FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Fram eða aftur?

    4. júlí 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Það eru skiptar skoðanir á öllu mögulegu, það vita flestir sem hafa opnað munninn og tjáð sig um eitt eða annað sem tengist stangveiði. Ég opna oft munninn, meira að segja stundum án þess að segja nokkurn skapaðan hlut. Það gerðist einmitt um daginn þegar ég sá veiðimann úti í vatni draga inn, húkka spúninum í neðstu lykkju og snúa sé hvatlega við og stefna í land. Þetta eitt og sér varð ekki til þess að ég opnaði muninn án hljóða, heldur það sem á eftir fór.

    Ég sem samt opnaði munninn án þess að gefast tækifæri til að segja nokkurn skapaðan hlut áður en viðkomandi varð fótaskortur eða rák tána í grjót og steyptist fram fyrir sig. Ég hafi svo sem ekki neinar áhyggjur af því að veiðimaðurinn mundi drukkna, slíkt var dýpið ekki. Nei, ég hafði meiri áhyggjur af stönginni sem hann hélt á og lét vísa beint af augum. Við fallið vísaði stangartoppurinn skyndilega niður á við og ekki munaði ekki nema hársbreidd að hann rækist í bakkann og brotnaði. Það fór nú reyndar betur en á horfðist, veiðimaðurinn stóð ólaskaður upp en rennandi blautur. Sömu sögu var að segja um stöngina, hún slapp þótt litlu hefðu mátt muna.

    Maður veit aldrei hvenær manni verður fótaskortur, sumir eru með svo kallaða flækjufætur og detta hreint út af engu, aðrir taka bara út sinn eðlilega skammt í lífinu af fótaskorti. Hvort heldur sem er, ef þú ert á labbi með veiðistöng, láttu hana vísa aftur og haltu bara laust um hana. Ef þér verður fótaskortur, þá einfaldlega sleppir þú stönginni og þú hefur tvær hendur lausar til að bera fyrir þig. Það eru líka mun minni líkur á að stöngin verði fyrir skakkaföll við það að falla óhindrað til jarðar heldur en ef hún rekur toppinn í fyrirstöðu eða þú haldir fast um hana og látir allan þunga þinn lenda á henni í fallinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ryð

    29. júní 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Ekki er allt gull sem glóir og meira að segja gull getur látið á sjá. Gullið sem glóir oftast í höndum fluguveiðimanna er reyndar oftast meira í ætt við bronze eða nikkelhúðaðan málm. Það er misjafnt hve hratt krókarnir okkar láta á sjá, en jafnvel þeir bestu geta látið undan síga fyrir tímanns tönn. Bitið fer úr þeim, þeir geta bognað en algengast er þó að einhver partur þeirra fari að ryðga. Vissulega eiga margir ódýrari krókar það til að ryðga þegar minnst varir, ekki þó algilt, en meira að segja ryðfríir krókar geta orðið fyrir barðinu á nágrannaflugu í boxinu ef hún fer að ryðga. Almennt um flugur, á eiga þær það þó sameiginleg að endast betur ef við pössum upp á að leyfa þeim að þorna í lok veiðidags eða strax og heim er komið.

    Sjaldnast er lognið til trafala á Íslandi og yfirleitt nægir að hafa boxið opið í nokkrar mínútur úti við til að þurrka flugurnar, vindurinn gerir sitt. Já, og ef svo ólíklega vill til að það sé einhver smá rigning, þá má alveg smokra opnu boxinu undir bílinn í smá tíma, jafnvel í miðri matar- eða kaffipásu og leyfa því að þorna þar. Bara muna eftir því áður en ekið er af stað.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sokkabuxur, bómull og flos

    30. maí 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Hvað eiga þessir hlutir sameiginlegt? Kannski ekki margt, en þó það að hvern þeirra fyrir sig má nota til að finna skemmdir í öllum gerðum stangarlykkja. Jafnvel bestu lykkjur á stöng geta skemmst í hversdagslegri veiðiferð, sandur á línu getur virkað eins og sandpappír, slý sem hangir á línunni getur innihaldið ýmsa aðskotahluti (brotnar flugur, jafnvel odd af öngli) og ég hef heyrt af veiðimanni sem staðhæfði að agnarlítil fluga sem hnýtt var með kevlar þræði hefði spænt upp topplykkjuna á stönginni hans.

    Hvort sem við trúum þessari sögu um skaðsemi kevlar, þá má auðveldlega finna hnökra og skemmdir í stangarlykkjum með því að renna smá stubb af sokkabuxum, bómullarhnoðra eða hnýtingarflosi í gegnum lykkjurnar. Minnsta arða eða skarð í lykkju verður til þess að dreggjar efnisins festar og sjá má hvar gera þarf við lykkju eða skipta um. Skemmd í lykkju getur verið dýrkeypt ef hún særir uppáhalds línuna þína, þannig að þetta er eitthvað sem vert er að athuga áður en sumarið gengur fyrir alvöru í garð.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Eins og smurt

    25. maí 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Kvöld eitt fyrir skemmstu skaust það upp í kollinn á mér að þegar ég bleytti í færi síðast, þá fannst mér einhver stirðleiki væri í öllu. Það brakaði í beinum, hjólið tifaði ekki eins og venjulega þegar ég dró út af því og köstin voru hreint ekki upp á marga fiska. Þetta kvöld ákvað ég því að kveikja ekki á Netflix. Þess í stað kveikti ég á streymisveitunni og hlustaði á nokkur góð veiðispjöll, tók fram vaskafatið og fyllti það með ilvolgu vatni og setti línurnar mínar í bað.

    Á meðan ég var að baða línurnar, strjúka af þeim með mjúkum klút, þerra og fríska upp á þær með örþunnu lagi af línubóni, þá ráfaði hugsunin til veiðihjólsins. Af hverju tifaði það ekki þegar ég dró út af því? Ætli það séu einhverjar leifar af gróðri eða sandkorn að þvælast inn í því? Þannig teygðist á streymishlustuninni og ég tók spólurnar af öllum hjólunum mínum, vætti tusku með maskínuolíu og þurrkaði öll óhreinindi, smurði legur og herti upp á því sem losnað hafði. Tikk, tikk, tikk og línan rann út af hjólinu og inndrátturinn var jafn og átakalaus.

    Það var svo næsta kvöld að ég kveikti á Netflix, en eftir skamma stund var ég hreint ekki með hugann lengur við það sem rúllaði yfir skjáinn. Hausinn var kominn eitthvert allt annað og ég bakkaði til baka, kveikti á næsta þætti veiðispjallsins, fór fram í geymslu og náði í vöðlurnar mínar og veiðijakkann. Hvaða rennislás var það nú sem var farinn að stirðna? Best að yfirfara þá alla og bursta úr þeim með gömlum tannbursta og renna létt yfir þá með þéttikanntastifti eins og maður gerir við bílinn á haustinn. Þessi skollans plastrennilásar, alltaf þarf eitthvert sandkorn að þvælast í þeim og vera til vandræða. Rétt eins og sandkorn sem þvælst hefur inn í vöðluskó og byrjar að merja hælinn á sokkunum eða leggjast undir ilina. Best að kíkja aðeins á sokkana, kannski þarf ekki nema setja einn dropa af fljótþornandi hnútalími í fleiðrið til að forða því að þeir fari að leka. Já, hvernig var það með aukavöðlurnar, var ekki farið að trosna við sauma í klofinu, best að tékka aðeins á þeim líka.

    Já, svona geta kvöldi orðið til gagns og gamans á meðan að maður bíður eftir því að veðrið skáni aðeins, smá hiti geri vart við sig og maður geti opnað ferðavagninn, þrifið og gengið úr skugga um að allt sé eins og það á að vera. Hvernig var það annars með þessa gasleiðslu, var ekki kominn tími á að endurnýja hana?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skjálfandi

    23. maí 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Dyggum lesendum er það eflaust löngu ljóst að ég er kuldaskræfa og því var það með tilhlökkun að ég hlustaði vel og vandlega á alla spádóma um að hlýtt og notalegt sumar sem væri fram undan. Það eru einhverjar vikur síðar fjölmiðladyggur veðurviti lét þetta út úr sér og enn (þegar þetta er ritað) er hitastigið hér á landi ekki meira en svo að það snjóar reglulega í bæjarhólinn hér við Sundin. Það var nú bara um helgina síðustu að hætta varð við fyrirhugaða veiðiferð vegna allra slæmra veðurskilyrða sem upp komu; hávaða rok, ausandi rigning, skítakulda og snjókomu.

    Ef fram heldur sem horfir, þá verð ég að rifja upp öll klækjabrögðin til að snúa á kalt vatnið og ofankomuna þannig að ég verði ekki skjálfandi á beinunum í fyrstu alvöru veiðiferðum sumarsins. Já, þetta er náttúrulega svolítið hirtu þinn helv… tjakk en það er öruggara að búa sig undir það versta þegar kemur að veðrinu heldur en það besta. Það er auðveldara að fækka fötum á veiðislóð heldur en bæta á sig.

    Og hvað er það svo sem ég klæðist innan undir áður en ég smokra mér í vöðlunar? Jú, ull og helst í tveimur misþéttum lögum þannig að ekkert af líkamshitanum sleppi út í gerviefnið í vöðlunum. Að gefnu tilefni skal það tekið fram að bómull er ekki ull og er langt því frá heppilegur undirfatnaður. Sjálfur reyni ég að forðast gerviefni, svo sem flís eða dacron, næst líkamanum einfaldlega vegna þess að þegar þessi efni blotna, jafnvel bara við það að svitna í hita augnabliksins þegar maður glímir við þann stóra, þá kólnar þessi fatnaður hratt og losar sig síður við raka heldur en náttúruleg ull. Ef ég dreg á mig gervibrækur, þá eru þær örugglega utan yfir ullina.

    Nú er ég sem sagt klæddur og kominn á ról, þokkalega hlýtt og því eins gott að viðhalda því og þá reyni ég, ef mögulegt er, að klæða mig í vöðlurnar innandyra. Kannski er það bara ég en mér finnst eins og það gjóli stundum á Íslandi og þá getur kuldinn hæglega smokrað sér inn fyrir ullina. Já, ég er kuldaskræfa og mér er meinilla við að byrja daginn með kuldahroll þannig að ég vil helst vera kominn í hlýtt áður en ég sting nefinu út fyrir dyrnar, með húfuna á hausnum.

    Áður en ég legg af stað, þá geng ég úr skugga um að handklæðið mitt sé til staðar í veiðitöskunni. Það getur munað miklu að geta þurrkað sér um hendurnar eftir að hafa skipt um flugu, lagað taum eða handfjatlað fisk. Þurrar hendur eru vænlegri í vettlingana heldur en blautar. Já, ég er alltaf með ullarvettlinga eða stúkur í veiði, tvennar frekar en stakar, þannig að ég geti skipt um ef það er einhver vosbúð. Ég gleymdi víst að nefna ullarsokkana, en þeir eru mér lífsnauðsynlegir. Þéttir og fíngerðir næst tám, grófari þar utan yfir. Passa mig bara að það verði ekki of þröngt um tærnar í vöðlusokkunum, mér kólnar fyrr því þrengra sem er um tærnar. Enn hef ég ekki prófað að taka með mér heitt vatn á brúsa til að hella niður í vöðluskóna ef mér kólnar, en þetta ku vera algengt í vorveiði norður í Kanada ef eitthvað er að marka veraldarvefinn. Sjáum til hvernig sumrinu vindur fram, ég get þá alltaf hitað mér vatn á prímusinum og prófað.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Korktappi

    16. maí 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Í gegnum árin hef ég barist við fastar flugur, bæði í botni og veiðijökkum. Þessir dásamlegu svampflipar eða frönsku rennilásar sem límdir eru á flesta veiðijakka hafa oft gert mér lífið leitt. Þeir hafa gripið svo óþyrmilega í flugurnar sem ég sting þar til þerris eða hvíldar að það þarf meiriháttar langa pásu til að losa þær, oft með töluverðum geðsveiflum og tilheyrandi formælingum.

    Þegar svo þessir kubbar með eigin aðdráttarafli (segulmagni) komu á markaðinn, þá áskotnaðist með einn slíkur sem ég gerði nokkrar heiðarlega tilraunir til að nota, með afar misjöfnum árangri. Fyrir utan að mér fannst kubburinn heldur þungur, þá var ýmislegt annað dinglandi utan á mér (klippur, taumaspjald o.fl.) sem laðaðist heldur mikið að honum, þannig að ég húkkaði hann fljótlega úr.

    Það var svo fyrir einhverju síðan að ég sá þessa einföldu lausn; gataður korktappi með spotta í gegn sem auðvelt var að húkka við hvað eina sem þegar dinglaði utan á mér. Ekkert segulmagn eða óþarfa festur.

    Í leit minni að heppilegum spotta rakst ég á þetta samtengi úr hálsbandi, þessum sem maður fær á hverri einustu sýningu eða ráðstefnu sem maður sækir. Nú get ég húkkað korktappanum úr festingunni, náð flugunum auðveldlega úr og komið þeim fyrir í viðeigandi boxi eftir daginn.

    Það þarf ekki alltaf að vera flókið og ef rétt er gengið frá spottanum að neðan, þá er ekkert mál að skipta um tappa þegar sá gamli er orðinn heldur götóttur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 8
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar