Sorgarsaga

Það er sorgarsaga að segja frá, en á ferðum mínum í sumar hef ég sjaldan séð jafn mikið af rusli við hin ýmsu vötn okkar Íslendinga heldur en núna. Girnis- og taumaflækjur ásamt ýmsu öðru rusli sem menn hafa borið með sér á bakkana liggja víða eins og hráviði fyrir manna og dýra fótum.

Samtýningur af bakkanum
Samtýningur af bakkanum

Það er haft eftir land- og veiðivörðum við Þingvallavatn að það hafi orðið mikil bylting í umgengni veiðimanna þar á bæ eftir fyrirmyndar samkomulag sem gert var þar um bætta umgengni veiðimanna sl. vor. Það væri óskandi að sú hugarfarsbreyting sem átti sér greinilega stað við Þingvelli hefði náð betur til annarra veiðistaða á Íslandi þetta sumar.

Bjór- og gosdrykkjadósir, samlokupokar, tissjú og notaður salernispappír á bak við næsta stein er ekki óalgengt skraut annars fallegra veiðistaða og víða hefur þetta aukist verulega frá því sem áður var. Ég er ekki einn um þessa upplifun, fleiri veiðimenn hafa vakið máls á þessu við mig. Þetta er ekki aðeins til mikillar óprýði og rýrir verulega ánægju manns af útivist, heldur er þetta einnig stór hættulegt dýralífi við vötnin.

Nýlega var ég við Hítarvatn á Mýrum þar sem ég gekk fram á himbrima þar sem hann húkti í flæðarmálinu með girni vafið um höfuð, háls og gogg þannig að hann gat enga björg sér veitt.

Himmi frá Hítarvatni - Smellið fyrir stærri mynd
Himmi frá Hítarvatni – Smellið fyrir stærri mynd

Svo var af fuglinum dregið að ég gat án fyrirhafnar fangað hann í háf og klippt girnið utan af honum þannig að honum varð ekki frekar meint af.

Dræsurnar sem ég náði að klippa af fuglinum voru væntanlega leifar gamallar festu í botni sem hafði slitnað, þó ekki víst þar sem svona girnisflækjur geta auðveldlega fokið út á vatnið og orðið sund- og vaðfuglum skeinuhættar.

Afklippurnar
Afklippurnar

Það er virkilega þörf á víðtækari vitundarvakningu meðal veiði- og útivistarfólks um almenna kurteisi við náttúruna okkar. Hvaða stefnu sem menn hafa í náttúruvernd, já eða stefnuleysi, þá er ekkert sem breytir því að við eigum ekki náttúruna, hún er hluti af arfleið sem okkur ber að skila í sama ef ekki betra ástandi til barnanna okkar. Að launum fáum við að njóta hennar og nýta með skynsamlegum hætti.

Vöðluvasinn
Vöðluvasinn

Ég hef áður haft orð á því að allt sem vil teljum nauðsynlegt að bera með okkur út í náttúruna, getum við einnig tekið með okkur heim. Þetta á ekki síst við um umbúðir og pappír sem sumir geta ekki verið án ef þeir skreppa afsíðis. Það er svo misjafnt hvað menn þurfa til þess að draga leifarnar með sér heim eða gæta þess að þær fjúki ekki ‚óvart‘ frá þeim. Sumum nægir vasinn á vöðlunum, aðrir þurfa heilu plastpokana, en eitt er víst, ef veiðimaður hefur þrótt til að bera eitthvað með sér á veiðistað ætti hann ekki að veiða svo lengi að hann skorti þrótt til að bera það sama með sér heim á leið.

Netapokinn
Netapokinn

Sjálfur nota ég netapoka undir aflann, svona þegar hann gefst á annað borð, en eins og aflabrögðin hafa stundum verið í sumar hefur pokinn komið í aðrar en ekki síðri þarfir. Í pokann safna ég girnisflækjum, dósum og öðru drasli sem verður á vegi mínum og tæmi síðan í næsta rusladall, jafnvel þótt hann sé nokkra tugi km. í burtu. Það er ótrúlegt ruslið sem maður rekst á og hefur safnað þannig saman í sumar. Að vísu verð ég að játa að sumt týni ég ekki upp, þar á meðal er notaður salernispappír. Hann getur mamma þess sem notaði komið og sótt því stundum hef ég það á tilfinningunni að það sé það sem sumir bíði eftir að gerist. Sumir virðast aldrei vaxa upp úr því að mamma komi og taki til eftir þá.

Veiðimenn, reynum nú að vaxa upp úr barndóminum og sýnum meiri ábyrgð og umhyggju fyrir náttúrunni. Sú móðir er frábrugðin okkar, það erum við sem þurfum að gæta hennar.

Eitt svar við “Sorgarsaga”

  1. ,,Girni“(legt), bráðdrepandi rusl! | Græni froskurinn Avatar

    […] FOS – Flugum og skröksögum má lesa nánar um björgunaraðgerðina, veiðiferðina ásamt fleiri veiðiferðum. Þar má líka finna ógrynnin öll af góðum […]

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.