Mér finnst það nú eiginlega hafa verið í gær þegar ég gat með sanni sagt að ég ætti aðeins eina flugustöng. Sú var af fyrstu kynslóð grafítstanga, #6 í tveimur pörtum. Ég kunni alveg ágætlega við þessa stöng og á hana ennþá. Að vísu hefur hún ekki fengið að fara með í veiðiferðir í nokkur ár, ekki einu sinni sem varastöng. Síðar eignaðist ég IM10 stöng #7 í hefðbundnum fjórum pörtum og notaði hana mikið, raunar nota ég hana annars slagið ennþá þegar ég tel mig þurfa á miðlungshraðri stöng að halda. Síðar kom til sögunnar heldur hraðari IM12 stöng sem ég hef töluvert dálæti á, en hún er nokkuð stífari þannig að stundum fer að gæta einhverrar þreytu hjá mér eftir 5 – 6 klst. í veiði.
Einhvern tímann á leiðinni bættist mjúk IM9 JOAKIM‘S stöng í safnið, stimpluð #4/5 sem ég hef mikið dálæti á. Hún er ekkert sérstaklega létt, ekki nett, eiginlega svolítið lin, en ég kann óskaplega vel við hana.
Í sumar sem leið tókst mér síðan að sannfæra sjálfan mig um að ég þyrfti á nýrri sjöu að halda. Ég prófaði nokkrar stangir og fann eiginlega alltaf eitthvað að þeim. Of stíf, of hröð, of lin, of þung, mér tókst þannig að finna eitthvað að þeim öllum. Trúlega hef ég verið farinn að fara örlítið í taugarnar á einhverjum, alveg þangað til mér var bent á að prófa eina af nákvæmlega sömu tegund og ég hafði áður hafnað með þeim rökum að hún væri of stíf fyrir minn smekk. Sú sem mér var rétt var 9‘6 fet í stað 9 feta. Hún er ekki framleidd úr einhverju sérstöku undraefni, held meira að segja að hún sé framleidd úr IM10 grafít og alls ekki hönnuð sem einhver tímamóta stöng. Hún er það sem ég leitaði að; virkar millistíf en svignar skemmtilega með fiski, leyfir mér að finna fyrir smæstu bleikjum og vinnu vel á móti stærri urriðum. Stöngin ber vel þær línur sem ég nota og sýnir góða vinnslu með hefðbundnum framþungum intermediate og flotlínum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er sérlundaður í stangarvali og alls ekki víst að minn smekkur passi öðrum, en ég mundi trúlega kaupa mér aðra Airflo Rocket 9‘6 #6/7 stöng ef mér tækist að eyðileggja þessa. Það sem ég vildi koma á framfæri með þessum hugleiðingum mínum er einfaldlega að það þarf stundum ekki mikla breytingu á stöng til að hún virki sem allt önnur. Í þessu tilfelli varð það þetta hálfa fet sem gerði gæfumuninn.
Auðvitað er þetta einhver söfnunarárátta og trúlega (vonandi) tekst mér að telja sjálfum mér trú um að ég þurfi nýja stöng eftir einhver ár. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, leggja svolítið á sig að venjast nýrri stöng og njóta þess að veiða.