FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Þegar vani verður ávani

    7. október 2021
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Að mínu viti læknast enginn af verkjapillum einum saman, eitthvað meira þarf til. Verkjalausum gefst vissulega tóm til að vinna á meinsemdinni á meðan pillurnar virka, en á einhverjum tímapunkti verður maður að leggja frá sér pilluglasið áður en maður verður háður þeim.

    Fyrir mörgum árum síðan fékk ég ávísun á pillur vegna smá kvilla sem ég var haldinn í bakkastinu mínu. Ef ég fer nú frjálslega með staðreyndir, þá var viðvörun á pilluglasinu; Notist aðeins þar til lækning hefur fengist. Þannig að öllu sé haldið til haga, þá var það nú reyndar kunningi minn sem sagði mér að nota þessa lækningu aðeins þangað til ég hefði náð tilfinningunni í fingurna þannig að ég gæti dæmt blindandi fyrir um það hvort línan hefði náð að rétta úr sér í bakkastinu og ég gæti lagt af stað í framkastið.

    Pillan var í raun afar einföld, að líta um öxl og fylgjast með línunni og finna nákvæmlega þegar hún hættir að rétta úr sér, þegar ég hefði náð því átti ég að hætta að líta um öxl því besta kastið á að vera fram á við og þá er eins gott að fylgjast með því.

    Auðvitað kemur það samt fyrir að maður verður að líta um öxl; þegar maður stendur undir bakka, tré og gróður eru að baki og maður þarf að stemma lengd línunnar af. Annars ætti maður að leyfa fingrunum að ráða, ekki augunum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Örlítil hreyfing

    24. júní 2021
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Sá grunur hefur alveg laumast að mér að lesendur séu búnir að fá meira en nóg af greinum sem gefa til kynna að ég sé rosalega smámunasamur. Endalausar smápillur um einhverjar leiðréttingar á hinu og þessu sem enginn nennir lengur að lesa. Ef einhver heldur virkilega að ég taki allt það upp sem hér er skrifað, þá er það mikill misskilningur. Aha, þú ert einn af þeim sem þykist allt vita, en gerir ekkert af því sjálfur, var sagt við mig um daginn. Ég hló við, það var nefnilega ein áberandi villa í þessari setningu, ég veit ekki allt og reyni ekki einu sinni að halda því fram. Stundum finnst mér eins og því meira sem ég kynni mér, því meira á ég ólært, en mér finnst gott að koma því í texta sem mér er bent á eða ég læri. Hér á eftir ætla ég að taka smá snúning á ábendingu sem gaukað var að mér í vor.

    Beinn og brotinn úlnliður

    Þannig að maður leiki sér aðeins með líkamsparta, þá hefur það lengi verið minn akkilesarhæll að brjóta úlnliðinn í bakkastinu. Eins og svo oft áður var mér bent á þetta og sagt að stinga stönginni niður í ermina á jakkanum mínum, þó ekki væri nema til þess að finna muninn í kastinu. Jú, jú, ég kannaðist alveg við að kastið batnaði og hélt áfram að tylla stönginni í ermina þannig að ég fengi frið út kastæfinguna. En nei, kemur ekki þessi gaur aftur og spyr mig hvar ég hafi lært að stoppa tvisvar í bakkastinu. Ha, þarna var komið eitthvað alveg nýtt til sögunnar sem ég vissi ekki um, stoppa tvisvar? Já, þú stoppar í bakkastinu en eftir augnablik færir þú stöngina aðeins aftar. Ég fylgdist með sjálfum mér og viti menn. Jafnvel þótt ég hefði spennt stöngina inn í ermina á jakkanum mínum og þannig ráðið bót á þessum með úlnliðinn, þá kom þarna örlítil hreyfing eftir hreint aftara-stopp þar sem ég leyfði stönginni að leka aðeins aftar.

    Ég snéri mig næstum úr hálsliðnum, horfði bara á línuna í bakkastinu og þá sá ég línuna ferðast í þokkalega beinni línu, en svo kom þessi örlitla hreyfing og línan féll eins og steinn. Þetta var ekki erfitt að lagfæra, bara taka sér tak og hætta þessum ósið og bakköstin urðu miklu betri.

    Það er gott að eiga einhvern að sem getur bent manni á svona bull, sérstaklega þegar maður veit bara alls ekki af því.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Bráðræði

    15. júní 2021
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Ég hef fengið að heyra að ég sé nokkuð bráður, það er bara kjaftæði, ég er bara snöggur að taka ákvarðanir, við flest annað en flugukastið. Ég á vanda til að gefa línunni allt of langan tíma í bakkastinu og þá fellur hún auðvitað, slær tauminum niður og skyndilega er engin fluga eða ekkert afl eftir í stönginni í framkastið. Ég hef svo sem engar áhyggjur af þessu, er að vinna mig út úr þessu, hef nægan tíma til að lagfæra þetta því ég ætla að vera mörg, mörg ár í veiði til viðbótar. Ég reynir að stytta tímann, finna það í stönginni þegar línan hefur rétt nægjanlega úr sér fyrir framkastið og reyna að halda úlnliðnum stífum eins og góður félagi minn þreytist aldrei á að benda mér á.

    Þeir sem eru aftur á móti of spari á tímann eru eins og Indiana Jones, eintómir svipusmellir í tíma og ótíma. Þetta helgast af því að línan fær ekki nægan tíma til að rétta úr sér í bakkastinu og er skyndilega svipt í framkastið. Eina leiðin til að útiloka þessa svipusmelli er að gefa sér og línunni örlítið meiri tíma, hlusta með fingrunum á stöngina, þú finnur það þegar línan hefur náð jafnvægi, þá leggur þú ákveðið af stað í framkastið með jafnri hröðun.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Falsráð á réttum tíma

    10. júní 2021
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Það er varla til sú veiðisíða sem ekki smellir reglulega inn ráðum við hinu og þessu sem er að hrjá veiðimenn. Ég freistast alltaf af þessum frábæru ráðum, samsinni þeim og hugsa með mér að nýta mér þetta ráð, seinna. Nei, ég er ekki haldinn frestunaráráttu, þessi ráð koma stundum bara á svo einkennilegum árstíma að maður nær bara ekki að nýta þau strax og þegar til á að taka, þá eru þau gleymd.

    Nú eru flestir búnir að teygja aðeins úr línunum sínum, sumir búnir að taka fisk, aðrir ekki. Sjálfur hef ég verið í rólegri kantinum, en ég vitja veiðislóða í nágrenninu reglulega og virði fyrir mér veiðimenn sem eru miklu duglegri en ég. Kvöld eitt í síðustu viku brá ég mér upp að Elliðavatni þar sem nokkrir reyndu sig og svolítið á stangirnar. Það kann að bera vott um sjálfbirgingshátt að bregðast við eins og ég gerði, en ég gat bara ekki orða bundist og notaði orð eins og skelfing er þetta lélegur kastari. Einhver kunningja minna kann að segja að nú hafi ég kastað steini úr glerhúsi, en þetta var ekki illa meint, mér einfaldlega ofbauð sá fjöldi falskasta sem hann notaði til að koma línunni út.

    Stöng veiðimannsins var bersýnilega ekki að hlaðast, mögulega vegna þess að lengd línunnar var aðeins of mikil; byrja smátt, lengja lítið var sagt við mig um árið. Þegar það bar ekki árangur var mér skipað að læra tvítog, hraða línunni í fram- og afturkastinu, ná meiri hleðslu og lengja þannig meira í línunni í hverju kasti. Það er vandrataður veiðivegurinn.

    Eins falleg og falsköst góðs kastara geta verið, þá eru yfirleitt 2/3 þeirra óþarfi og gera lítið annað en tefja fyrir því að flugan lendi á vatninu, þar sem henni er jú ætlað að veiða fisk. Réttar tímasetningar í tvítogi, snerpa þess og lengd togsins fækka falsköstum verulega. Ef falsköstinn eru of mörg, þá væri e.t.v. ráð að leita ráðlegginga hjá kastkennara áður en sumarið smellur inn fyrir alvöru, það er svo miklu skemmtilegra að veiða þegar köstin skila sér og eru ekki of mörg.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langlínusamtal

    30. mars 2021
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Hver þekkir ekki þá umræðu að veiðimenn þurfi ekkert endilega á þessum ógnar löngu köstum að halda? Sjálfur hef ég verið duglegur að letja menn til að þenja köstin, fiskurinn er yfirleitt alltaf nær en maður heldur. Lykillinn að langlínusamtalinu sem ég átti við sjálfan mig í vetur var einmitt þetta yfirleitt. Það eru alveg þau tilfelli þar sem löngu köstin kæmu sér vel vegna þess að fiskurinn er kannski ekkert eins nærri og maður vill meina.

    Þegar maður hugsar um þá gömlu góðu, gullnu reglu að ná að veiða í 180°, skanna svæðið með kerfisbundnum köstum, þá takmarkast svæðið sem veiðimaðurinn nær að dekka við lengdina á köstunum, augljóslega.

    Ef viðkomandi veiðimaður nær lengri köstum, þá er svæðið að sama skapi stærra og það þarf fleiri köst til að ná sama þéttleika í dekkun eins og með styttri köstum.

    Þetta ætti að þýða að það séu töluvert meiri möguleiki á að hitta á fiskinn ef maður notar lengri og fleiri köst, að því gefnu að fiskurinn sé viðlátinn á annað borð.

    En í hvaða tilfellum er fiskurinn ekki jafn nærri landi eins og í venjulegu kastfæri? Skiptum aðeins um sjónarhorn á skýringarmyndinni, setjum inn dýptarlínur og álitlegan fisk.

    Veiðimaðurinn stendur þarna undir bakkanum, rétt fyrir framan hann dýpkar snarlega um 25 sm þannig að lengra kemst hann ekki. Fiskurinn hefur komið sér fyrir við kantinn og er þar í æti. Gefum okkur að veiðimaðurinn nái að öllu jöfnu að kasta á A, sem er vel að merkja utan sjónsviðs fisksins og á 50 sm grynnra vatni. Í svona tilfelli væri heppilegt að geta sett fluguna niður á B, leyfa henni að sökkva og draga að fiskinum.

    Auðvitað er þessari skýringarmynd ofaukið því flestir gera sér grein fyrir svona kringumstæðum, þeim er einfaldlega lýst sem svo að fiskurinn sé utan kastfæris. Ástæðan fyrir þessari mynd er af persónulegum toga runninn. Ég man enn eftir þeim stóru, takið eftir þeir voru í fleirtölu, sem voru að voma þarna 50 sm utar en ég gat kastað og þó ég hefði náð þessum 50 sm, þá hefði ég þurft að ná öðrum 50 sm til að koma flugunni niður á þeirra dýpi. Þarna skildi einn metri á milli þess að ég náði þessum eina sem elti hornsílið sem synti í átt að flugunni minni og hinna sem héldu sig þarna úti. Þarna hefði ég vel geta þegið aukna færni í löngum köstum, en það þarf nú kannski ekki mikla æfingu til að ná einum metra lengra.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að skilja ekki baun

    13. ágúst 2020
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Mér skilst að það sé til fjöldi manna sem nær því aldrei nákvæmlega hvað flugukastið gengur út á. Það virðist vera alveg saman hve mikið þeir æfa sig eða hve lengi þeir stunda standaveiði, þeir bara ná ekki tengingu við flugukastið. Þar með er ekki sagt að þeir séu eitthvað verri kastarar heldur en næsti maður, langt því frá. Þessir veiðimenn hafa þróað með sér vöðvaminni umfram skilning og í sannleika sagt, þá öfunda ég þá. Mitt vöðvaminni er oft á tíðum alveg á skjön við það sem ég man í kollinum. Til að muna eitthvað, þá þarf ég að skilja og til að skilja þarf ég oft að kafa djúpt, mjög djúpt. Ég hef aldrei tekið rökum eins og það er bara þannig, af því bara eða það veit hver maður. Ég verð meira að segja svolítið þversum þegar einhver bætir orðinu heilvita á milli það veit hver og maður. Kannski hef ég eytt of miklum tíma í að ná skilningi og á meðan hefur vöðvaminnið mitt vanist á einhverja vitleysu sem ég næ ekki úr því aftur.

    Ég hef lesið greinar þar sem því er staðfastlega haldið fram að til að verða góður kastari þá þurfi maður að skilja. Oft er orðið þurfa beinlínis feitletrað þannig að enginn sem ekki skilur, þorir að viðurkenna að hann skilur hvorki upp né niður í því hvernig á kasta, hann kastar bara. Páfagaukar virðast ekki vera sérstaklega óhamingjusamar skepnur en stundum er talað um páfagaukalærdóm manna eins og hann sé upprunninn í því neðra. Lærdómur er lærdómur, sama hvort hann er kenndur við páfa eða gauk og á meðan hann skilar ágætu eða góðu kasti, þá finnst mér engin ástæða til að draga úr ágæti þess.

    Trúlega hjálpar það að vísu eitthvað á leiðinni að góðu kasti að vita eitthvað smáræði um kastferilinn, ákveðið stopp og hröðun línunnar. Það þarf bara ekkert að flækja þetta of mikið þannig að menn mikli hlutina fyrir sér og fælist frá. Stundum er einfaldlega best að halda þessu KISS, keep it simple stupid, setjast niður og hugsa einfaldar hugsanir og vera ekkert að pæla of djúpt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 … 19
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar