla heldur en í fyrra. Humm, kaldara vor og fiskunum fjölgar í Hlíðarvatni? Nei, tæplega. Ætli skýringanna sé ekki frekar að leita í því að gömlu góðu veiðistaðirnir hafi gefið í vor vegna þess að vatnið var kaldara, nær því sem það var metárin 2001 og 2009.
Fyrir margt löngu síðan settu Hafnfirðingar saman eitt besta veiðikort af Hlíðarvatni sem sést hefur, sjá hér. Þar eru allir ‚gömlu góðu‘ staðirnir merktir skilmerkilega inn og svo er hægt að nálgast mikið lesmál um besta tíma og flugur í Áróðri Ármanna frá 2009. Eins og áður segir gáfu þessir ‚gömlu góðu‘ flotta veiði í kuldanum í vor, sbr. Botnavíkina, og Hlíðarvatnsjaxlar tóku að kætast. En núna þegar loksins hlýnar og vísbendingar um að vatnið hlýni skart er kannski rétt að leita út fyrir ‚gömlu góðu‘ veiðistaðina, veiða utar og á meira dýpi en menn hafa almennt gert áður. Ég hef þá trú að vatnið geymi enn sem fyrr, öflugan stofn bleikju sem nú hefur aðeins fært sig um set í vatninu, sæki í kjörhitastigi sitt og þar með gefi grynnri (hlýrri) veiðistaðir verr en áður. Hvort maður verður að aðlaga flugnavalið öðrum stöðum í vatninu verður svo bara að koma í ljós.
Ég ætla í það minnsta að reyna fyrir mér í næstu viku, búinn að tryggja mér dag á veida.is og nú skal hugdettan sannreynd. Hvort sem aflinn verður einhver eða enginn, þá er Hlíðarvatnsdögum alltaf vel varið og mér sýnist að enn sé hægt að næla sér í fína daga í húsi Árbliks.
Draumafluga hvers veiðimanns er væntanlega sú sem hann getur alltaf tekið upp úr boxinu, hnýtt á tauminn, kastað og fengið viðbrögð við innan stundar. Að finna draumafluguna er fjarlægt markmið sem fæstum hefur nokkurn tímann tekist. Það næsta því sem flestir komast er að geta farið nokkrum sinnum í sama eða svipuð vötn, valið sömu fluguna og fengið fisk. En um leið og eitthvað bregður út frá norminu er dæmið ónýtt. Breyturnar í vatnaveiðinni eru svo margar og ef veiðimaðurinn bregst ekki við breyttum aðstæðum þá eru litlar líkur á að sama flugan gefi alltaf. Ein mikilvægasta breytan er vitaskuld tíminn. Tími dags, tími árs og síðast en ekki síst sá tími sem veiðimaðurinn hefur boðið fiskinum sömu fluguna í veiðiferðinni. Sumir veiðimenn veiða aðeins frá rökkri og fram í dagrenningu. „Fiskurinn tekur ekkert á daginn“ segja þeir e.t.v. Fiskur étur hvenær sem er, svo lengi sem eitthvað er að éta. Veiði maðurinn ekkert utan náttmála eru miklu meiri líkur á að hann viti ekki hvar fiskurinn heldur sig á daginn eða hann hefur einfaldlega aldrei ratað á réttu fluguna. Er sem sagt, að bjóða eitthvað sem er bara alls ekki á matseðlinum einmitt þá stundina. Næstum það sama má segja um tíma ársins, þ.e. svo lengi sem fiskurinn sé ekki lagstur í dvala vegna kulda eða fæðuskorts. Á vorin er lífið rétt að kvikna, skordýr vatnsins með stærsta móti (þau éta jú allt árið) og þá þýðir ekkert að bjóða einhver peð í stærðum #24 eða minni. Um leið og stóru feitu pöddurnar hafa klakist út byrjar nýtt tímabil, tímabil ungviðisins og þá fara flugurnar að minnka.
Ekki alltaf eins
Veðrið ræður líka miklu um veiðni manna. Sumir veiðimenn einfaldlega draga allt í land þegar byrjar að rigna eða vindur að blása. Aðrir láta sig hafa það, klæða sig eftir veðri og halda áfram. Rigning, svo fremi hún berji ekki vatnið endalaust og deyfi fiskinn niður á botn, kemur með aukið súrefni í vatnið. Með auknu súrefni fara pöddurnar á stjá og fiskurinn líka. Fyrstu tímarnir eftir stórkostlega rigningu eru oft frábært veiðiveður, allt lífríkið á fullu og fiskurinn í stuði.
Birtan hefur einnig töluvert um veiðimöguleika okkar að segja. Glampandi sól er sjaldan fyrirboði mikillar veiði í grunnu vatni. Enn og aftur; silungurinn hefur engin augnlok og fær einfaldlega ofbirtu í augun af því að glápa upp í sólina. En, ef veiðimaðurinn skiptir um flugu og veiðir nær botninum er alveg eins líklegt að þar leynist silungur sem hatar sólbað. Takið eftir; skiptir um flugu er e.t.v. lykillinn í þessari setningu því oft er því þannig farið að sama skordýrið lítur alls ekki eins út þegar það heldur til á botninum eða uppi við yfirborðið.
Draumaflugan mín er flugan sem ég á í nokkrum útgáfum, jafnvel litbrigðum og í nokkrum stærðum. Ég get byrjað á henni í stærri stærð á vorin og veitt hana við botninn í upphafi vertíðar og þegar mjög bjart er yfir. Þegar líður á sumarið tek ég fram minni afbrigðin, veiði ofar í vatnsborðinu og leik mér gjarnan með litina. Stundum verð ég að leyfa henni að eiga sviðið, nota litsterka glepju þegar lítið er að gerast þannig að hún virki svolítið eins og auglýsingaskilti á silunginn. Hann er ekkert skárri en við, ef sama áreitið dynur á honum í svolítinn tíma, þá lætur hann loks undan og kaupir það sem maður hefur að selja.
Ég veit, þeir eru ekkert stórkostlega umhverfisvænir en ef maður passar þá þokkalega, þá geta þeir komið að góðum notum í veiðinni. Ég á svona rúllu af gráum ruslapokum í veiðitöskunni minni og yfirleitt rúlla ég einum út og festi við töskuna þegar ég byrja veiði (þú veist, bara svona með einum góðum hnút um handfangið á henni). Þegar ég svo rekst á eitthvað rusl sem fokið hefur í ógáti frá öðrum veiðimönnum, treð ég því í pokann minn. Takið eftir; fokið hefur í ógáti því ekki dettur mér í huga að veiðimenn noti íslenska náttúru viljandi sem ruslatunnu.
Meðalaldur urriða er rétt um 5 ár. Það tekur bjórdós u.þ.b. 10 ár að brotna niður í náttúrunni, glerflaskan lifir margfalt lengur, plastið eitthvað álíka. Ef veiðimaður hefur burði til að bera með sér fulla flösku/dós á veiðistað, ætti hann einnig að hafa burði til taka tómar umbúðirnar með sér heim aftur. Það er öfugsnúin upplifun að sjá veiðimann ástunda veiða/sleppa og skömmu síðar henda frá sér í fögnuði bjórdós eða flösku, það er léleg kveðja og þökk sem fylgir fiskinum út ævina og afkomendum hans.
Ummæli
06.05.2013 – Siggi Kr.: Góð vísa sem verður aldrei of oft kveðin – tökum allt rusl með okkur heim af veiðislóð!