Ég sá einhverja frétt um daginn að matseðlar á einhverjum hluta veitingahúsa hér á landi væru aðeins á ensku og fengu veitingahúsin bágt fyrir. Matseðlar eru mikilvægir, þeir segja manni hvað er á boðstólum og (oftast) hvað máltíðin heggur stórt skarð í heimilisbókhaldið. Í lauslegri könnun sem ég gerði, þá kom í ljós að matseðlar eru misvel úr garði gerðir, óháð tungumáli:
Steiktur fiskur í raspi með lauk, smjöri og remúlaði
Ég veit alveg hvað laukur er, smjör og remúlaði, en fiskur segir mér lítið sem ekkert hvers er að vænta. Ef ég væri togaraskipstjóri, þá væri ég að renna blint í sjóinn að henda út trollinu, ég gæti allt eins veitt fisk sem ég ætti engan kvóta fyrir og fengi þar af leiðandi á mig sekt.
Fiorentina steak, kemur með með steiktum kartöflum, bernaise eða piparsósu
Óveraldarvanur einstaklingurinn sem ég er, veit ekkert hvað Firorentina steak er og það þýðir ekkert fyrir mig að nota Google translate því þýðingin er Firorentina steik. Google sýndi mér myndir af einhverju kjöti á beini og sagði réttin ættaðan frá Toscana á Ítalíu, oftast úr steer eða heifer. Google translate vildi meina að þetta væri stýri eða kvíga. Ég hefði pantað kvígu, stýri er allt of hart undir tönn.
Ef þú hefur nennt að lesa þetta, þá er alveg eins líklegt að orð myndi setningar í hausnum á þér; Þetta er búið – Nú er hann búinn að tapa sér endanlega.
Það er eldgömul saga, en virðist alltaf vera ný af nálinni þegar maður vekur máls á henni við bakkann, að veiðimenn ættu að gefa sér smá tíma til að lesa matseðil fiskanna. Sem betur fer er sá matseðill settur fram í myndum og því þarf engar áhyggjur að hafa þó veiðimaðurinn þekki ekki latnesk tegundarheiti vorflugu, mýflugu eða toppflugu. Það nægir alveg að opna augun, skima umhverfið og velja agn í samræmi við það sem fyrir augu ber. Auðvitað er alltaf eitthvað sem ekki sést, eins og t.d. vatnabobbar og hornsíli, en með því að skima vatnsbakkana má alltaf sjá einhverjar vísbendingar um það sem vatnið geymir. Lestu matseðilinn með augunum, það gerir fiskurinn áður en hann fær sér bita.
Nú er nýtt ár gengið í garð, oddatölu árið 2025 sem segir okkur að hnúðlaxar gera sig væntanlega enn heimakomnari hér við land heldur en í fyrra. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að síðastliðið sumar, 2024 bar nokkuð á þessum ófögnuði hér við land og eftir því sem næst verður komist, veiddust hnúðlaxar í 6 ám þó árið væri ekki svokallað hnúðlaxaár.
Lengi vel hefur því verið haldið fram að fyrsti hnúðlax sem veiðst hefur hér á landi, hafi verið síðla sumars 1960 í Hítará á Mýrum. Þetta er ekki með öllu rétt, því í veiðibók Langár á Mýrum frá 1929 má finna blaðaúrklippu með athugasemd Capt. Malcolm Alfred Kennard, leigutaka Grímsár í Borgarfirði, þar sem hann bendir á að hnúðlax hafi veiðst í Grímsá árið 1925, tveir í Langá árið 1926 og einn í Norðurá 1927. Í veiðibók Langár má einnig finna ágæta teikningu af hnúðlaxi og hreisturhringjum sem árituð er m.K. og dagsett 15. júlí 1929. Teikning þessi gæti verið af hendi Capt. Kennard eða eiginkonu hans Madam Kennard, Walterina Favoretta, en hún átti á þessum árum Langá og Ensku húsin svokölluðu.
Teikning af hnúðlaxi í veiðibók Langár á Mýrum árið 1929
Hvað sem fyrsta hnúðlaxi landsins líður, þá er staðfest að hnúðlax hefur gert vart við sig öll undanfarin ár, hrygnt í íslenskum ám og það sem meira er, hann hefur komið seiðum á legg og þannig skotið rótum undir stofn sem getur viðhaldið sér hér á landi, hann er kominn til að vera. Rannsóknir sem gerðar voru árið 2022 og 2024 í Botnsá í Hvalfirði hafa staðfest þetta, en um útbreiðslu hans hér á landi er í raun lítið vitað.
En hvaða áhrif hefur það að þessi ágenga tegund er að skjóta rótum hér á landi? Stafar laxinum einum hætta af ágengni hans eða eru aðrir stofnar, urriða og bleikju, einnig í hættu? Til að svara þessu að einhverju leiti, er hér þýðing mín á hluta úr skýrslunni Prospects for the future of pink salmon in three oceans: From the native Pacific to the novel Arctic and Atlanticsem birtist árið 2023 í Fish and Fisheries, 24. árg. 5. tbl., bls. 759–776. Umræddur kafli er ágæt samantekt á stöðu og áhrifum landtöku hnúðlax á villta stofna laxfiska, þar með talið urriða og heimskautableikju. Þýðing þessi er verkefni mitt í þýðingarfræðum við Háskóla Íslands haustið 2024, með lagfæringum m.t.t. ábendinga Hrefnu Maríu Eiríksdóttur, stundakennara í nytjaþýðingum við HÍ.
SAMÞÆTTING ÞEKKINGAR Á HNÚÐLAXI VIÐ KYRRAHAF OG ATLANTSHAF
Klak og smoltun seiða
Á Kyrrahafssvæðinu er hrognum hnúðlaxa gotið í hrygningarmöl áa (og ósasvæði þeirra!) að hausti og þau klekjast að vori. Klak hrognanna ræðst af tímasetningu hrygningarinnar og daggráðum þess tíma sem þau dvelja í mölinni, sem aftur ræðst af hnattrænni stöðu (Erkinaro o.fl., 2022). Við Kyrrahafið hefst hrygning í ágúst og stendur fram í október, er þá á undan hrygningu annarra laxfiska, og er breytileg milli einstaklinga. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, þar sem rannsóknir á hrygningu snemm- og síðgenginna hnúðlaxa á svæðinu hafa sýnt að afkvæmi þeirra klekjast á mismunandi tímum (Murray og McPhail, 1988; Taylor, 1980) sem talið er ráða miklu um ágengni þeirra á Atlantshafssvæðinu.
Hrygningar hnúðlaxa hefur orðið vart í ám við Atlantshaf í ágúst – september, sem er snemma samanborið við Atlantshafslax og sjógenginn urriða (Salmo trutta Salmonidae) sem hrygna aðallega í október – desember (Anon, 2022a, 2022b; Sandlund o.fl., 2019; Sørvik, 2022; Vistnes, 2017). Hins vegar gæti hrygningartími hnúðlax og sjógenginnar heimskautableikju (Salvelinus alpinus Salmonidae) skarast, en hún hrygnir aðallega í september (Anon, 2022a, 2022b). Í norðlægari ám, þar sem sjógenginn urriði hefur hrygningu snemma í september, gæti skörun átt sér stað við síðari hrygningu hnúðlaxa. Gert er ráð fyrir að hnúðlaxahrogn í suður Noregi og Skotlandi klekist að hausti eða vetri og séu því berskjaldaðri fyrir vetrarhörkum (Armstrong o.fl., 2018). Erkinaro o.fl., (2022) uppgötvuðu að hrogn hnúðlaxa í ánni Tana/Teno í kaldtempraða beltinu klöktust um miðjan október og seiðin þurftu því annað hvort að dvelja lengur í mölinni og lifa veturinn af í ánni eða halda strax til sjávar á óæskilegum tíma. Mikill breytileiki hitastigs tiltölulega hlýrra áa og kaldra að hausti, leiðir til mikils breytileika þess hvenær seiðin yfirgefa mölina. Fyrir ár í suður Noregi, byggt á líkönum yfir dagshita vatns, má áætla brotthvarf hnúðlaxaseiða úr mölinni (þ.e. þegar næring kviðpokans er uppurinn) vera að vori ef hrygning á sér stað síðla ágúst, en síðbúin hrygning seinkar brotthvarfi þeirra mjög. Þannig gætu væntingar þess að hnúðlax geti ekki fjölgað sér við snemmbært klak og brotthvarf seiða úr mölinni í suður Noregi og öðrum ám í Evrópu (Armstrong o.fl., 2018) verið á veikum grunni byggðar því lítið er vitað um aðlögunarhæfni og þróun Hvítahafs stofnsins á Atlantshafssvæðinu. Sem dæmi um aðlögunarhæfni hnúðlaxins var tilvist sjógönguseiða hans staðfest í skoskum ám í mars 2022. Höfundarnir töldu það til marks um vel heppnaða hrygningu og uppvöxt 2021 hrygningarárgangsins, þar sem ferskvatnsþroska seiðanna var lokið og gaf því til kynna mögulega hrygningu hnúðlax í Bretlandi til framtíðar (Skóra o.fl., 2023).
Snemmbærri hrygningu fylgir að kviðpokaseiði hnúðlaxins verða annað hvort að halda til í mölinni við erfið lífsskilyrði til að forðast afræningja og bíða þannig hentugs vatnshita og vatnsmagns, eða yfirgefa mölina og annað hvort leita ótímabært til sjávar eða halda til í ánni yfir harðan veturinn, eða, leita fæðu og forðast afræningja. Ótímabærar niðurgöngur hafa ekki verið staðfestar, svo líklega halda kviðpokaseiði hnúðlaxins til í mölinni og bíða betri skilyrða til niðurgöngu, mögulega með því treina næringu kviðpokans. Seinkaðri smoltun hefur orðið vart hjá öðrum stofnum hnúðlaxa sem búa við langvarandi hitastig nærri frostmarki (Gordeeva & Salmenkova, 2011). Raunar hafa stórir hópar hnúðlaxasmolta, með og án kviðpokanæringar, fundist í 19 norskum ám að vori og snemmsumars (síðla apríl – byrjun júlí) á árunum 2018–2022 (Hansen & Monsen, 2022; Muladal, 2018; Muladal & og Fagard, 2020, 2022). Öll hæfni til aðlögunar á tímasetningu hrygningar eða framgangs þroska með tilliti til hitastigs gæti hjálpað afkvæmum að seinka brotthvarfi úr mölinni og niðurgöngu. Umfang þessarar aðlögunarhæfni þarf að kortleggja og er mikilvægt framtíðarrannsóknarefni á þeim svæðum þar sem tegundin er ágeng. Hrognaþroski er hraðari þar sem vatnshiti er hærri snemmsumars, þannig að nokkurra daga hliðrun hrygningar getur leitt til mikillar hliðrunar á tímasetningu þess að seiðin yfirgefi mölina. Þar af leiðandi getur tiltölulega lítil hliðrun á hrygningu haft mikil áhrif á þroska kviðpokaseiða og tímasetningu þess að seiðin yfirgefa mölina.
Áætlaður tími smoltunar hnúðlaxseiða sem klekst í Norskum ám. Tíminn er gefinn upp í þremur tímabilum í ágúst sem er algengur hrygningartími í norskum ám. Árnar eru flokkaðar frá suðri (neðst) til norðurs (efst) eftir breiddargráðu. Lóðrétta línan táknar 1. janúar, þ.e. upphaf nýs árs.
Oft er greint frá því að hnúðlax leiti til sjávar strax að klaki loknu (Heard, 1991) en hegðun þeirra er líklega mun flóknari er svo. Gönguseiði hnúðlaxa hafa fundist frá því í mars fram í maí á búsvæðum tegundarinnar í Kyrrahafi (Duffy o.fl., 2005; Simenstad o.fl., 1982; Skud, 1955) og fram í júní hjá stofnum við Hvítahafið (Kirillov o.fl., 2018; Pavlov o.fl., 2015; Robins o.fl., 2005; Varnavsky o.fl., 1992; Veselov o.fl., 2016). Gönguseiði hnúðlaxa hafa fundist í neðri hluta Kongsfjordelva í Noregi frá miðjum maí fram í byrjun júlí (H. Vistnes, pers. samsk.) og þeir einstaklingar eru, að því er virðist, að vaxa og taka til sín fæðu, sem gefur tilefni til nánari rannsókna á því hvort seiðin hafi frestað niðurgöngu til þess að nærast í ósasvæði árinnar. Gjöful fæðusvæði eru hnúðlaxinum augljóslega mikilvæg, svo sem frjósöm vötn þar sem gönguseiði dvelja frekar en ganga beint til sjávar. Mörgum ám í Noregi tengjast opin vatnasvæði sem fóstra seiði staðbundinna laxfiska og þar gætu seiði hnúðlaxa nærst áður en þau halda til sjávar, og það verðskuldar einnig frekari rannsóknir (Lennox, Pulg, o.fl., 2021).
Margt af því sem fram kemur í þessum stutta kafla skýrslunnar virðist eiga erindi til Íslands og það væri vel þess vert að kortleggja betur möguleg búsvæði hnúðlaxa hér á landi, útbreiðslu hrygningar hans og gæta sérstaklega að því hvort hnúðlaxaseiði seinki niðurgöngu sinni frá því sem Kyrra- og Hvítahafsstofnarnir eru vanir að gera. Fordæmi þess að hnúðlax breyti út frá þekktu hegðunarmynstri hrygningar og niðurgöngu eru greinilega til staðar og það getur haft verulega áhrif á skörun við hrygningu og niðurgöngu staðbundinna stofna.
Hér um árið missti ég út úr mér að ég nennti ekki að eltast við friðaðan hitaveitufisk á Þingvöllum. Þetta með hitaveitufiskinn þótti bara sniðugt, ekkert meira en það. Ef ég man rétt, þá hef ég aðeins veitt einn urriða á Þingvöllum og það var fyrir samverkandi mistök okkar beggja. Hann var svo vitlaus að láta glepjast af Pheasant #14 í stað þess að gleypa dvergbleikju sem var á sveimi þarna. Mín mistök voru að trúa því allt of snemma sumars að bleikjan væri komin upp að landi við Vörðuvík.
Þótt þetta með hitaveitufiskinn hafi hálft í hvoru verið grín, þá vitum við að fiskurinn lætur stjórnast af vatnshita. Þessi ensím sem hann notar til að brjóta niður fæðu eru hitastýrð. Hvort það er framleiðsla eða virkni þessara ensíma sem dalar með lækkandi hitastigi, veit ég ekki, en hitt veit ég að þegar hitastig vatnsins hækkar, þá eykst virkni eða magn þessara ensíma og fiskurinn fer að éta aftur eftir hvíld. Vatnshiti stýrist yfirleitt af veðurfarslegum aðstæðum, en ekki alltaf. Stundum verða mannanna verk til þess að vatnshiti hækkar og stundum er það nálægð við háhitasvæði sem verður þessa valdandi. Innstreymi hita eins og við þekkjum í Þingvallavatni getur leitt til þess að fiskur á ákveðnu svæði svamlar í kjörhitastigi nær allan ársins hring, étur og étur og stækkar eftir því. Þetta atferli er alls ekki eina skýringin á stórvexti þessa stofns, Þingvallaurriðinn verður óvanalega seint kynþroska, þ.e. 8 – 9 ára og virðist lítið annað hafa fyrir stafni þessi ár heldur en éta og stækka.
Því hefur verið haldið fram að erfðir urriðans og þessi síðbúni kynþroski ráði mestu um stærð hans, en það eru til fleiri stofnar urriða á Íslandi sem verða kynþroska tiltölulega seint á lífsleiðinni og ekki verða þeir jafn stórir og frændi þeirra á Þingvöllum, svona yfirleitt. Eins eru þau vötn til sem urriða af Þingvallastofni var sleppt í fyrir margt löngu síðan og þar verða þeir ekki svona stórir. Hæfileikinn, erfðirnar, leggja e.t.v. grunninn að þessum ógnarvexti fisksins á Þingvöllum, en það þarf eitthvað fleira að koma til og þá er nærtækt að horfa til fæðuframboðsins og fjölda daga á ári sem fiskurinn nýtur kjörhita. Við megum samt ekki gleyma því að stærri fiskur étur meira og hann þarf sífellt að stækka máltíðina og réttina á matseðlinum.
Í Litluá í Kelduhverfi skapa umhverfisáhrif mjög svipuð lífsskilyrði og á ákveðnum stöðum í Þingvallavatni. Þar verður urriðinn oft gríðarlega stór vegna þess að vatnið í ánni helst að jafnaði 12°C vegna blöndunar heits vatns úr Brunnum í upptakavatn árinnar, Skjálftavatn. Sami stofn urriða finnst í öðrum kaldari ám og þar verður hann ekki nándar nærri eins stór þó nægt æti sé til staðar. Í þeim ám er dagafjöldi kjörhitastigs líka allt annar og nær því að vera eðlilegur, enda stýrist hann af veðri og vindum, ekki jarðhita.
Fleiri vötn og ár á Íslandi eru til sem státa af lífskilyrðum sem verða til þess að fiskurinn stækkar mikið og hratt. Ég trúi því ekki að ég sé einn um að koma auga á svæði sem þessi. Svæði þar sem það eru mannanna verk sem hafa hróflað við hita- og/eða fæðuframboði og þannig lagt grunninn að stórfiskastofni, ekki aðeins urriða heldur einnig bleikju. Fæst þessara svæða fá mikla athygli í umræðunni vegna annars en þeirra stóru.
Veiðimönnum er upp til hópa sérstaklega annt um hreinleika áa og vatna, eru duglegir að finna orsakir mengunar sem raskað getur lífríkinu og berjast með kjafti og klóm þar til málum er kippt í liðinn. Því miður fer aðeins minna fyrir umræðunni ef mengunin hleypir fjöri í fiskinn. Heitt vatn, jafnvel vel hreinsað getur raskað lífríki áa og vatna, en það telst yfirleitt ekki til mengunarvalda. Sömu sögu er að segja um kalt afrennsli sem ber með sér ónáttúrulegar fæðuagnir sem fiskurinn nýtir til átu.
Hvoru tveggja virðist við fyrstu sýn ekki vera neitt stórmál, bara betra fyrir fiskinn, ekki satt? Eykur hróður viðkomandi svæðis og gerir það söluvænna o.s.frv. Málið er samt sem áður ekki svona einfalt, það tók nokkrar þúsundir ára fyrir lífríkið að þróast þannig að það gæti fóstrað ákveðna fjölbreytni í góðu jafnvægi. Einsleitt lífríki á sér sjaldnast langa framtíð, en það er einmitt það sem svona inngrip manskepnunnar leiðir af sér. Útkoman verður oftar en ekki að fiskistofnar samanstanda af tiltölulega fáum en stórum einstaklingum sem þegar fram í sækir, leggjast af fullum þunga á ungviðið og raska þannig enn frekar fjölbreytileikanum. Þá þýðir lítið að setja á sleppiskyldu á stóru fiskana, það ýtir aðeins enn frekar undir fábreytileika stofnsins, nýliðarnir eiga ekki séns í þessa stóru sem njóta verndar því þeir verða bara sífellt svangari eftir því sem þeir stækka meira.
Orð sem þessi leggjast ekki alltaf vel í veiðimenn og veiðileyfasala, en það verður bara að hafa það. Ég held að mál sé til komið að vera sjálfum sér samkvæmur og viðurkenna að það að umturna lífríkinu eða raska jafnvægi þessu sem tók þúsundir ára að ná sé glapræði og komi öllum í koll þegar upp er staðið. Það er í okkar valdi sem göngum á jörðinni um þessar mundir, að ganga svo frá hnútum að komandi kynslóðir geti notið fjölbreytileika náttúrunnar. Meðal stangveiðimanna í dag eru þegar margir yngri veiðimenn sem hafa aðeins kynnst fiski sem hefur fengið að vaxa samkvæmt forskrift manna, ekki náttúru. Fiskurinn er e.t.v. stór, tekur sig vel út á mynd og það þykir sjálfsagt að sleppa honum að myndatöku lokinni af því þeir eru svo fáir. Það er langt því frá að þetta sé eitthvað landslið fiska, þetta eru mögulega Íslandsmeistarar, en þeir eru ekki lið, til þess eru þeir of fáir. Farðu út í búð og keyptu bland í poka fyrir 1.000,- kr. og settu hann á varamannabekkinn við sparkvöll yngriflokka. Vittu til, það verða fáir sem fá flesta molana, sumir ekkert. Endurtaktu leikinn í nokkra daga og þú getur verið viss um að einn daginn verða aðeins þeir frekustu eftir, ekki sem lið að spila fótbolta heldur einstaklingar að bíða eftir pokanum við varamannabekkinn. Svona byggir maður ekki gott lið yngriflokka eða upprennandi landslið, það sama á við um fiskinn okkar.
Alltaf er FOS.IS fyrst með alvöru fréttir, fiskar kunna ekki að lesa og þeir heyra sjaldnast nokkuð af því sem okkur mönnunum fer á milli. Þetta er e.t.v. ástæðan fyrir því að fiskar hafa enn ekki skipt fæðunni sinni í þá flokka sem við höfum skipt flugunum okkar í. Fiskur veit t.d. ekkert um það hvort flugan sem við notum er púpa eða þurrfluga, hún er í besta falli eftirlíking af æti sem fiskurinn þekkir, í versta falli er hún bara eitthvað kusk sem flækist um í vatninu.
Silungur er ótrúlega mikill tækifærissinni og skorkvikindi sem er á ferðinni, eitt sér eða í smærri hópum, er náttúrulega bara matur sem hann ræðst á eða svolgrar í sig þegar tækifæri gefst. Það sem þarf til að fiskurinn taki flugu er ákveðin kveikja sem verður að vera til staðar og sú kveikja er ekki nafn flugunnar, tegund hennar eða nokkuð annað af því sem við mennirnir höfum gefið henni. Það er fyrst og fremst eðlishvöt silungsins sem ræður för.
Fyrst og fremst er það sú fæða sem er til staðar sem stjórnar því hvort fiskurinn sýni flugu áhuga. Hún þarf í höfuðdráttum að passa við það sem hann þekkir. Þar ræður mestu stærð flugunnar, sköpulag hennar og litur. Reyndar er því þannig farið að við mennirnir eigum stundum í smá vandræðum með litinn. Það sem er alveg kórréttur litur á hnýtingarborðinu, getur hæglega orðið allt annar þegar í vatn er komið.
Önnur eðlishvöt silungs, rétt eins og annarra laxfiska, er að það má hæglega pirra hann til töku. Æpandi kvikindi sem spriklar nógu oft fyrir framan nefið á honum getur hæglega farið svo í skapið á honum að hann glefsi í það. Nú gaf ég til kynna að fiskur hafi skap og þar með að hann búi yfir hugsun sem er víst ekki tilfellið, en þið vitið hvað ég meina. Þeir sem kíkja reglulega inn á þessa síðu hafa væntanlega rekist á einhver orð um bleikan Nobbler á ógnarhraða í bleikju. Enn og aftur, þessi fluga líkist ekki neinu sem er að finna í dýraríkinu og sá bleiki litur sem ég nota í fluguna er ekki náttúrulegur fyrir fimm aura. Það er eitthvað allt annað en fæðulíki sem kveikir í bleikjunni að taka þessa flugu.
Hvað er ég að fara með þessu? Jú, það sem ég meina er að annað hvort ákveður maður að líkja eftir fæðu fisksins eins og mögulegt er, heldur sig við náttúruna eða maður einfaldlega spilar með náttúrunni og stólar á eðlishvöt fisksins, þ.e. að hann missi sig og glefsi í fluguna. Ég veit aftur á móti ekkert hvað ræður því hve langur þráðurinn er í fiskinum, stundum bregst hann strax við þessu áreiti, stundum ekki.
Í gegnum tíðina hafa ýmis atriði safnast upp í kollinum á mér sem ættu, ef ég færi alltaf eftir þeim, að gera fluguveiðina miklu auðveldari. Það er nú ekki svo í mínu tilfelli að ég hafi fæðst með það á hreinu hvernig þetta sport gengur fyrir sig, ég hef þurft að læra þetta svona smátt og smátt á meðan ég hef kynnst mönnum sem eru einfaldlega með þetta innbyggt frá fæðingu. Nei, ég er ekki að gera gys að eða lítið úr þeim beturvitrungum sem ég hef kynnst í gegnum tíðina, ég er einfaldlega að vísa til þeirra sem virðast ekki hafa neitt fyrir þessu, nota bara tvær flugur og veiða alltaf fisk, en auðvitað eru þeir fleiri sem eru í svipuðum sporum og ég, vinna hörðum höndum að því að verða betri veiðimenn og gera það helst með því að veiða, veiða og veiða.
Sjálfur hefði ég, fyrir það fyrsta, viljað fylgjast betur með í líf- og náttúrufræði í framhaldsskóla. Fiskar lifa í vatni, þeir eru með tálkn og ugga, svona hefði lokaritgerðin mín í náttúrufræði geta hljóðað á sínum tíma. Svona eftir á að hyggja, sem sagt í dag, þá hefði ég viljað fara betur ofan í saumana á atferli fiska, búsvæðum og fæðu. Þetta eru nefnilega lykilatriði þegar kemur að því að eltast við fisk sem ekki vill sýna sig. Annað hvort las ég eða heyrði eitt sinn haft eftir mætum veiðimanni að það væri ekki hægt að læra vatnaveiði af afspurn. Ef þú spyrð einhvern hvar og hvernig hann veiddi, þá segir stemmir frásögnin hans við aðstæður eins og þær voru einmitt þegar hann var að veiða, sem var mögulega fyrir einhverjum dögum, ef ekki vikum síðan. Á þeim tíma hafa ýmsar breytingar orðið í vatninu; nýtt æti, vatnið hlýnað eða kólnað o.s.frv. Allt atriði sem hafa mikil áhrif á það hvar fiskurinn heldur sig og hvernig hann hagar sér. Vötn eiga jafnvel sitt ákveðna dagsform, eru gjöful á eina ákveðna flugur í dag, en sama fluga gefur ekkert þann næsta. Undir þeim kringumstæðum græðir maður lítið á gamalli veiðisögu, meira að segja þó hún hafi verið síðan í gær.
Með tíð og tíma hefur einhver vottur að þekkingu á atferli og lífmynstri fiska síast inn hjá manni, en mikið ósköp hefur það tekið langan tíma og alltaf er maður að bæta við sig smá þekkingu. Ef ég væri í einhvern tíma beðinn um ráð fyrir byrjendur, þá yrði það trúlega fylgstu með í náttúrufræðinni.
Þrátt fyrir heitið, þá eru stöðuvötn alls ekki kyrrstæð, ég bara varð að koma þessu að. Þegar áhugi minn á fluguveiði vaknaði og ég fór að leita mér að lesefni um sportið þá var mjög algengt að ég rækist á nákvæmar vísindalegar útlistanir á kostum andstreymisveiði umfram aðrar veiðiaðferðir í straumvatni. Ekki efaðist ég eitt einasta augnablik um ágæti þessara greina, en þegar áhugi minn tók fyrst og fremst að beinast að fluguveiði í vötnum, þ.e. þeim sem ekki renna, þá gleymdist þessi andstreymisboðskapur fljótlega og ósjálfrátt jarðaði ég þessar greinar í kollinum.
Og þarna hefur hundurinn legið grafinn í mjög langan tíma, þ.e. í óminnisdjúpi lækja og stærri straumvatna. Eftir stendur nú samt sú staðreynd að vatn í stöðuvötnum er oft á töluverðri hreyfingu, jafnvel í stilltu veðri og vötnum sem ekkert sjáanlegt innstreymi hafa, hvað þá útstreymi. Mér skilst til dæmis að snúningu kúlunnar sem við lifum á hafi eitthvað með straum í stöðuvatni að segja. Ekki má heldur gleyma því að vatn sem hitnar á grynningum umfram dýpri hluta þess geymir oft ósýnilegan straum, straum sem fiskurinn finnur og snýr sér ósjálfrátt upp í. Ástæðan er nákvæmlega sú sama og verður til þess að hann snýr snjáldrinu upp í strauminn í læknum eða ánni, fæðuframboð.
Smágerð krabbadýr eins og svifkrabbar og ýmislegt annað góðgæti berst um stöðuvötn með minnsta mögulega straumi og þessi dýr, sem eru vel að merkja smærri en svo að við getum hnýtt eftirlíkingar af, eru mikilvæg fæða silungs og því snýr hann sér oft upp í strauminn og étur það sem berst þó okkur virðist hann einfaldlega liggja í mestu makindum og ekki gera neitt. Ekki er allt sem sýnist og þess vegna ætti maður að bera lambalærið á veisluborðið beint fyrir framan hann, þótt hann sé á kafi í smáréttunum. Hver stenst gómsæta stórsteik þegar aðeins snittur eru í boði?