FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Töfrasproti

    9. mars 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Enn og aftur dettur mér Harry Potter í hug, síðast var það þegar ég var spurðum um val á flugustöng, en núna kviknaði þessi tenging hjá mér þegar mér varð fótaskortur á internetinu og lenti á myndbandi þar sem hönnuður hjá þekktu fyrirtæki kynnti byltingarkennda nýja flugustöng. Svona meðal annarra orða, þá er eins og stangarframleiðendur séu sífellt óánægðir með veiðisamfélagið, það er alltaf eitthvað byltingarkennt (e: revolutionary) á leiðinni frá þeim.

    Þessi umrædda byltingarkennda stöng átti að vera með innbyggða skriðvörn, svona eins og flestir bílar í dag, sem átti að koma í veg fyrir að toppur stangarinnar leitaði til annarar hvorrar hliðar í kastinu með þeim afleiðingum að línunni skrikar fótur og sveigir frá beinni línu. Þessi hegðun er vel þekkt þegar hleðsla neðri hluta stangarinnar lendir í toppstykkinu með þeim afleiðingum að toppurinn fer að víbra í láréttu plani, sveigir til hliðanna.

    Örvæntið ekki, þið þurfið ekkert að hlaupa og kaupa ykkur nýja stöng með skriðvörn, þ.e.a.s. ef þið eigið hana ekki nú þegar, því það er til gamalt og gott ráð við þessu. Með smá æfingu er hægt að vinna gegn þessari hegðun. Þegar þú leggur af stað í kast og verður var við að stönginn er mögulega ofhlaðin, þá getur þú, rétt áður en þú stoppar í framkastinu, snúið lítillega en snöggt upp á stöngina um örfáar gráður, þetta tekur hliðarvíbringinn úr toppstykkinu. Það sem þú þarft að læra er að finna hve margar gráður þú átt að snúa upp á stöngina til að vinna á móti ofhleðslunni, það er afar misjafnt eftir stífleika og gerð stanga hve margar gráðurnar eru.

    Til að setja þetta í samhengi við annað sem ég hef nefnt hér á síðunni, þá er þetta snaggaraleg útfærsla á s.k. sveigkasti (e: curve cast) sem nota má til að koma flugunni á bak við hindrun, svo sem stein eða girðingarstaur úti í vatni sem eru ótrúlega margir á Íslandi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þær eru ekki allar eins

    12. janúar 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Það þarf víst ekki að taka það fram að stangir eru mismunandi, þetta vitum við og flest tökum við mark á þessu þegar við veljum stöng þegar komið er á veiðistað. Nú er ég ekki að tala um mismunandi framleiðendur eða tegundir stanga, heldur styrkleika þeirra eftir þyngd og lengd. Síðustu ár hef ég verið gjarn á að lengja aðeins í vali stanga, hvort sem það er nú alltaf rétt eða ekki en á sama tíma hef ég haldið mig (að mestu) við ákveðna þyngd þeirra, þ.e. skv. AFTM skalanum.

    Þó nýtísku stangir séu margar hverjar seldar með hástemmdum yfirlýsingum um aukna nákvæmni án þess að rýra notagildi þeirra til lengri kasta og viðureignar við stórfiska, þá er gamla góða skilgreiningin á hæfni stanga til nákvæmni, lengdarkasta og viðureignar alltaf svolítið umlykjandi.

    Stangir #2 til #5 hafa lengi verið taldar heppilegar til nákvæmniskasta og ljúfari framlagningar á meðan stangir #6 til #9 eru taldar heppilegri fyrir lengri köst og #10 og upp úr fyrir viðureign við stórhveli. Að þessu sögðu, þá búa allar stangir yfir einhverri hæfni úr þessum þremur flokkum, mismunandi mikið en allar eitthvað. Það er kannski helst hæfni stanga til að eiga við stórhveli sem erfist illa niður í léttari stangir.

    Svo er það þetta með lengdina, þar hafa menn lagt óljósa línu sem eins og margar aðrar línur getur sveigst og bognað eftir tegundum stanga og hefur vissulega gert það síðustu árin. Stuttar stangir (7 til 9 fet) er almennt talið henta betur í kröftugan fisk á meðan lengri stangir (9,5 fet og lengri) fyrir nákvæmi og léttleika í viðureign við smærri fisk.

    Eins og ég nefndi, þá hafa stangir hin síðari ár verið að sveigja þessi lengdarviðmið töluvert. Nýjar framleiðsluaðferðir hafa aukið styrkleika lengri stanga þannig að margar þeirra henta ágætlega í viðureign við stærri fisk og því vel þess virði að skoða lengri stangir. Mín reynsla er að lengri stöng hentar mér betur heldur en stutt og þá er það ótvíræður kostur að geta, með skynsamlegum hætti, átt við fisk sem óvænt er í stærri kantinum á minn mælikvarða.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Halda

    8. nóvember 2022
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Hvað á barnið eiginlega að heita? Keflishalda, þráðarhalda, bobbin eða bara eitthvað allt annað. FOS.IS hefur haldið sig við keflishalda og heldur sig við það áfram.

    Næsta spurning; hvað á barnið að verða þegar það verður fulltíða? Byrjendahöldur eru yfirleitt afar einfaldar; stífir leggir með smá hnúð á sitthvorum endanum sem stingst inn í tvinnakeflið. Þar sem leggirnir mætast er, með einum eða öðrum hætti fest stálrör sem þráðurinn er þræddur í. Byrjendahalda er mögulega ekki réttnefni því margir reyndir hnýtarar halda tryggð við þessar einföldu allan sinn feril og una sáttir við. Þeir sem ég hef heyrt í segjast einfaldlega vera komnir upp á svo gott lag með að stilla átakið á þráðinn í lófanum að þeir vilji engar aðrar.

    Einföld með stálröri

    En rekjum okkur aðeins áfram og tölum um næsta skref sem sú einfalda getur tekið í þroskaferlinu. Í sinni einföldustu mynd, þá er rörið sem þráðurinn er þræddur í gegnum út stáli með örlítið rúnuðum brúnum eða jafnvel ávölum flans á endunum. Sum þessara stálröra eru fóðruð með keramík, hertu gleri eða títaníum þannig að þráðurinn renni ljúflega fram úr höldunni þegar hnýtt er. Sumir hnýtarar velja þessar höldur þegar þeir hnýta með koparþræði, aðrir kjósa einfaldlega stálrör í meiri sverleika. Sjálfur hef ég eignast nokkrar svona fóðraðar höldur, en í fullri hreinskilni þá hef ég sjaldnast kunnað fyllilega við þær, ég kýs næstu kynslóð.

    Einföld með keramík röri

    Sú kerflishalda sem ég hef mest notað er kerfishalda með röri úr keramík. Já, hún er viðkvæmari heldur en þær sem eru úr heilsteyptu stáli og ég hef þurft að endurnýja þær nokkrum sinnum ef ég er svo óheppinn að missa þær í gólfið eða reka utan í eitthvað hart eins og t.d. þvinguna mína. Það sem sagt flísast frekar auðveldlega úr þessum rörur og þá er voðinn vís fyrir hnýtingarþráðinn.

    Einföld, stillanleg keflishalda með keramíkröri

    Næstu kynslóðir, sem margir segja vera fullþroska keflishöldur, eru þær sem hægt er að stilla tregðuna á hnýtingarþráðinn, þ.e. hve fast keflishaldan heldur við þráðinn þegar hnýtt er. Ég ætla ekki að hætta mér út í þau fræði sem liggja á bak við alla þá hönnun sem liggur að baki þeim allra bestu í þessum flokki, gæti best trúað að ef verkfræðingarnir á bak við sumar þessara halda hefðu gert mun betur heldur en þeir sem hönnuðu vatnsþéttu skilrúmin í Titanic eða eldflaugar sem tókust aldrei á loft eða skiluðu sér óvænt til baka. Þess í stað ætla ég að láta nægja að nefna að verð og gæði fara stundum hreint ekki saman í keflishöldum, þó vissulega sé vandað til efnisvals og hönnuna þeirra sem eru í verði yfir meðaltali. Hvaða útfærslu af og efnisval í keflishöldu menn kunna við, verður hver og einn að finna hjá sjálfum sér. Ég veit hvar ég á heima og legg eiginlega mest upp úr að öll meðhöndlun höldunnar sé einföld, auðvelt að stilla tregðuna og hún fari vel með þráðinn.

    Eitt smáræði til að nefna að lokum. Flestar keflishöldur eru hannaðar miðað við algengustu stærðina á tvinnakeflum sem eru 31 mm á hæð. Hafið þetta í huga ef þið eruð að nota tvinna sem er á stærri eða minni keflum því sumar höldur ráða hreint ekki við breytilega stærð kefla.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Jólatré á taumi

    14. október 2021
    Græjur, Kast, Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það er svo langt því frá að ég geti eignað mér þennan frasa, þ.e. að ákveðinn fiskur sem alin er upp við litlar pöddur og hornsíli, æsist allur upp við jólatré á taumi. Raunar heyrði ég þetta fyrst notað um eina ákveðna flugu ættaða úr Veiðivötnum en með tíð og tíma hefur hann náð yfir allar skrautlegar flugur af ætt straumflugna sem eru vinsælar þar og víðar.

    Flestar þessara flugna eiga það sameiginlegt að vera á einn eða annan hátt þyngdar, mismikið þó og vera nokkuð miklar um sig. Það kann einhverjum þykja mikið í lagt að segja þær miklar um sig, en efnisvalið í þær er oftar en ekki þeim eiginleikum búið að taka á sig vind, skapa loftmótstöðu þannig að það þarf aðeins meira afl til að koma þeim út heldur en litlum púpum eða votflugum.

    Þessari loftmótstöðu virðast margir veiðimenn gleyma og furða sig alltaf jafn mikið á því að fimmu köstin þeirra eru alls ekki nógu góð. Ef viðkomandi er á stórfiskaslóðum furða þeir sig að sama skapi töluvert ef fiskurinn tekur og stöngin hjálpar þeim ekkert í viðureigninni.

    Það væri e.t.v. ekki úr vegi að þessir furðufuglar, lesist sem furðulostnir veiðimenn, hækkuðu sig um eina til tvær stangarþyngdir í það minnsta. Slíkar stangir eiga auðveldara með að koma bosmamiklum flugum út og hjálpa veiðimanninum töluvert meira að eiga við stórurriða ef svo heppilega vill til að hann hlaupi á snærið. Já, snærið, einmitt það. Framan á flugulínuna er gjarnan festur taumur og/eða taumaendi. Þegar egnt er fyrir urriða sem er býr að ákveðnum sprengikrafti, þá dugir ekki að vera með taum sem samsvarar þyngd hans. Síðasta sumar var meðalþyngd urriða í Veiðivötnum 2 – 3 pund en ekki er óalgengt að fiskar um 10 pund og yfir hlaupi á snærið.  Til að leggja jólatré á borð fyrir slíkan fisk þarf sterkan taum og ekki láta glepjast af merkingum á spólunni. Slitstyrkur tauma er mældur með stöðugt auknu álagi, ekki rykkjum og skrykkjum og því dugar 0X (10 punda slitstyrkur) ekki, notaðu 16 – 20 punda taum og hættu þessu pjatti, urriðinn í Veiðivötnum hefur aldrei heyrt minnst á taumastyggð. Ef þessi sveri taumur nær ekki að bera jólatréð skammlaust fram, styttu þá tauminn. Stuttur taumur er bara kostur, ef þú kemst upp með hann, því stuttum taum er ekki eins hætt við að slitna.

    Það verður seint sagt að straumfluguköst séu fallegustu köst fluguveiðinnar. Þetta eru alls ekki einhver elegant þurrfluguköst og það er alveg ástæða fyrir því. Til að koma meiri massa út, eins og jólatréð er, þá þarf kastið að vera hægara og kasthjólið opnara. Það er ekki aðeins að kastið þurfi að ráða við jólatréð, þú verður líka að ráð við kastið þannig að fallega stöngin þín sé ekki í stöðugri hættu á að vera skotin í kaf af flugunni, flugan að flækjast í línunni og hnakkinn á þér að verða að flugugeymslu. Þótt kastið verði ekki eins fallegt, þá er ágætt að muna að fiskurinn hefur ekkert vit á fegurð flugukasta.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Erfðabreyttar stangir

    15. júlí 2021
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Það sem af er sumars hef ég verið að máta mig við nýja stöng og nú hef ég verið að upplifa það á eigin skinni sem orðrómurinn á götunni sagði mér fyrir mörgum árum; það eru til þrjár fjölskyldur flugustanga. Eins og annar orðrómur er þessi ekkert áreiðanlegur, en hann gefur vísbendingu um að þessar þrjár fjölskyldur. Það er síðan undir ættfræðingum komið að dæma um það hvaða fjölskyldu hver stöng tilheyrir.

    Sú stöng sem ég er að máta mig við tilheyrir fjölskyldu stanga sem einfaldlega smella í handbremsuna ef ég reyni að taka völdin af henni. Ég hef reynt þetta, viljandi og óviljandi það sem af er sumri og ég þarf greinilega að hægja aðeins á mér og hlusta betur á stöngina. Mér skilst að meðlimir þessarar fjölskyldu séu nokkurskonar erfðabætt grænmeti sem hefur kostað milljónir að hanna og búa yfir töfrabrögðum sem venjulegum veiðimanni er um megn að tjónka við, það verður einfaldlega að leyfa stönginni að ráð, annars fer allt í kássu.

    Þeim sem geta ómögulega sætt sig við stangir sem taka af þeim völdin, þeim sem vilja stýra öllu frá upphafi ferðalagsins og til enda, þeir ættu e.t.v. að bindast böndum við allt aðra stangafjölskyldu. Meðlimir þeirrar fjölskyldu styðja við allt gott sem kastarinn gerir, leggja að vísu ekkert mikið til málanna en yppta líka bara öxlum yfir hverri vitleysu sem honum dettur í hug að gera. Sumir hafa kallað þessa fjölskyldu postulafjölskylduna, fyrirgefa öllum allt og gera engum mein. Oft eru þessar stangir í ódýrari kantinum, framleiddar úr þekktum og margreyndum hráefnum, ekkert verið að tefla á tvær hættur.

    Fram til þess hef ég verið trúlofaður inn í fjölskyldu stanga sem virka vel undir öllum venjulegum kringumstæðum, eru á viðráðanlegu verði og hjálpa mér mátulega við köstin, en ég verð að leggja svolítið til málanna til að koma línunni þangað sem ég vil fá hana. Þetta er trúlega sú fjölskylda sem tekur mestum breytingum á milli kynslóða, því oft er hryggjastykki stanga í þessari fjölskyldu einhverjir kynblendingar hinna fjölskyldnanna tveggja. Nýleg hráefni, stundum afleggjarar næst nýjustu kynslóðar þeirra erfðabættu notuð í þessar stangir en framleiddar með það fyrir augum að fyrirgefa miðlungs kastaranum aðeins meira.

    Við Arnarfell

    Ég er sem sagt í þeim sporum núna að hægja á mér, hlusta og leggja hreyfingu til stangarinn frekar en afl. Þetta verður áhugavert sumar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Á dauða mínum

    17. júní 2021
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég var strákur og var eitthvað að stelast með eldspýtur og kveikja varðeld niðri í fjöru, þá fann maður sér stundum stóran stein til að kubba í sundur spýtur á eldinn. Því skarpi sem brúnin á grjótinu var, því auðveldara var að brjóta spýturnar með því að tvíhenda þeim við steininn. Einföld regla um átak beggja megin við fyrirstöðu.

    Þessari minningu laust niður í kollinn á mér í fyrrasumar þegar ég sá veiðimann glíma við þokkalegan fisk á einhendu. Fiskurinn tók vel í og stöngin hafði svignað alveg niður að korki, skemmtileg viðureign. Á dauða mínum átti ég von, eða réttara sagt dauða stangarinnar, þegar ég sá viðkomandi færa aðra höndina framfyrir korkinn og upp á miðjan neðsta part stangarinnar. Umsvifalaust breyttist sveigjan í stönginni og náið nú aðeins niður að hendinni, það var greinilega gripið fast.

    Mér tókst alveg halda mér á mottunni og allt fór vel að lokum, fiskurinn komst á land og stöngin enn í sínum upprunalegu fjórum pörtum. Það er gott þegar veiðimaður þekkir og treystir stönginni sinni, en þetta fálm um neðsta hluta stangarinn bar þess ekki merki að hann treysti henni og skapaði trúlega meiri ógn heldur en gagn. Undir þeim kringumstæðum þegar þú treystir ekki stönginni, lækkaðu þá frekar hornið, kláraðu viðureignina og athugaðu síðar hvað sterkari stöng kostar þig.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 … 8
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar